Dagbókarbrot Ævintýramanna
Ferðalangar og farskjóttar.
Guðmundur Bjarnason tæknifræðingur Kawasaki Voyager 2000, innbyggðar ferðatöskur.
Guðmundur Björnsson læknir Honda Pacific Coast 1998, innbyggðar ferðatöskur og Joe Rocket töskur.
Ólafur Gylfson flugstjóri. Honda Gold Wing 1995, innbyggðar ferðatöskur.
Búnaður:
Hjálmar, hlífðarfatnaður með innbyggðri brynju.
Yaesu VHF talstöðvar frá Radíoþjónustu Sigga Harðar með hljóðnema og hátölurum í hjálmi.
Dell ferðatölva.
Leica Digilux stafræn myndavél.
Sony DCR TRV 900 E, þriggja flögu stafræn myndbandsvél.
Undirbúningur
Við félagar hittumst allir Laugardaginn 12. Maí á heimili Heiðars Jónssonar í Vancouver í Washington fylki.
Heiðar hefur búið í mörg ár fyrir vestan og stundað verslunarstörf , en er nú að mestu sestur í helgan stein.
Undirbúningur hafði staðið allan veturinn, en hugmyndin að ferðalaginu kviknaði s.l. sumar. Ólafur keypti Honda Gold Wing hjól í Indianapolis um áramótin, sem þurfti lagfæringar við. Heiðar keypti hjól fyrir Guðmund Björnsson í Oregon og flutti heim í bílskúr hjá sér í febrúar. Þá keypti Heiðar laskað hjól fyrir Guðmund Bjarnason. Guðmundur Bjarnason var því mættur nokkrum dögum áður til viðgerða og
samsetningar á hjólinu og Ólafur ók sínu hjóli 2000 mílur til að hitta félaga sína. Það urðu nokkur vandræði á síðasta degi við skrásetningu á einu hjólinu, en síðan var lagt í hann. Það var ásetningur okkar ferðalanganna að kynnast Bandaríkjum N Ameríku fjarri ys og þys hraðbrauta og stórborga.
Dagur 1. 15. Maí. Vancover í Washington fylki til Yachts í Oregon , 203 mílur.
Lagt var af stað upp úr hádegi, veður var frekar þungbúið enda kom á daginn að það rigndi vel á okkur í fyrsta áfanga og varð að fara varlega á vegunum. Menn urðu dálítið blautir, en mesta furða m.v. erfiðar aðstæður. Farið var suður hraðbrautina og síðan ekið gegnum fjöllin til Newport á Kyrrahafströndinni, þar sem Keiko átti einu sinni heima. Þar fór heldur að stytta upp og þaðan var ekið meðfram ströndinni til
smábæjarins Yachats, þar sem gist var á mótelinu Dublin House. Um kvöldið hvíldu menn sig, enda þreyttir eftir erfiðan undirbúning en glaðir að vera komnir af stað. Snætt var á góðum veitingastað og síðan bauð Sheryl barþjónn upp á drykkinn Coast to coast sem hún blandaði sérstaklega fyrir þreytta ferðalanga.
Dagur 2. 16. Maí. Yachts í Oregon til Eureka í Kaliforníu, 301 mílur.
Vaknað var snemma og veður nú orðið skaplegra um 15°C og að mestu þurrt. Sjórinn í Kyrrahafinu var snertur, en það sama skyldi gert þegar komið var yfir heimsálfuna að Atlantshafinu. Haldið var af stað í björtu veðri suður á bóginn. Farið var um veg 101 meðfram Kyrrahafströndinni. Leiðin er mjög falleg Áð var í
Florence og snæddur dæmigerður Amerískur morgunmatur, og svo var haldið áfram mjög fallega leið suður ströndina. Þar mætir úfið Kyrrahafið klettum og vegurinn er í sveigum þar á milli. Farið var til Eureka í N-Kaliforníu, en Einar Thoroddsen læknir sem var þarna á ferð fyrir nokkrum árum á mótorhjóli, mælti sérstaklega með þeim stað. Komið var þangað um sjö leytið.og gist var um nóttina. Þreyttir ferðalangar
pöntuðu sér pítsu á herbergið og fóru snemma að sofa.
Dagur 3. 17. Maí. Eureka í Kaliforníu til Shingeltown í Kaliforníu, 183 mílur.
Veðrið var þurr og fallegt að morgni, hiti um 15°C kl 9 um morguninn. Eftir að hafa tekið eldsneyti og sinnt farskjótunum, var haldið um veg 299 gegnum fjöllin í N Kaliforníu. Fljótlega var komið inn í fallega skógivaxna dali og ekið með á sem þar rennur um. Því lengra sem haldið var varð umhverfið stórkostlegra, og vegurinn hlykkjaðist um hálendið milli djúpra dala og hárra fjallaskarða. Myndastoppin urðu mörg, enda útsýnið og veðrið stórkostlegt. Ekið var í gegnum Redding og undir þjóðveg 5 og áfram til Shingeltown. Á þeirri leið fór hitinn hækkandi og komst í 30°C á láglendi. Í Shingeltown var komið um 16:30 og áð. Þar var leitað að möguleikum á gistingu, og kom í ljós að systir afgreiðslustúlkunnar í bæjarbúðinni rak gististað þar
nálægt. Þótti mönnum kjörið að stoppa þar eftir erfiðan og heitan dag. Í ljós kom að aðstæður voru í það minnsta sagt frumstæðar, en menn létu sig hafa það og fengu grænan slitinn kofa til umráða sem hefði getað verið ágætis vegavinnuskúr á Íslandi. Þreyttir ferðalangar settust niður í skóginum í algeri kyrrð, fjarri GSM og Internetsambandi. Veitingastaðurinn Big Wheel var þar í göngufæri, ágætis sveitakrá þar sem ferðalangar snæddu og fengu sér hressingu með innfæddum. Vistin í skúrnum var ágæt og nágrannar sem margir búa þar allt árið við kröpp kjör voru vingjarnlegir. Nóttin var friðsæl með árniðinn nálægt sem ágætis svefnmeðal.
