Það var kalt á þessum marsmorgni er undirrituð hitti Sr Gunnar Sigurjónsson og hans konu, Þóru Margréti Þórarinsdóttur.  Sr Gunnar er löngum þekktur fyrir mótorhjólamessur sínar í Digraneskirkju, en þær hafa verið vinsælar um árabil.

Eftir að kaffið var komið í bollana var fyrsta spurningin, hvernig kynntust þið?

“Við vorum að hjálpa sameiginlegum vinum okkar að mála íbúðina þeirra” svarar Þóra

“Hún var vöruð við mér!” segir Gunnar og hlær “þau voru ekki einu sinni að djóka!”

“Hann var í guðfræði og ég var í landfræði í háskólanum. Þetta var haustið 1983”  meira vilja þau ekki segja um þá atburði en þau hófu lífið saman það haust.

“En hvað kom til að þið fóruð í hjólin?

“Mig langaði alltaf í hjól” svarar Gunnar að bragði, “en það voru nátturulega ekki auraráð fyrstu árin, vorum að eignast börn og koma okkur svona fyrir í lífinu, Þóra var með svona fundi tvisvar á ári, svona fjárhagsfundi, ég hef ekkert vit á fjármálum sko” segir Gunnar og hlær. “Nema hvað á einum fundinum , sennilega verið 1995 segir hún við mig, heyrðu Gunnar langar þig ekki svo mikið í mótorhjól?  Jú segi eg, og hún segir að sér sýnist staðan verða orðin þannig að ég geti keypt mér mótorhjól. Daginn eftir fór ég í Harley umboðið og búinn að panta mér hjól. En málið var að ég fengi ekki hjólið fyrr en eftir ár, þannig gekk þetta fyrir sig á þessum árum.  Ég sagði honum ég gæti ekki beðið í ár, ég mætti kaupa mér hjól núna! Þannig hann bauð mér að fara inn í hvaða umboð sem væri, helst ekki Hondu samt, og kaupa mér hjól. Þegar Harleyinn kæmi svo eftir ár, myndi hann taka hjólið mitt upp í á því verði sem ég myndi kaupa það á. Ég fór heim og sagði Þóru það, og hún vildi fá þetta skriflegt. Við mætum daginn eftir, inn í Harley umboðið og allt var staðfest.  Ég keypti mér Yamaha 1600cc, og hjólaði á því allt sumarið og fram á haustið, þegar er hringt er í mig úr Harley umboðinu og ég beðinn að borga staðfestingargjald inn á Harleyinn. Þegar ég er að hjóla upp í umboð fer ég að hugsa málið. Harleyinn var 1450cc, færri hestöfl og minna hjól og kostaði tvisvar sinnum meira en yamminn.  Þannig ég fór í umboðið og sagði honum ég væri hættur við þetta, mér fyndist yamminn minn æðislegur. Hann hló bara og sagðist ná mér seinna. Ég fór svo að breyta yammanum og á hann enn í dag.”

“Ég byrjaði ekki fyrr en um 10 árum seinna, sennilega 2007, ég hafði stundum setið aftan á hjá Gunnari, en svo bókaði hann mig í próf. Mér fannst það nú fullmikil stjórnsemi” segir hún og hlær. “Það var reyndar hjá kennara upp á Akranesi, sem hentaði illa fyrir mig, þannig ég skráði mig hjá kennara sem var að kenna hér á planinu við kirkjuna sem var mjög gott fyrir mig. Svo tók ég prófið og keypti mér hjól. XV500, sem var mjög gott innanbæjar en erfiðara utanbæjar. Kraftlítið og tók á sig mikinn vind, þannig ég seldi það og keypti hjól af Sr Írisi,  Yamaha Midnight Star 1300cc, sem ég er enn á í dag. Ofsalega fallegt hjól og gott að keyra það.  Það lætur reyndar illa á möl, en annars mjög gott hjól.”

Þá berst talið að hjólatúrum erlendis en þau hjónin hafa mikið hjólað um allan heim.

