Ralph Hubert „Sonny“ Bar­ger, al­ræmd­asti leiðtogi vél­hjóla­sam­tak­anna Hells Ang­els, er lát­inn, 83 ára að aldri. Krabba­mein varð hon­um að ald­ur­tila.

„Ég hef lifað löngu og góðu lífi með ríku­leg­um æv­in­týr­um,“ skrifaði Bar­ger á Face­book-síðu sína og bað vini sína fyr­ir birt­ingu text­ans að hon­um gengn­um en hann greind­ist fyrst með krabba­mein í hálsi fyr­ir fjór­um ára­tug­um, 44 ára gam­all, og þekkt varð þegar hann reykti sína síðustu síga­rettu á leið á skurðstof­una þar sem radd­bönd hans voru fjar­lægð vegna meins­ins.

Bar­ger var fædd­ur í Modesto í Kali­forn­íu 8. októ­ber 1938 og varð fé­lagi í sín­um fyrsta vél­hjóla­klúbbi árið 1956, Oak­land Pant­h­ers. Par­dus­arn­ir frá Oak­land leyst­ust upp og Bar­ger flutti  sig í ann­an klúbb þar sem fyr­ir var Don „Boots“ Reeves, en sá bar ein­kenn­is­merki klúbbs í Sacra­mento sem einnig hafði lagt upp laup­ana, höfuðkúpu með flug­manns­húfu og vængi.

 

Hlaut fjölda dóma

Bar­ger og fé­lag­ar stofnuðu þá sinn eig­in klúbb 1. apríl 1957 og fengu verðlauna­gripa­versl­un í Hayw­ard til að út­búa merki sitt. Þar með hafði Oak­land-deild Vít­isengla litið dags­ins ljós en upp­runa­legu Hells Ang­els-sam­tök­in eru eldri, stofnuð í Font­ana í Kali­forn­íu 17. mars 1948. Þegar formaður Oak­land-engl­anna, Otto Friedli, var fang­elsaður tók Bar­ger við stöðunni og var innsti kopp­ur í búri Hells Ang­els um ára­tuga skeið.

Bar­ger hlaut fjölda dóma, meðal ann­ars fyr­ir hand­höfn og sölu fíkni­efna, árás með ban­vænu vopni, mann­rán og að hafa lagt á ráðin um að sprengja klúbbhús ann­ars vél­hjóla­klúbbs í Kentucky í loft upp. Hann sat bak við lás og slá í alls 13 ár og sagði í viðtali við Los Ang­eles Times að í raun væri það ekki lang­ur tími miðað við hve vel hann hefði skemmt sér utan múr­anna.

Aðal­per­sóna bók­ar Hun­ters S. Thomp­sons

Bar­ger skrifaði sex bæk­ur, þar á meðal sjálfsævi­sög­una Hells Ang­el  The Life and Times of Sonny Bar­ger and the Hell’s Ang­els Motorcycle Club auk þess að vera aðal­per­sóna bók­ar blaðamanns­ins og rit­höf­und­ar­ins Hun­ters S. Thomp­sons, Hell’s Ang­els: The Strange and Terri­ble Saga of the Outlaw Motorcycle Gang.

Bar­ger lék þá smá­hlut­verk í sjón­varpsþátt­un­um Sons of An­arc­hy og í kvik­mynd Jacks Nichol­sons, Hells Ang­els on Wheels.

Bar­ger lést á miðviku­dag­inn, 29. júní.

Mbl.is
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is

East Bay Times  

Tampa Bay Times

WTVY