Dagur 4. 18. Maí. til Shingeltown í Kaliforníu til Reno í Nevada. 210 mílur.
Lagt var í hann snemma í fallegu en svölu veðri. Það var mikil kyrrð í skóginum. Eftir u.þ.b. 20 mílur var komið inn í Lassen Volcanic þjóðgarðinn. Aðgangseyrir var $5 á mann. Vissu menn ekki fyrirfram hvort það yrði peninganna virði, en annað kom í ljós. Eftir að hafa farið krókótta vegi gegnum skóginn, fór vegurinn að stefna upp á við og lág hæst um 8000 fet yfir sjávarmáli. Ekki er hægt að lýsa með orðum því útsýni sem nú bauðst. Vegurinn sniglaðist í kringum hátt fjall, og efst upp var töluverður snjór til hliðar við veginn. Það var sól, en hitinn fór niður í 7°C efst uppi í algeru logni. Þegar komið var út úr þjóðgarðinum var ekið gegnum skóga og meðfram giljum niður á sléttuna í átt að Nevada. Þar breyttist landslagið skyndilega og við tóku sólbrunnir klettar og síðan sléttur með fjöllum sem líkja má við eyðimörk. Hitinn fór vaxandi og var um eftirmiðdaginn kominn í nálægt 30°C. Komið var inn í Reno í Nevada um fimmleytið og nú var ákveðið að fara í góða gistingu. Borgin birtist sem vin í eyðimörkinni með háhýsum, umvafin gróðursnauðum fjöllum.
Um kvöldið var að sjálfsögðu haldið á spilavíti, en litlu eytt, og snætt “buffet” að hætti heimamanna. Það voru saddir og þreyttir menn sem lögðu sig til hvílu það kvöld.
Dagur 5. 19. Maí. Reno í Nevada til Bishop í Kaliforníu. 240 mílur
Vaknað var snemma á þurru björtum og hlýjum degi í Reno. Smávandræði voru með talstöðvarnar og hótelpöntun fyrir kvöldið, þannig að ekki var lagt af stað fyrr en fór að halla í 11 um morguninn. Reno er umlukin fjöllum og opnast dalurinn til suðurs. Ekið var að mestu á veg 395 sem fyrst er hraðbraut til Carson City. Sá bær sem á rætur sínar að rekja til Villta vestursins. Þaðan var ekið til Virginia City sem er gamall
kúreka og gullgrafarabær uppi í fjöllum. Þar var mikið líf, mótorhjólamenn á helgarrúntinum sem keyrðu um þröngar götur í þessu litla bæ með gömlum húsum. Áfram var haldið suður veg 395 sem nú varð einbreiður að mestu og liðaðist gegnum djúpa dali með hrikaleg fjöll allt um kring. Vegurinn færðist svo út í eyðimörk
milli fjallanna og hitinn fór að nálgast 30°C. Komið var til Bishop um kvöldmatarleytið og gist á Best Western Spa resort. Bishop er eins og vin í eyðimörkinni, og þar er mikið af ferðamönnum og margir góðir veitingastaðir. Einn slíkur var prófaður, Whisky Creek, og nú voru það stórsteikur á Ameríska vísu. Komið var við á krá heimamanna og þeir spurðir spjörunum úr. Flestir höfðu aldrei hitt mörlandann áður og vakti það mikla kátínu.
Dagur 6. 20. Maí. Bishop í Kaliforníu til Las Vegas í Nevada. 340 mílur.
Það var fallegur og hlýr morgun á sléttunni umlukin háum fjöllum. Ekið var áfram veg 395 í gegnum lítinn bæ Indipendance og síðan til Lone Pine þar sem áð var í léttan málsverð og reiðskjótunum sinnt. Þá var ekið inn á veg sem fer í gegnum Death Valley. Sá vegur liðast í gegnum fjallendi og síðan ofan í djúpan stóran dalinn
sem liggur að mestu undir sjávarmáli.
Þegar hér var komið fór hitinn hækkandi og náði mest 44°C í dalnum. Menn neyddust til að rífa af sér flestan hlífðarfatnað. Áð var á tveimur stöðum þar sem hlaupið var inn til að kæla sig og innbyrða vökva og síðan
haldið hraðferð suður dalinn og lítið stoppað. Hér er alger eyðimörk, og fannst mönnum landslagið stundum minna á staði á Íslandi eins og Landamannalaugar. Ekið var greitt til að komast hærra upp í fjöllin þar sem hitinn fór lækkandi. Ekið var til Las Vegas í gegnum fjöll og dali og komið þangað seinnipart dags. Borgin birtist skyndilega í eyðimörkinni og þegar inn í hana var komið var umferðin mikil og hröð. Eftir smá vegvillur fannst gististaðurinn Golden Nugget hótel sem er miðsvæðis og ekki í minni kantinum jafnvel á Amerískan mælikvarða. Það voru þreyttir og sveittir ferðalangar sem fleygðu sér í kalda sturtu og fengur sér
hressingadrykk, alsælir. Um kvöldið var farið niður í spilavítahverfið “The Strip” og borgin skoðuð. Þar ægir saman hótelum og spilavítum og fannst mönnum þeir um tíma vera komnir í Disneyland. Það var farið seint að sofa.
Dagur 7. 21. Maí. Las Vegas í Nevada til Williams í Arizona. 240 mílur.
Það var vaknað seint, menn komust ekki af stað fyrr en að verða 11 um morguninn. Ekið var gegnum bæinn og heimsótt stærsta Harley Davidson umboð í heiminum. Þetta var eins og að koma til Mecca fyrir mótorhjólaáhugamenn. Áð var á “Diner” og fengið sér amerískt í gogginn áður en haldið var af stað suður til Boulder City. Veðrið var fallegt, heiðskírt og fór að halla í 30°C þegar leið á daginn. Það var nauðsynlegt að létta á hlífðarfatnaðinum og var ekið á hlýrabolum yfir hádaginn. Hoover stíflan var skoðuð sem er um 35 km frá Las Vegas. Þetta er mikið mannvirki, byggt á árunum 1931 til 1936. Þar rennur vatnið um hrikalega gljúfur, milli hárra kletta og vegstæðið er þröngt. Það ver mikil umferð og fjöldi mótorhjólafélaga á ferð.
