Stóra ferðin 2024 var þetta árið,  Sex daga ferðalag um Vesturland og Vestfirði dagana 16. til 21. júlí,

 

Hittum félaga Jón Þór óvænt og hann vildi endilega fá mynd af sér með okkur. Við smituðum hann með hjólabakteríunni.

Dagur 1.

Fórum 8 saman af stað frá Reykjavík áleiðis til Stykkishólms þar sem að við tókum ferjuna Baldur yfir á Flatey á Breiðafirði.

Þar tókum við farangurinn af og fengu hjólin að halda áfram í skemmtisiglingu um Breiðafjörðinn og vera næturlangt í skipinu.

Við aftur á móti komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu, sunnan megin á eyjunni og fórum svo í dýrindis kvöldmáltíð á Hótel Flatey. Eftir matinn var haldið á barinn í samsöng með útskriftarárgang 1973 úr Garðyrkjuskólanum.

Enduðum svo kvöldið á kokteil við sólsetur og göngutúr um eyjunna. Sumir fóru lengri leið en aðrir og sagt var, að ef við hefðum ekki verið á lítilli eyju væri viðkomandi enn á labbi 😊
Veðrið yfir daginn var frábært og sennilega besta kvöld ársins í Flatey, logn og létt skýjað.
213 km.

Dagur 2.

Við stálskipið Garðar í fjörunni við Skápadal.


Í fyrsta skipti í þessum ferðum okkar var pakkað á tíma þar sem að við þurftum að ná Baldri kl: 10:15 yfir á Brjánslæk.

Það tókst og urðu ánægjulegir endurfundir við mótorfákana þegar báturinn kom.
Frá Brjánslæk lá leiðinn um sunnan verðan kjálkann, um Kleifaheiði yfir í Patreksfjörð. Skyldumyndastopp við Garðar, elsta stálskip íslendinga sem situr í fjörunni við Skápadal áður en haldið var í löns á Breiðuvík.

Þar tók eitt hjólið á því að starta ekki sem varð til þess að nokkrir fengu auka æfingu við að ýta því í gang – sem alls var að gera þrisvar sinnum áður en við komumst að því hvað var að með dyggri aðstoð frá Palla í “Smur og Dekk” á Pareksfirði. Sökudólgurinn var fíngert Vestfjarðaryk sem hafði komið sér rækilega fyrir í starttakkanum með Þeim afleiðingum að ekkert gerðist þegar ýtt var á hann. Eftir blástur og smá þéttingu rauk hjólið í gang og varð ekki til meiri vandræða í ferðinni.
Eftir lönsinn var haldið yfir á Látrabjarg og svo þaðan á Patreksfjörð til viðgerða og í “búðina” til að kaupa kost.

Þaðan fórum við svo yfir á tjaldstæðið á Rauðasandi í næturgistingu þar sem að bættust tveir í hópinn og uðrum við þá 10.
Fínasta veður yfir daginn en frekar mikið rok um kvöldið.
215 km.

Allar Myndir og myndbönd úr Stóruferð

 

Dagur 3.

Smá bras í fjörunni við Ólafsvík.


Frá Rauðasandi lá leiðin yfir á Bíldudal um Mikladal og Hálfdán í mikilli rigningu.

Stutt stop þar áður en hluti hópsins tók rúnt inn í Selárdal að kíkja á safn Samúels Jónssonar.

Eftir stutta bænastund í kirkju Samúels sem séra Guðni Rúnar Agnarsson leiddi, héldum við yfir til Gísla á Uppsölum í kaffi, en hann var því miður ekki heima svo að við tókum bara mynd af okkur þar.
Eftir sameiningu hópsins á Bíldudal og löns á Vegamótum áleiðis á Flateyri með viðkomu í Reykjafjarðarlaug og við fossinn Dynjanda. Á leiðinni yfir Dynjandisheiði, þar sem miklar vegagerðarframkvæmdir standa yfir, ákvað framdekk á einu hjóli að rifna og þurfti stutt stopp til að setja tappa í gatið áður við gátum farið af stað aftur.

Þegar komið var á Flateyri var lagt á tjaldstæðinu og haldið beint á Vagninn í kvöldmat – svo var tjaldað.
Ágætis veður yfir daginn fyrir utan dembuna sem við fengum á okkur í byrjun dags.
225km.

Dagur 4.

Á stuttum kafla liggur vegurinn um fjöruna, sem fer á kaf á flóði.


Eftir að hafa pakkað á hjólin rúlluðum við til Guðrúnar Hönnu á Kaffi Sól á bænum Neðri-Breiðdal í Önundarfirði þar sem við fengum aldeilis frábæran morgunmat þar sem að hinar gómsætu vestfirsku hveitikökur stóðu upp úr kræsingunum. Mælum sterklega með að kíkja til hennar ef þið eigið leið um.

