Hvernig eiga persónuverndarlög að virka ?
Ég er bifhjólamaður og hef verið það um árabil. Stór hluti hjólamennskunnar snýst um mannleg samskipti, hitta fólk og fara á rúntinn; annaðhvort ísrúnt í Reykjavík, hnattreisu eða eitthvað þar á milli.
Það hefur lengi verið siður meða lbifhjólamanna, að hittast í smáum og stórum hópum. Þetta er stundað um gjörvalla veröld og hefur ekki verið talið athugavert hingað til, enda eru samkomur meðal frjálsra manna öllum heimilar og ekki settar neinar skorður þar á, nema ef ske kynni til að koma í veg fyrir múgæsing sem er frekar fylgifiskur mótmæla og uppreisna gegn einhverskonar yfirvaldi.
Undanfarna áratugi hafa Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar, staðið fyrir hópkeyrslu 1. maí ár hvert.
Þar safnast bifhjólamenn saman í miðbæ Reykjavíkur og aka fyrir fram ákveðna leið í fylgd lögreglu. Akstur þessi er ætíð unninn í nánu samstarfi við LRH (Lögreglu höfuðborgarsvæðisins) og borgaryfirvöld. Aldrei hefur borið skugga á þennan hópakstur og ætíð hefur samstarf Snigla, LRH og Reykjavíkurborgar verið unnið á faglegan og átakalausan hátt og fyrir það erum við þakklát.
Mörg undanfarin ár hefur verið haldin Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þar hafa Ernir, bifhjólaklúbbur, staðið fyrir hópakstri frá félagsheimil þeirra á Ásbrú, niður í miðbæ Keflavíkur. Mér vitanlega hafa ekki verið nein vandræði í tengslum við þennan akstur, enda gerður með það fyrir augum að sýna sig og sjá aðra, enda margir fákarnir hreint augnakonfekt fyrir fólk að sjá.
Það hefur fylgt þessum viðburði, að til að fá leyfi til akstursins, sem er ekki óeðlilegt, hefur lögreglustjóri Suðurnesja skikkað Erni til að skrá alla þá sem vilja taka þátt í þessum akstri tengdum hátíðahöldunum. Klúbburinn tekur við skráningum, á einhverskonar rafrænu formi,sem svo skal skilað til lögreglustjórans. Hvað lögreglustjórinn gerir við þessar skrár er ekki vitað fyrir víst, en að sögn er gögnunum eytt að afstöðnum akstrinum.
Þá kemur að birtri ástæðu þessarar skráningar og vitna ég beint í svar lögreglustjóra við fyrirspurn um málið:
„Ástæða fyrirkomulags varðandi mótorhjólafólk er vegna eftirlits með skipulögðum glæpasamtökum sem notast við mótorhjól í sinni starfsemi.“
Í svarinu er krækja á frétt sem birtist á mbl.is í október 2021, en þar segir ma: „Lögreglan telur að vélhjólasamtökin Bandidos MC Iceland hafi hlotið fullgildingu á Íslandi frá MC Bandidos Sweden og að liðsmenn þeirra séu á annan tug talsins. Í kringum þennan hóp eru síðan nokkrir stuðningsmannahópar. Bækistöðvar samtakanna eru á Suðurnesjum.“
Þetta virðist vera helsta ástæða þess að skráningar er krafist, sem sagt að taldar séu líkur á því að einhverjir glæpamenn taki þátt í akstrinum. Þetta þýðir einfaldlega að lögreglan er að vinna úr persónugreinanlegum upplýsingum þátttakenda. Það má vera að lögreglan hafi valdheimildir til slíks, ég skal ekki um það segja, en hitt er víst að það er lögreglustjóranum ekki til framdráttar að hann skuli skikka Erni til að safna skráningum, á Facebook, og senda þær upplýsingar til lögreglu. Það er vitað fyrir víst að lögreglustjórinn hefur ekki leitað álits Persónuverndar á þessari upplýsingasöfnun, né þeim aðferðum sem við hana er beitt. Við bíðum viðbragða Persónuverndar.
Það er mér til efs að lögreglan hafi valdheimildir til slíks, og ef svo er væri ég til í að sjá þann lagabókstaf því að hann er ekki til að okkur vitanlega.
Hitt er víst að það er lögreglustjóranum ekki til framdráttar að skikka Bifhjólaklubbinn Erni til að safna skráningum, á Facebook, og ganga þannig í lögreglustörf. Ef hann vill safna upplýsingum um hugsanlega þátttakendur í þessum hópakstri, verður hann að standa fyrir þvísjálfur.
Þegar þessi vinnubrögð lögreglustjórans voru borin undir systursamtök Snigla í Evrópu (sem eru meðlimir í Fema www.femamotorcycling.eu) voru viðbrögðin meðal annars: „Þetta getur ekki staðist nein lög og alls ekki persónuverndarlög.“ „Þetta minnir á stjórnsýslu ríkja sem við viljum ekki samsama okkur við“. Persónuverndarlög banna þetta“.
Það er nokkuð ljóst af þeim viðbrögðum sem ég hef fengið, að þetta fyrirkomulag yrði aldre inokkurn tíma liðið í þeim löndum Evrópu þaðan sem viðbrögð hafa komið, en þau eru frá öllum Norðurlöndunum, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi og fleiri löndum.
Nú er spurningin þessi; er bifhjólafólk álitið glæpamenn þar til annað sannast af gagnasöfnun lögreglustjóra Suðurnesja ?
Svo er hægt að velta vöngum yfir því hvaða verkfæri glæpamenn nota við sína starfsemi; það væri hægt að tína til sitt lítið af hverju:
- · Snjallsímar
- Bifreiðar
- · Rafhlaupahjól
- · Hettupeysur
- · Lamhúshettur
- · Sólgleraugu
- · Hanskar
- · Spennijárn
Við getum haldið áfram með svona upptalningu, en slíkt yrði til að æra óstöðugan. Ef við skoðum rök lögreglustjórans er hann að áætla að bifhjólafólk sé hugsanlega glæpamenn þangað til hann er búinn að greina persónuupplýsingar þátttakenda. Á flestum,ef ekki öllum, byggðum bólum sem vilja kenna sig við opið frjálst samfélag, eru þetta ansi köld skilaboð lögreglustjóra Suðurnesja til bifhjólamanna:
Þið gætuð verið glæpamenn!
Þessi krafa lögreglunnar á Suðurnesjum hefur valdið bifhjólafólki töluverðum ama og pirringi, og óskum við eftir að Ernir fái frið til að halda sína hópkeyrslu líkt og öll önnur bifhjólafélög á Íslandi,en að sjálfsögðu er eðlilegt að til slíks séu veitt leyfi af þar til bærum yfirvöldum.
Steinmar Gunnarsson
Ritari Snigla,fulltrúi og stjórnarmaður í Fema
https://www.sniglar.is/post/lydurinn-skal-skrasettur