Flokkur fólks á Harley Davidson var þar á ferð og tóku menn tali. Fór vel á með landanum og þeim félögum sem ekki voru kannski alveg sömu týpur, með skegg og á hlýrabolum, hjálmlausir, e n það þykir flottara á
þessum slóðum. Ekið var veg 93 til Kingman og þá birtist fyrirheitnalandið, þjóðvegur 66. ( Route 66 )
Áð var á safni um þennan merka þjóðveg, sem flutti landnema til vestursins á árum áður og er nú verið að reyna að endurvekja til fyrra álits. Ekið var á þjóðvegi 66 gegnum nokkra litla smábæi og áð á gamalli þjónustustöð sem haldið hefur verið vel við. Landslagið tók nú breytingum varð flatara og útsýni betra. Það sást upp til Grand Canyon svæðisins um tíma. Þjóðveg 66 þraut að lokum og veður fór heldur kólnandi,
komið niður í 23 gráður þegar síðustu mílurnar inn í Williams voru farnar þegar halla tók í 7 um kvöldið.
Þreyttir ferðalangar fengu ágætis gistinu, þriggja herbergja “svítu” á móteli á hagstæðu verði. Eftir að hafa skolað af sér ferðarykið, var haldið á veitingastað heimamanna. Williams er lítill bær með mikla sögu, er á gömlu þjóðleiðinni og liggur í hæðóttu og skógivöxnu landi. Það voru sælir ferðalangar sem lögðu sig til hvílu,
tilbúnir að takast á við nýjan dag af ævintýrum ,en nú skildi haldið til Miklagljúfur, eitt af undrum veraldar.
Dagur 8. 22. Maí. Williams í Arizona, Grand Canyon , Falgstaff Arizona. 180 mílur.
Eftir góðan nætursvefn var haldið af stað um kl 10 um morguninn. Góður amerískur morgunmatur á
veitingastað, tekið bensín og svo haldið af stað. Vegurinn upp til Grand Canyon er í fyrstu í skógi ,en síðan í meira kjarri vöxnu landslagi. Eftir u.þ.b.70 mílna akstur í heiðskíru og hlýju verðri. Það var hægur vandi að vera á léttum bol á þessari leið. Vegurinn fór upp í um 6000 fet yfir sjávarmáli þegar nær dró. Ekið var inn í þjógarðinn, sem er mjög vel skipulagður, og var aðgagnseyrir $10. Eftir stuttan akstur var komið á suður brún (South rim) Miklagljúfurs. Útsýnið var mildilega sagt, stórkostlegt, og mikil dýpt og litarbrigði í
landslaginu. Við félagarnir stóðum lengi agndofa og mynduðum í gríð og erg. Breiddin var allt að 17 km. Og dýptin allt að 1,6 km.
Ekið var eftir suðurbrúninni, þar til sást inn í eyðimörkina fyrir norðan. Ekki gekk ferðin vandræðalaust. Stór
og feitur ameríkani á stórum húsbíl tókst að bakka á hjól Guðmundar Bjarnasonar og rispa það og fella. Brást hann ókvæða við að við skyldum vera að þvælast fyrir honum, og taldi sér málið óviðkomandi. Með hökuna
niður í bringu fórum við félagar í hjálparleit hjá þjóðgarðsvörðum. Í fylgd eins þeirra var kauði eltur uppi.
Hann neitaði öllu og var þá hótað handtöku af verðinum, sem er lögreglan á staðnum. Sáu félagar fyrir sér þann feita liggja á grúfu á malbikinu með handjárn fyrir aftan bak. En til þess kom þó ekki og var tekin skýrsla af honum eftir að hann hafði róast. Hjólið var vel ökufært og héldu menn áfram ótrauðir. Þegar út úr
þjóðgarðinum var komið var ekið gegnum friðland Navajo indíána. Í fyrstu klettótt landslag en síðan runnar og að lokum skógur. Á tímabili fannst mönnum þeir vera komir í Skagafjörðinn með þýfðum gresjum og bláum fjallasal í fjarska. Það hefði vel getað verið ef hitinn hefði ekki verið í nánd við 30°C í eftirmiðdagssólinni með óvenju fallegum litabrigðum á landslagið. Komið var inn í Flagstaff um 6 leytið, tekið
bensín, keypt hressing og haldið á Great Western pony solider mótelið. Eftir að hafa frískað sig til, fengið sér hressingu og kíkt á tölvupóstinn var snætt á Horse lounge veitingastaðnum sem er í kúrekastíl. Rétt fyrir svefninn stauluðust þreyttir ferðalangar inn á Museum club kránna, í göngufæri, eins gott. Eftir að hafa sinnt
ferðasöguskrifum og myndsendingum duttu menn í dúnalogn og vöknuðu ekki við Santa Fe flutningalestirnar sem þeyttust gegnum bæinn um nóttina.
Dagur 9. 23. Maí. Flagstaff Arizona til Gallup í Nýju Mexico. 220 mílur.
