Á dögunum fjölluðum við um fágætt Rudge mótorhjól sem var statt fyrir norðan þegar tekin var af því ljósmynd. Hjólið var með númer frá Reykjavík og giskuðum við á að það hefði lagt í
ferðalag norður um 1930. Nú kemur hins vegar uppúr kafinu að hjólið fór í ferðalag þangað og staðfesta tvær heimildir það. Það sem meira er að hjólið fór norður sumarið 1928 og er það fyrsta ferð norður á mótorhjóli svo vitað sé.
Þann 15. ágúst 1928 er sagt frá ferðalaginu í Alþýðublaðinu með fyrirsögninni “Á bifhjöli til Akureyrar.” Þar segir í nokkrum orðum frá afrekinu. “Nýlega var farið frá Borgarnesi til Akureyrar á mótorhjóli á 19 og 1/2 klukkustund. Var þó tekinn 6 stunda krókur til Sauðárkróks. Er þetta í fyrsta sinni, sem þessi leið er farin á mótorhjóli. Samskonar grein er birt í Íslendingi 12 dögum áður svo ferðalagið hefur farið fram einhverntíman í júlímánuði.
Sá sem ók bifhjólinu hét Ottó Baldvinsson radíóamatör. Hann var skráður fyrir Rudge hjólinu sumarið 1928 en er svo skráður fyrir AJS mótorhjóli seinna um sumarið. Rudge mótorhjólið var ansi merkilegt Rudge Whitworth 500 hjól, 1926 árgerð með fjögurra ventla mótor. Það hefur því getað skilað sér ágætlega áfram enda var Ottó aðeins rúma 19 tíma norður þrátt fyrir sex stunda krók til Sauðárkróks. Ottó mun hafa selt Rudge mótorhjólið fyrir norðan því það er skráð með númerið A-42 á Kristján Rögnvaldsson, Fífugerði árið 1934. Hann á það allavega til 1936 en árið 1939 er það komið á Þórarinn Ólafsson með númerið A-234. Það var síðan afskráð árið 1941 og það síðasta sem við vitum af því er að það var selt til Þórshafnar.
Heimild www.fornhjol.is
Njáll Gunnlaugsson