Gunnar segist hafa byrjað að hjóla erlendis, mest einsamall, enda sé hann “soloisti”

“Ég var búinn að hjóla svolítið í Ameríku, Þýskalandi og í Svíþjóð. Ég stakk einu sinni af prestaráðstefnu í Danmörku.  Hún var svo hrútleiðinleg þessi ráðstefna, að ég ákvað bara að stinga af. Það voru þrír aðrir prestar með mér þarna og ég sagði þeim ég ætlaði að taka strætó í næsta bæ, fá mér bílaleigubíl og fara til Þýskalands, og þeir spurðu bara hvort þeir mættu koma með því þeir væru alveg búnir að fá nóg af þessari ráðstefnu líka. Það varð úr, við fórum til Þýskalands, meðal annars Sr Íris Kristjánsdóttir.  Ég átti vini í norður Þýskalandi og þar hitti ég mann sem var með Suzuki umboðið.  Við leigðum af honum 3 hjól, fengum lánaða galla og hjálma hjá lögreglunni því bróðir konu prestsins í Numunster þjálfaði lögregluna, þannig við vorum öll með hvíta lögregluhjálma, hjólandi þarna um sveitirnar. Þar smitaðist Sr Íris af mótorhjóladellunni.  En þessir prestar höfðu aldrei hjólað áður, þannig það þurfti að sýna þeim hvar bremsan væri og kúplingin, “Svona snýrðu upp á bensíngjöfina og svo var bara lagt af stað” Gunnar og Þóra hlægja mikið enda regluverkið í Þýskalandi vel þekkt, og verandi með 3 próflausa presta með lögguhjálma er alveg í takt við skemmtilegar mótorhjólasögur.

“Eitt sinn var ég að hjóla í Þýskalandi, alveg einn og týnist. Ég er rosalega villugjarn, alveg sama hvar ég er í heiminum þá týnist ég.  Ég er svo gjörsamlega kærulaus með það, að það truflar mig ekki neitt.  Ég er að hjóla þarna og er alveg lost, þannig ég hringdi í Þóru sem var heima á Íslandi.  Sagði henni ég væri týndur og hún segir mér að hjóla bara áfram þar til ég komi að einhverjum gatnamótum þar sem ég sjái skilti.   Þannig ég geri það, finn skilti og hringi í hana og segi henni hvað standi á skiltunum.  Þá kom bara, já ok snúðu við, farðu í hina áttina.” Þau hlægja mikið og ég spyr Þóru hvernig hún hafi vitað það.

“Ætli ég hafi bara ekki googlað það” segir hún og hlær.

“Ég sagði henni ég gæti bara fundið mér einhvern pöbb og gist þar en nei hún sagði mér að snúa bara við sem ég og gerði”

“Árið 2015 fengum við boð um að hjóla með Rotary um Ástralíu, 14 daga ferð.  Mig hafði lengi langað að fara til Ástralíu þannig ég sagði við Gunnar að við ættum að skella okkur.  Það var 2ja ára undirbúningur og þetta er sennilega eina tækifærið sem við fengjum til að fara svona ferð. Þannig við ákváðum að skella okkur. Ég hafði lítið hjólað út á land þannig, verið aðallega í kringum höfuðborgarsvæðið.  Þannig ég fór í ræktina til að styrkja bakvöðvana,  fór að æfa mig og síðan hjóluðum við  á Landsmót á Núpi í Dýrafirði 2017, sem var fyrsta langa ferðin mín. Svo fórum við bara til Ástralíu!
Ferðin í Ástralíu voru semsagt 5000km á 14 dögum.   Vorum þarna  um mánaðarmótin  október nóvember,sem er þá sumar ég tók með mér sumargallann enda átti að vera gott veður en á bláu fjöllunum (Blue Mountains) varð skítakuldi þegar hærra dró.  Þá áttaði ég mig á að það var engin rúða á hjólinu sem ég var á. Þarna var hífandi rok svona eins og þegar gerist mest á Íslandi og ég með allan vindinn í fangið, þetta tók alveg á.  Þegar maður hjólar í svona löndum, þarftu að galla þig eins og á Íslandi, þarft alltaf að vera með töskur og geta fækkað fötum og bætt við. Eitt sem við lærðum af Áströlum þegar kólnar hratt.  Þeir semsagt stoppa á bensínstöðvum og troða inn á sig dagblöðum til að fóðra gallann, svo næst þegar þeir stoppa og farið að hlýna þá henda þeir blöðunum aftur í blaðagáminn. Nota pappírinn sem einangrun. Við vorum 24 skráð í ferðina, svo bættust við Ástralar hingað og þangað, vorum mest 55 hjól.

Gunnar tekur við.