Það var heitt um nóttina í herberginu. Við vöknuðum við nið Santa Fe flutningalestarinnar sem flautaði hátt í morgunsárið. Menn komust af stað um 11. leytið eftir að hafa farið á pósthús og sent hlýju fötin sín niður til Flórida þangað sem ferðinni er er heitið. Þetta var nauðsynlegt því hitastigið fer hækkandi, rakinn vaxandi og farangursrými takmarkað. Ekið var um þjóðveg 66 út úr Flagstaff og inn á hraðbrautina. Við sveigðum af veginum eftir um 18 mílur við Meator Creater sem er gígur sem varð til þegar loftsteinn féll til jarðar fyrir um 50 þúsund árum síðan. Aðgangseyrir var $10 og þótti mönnum dýrt, var dvalið lengi til að nýta sér þann
eyri. Gígurinn er 1200 m í þvermál og er talið að loftsteinninn hafi verið 150 fet í þvermál og innihald hans um 90 % járn. Þetta var stórkostleg sýn, og náðu menn að skoða safn því tengt, en vildu helst ekki veralengi úti í rúmlega 30°hita. Við rákumst á tvær svissneskar miðaldara stúlkur í rúmum meðalholdum á tveimur
Harley Davison hjólum, þær höfðu leigt hjólin í Chicago og ætluðu til Los Angeles, að mestu á þjóðvegi 66. Þær höfðu leigt hjólin á $150 á dag og voru alsælar. Við héldum áfram hraðbrautina ( I 40) til Holbrook þar sem áð var og mönnum og farskjótum sinnt. Leiðin lág síðan eftir vegi 180, um 18 mílur þar til við komum að Petrified forrest national park ( Steingerði skógurinn). Þegar inn var komið blasti við sandauðn og síðan það sem virtust vera trjástólpar sem lágu á við og dreif.
Þegar nánar var að gáð kom í ljós að trén voru steingerð. Menn voru sammála um að þeim fannst þeir geta verið staddir í Kaldadal, ef undanskilið var 30°hiti á C. Við ókum síðan áfram til staðar sem heitir Painted desert. Þar var landslagið hrikalegt og litríkt. Þegar líða tók á daginn ókum við í eftirmiðdagsylnum inn til bæjarins Gallup þar sem gist var á Best Western Royal Holiday mótelinu. Landslag breyttist í sandsteinskletta
og fólkið sem við sáum varð dekkra á húð. Við áðum í stórmarkaði í Gallup, og var greinilegt að hér eru menn ekki við eins mikil efni eins og annarstaðar í Bandaríkjum N Ameríku. Fólkið var verr klætt, bílarnir eldri og verðlagið lægra. Í fyrsta skipti á ferð okkar varð á vegi okkar betlari sem bað um skiptimynt, fólkið er dökkt og balndað af Mexikönum og Indíanum. Menn voru þreyttir og sælir enda komnir um hálfa vegu yfir
meginland N Ameríku og það var að sjá á tölvupóstinum að margir heima fylgdust spenntir með ævintýri okkar félaga. Farið var á Mexikanskan veitingastað og borðaður (mjög) sterkur góður matur með öllu tilheyrandi. Menn lögðust til hvílu þreyttir og sælir eftir ánægjulegan dag, en kíktu á tölvupóstinn og myndbandsupptöku dagsins áður en Óli Lokbrá tók völdin.
Dagur 10. 24. Maí. Gallup í Nýju Mexicó til Santa Fe í Nýju Mexicó. 240 mílur.
Ferðalangar voru frekar stirðir og þreytti í morgunsárið, enda búnir að vera fram á nótt við að koma efni frá leiðangrinum til þjálfarans. Ekki bætti úr að mexikanski maturinn og tilheyrandi vökvar heimamanna höfðu áhrif á meltinguna. Þannig urðu tíðar heimsóknir á náðhúsið, áður en lagt var í hann um 11. leytið. Það var sól, heiðskírt og um 25°C hiti. Vegurinn framhjá gististaðnum er gamli þjóvegur 66. Við ókum hring um bæinn og héldum síðan suður á bóginn veg 602 á verndarsvæði Zuni indíana. Landaslagið var hæðótt með
sandsteinsklettum og runnum. Landslagið gæti helst líkst Tocana héraði á Ítalíu, en þó nokkuð fátækara af gróðri. Öðru hverju brá fyrir smá byggðarkjörnum hjólhýsa og bílhræja og rusl á víð og dreif. Við ókum síðan í austur á veg 53. Hitinn fór hækkandi og fór yfir 30°C. Smám saman fóru góðviðris Cumulus ský að hrannast upp og rakinn fór vaxandi. Við áðum á litlum veitingastað í þorpinu Ramah og fengum okkur fæði heimamanna. Við hittum þar ungar Navajo indíanakonur sem sögðu okkur frá sögu svæðisins og töluðu þær fyrir okkur Navajo tungumálið. Það er algerlega óskiljanlegt og sögðu þær að í seinni heimstyrjöldinni hefði það verið notað af bandamönnum sem dulmál.
Þá var ekið áfram að El Morro minnismerkinu. Nú fór landslagið að breytast og háir sandsteinsklettar, sem urðu gulbrúnir í sterkri sólinni. Minnismerkið er um þá fjölmörgu landkönnuði sem ferðuðust um þessar slóðir á 18. öldinni. Þá ókum við áfram að eldgíg og íshellum sem eru á þessu svæði. Við fórum yfir það sem kallað
er “Continental divide” en það er lína sem dregin er yfir meginland N Ameríku frá norðri til suður og falla allar ár þaðan til sitthvorar áttar. Þannig vorum við í raun við upptök Missisippi fljótsins sem við eigum eftir að heimsækja síðar. Við ókum norður að hraðbraut 40 og þjóðvegi 66. Á þessum tíma breyttust Cumulus skýin í
Nibostratus þrumuský og sáum við rigna í fjöllum í fjarska. Okkur kom í hug kvæðið “á Sprengisandi” þar sem við ókum greitt á flótta undan rigningunni. Hitinn og rakinn fór vaxandi og þegar við ókum inn í Albuquerque var orði vel heitt. Við áðum menn og brynntum farskjóttum og héldum áfram ferðinni. Inni í miðborginni voru vegaframkvæmdir í gangi á hraðbrautarmótunum og lentum við í umferðaröngþveiti. Þegar við vorum í röðinni fór hitinn yfir 40 stig á C. Við flýttum okkur norður hraðbraut 25 og nú fór hitauppstreymið (Termic) að segja til sín, miklir sviptivindar voru frá vestri og áttu menn fullt í fangi með að halda æskilegri aksturslínu. Ekki bætti úr skák að stórir flutningabílar óku fram úr okkur á mikilli ferð. Við vorum fegnir þegar við komum inn í Santa Fe á undan rigningunni og á góðum tíma til að geta slakað á og teygt úr okkur. Við fengum ágætis gistingu á Fairfield Inn og rukum upp á herbergi, drógum af okkur stígvélin og fötin. Fartölvan var tekin upp og náðum við strax sambandi við Alnetið . Lykt sem flestum konum finnst ósjarmerandi fyllti herbergið. Við skelltum okkur í sturtu og hrein föt . Jú viti menn næstum 600 manns
eru búnir að kíkja á heimasíðuna okkar, við vorum agndofa ! Þar að auki voru margir búnir að senda okkur baráttukveðjur, sem flestar gengu út á það að menn óskuðu þess að þeir væru með okkur á ferðalaginu. Við fengum okkur hressingu sælir og glaðir að vera komnir á áfangastað.