Hjólið sem sprakk á daginn áður renndi yfir á Ísafjörð til að freista þess að fá nýtt dekk undir sem gekk því miður ekki eftir þannig að við rúlluðum 9 af stað áleiðis á Þingeyri við Dýrafjörð.
Planið var að fara þaðan Svalvogaveginn (Kjaransbraut), öðru nafni Vesturgatan, yfir í Arnarfjörð. Þessi vegur, sem Elís Kjaran markaði með jarðýtu sinni árið 1973, er algjörlega einstakur þar sem að hluti hans liggur um fjöruna Arnarfjarðar megin og er hann þess vegna ófær á flóði.

Við vorum svo heppnir að það var ákkurat fjara þegar við lögðum af stað frá Þingeyri um hádegið (sem var ekki raunin þegar við fórum þessa leið árið 2020 þegar vinstri fóturinn var í sjónum en sá hægri upp við bergið 😐) og veðrið algjörlega frábært, þó helst til heitt.

Þegar við vorum komnir yfir torfærasta kaflann, rétt eftir einn lækinn lagðist eitt hjólið á hliðina með þeim afleiðinum að gat kom vélarhlíf. Því var snarlega reddað með límbandi og svo steinkítti þegar komið var á Ísafjörð.

Eftir Vesturgötuna fórum við í vöflu á Hrafnseyri og svo rennt yfir á Ísafjörð um Hrafnseyrarheiði þar sem við settum upp tjaldbúiðir á tjaldstæðinu í Tungudal.
Kvöldmaturinn var svo auðvitað tekinn á Tjöruhúsinu sem var ógleymanlegt eins og alltaf.
Eftir mat og drykk var farið í annan drykk á Húsið þar sem að meistari Hebbi Gumm var með tónleika – klikkar ekki 😊
Veður var algjörlega frábært þennan dag.
158 km.

Dagur 5.


Í byrjun dags héldu 3 félagar heim á leið og fórum við þá 7 áleiðis upp á Bolafjall þar sem að við ætluðum að skoða nýja útsýnispallinn. Við keyrðum við upp fjallið í svarta þoku og rigningu þar sem að við sáum varla hvor annan og alls ekkert út fyrir pallinn góða.

Fórum fljótlega aftur niður eftir myndatöku og rúlluðum gamla Óshlíðarveginn yfir á Ísafjörð. Sá vegur á ekki mikið eftir þar sem á einum stað er hann nánast alveg í sundur.
Fórum svo aftur yfir á Þingeyri og tókum löns í Simahöllinni áður en við tókum stefnuna á Snæfellsnesið um Barðaströndina.
Í bensínstoppi í Búðardal misstum við 2 í viðbót og fórum við 5 áleiðis í Stykkishólm um Snæfellsveginn á norðanverðu nesinu.
Eftir tjöldun héldum við á Sjávarpakkhúsið í enn eina matar- og drykkjarveisluna – endað á koníaki og vindlum í gróðurhúsinu.
Alls konar veður þennan daginn, rigning, rok og sól.
415 km.

Dagur 6.

Hellnafjara á Snæfellsnesi

Síðasti dagurinn fór í rúnt fyrir Snæfellsnesið með viðkomu á kaffibrennslunni Valeria á Grundarfirði, sem er kómumbískt kaffihús þar sem að hægt er að fá aldeilis gott kaffi, fyrir þá/þær sem það drekka.

Í fjörunni fyrir utan Ólafsvík fóru svo nokkrir í sandspyrnu með misjöfnum árangri.
Tókum annað kaffistopp dagsins í Fjöruhúsinu á Hellnum og svo löns á hótel Búðum.
Þriðja kaffistopp dagsins var svo í Englendingavík í Borgarnesi áður en brunað var heim seinni part dagsins.
Ágætis verður en helst til mikið rok.
319 km
Samtals voru þetta 1.549 km á 6 dögum um náttúru Íslands í frábærum félagsskap einstakra drengja.
Við söknuðum margra góðra félaga sem ég er viss um að láti sig ekki vanta næst.
Það er alls ekki sjálfgefið að hafa heilsu í svona ferðalög og við ætlum að njóta þess eins lengi og við getum.
Við getum ekki beðið eftir næstu ferð.

 

Allar Myndir og myndbönd úr Stóruferð

Ferðalangar:
Mundi – Triumph Scrambler 1200 XC, 2019
Þröstur – Triumph Scrambler 1200 XC, 2019
Oliver – Triumph Scrambler 1200 XE, 2019
Ingvi – Triumph Scrambler 1200 XE, 2024
Einar – Triumph Scrambler 1200 XE, 2020
Arnar – Triumph Scrambler 900, 2023
Benni – Triumph Scrambler 900, 2015
Michael – Triumph Scrambler 900, 2018
Balli – Triumph Street Twin 900, 2016
Bambi – Yamaha Tenere 700, 2021


Fengið af Facebooksíðu Sigmundar Traustasonar.