“Ástralarnir voru mjög skipulagðir. Alla morgna var farið yfir reglurnar, þú passaðir bara upp hjólið fyrir aftan þig, það þurftu ekki allir að vera í einum hnapp. Svo aftast var svona road sweeper sem passaði að allir kæmust á leiðarenda. Svo einn morguninn sögðu þeir að við yrðum öll að tanka upp í topp. Ef hjólið hallar þá réttirðu það við og fyllir eins og þú getur. Ég skildi þetta nú ekki alveg, hafði tankað kvöldið áður en ákvað að hlýða auðvita og fyllti upp í topp. Svo leggjum við af stað og þá skildi ég þetta.  Það stóð á skilti að það væru 435km á næstu bensínstöð.  Ég hugsaði með mér ég kæmist varla 300km á hjólinu mínu heima, ég myndi ekkert ná þessu. En mundi þó að Ástralarnir höfðu sagt að við ættum bara að koma hjólunum í efsta gír og láta hjólið vinna á léttasta snúning.  Svo hjólum við áfram og þetta er beinn vegur, eins langt og augað eygði, engar beygjur, engar hæðir bara beinn vegur 435km.  Þóra er á undan mér og við komum að flutningabíl með marga tengivagna, þetta er kallað roadtrain.  Ég sé að Þóra er reglulega að kíkja fram með lestinni og svo ákveður hún að taka fram úr. Ég elti hana bara í rólegheitum en svo gefur hún í og fjarlægist mig mjög hratt.  Ég fór að gefa meira í, og svo meira og alltaf fjarlægist hún.  Ég gef þá bara eins og hægt er, og sé þegar ég skutlast fram úr lestinni að það var annar svona roadtrain að koma á móti okkur.  Okkur var svo sagt að mótorhjólafólk færi aldrei á þessar brautir einmitt út af þessum roadtrains” og hlær

Þóra hjólaði á 3 hjólum í þessari ferð.

“Fyrsta hjólið bilaði bara,  það var mjög óþægilegt, vegalengdir miklar og ekki hægt að koma til mín hjóli nema á ákveðnum stað,  ég var því hjóllaus í 2 daga, og þá átti að hjóla á The Great Ocean road,  sem er einn af skemmtilegustu hjólavegum í heimi.  Það hefði verið algjör synd að geta ekki hjólað þar ef maður er þarna á annað borð, en kona í hópnum bauð mér hjólið sitt, svo ég fengi að upplifa hann.  Hún sagðist búa þarna og gæti oft hjólað þennan veg, en kannski yrði þetta í eina skiptið sem ég yrði þarna.  Ég þáði það, en svona er hjólafólk, þessi ómetanlega samkennd. Svo fæ ég hjól, ég hafði sagst vilja hjól með lágri ásetu, annars væri mér sama hvernig hjól ég fengi. Svo kom bara sverasti Harleyinn 1700cc hjól með opnum pípum og var alveg viss um ég gæti ekkert hjólað á því. En svo hjólaði ég bara restina af leiðinni og gekk frábærlega vel”

“Það gat enginn hjólað fyrir aftan hana, þvílíkur hávaði í því, hún  vakti heilu bæjarhlutana, og maður týndi henni ekkert” skýtur Gunnar hlægjandi inn í.

Hættulegasti kafli ferðarinnar var sennilega þegar þau voru að klára ferðina, að koma inn í Sidney á háannatíma á föstudegi, Gunnar týndist og allt fór “í skrúfuna” eins og Gunnar orðar það.

Þóra tekur við aftur

“Ég á skólafélaga í St Jones á Nýfundnalandi og við skelltum okkur þangað og  leigðum okkur Mustang og keyrðum til Nova Scotia. Leigðum okkur hjól og hjóluðum Cabot Trail, sem er eitt af topp 10 listanum yfir bestu hjólaleiðir heimsins.” Gunnar skýtur inn í að af þessum 10 leiðum eru þau búin með 3.

“Við keyrðum frá Sidney og tókum Cabot Trail utanverðu vestanmegin Norður Scotia, og það var eins og að keyra Vestfirðina,  í gegnum smábæi og allir heilsuðu og spjölluðu við okkur eins og heimamenn bara. Það var algjör upplifun. Fjöllin og sjórinn, alveg æðislegt. Þar í nyrsta hlutanum eru fjöll sem eru kölluð Frönsku fjöllin,  mjög brött og mikið klifur, með miklum beygjum nema þegar við erum að klifra upp þá kemur svarta þoka, nýbúið að malbika alveg kolsvart og svo svartaþoka. Ég var á undan, gerum það yfirleitt og við þurftum að fara fetið bara, sást ekki neitt, Gunnar sá mig ekki einu sinni fyrir framan sig, og ég vissi það væri bratt þarna niður. Þegar við komum niður hinumegin vorum við komin í 30°C hita og sól.  Ógleymaleg ferð.  Svo hjóluðum við Hawai, alla Oahu eyjuna tók hálfan dag, pínulítil eyja. Mjög skemmtilegt að hjóla þarna nema þegar við ætluðum að stoppa. Á fyrstu ljósum kom í ljós að hjólin voru bremsulaus.  Þurfti að setja í fyrsta gír og drepa á hjólinu til að stoppa, Íslendingar þurfa bremsur en þarna er umferð svo róleg að það þarf ekki bremsur”.