Dagur 11. 25. Maí. Santa Fe í Nýju Mexico til Amarillo í Texas. 310 mílur.
Borgin Santa Fe er í 7000 feta hæð og liggur umvafin skógivöxnu hlíðum og fjöllum í norður. Til suðurs er opið út í eyðimörkina. Hér réðu Mexikanar ríkjum í þar til í byrjun 19. aldar, og sjást enn glögg merki um veru þeirra þar. Borgin er öll lágreist og í gömlu miðborginni eru fjöldi húsa sem byggð voru af Mexikönum á
sínum tíma. Við fórum einn rúnt í borginni á leið okkar áfram og hittum þar heimamenn sem sögðu frá sögu borgarinnar. Haldið var suður og austur hraðbraut 25 og var frekar svalt í lofti, um 18ºC en heiðskírt og sól.
Á leið okkar til bæjarins Las Vegas, var ekið niður af hálendinu og á fáeinum mílum vorum við komnir niður í
um 4000 feta hæð yfir sjáfarmáli, það fór heldur hlýnandi og nú fórum við smám saman að yfirgefa úfið fjallendi og komum yfir á sléttlendi. Með fjöllin að baki tóku við endalausar sléttur á leið okkar til Texas. Við tókum veg 104 frá Las Vegas til Tucumcari. Hann hlykkjaðist um hæðótt landslag í fyrstu, síðustu sandsteinsklettanna á leið okkar og svo niður á sléttlendið. Frá Tucumcari , tókum við gamla þjóðveginn #66 sem lág að mestu meðfram hraðbrautinni. Þar gat að líta gamlar yfirgefnar bensínstöðvar og hótel. Eftir að
hafa áð úti á sléttunni, héldum við áfram á vegi 66 sem nú varð skyndilega af malarvegi. Hér var einn elsti hluti leiðarinnar, gegnum yfirgefnar sveitir. Það var greinilegt að sum húsin og bílarnir höfðu ekki verið hreyfð áratugum saman. Menn fengu smá Enduro tilfinningu á gömlum ósléttum malarveginum, og héldum
við að hann myndi aldrei taka enda. Fákar og menn fengu stutta aðhlynningu, því óveður væri í aðsigi. Úr norðvestri komu dökk þrumuský og rigning í fjarska. Á leið okkar á hraðbraut 40 inn til Amarillo leið mönnum á tíma eins og í atriði úr myndinni Twister, þar sem við vorum á flótta undan óveðrinu, með þung ský og rigningu í speglunum og sól framundan. Hitinn var um 26 gráður og rakinn fór vaxandi. Það var talsverð umferð og það kom okkur á óvart hvað stóru trukkarnir óku hratt, kannski voru þeir á saman flótta og við.
Það stóð heima að þegar við komum inn í Amarillo fóru fyrstu droparnir að falla. Við komust með dótið okkar inn á gististað og síðan varð úrhelli. Það stóð reyndar ekki nema í klukkutíma og á meðan gátum við hvílst, kíkt á tölvupóstinn og gert okkur klára fyrir kvöldverðinn. Það var gaman að sjá hvað margir höfðu skoðaða
heimasíðuna og það fyllti menn baráttuhug. Við höfðum nú farið yfir tvö tímabelti það fyrra í Nýju Mexíco og nú aftur í Texas.
Þreytan var aðeins farin að segja til sín, en menn kvörtuðu ekki. Það hefði verið gott að fá einn hvíldardag, því það tekur á líkama og sál að ferðast yfir heilt meginland á þennan hátt. En það er þess virði og stemningin er góð í hópnum. Að sjálfsögðu urðum við að kynnast hvernig þeir elda nautasteik hér á slóðum og var það gert á Outback Steakhouse. Hér þurftum við að fá leyfi til að fá okkur vín með matnum því við erum á “þurru svæði” sem er nokkra fermílur á stærð. Já Ameríka er einstök. Við fórum heim, kláruðum pistilinn og sendum myndirnar til þjálfarans. Þá datt allt í dúnalogn, menn voru uppgefnir og sofnuðu glaðir og sælir tilbúnir að takast á við nýjan dag.
Dagur 12. 26. Maí. Amarilllo í Texas til Oklahoma City. 265 mílur.
Menn voru þreyttir og stirðir í morgunsárið. Það var greinilegt að ferðalagið er aðeins farið að taka á.
