Vöð og grjót, upp í mót

Í október árið 1940 var haldin fyrsta skráða mótorsportkeppni á Íslandi. Það var breski herinn sem stóð fyrir henni sem hluta af þjálfun hermanna sinna og var þetta nokkurskonar torfærurallkeppni á mótorhjólum eða það sem Bretinn kallar Trial keppnir.

Góða lýsingu á þessari keppni og annarri sem haldin var ári seinna birtist í endurminningarbók Ernest Walters, No depression in Iceland, en hann var liðsforingi í breska hernum. Kaflinn um keppnina var þýddur og birtur í bókinni Þá riðu hetjur um héruð sem fjallar um sögu mótorhjóla á Íslandi frá 1905. Því miður voru engar myndir til frá keppninni svo vitað var þegar bókin kom út en fyrir röð tilviljana fundust myndir frá þessari keppni fyrir ekki svo löngu á jafn ólíklegum stað og Ástralíu.

Skipt var í lið í keppninni með 3-4 í hverju liði, en leiðin var 140 kílómetrar, tveir þriðju hlutar hennar á vegum en þriðjungur á slóðum.

Það var Hinrik Steinsson heimsstyrjaldarsafnari með meiru sem komst yfir myndaalbúm hermanns sem gegnt hafði herþjónustu á Íslandi og innihélt það meðal annars tvær myndir frá keppninni sem við birtum hér með úrdrætti úr íslensku þýðingunni.

 

Keppt á kindagötum

Byrjun keppninnar var eins og atriði úr bíómynd. Ekki var ský á himni og um allt var hjörð harðnaðra ungra manna í þriggja manna hópum, klæddra í glæsilega einkennisbúninga, á hjólum sem búið var að númera í bak og fyrir, og vélargnýr þeirra fyllti loftið. Ég var eins og í bíómynd líka, Marx-gamanmynd það er að segja. Það dó á vélinni hjá mér 30 sekúndum fyrir ræsingu og með frosinn svip á andlitinu ýtti ég hjólinu yfir rásmarkið og byrjaði að reyna að sparka því í gang. Það fór næstum strax í gang og titrandi á beinum rásaði ég upp á litla hæð. Það tók mig um tíu mínútur að ná aftur sæti mínu í keppninni.

Fyrsti leggurinn var auðveldur. Hann var á annars flokks íslenskum vegi, og þótt að það væri nóg til að fá hvaða mótorhjólaframleiðanda sem er til að hvítna, þótti okkur það ekkert tiltökumál. Ég kom að fyrsta tímahliðinu á hárréttum tíma. Þaðan lá leið okkar á eitthvað sem ég get aðeins kallað vagnaslóð, því að enskt mál býður ekki upp á betra orð fyrir svona fyrirbæri. Þessi slóð lá að fyrsta vatnsbaðinu, litlum og fallegum læk sem ég hefði stoppað við á annarri stundu og hent steinum í að gamni mínu.

Mótorhjól breska hersins sem kom hingað til lands 10. maí voru af ýmsum gerðum. Flest þeirra voru BSA M20 eða Royal Enfield 350.

Þetta var fyrsta áhorfendasvæðið og stór hópur fólks, sem ég hafði hingað til kallað vini mína, hafði safnast saman við annan bakkann til að horfa á skemmtunina. Ég gaf þeim enga slíka og slapp yfir án þess að vökna. Því miður þurfti ég að aka strax yfir lækinn aftur, (mótorhjólakeppnir eru því miður oft á þennan veg) og þá ók ég á stóran hnullung. Hjólið slapp þó án skemmda sem betur fer.

Á næsta kafla leiðarinnar lenti ég svo í mýrarfeni. Sem betur fer hafði verið þurrt í veðri og hjólið sökk því aðeins upp að öxlum. Hópur af hlæjandi áhorfendum togaði mig upp úr. Eftir það lá leiðin, jafn vel og hún var merkt, inn á ótroðið hálendið,“ segir í endurminningum Ernest Walters sem heldur áfram:

Afturhjólið fer í aðrar áttir

„Mér finnst mjög erfitt að gefa einhverja nákvæma lýsingu á næsta hluta leiðarinnar. Auðvitað lá hún upp og niður til skiptis, við því var að búast. Ég bjóst hins vegar ekki við að þurfa að hoppa niður fjallshlíð, stökkva á milli hryggja og að þurfa að hafa mig allan við að hanga í hnakknum. Ekki bjóst ég heldur við að feta kindagötu í fjallshlíð fyrir ofan stórt vatn, þar sem að ein vitlaus hreyfing hefði þýtt vísan dauða, og ef ekki þá langa göngu aftur til byggða. Svo var það grjótbeðið. Það hefur skrýtin áhrif á mótorhjól. Afturhjólið fer í allar aðrar áttir en framhjólið. Það eru til tvær aðferðir fyrir þann sem þarf að aka yfir svona grjótbeð. Að gefa í og reyna að halda jafnvæginu með fótunum ef með þarf, eða stíga af og leiða hjólið yfir. Ég reyndi báðar aðferðir og get ekki gert upp á milli þeirra. Þriðja leiðin er að stíga af baki og kveikja á eldspýtu ofan í bensíntankinum, en þá komum við aftur að göngunni löngu heim.“

Njáll Gunnlaugsson
njall@mbl.is
Morgunblaðið 2013