Ralph Hubert „Sonny“ Barger, alræmdasti leiðtogi vélhjólasamtakanna Hells Angels, er látinn, 83 ára að aldri. Krabbamein varð honum að aldurtila.
„Ég hef lifað löngu og góðu lífi með ríkulegum ævintýrum,“ skrifaði Barger á Facebook-síðu sína og bað vini sína fyrir birtingu textans að honum gengnum en hann greindist fyrst með krabbamein í hálsi fyrir fjórum áratugum, 44 ára gamall, og þekkt varð þegar hann reykti sína síðustu sígarettu á leið á skurðstofuna þar sem raddbönd hans voru fjarlægð vegna meinsins.
Barger var fæddur í Modesto í Kaliforníu 8. október 1938 og varð félagi í sínum fyrsta vélhjólaklúbbi árið 1956, Oakland Panthers. Pardusarnir frá Oakland leystust upp og Barger flutti sig í annan klúbb þar sem fyrir var Don „Boots“ Reeves, en sá bar einkennismerki klúbbs í Sacramento sem einnig hafði lagt upp laupana, höfuðkúpu með flugmannshúfu og vængi.
Hlaut fjölda dóma
Barger og félagar stofnuðu þá sinn eigin klúbb 1. apríl 1957 og fengu verðlaunagripaverslun í Hayward til að útbúa merki sitt. Þar með hafði Oakland-deild Vítisengla litið dagsins ljós en upprunalegu Hells Angels-samtökin eru eldri, stofnuð í Fontana í Kaliforníu 17. mars 1948. Þegar formaður Oakland-englanna, Otto Friedli, var fangelsaður tók Barger við stöðunni og var innsti koppur í búri Hells Angels um áratuga skeið.
Aðalpersóna bókar Hunters S. Thompsons
Barger skrifaði sex bækur, þar á meðal sjálfsævisöguna Hells Angel – The Life and Times of Sonny Barger and the Hell’s Angels Motorcycle Club auk þess að vera aðalpersóna bókar blaðamannsins og rithöfundarins Hunters S. Thompsons, Hell’s Angels: The Strange and Terrible Saga of the Outlaw Motorcycle Gang.
Barger lék þá smáhlutverk í sjónvarpsþáttunum Sons of Anarchy og í kvikmynd Jacks Nicholsons, Hells Angels on Wheels.
Barger lést á miðvikudaginn, 29. júní.
Mbl.is
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is