Amarillo í Texas á rætur sínar að rekja til nautgriparæktar á svæðinu. Þarna mætast tvö járnbrautarleiðir, þar sem Santa Fe lestarkerfið liggur frá austri til vesturs. Borgin hefur vaxið hratt á seinustu áratugum og dreifir sér nú yfir talsvert landsvæði. Við hófum morgunaksturinn á því að heimsækja “Cadillac ranch”, en það er stutt utan við borgina. Þar hefur 10 kadiljákum verið raðað hálfum ofan í jörðina, með sama halla og Keops pýramídinn. Margir hafa séð mynd af þessu fyrirbæri, en raunveruleikinn er allur annar. Frekar sóðalegt umhverfi og búið að kveikja í vögnunum og mála þá með veggjakroti. Við hittum þarna ungt par frá Illinois á sitthvoru hjólinu, Tracy á Victory frá Polaris og John á HD. Þau voru að koma að austan og sögðu
okkur frá skemmtilegu safni “Devil´s rope”, sem við áttum eftir að heimsækja seinna um daginn. Við ókum út úr Amarillo á hraðbraut 40 í björtu veðri og hitinn um 16ºC. Okkur fannst það frekar svalt, en fljótlega fór hlýnandi. Við ókum um 40 mílur í austur, þar til við komum að risastórum krossi við veginn. Þar hafa kristinn
trúarsamtök reist 190 feta háan kross og gert fallegt svæði með bronsstyttum þar í kring af Jesú Kristi og
píslargöngu hans. Við áðum þar góða stund og fegnum góða lýsingu umsjónarmannsins á tildrögum þessa staðsetningar. Veður fór nú heldur hlýnandi, fór yfir 20ºC og við tókum eldsneyti á farskjótana. Við ókum austur og reyndum nú að þræða sem mest af þjóðleið 66 sem liggur þar um slóðir að mestu meðfram
hraðbrautinni. Það er siður mótorhjólamanna að heilsast þegar þeir mæta, með því að rétta út höndina þegar þeir mætast. Þetta gera þó síst hörðustu Harley töffararnir sem heilsa nú ekki hverjum sem er, sérstaklega ekki Vespudrengjum eins og okkur.
Við áðum í McLean í Texas við gamla þjóðveginn. Sá bær er einn af mörgum sem liggja við gamla þjóðveginn. Þeir erum með u.þ.b. 40 mílna millibili á þessum slóðum, og skýringin er sú að það var dagleið sem hægt var að fara á hestum og kerrum á tímun kúreka. Við heimsóttum “Devil´s rope “ safnið. Þar gengur allt út á gaddavír, tilurð hans, framleiðslu og sögu. Þetta er merkilegt nokk eina safnið sinnar
tegundar í heiminum. Bærinn man fífil sinn fegri, þar eru yfirgefnar bensínstöðvar, veitingastaðir og mótel.
Einn staður hefur þó lifað þetta af og heitir hann Red River Inn. Við áðum þar og fengum okkur hamborgara að hætti Texas búa, stór var hann og bragðmikill. Það var lifandi kúrekatónlist á staðnum, eigandinn, miðaldara kona tók fyrir okkur lagið. Við héldum áfram að fylkismörkum Oklahoma. Hér er landslag slétt, en við fylkismörkin fer að bera meira á bugðóttu grasivöxnu landslagi og smám saman er meira af trjágróðri.
Þeir kalla þetta “roling hills “ heimamenn. Við áðum stutta stund í sólbaði ,og hitinn fór hækkandi upp í allt að 30ºC, og við héldum áfram. Með eftirmiðdagssólina í bakið ókum við aðalega á hraðbrautinni en einnig eldri hluta þjóðleiðar 66, þráðbeinan mjóan steyptan veg sem elti hóla og hæðir gegnum trjágróðurinn. Við komum að útjaðri Oklahoma borgar um sexleytið og fundum okkur gistingu á, ágætis móteli,Harish Patel Comfort Inn. Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem skelltu sér í sturtu, fengu sér steik í gogginn og sofnuðu fyrir framan sjónvarpið.
Dagur 13. 27. Maí. Oklahoma City til Fort Smith í Arkansas, 220 mílur.
Við vöknuðum hvíldir og hressir eftir góðan nætursvefn. Við héldum af stað um níu leytið í björtu og sæmilega hlýju veðri, um 20º á C. Við héldum austur á hraðbraut 40, og yfirgáfum nú gömlu þjóðleið 66 sem við höfðum fylgt um 1300 mílur. Við ókum fyrir sunnan Oklahoma City að vegmótum sem þeir kalla Americas corner, eða bjart N Ameríku. Hér mætast hraðbrautir nr. 40 sem liggur austur vestur og nr. 35 sem liggur norður suður. Það var þægileg umferð á sunnudagsmorgni og þegar austur kom fór að bera meira á gróðri og raki í lofti fór vaxandi. Við ókum fram úr Harley töffara með klút og sólgleraugu sem einan hlífðarfatnað og kvaddi hann okkur með handarsveiflu þegar hann yfirgaf hraðbrautina. Við áðum tvisvar á leiðinni að
fylkismörkum Arkansas og nú fór hiti og raki vaxandi. Á þessu svæði er verndarsvæði Cherokee indíana. Við komum til Fort Smith upp úr hádegi og ákváðum að hafa rólegan eftirmiðdag, enda þurfti að þvo farskjótta og fatnað reiðmanna. Við fundum ágætis gistingu á Days Inn í miðbænum og fórum nú að líta í kringum okkur. Það kom í ljós að á sunnudegi var ekki mikið um að vera í þessum bæ sem þekktastur er fyrir að hafa verið staðsetning gamals virkis sem þáverandi Bandaríkjamenn reistu. Þetta var útstöð áður en komið var að lendum indíána. Þar að auki er s.k. Memorial day helgi, þar sem mánudagurinn er frídagur til heiðurs
hermönnum Bandaríkjamanna. Nota margar fjölskyldur hér tækifærið til að hittast, og ferðast oft langan veg.
Við vorum greinilega ekki á slóðum ferðamanna,því ekkert líf var í bænum annað en nokkrir gamlir rónar sem sníktu af okkur fjórðung úr dal (Quarter). Við kíktum á gamla virkið og minjar því tengdu. Nú vorum við komnir í annað loftslag, nú varð heitt og mjög rakt. Ekki var veitingastað að finna opin, og engan bjór mátti selja svo og pöntuðum við pítsu og Pepsi sem við snæddum út á verönd þar sem við dáðumst að nýþvegnum fákunum tilbúnum að takast á við nýjan spennandi dag á þessu ævitýraferðalagi.
Dagur 14. 28. Maí. Fort Smith í Arkansas til Dumas í Arkansas. 250 mílur.