Nova scotia keyrðum við fullgölluð, en á Hawai bara í brynjunum okkar. Það var svo heitt.  Erum alltaf með hjálma, ef heitt opinn hjálm með gleraugu, öryggið í fyrirrúmi. Það er til svo góður búnaður orðið, þarf ekki að vera í öllu leðri, getur verið með hlífar og brynjur sem hleypa að lofti en er varinn fyrir falli.

Þau hjónin leggja mikið upp úr að vera vel gölluð, sama hvar þau hjóla, enda hefur það sýnt sig að öryggið margborgar sig. Það er jafnvont að detta á Hawai og á Vesturlandsveginum.

Það sem stendur upp úr þessum ferðum er félagsskapurinn. Allir sem við hittum og kynntumst, allar þessar leiðir sem við höfum hjólað, algjör ævintýri. Höfum farið á Bike week á Daytona, fórum á risa mótorhjólamessu í Hamborg, voru 30 þúsund hjól. Þvílík upplifun.  Mótorhjólamessan í Þýskalandi er svona atburður hjólafólks eins og hér.  Þarna voru sölu og kynningarbásar og seldur matur fyrir utan.  Þetta var klassísk messa með hefðbundnum sálmum, en við höfum farið aðra leið hér á Íslandi, öðruvísi tónlist hjá okkur . Eitt sem ég sá þarna úti sem var svo fallegt.  Það var sandkassi þarna inni í kirkjunni, þar myndaðist röð og fólk setti kerti í sandinn. Kveiktu á kerti. Stigu svo til baka, og settust. Þetta er gert til að minnast fallinna félaga. Þá hélt organistinn áfram að spila og ljósin dempuð og þá lýstu kertin upp í sandinum . Ég hugsaði mér að gera þetta en ákvað að gera það ekki, því þá væri eins og ég væri í samkeppni við Bell Ring hjá Soberriders, ég vildi ekki taka það. En þetta var fallegt. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa alla þessa hjólatengda viðburði, fyrir fólk að hittast og nýir að kynnast .

Lokaorð þeirra hjóna

“Það er hollt fyrir alla sem hjóla eða eru að hugsa um að hjóla að þetta er ekki áhættulaust, frekar en annað í lífinu. Það þarf að undirbúa sig vel, það þarf að skapa sér ákveðna færni, vera viðbúinn hverju sem er. Þegar er byrjað að hjóla á vorin þarf að æfa sig, eins og í öllu öðru. Það gerir maður ekki bara með því að hjóla þessa föstu túra, eins og ef þú hjólar bara niður á torg eða á kaffihús, þá geta lika komið óvæntar aðstæður á þeirri ferð. Alltaf vera viðbúinn. Ég er ekki með tónlist í hjálminum, ég er bara einn  með hjólinu, hlusta á hjólið. Þetta hreinsar hugann og losar streitu, þetta er eins og meðferð”

“Ef ég verð einhverntímann hrædd í umferðinni, þá ætla ég að hætta að hjóla. Þá held ég að hættan aukist á því að manni fatist.  Allt sem maður getur gert til að auka öryggið er betra. Td hjóla ég alltaf í gulu vesti til að vera meira áberandi.  Fólk sér betur skæra liti en svart leður. Svo eru vegirnir hættulegir, og við höfum lent í því um allan heim, Ísland er ekkert einsdæmi. Holur og lausamöl og lúmskar beygjur.  Lausafé og kengúrur geta snögglega birtst fyrir framan hjólið hjá þér, reyndar er það bara í Ástralíu sem kengúrur eru en maður veit aldrei. Þegar þú heldur að þú kunnir allt og getir allt, þá fyrst er maður hættulegur í umferðinni. Við þurfum alltaf að vera á varðbergi. Talandi um veðrið, þá verðum við að taka mið af veðrinu og hafa skynsemi til að fara ekkert að hjóla þegar er vitlaust veður. Vera með meðvitund og alltaf vakandi. Þetta er ekki sjálfgefið. Ef maður þarf ekki þá fer maður ekki.”

Ég þakka þeim fyrir spjallið og kaffið, skoppa út í rokið og læt mig dreyma um hjólaferðir út um allan heim.

Greinarhöfundur Jokka
Sniglarfréttir 1.tbl 2.árg.   Apríl 2021