Það hafði rignt um nóttina. Loftið var hreint og létt þegar við risum úr rekkju. Það var Memorial day í
Bandaríkjumum og við tókum þátt í hátíðarhöldunum. Skrúðganga fór fram hjá mótelinu okkar að
Amerískum hætti, með öllu tilheyrandi, Miss Arkansas, löggubílum, hestum og miklum skrúða. Við fylgdust með en komumst við ekki neitt út af umferð. Korter í ellefu voru götur auðar og við gátum haldið áfram.
Við tókum bensín og héldum nú suður fjarri streitu hraðbrautarinnar og út í sveit. Við tókum veg 71 og síðan 270 til Hot Springs. Á þessari leið fórum við í gegnum Ouachita skógin, mjög fallega leið þar sem vegurinn hlykkjast um skóginn. Það var greinilegt að við vorum komnir sunnar, hér er laufskógur og heitt og rakt.
Falleg leiðin sveigir um hóla og hæðir og malbikið er slétt og kjörið til mótorhjólaaksturs. Þegar leið á daginn fór hitinn yfir 30ºC. Það var sól en í fjarska voru dökk rigningaský. Við áðum í Hot Springs, sem að er gamall heilsubær. Ferðaiðnaðurinn hefur þó farið höndum sínum um hann og þynnt út hið upprunulega markmið heilsulindanna, sem nú er stílað inn á skemmtun og afþreyingu. Við fengum okkar lélegustu og hlutfallslega dýrustu máltíð hingað til í hádegishléinu, og flýttum okkur í burtu. Við ætluðum að ná til Missisippi fljótsins fyrir kvöldhlé, en það náðist ekki. Kirkjum fór fjölgandi, og það var greinilegt að Biblíubeltið nálgaðist. Á
tveimur stöðum fór vegurinn beint í gegnum kirkjugarða. Vegurinn sniglaðist gegnum smáþorp, fólkið varð dekkra á hörund, málið illskynjanlegra, og fátæklegri hús voru nú við veginn. Við erum komnir djúpt inn í Suðurríki Bandaríkjanna.
Við fórum gegnum þorp þar sem við hefðum sennilega haldið áfram ef það hefði sprungið hjá okkur. Það varð þungbúnara í lofti og við ókum niður veg 65 í suður þar sem greinilegt var að hellirignt hafði skömmu áður. Við náðum löngu eftir eðlilegan vinnutíma áhafnarinnar til gistingar í Dumas, þar sem við komust inn
áþokkalegt mótel. Það reka Pakistönsk hjón sem komin eru til að freista gæfunnar hér vestra. Það var löngu
liðið fram yfir eðlilegan hressingartíma og ekkert annað að gera en að setjast úti fyrir framan herbergið og fákanna í kvöldmollunni, og panta pítsu. Hún kom að vörmu spori og gátum við setið út þar til moskítóflugurnar fóru að angar okkur. Á morgun skildi haldið yfir fljótið mikla og í gegnum fylkið Missisippi.
Það var kominn aukinn hugur í menn enda farið að styttast í lokatakmarkið, Orlando í Flórida, en við höfum nú ekið um 3400 mílur eða um 5500 km. Menn lögðust fyrir framan sjónvarpið og sofnuðu.
Dagur 15. 29. Maí. Dumas í Arkansas til Columbus í Missisippi. 240 mílur.
Moskítóflugurnar höfðu unnið heimavinnuna sína um nóttina og menn voru aumir og bólgnir á hinum ýmsustu stöðum. Það var greinilegt að við vorum komnir inn á vatnasvæði Missisippi árinnar. Það var um 24º. hiti og frekar frísklegt loft sem mætti okkur á fyrsta áfanganum. Við fórum veg 65 í suður að brúarstæði við Greenville í Missisppi. Brúarstæði við ána eru fá og þurfa menn oft að leggja lykkju á leið sína. Áin birtist
óhemjubreið í gegnum skógarrjóðrið við árbakkann. Þegar nær dró varð smám saman allt umflotið vatni og aðkeyrslan að brúnni er á stöplum langa vegu beggja vegna. Við fórum yfir fljótið, það var stórfenglegt, mjög
breitt og vall áin fram að miklum þunga. Við ókum inn í Greenville, nú var það svart maður ! Hér var ekki hvítan mann að sjá, og þegar við tókum eldsneyti, birtist okkur fátækt og iðjuleysi í sinni verstu mynd. Fólk hékk á götuhornum í sólinni og hitanum og virtist ekki vera að bíða eftir neinu. Við spurðum til vega, en enginn virtist vita hvar miðbærinn var, og enn síður hvaða veg skildi tekið í austurátt. Við flýttum okkur áfram veg 82, umvafin vatnsósa ekrum, til Greenwood og tókum þar hádegishlé. Þetta er höfuðborg bómullariðnaðarins.
Málið sem fólkið talar er illskiljanlegt, en allir tóku okkur vel. Einn maður sá IS merkið á hjólunum okkar og sagði að það var svöl spá á Íslandi núna, og við værum heppnir því nú væri svalt í veðri hér. Hitinn var 29º
og fór hækkandi þegar líða tók á daginn. Við ókum áfram veg 82 umvafin laufskógi, gegnum campusinn á Missisippi State University og til Columbus þar sem við ákváðum að gista. Á þessari leið fór hitinn hækkandi,
landslagið varð hæðaóttara og hvítum andlitum fór fjölgandi. Vegurinn var lélegur síðasta spottann vegna vegaframkvæmda, og svo var fjarskiptabúnaðurinn farinn að gefa sig, þannig að samskipti reiðmanna urðu
stopulli. Það kom ekki að sök, við fengum góða gistingu á Comfort Inn og sturtan var sú besta og kraftmesta sem við höfðum prófað lengi. Eftirmiðdagssólin er heit og sterk og tilvalið er að sitja undir sólhlíf og fá sér síðdegishressingu. Félagar ræddu málin og höfðu sína venjulegu “díbrífingu”. Hópurinn var farinn að slípast saman og sögurnar sem engum öðrum verða sagðar runnu nú af vörum fram.
Við höfum átt í miklum vandræðum með Internetsamband á leiðinni, þannig að beita hefur þurft brögðum og krókaleiðum til að komast í samband við umheiminn, en oftast hefur það tekist Það er alltaf gaman að skoða tölvupóstinn frá þeim fjölmörgu sem senda okkur kveðjur og fyrirspurnir Við skelltum okkur í ódýrt kínverskt
buffet og svo í háttinn.
Dagur 16. 30. Maí. Columbus í Missisippi til Scotsboro í Alabama.
Engin dagur er öðrum líkur, það átti eftir að sannast þennan daginn. Við komust af stað snemma, en urðum að fara í viðgerðir á fjarskiptabúnaðinum sem allur var farinn að liðast í sundur á viðkvæmum stöðum í snúrukerfinu. Við keyptum gasdrifinn lóðbolta og tin í næstu búð og breyttum ruslatunnu fyrir utan ”mollið” í rafmagnsverkstæði.
Að viðgerðum loknum héldum við af stað, og nú var sambandið betra milli reiðmanna. Það var bjart veður og hitinn var um 25 gráður og hækkaði heldur þegar leið á daginn. Við héldum veg 82 í austur, síðan veg 17 í norður og inn á veg 69 sem við áttum eftir að aka mestan hluta dagsins gegnum fallegar sveitir í dæmigerðu Suðurríkjaumhverfi. Við fórum í gegnum marga smábæi og tókum hádegishléið á The Kooler í Jasper. Við fengum þar dæmigerðan heimatilbúinn mat og varð vel af. Sveitirnar sem við tóku voru mjög fallegar.
Vegurinn liðaðist um þykka laufskóga, og stórir fallegir garðar með fallegum húsum voru á hverju strái. Eftir matinn sótti að reiðmönnum þreyta og því var ekki annað að gera en að kasta sér til hvílu á næstu grasflöt sem fannst. Fyrir valinu varð vel slegin grasflöt á Bremen Misionary Baptist church, var það góð hvíld og gátu menn náð að dotta aðeins í eftirmiðdagssólinni. Hér á slóðum eru efni manna greinilega meiri en þar sem við höfðum verið daginn áður, nokkuð fyrir vestan. Einu höfum við þó tekið eftir, að hér er mun minna af mótorhjólum og gátu heimamenn ekki útskýrt fyrir okkur af hverju það gæti stafað. Í öllu Alabamafylki höfum við kannski rekist á hjól sem teljandi væru á fingrum annarar handar. Við komum að lokum til bæjarins Guntersville og áðum þar við Tennesse ánna þar sem hún hefur verið stífluð. Þar hefur myndast stórt stöðuvatn umvafið þykkum skógi líkt og stundum sést bregða fyrir á Norðurlöndum. Þar var fólk að setja út hraðbáta í eftirmiðdagssólinni. Tókum við spjall við heimamenn sem vísuðu okkur veginn áfram. Ekið var veg nr. 79 meðfram vatninu mjög fallega leið sem lág við ströndina. Við fundum gistingu í Scotsboro á Scottish Inn. Það mótel rekur vinalegur Indverji sem hefur nú búið 14 ár hér vestra. Við gátum lagt fákunum fyrir utan gluggann vegna væntanlegrar rigningar, og hentum okkur þreyttir í rúmin. Nágrannar okkar eru
Mexíkanskir verkamenn sem litla ensku tala. Nú var ferðaþreytan farin að segja til sín og dröttuðust menn á næstu pítseríu og reyndu að vera hressir, en rúmið var vel þegið þegar heim var komið og Óli Lokbrá tók fljótt yfirhöndina.
Dagur 17. 31. Maí. Scotsboro í Alabama til Athens í Georgia 240 mílur.
Það hellirigndi um nóttina. Kafteinninn hrökk upp við vondan draum, tveir Harley töffarar voru að fara fram úr honum sitt hvoru megin. Þegar hann náði áttum kom í ljós að herbergisfélagar hans voru við stífar aftankokssöngæfingar í fasta svefni. Áhafnarmeðlimir voru ræstir með einkunnarorðum ferðarinnar – “drífa
sig ! “ Þá var eiginlega komið að öðrum einkunnarorðum ferðalagsins, en það er “enginn dagur er öðrum líkur”. Það átti eftir að sannast enn einu sinni þennan dag. Við ókum af stað í þungbúnu veðri og regndropar féllu á hlífðarglerin. Við fórum á brú yfir Tennesse ánna og ókum hlykkjóttan veg 40 í austur gegnum hæðótt
fjöllin. Það var þykkur laufskógur sem minnti okkur dálítið á umhverfið í norðurhluta Kaliforníu sem við höfðum farið um hálfum mánuði áður. Það var þungbúið í fjöllum og hitinn rétt skreið yfir 20ºC. Við áðum við fylkismörk Georgiu og fengum okkur orkuríkan “brunch” hjá Dessie, fullorðinni konu sem rekur “Kontry Chef”
,(– já með K-i ),veitingastaðinn í bænum Mentone. Sterkara kaffi höfum við ekki fengið á ferð okkar, en víðast hvar má líkja því við tevatn.
Eftir nokkrar mílur fórum við yfir fylkismörkin og nú inn í nýtt tímabelti. Við tókum veg 20 í austur gengum Rome og síðan út á hraðbraut 75 inn til Atlanta. Ferðinni var heitið að hitta Pat Ebbs, hjá Ebbs Aviation, en
Kapteinninn hafði hitt hann á Grænlandi og keypt af honum flugvél árið 1990. Ebbs þessi stýrði leiðangri
Bandaríkjamanna sem björguðu P-38 flugvél af Grænlandsjökli. Þegar nær dró Atlantaborg þá varð umferðin þyngri, og hraðari. Okkur leið eins og mýflugum í gæsahóp í oddaflugi á sex akreina hraðbrautinni. Hitinn fór hækkandi og steig í 30ºC. Eftir smá króka komust við að Peachtree flugvellinum þar sem flugmiðstöð Ebbs er. Þar urðu fagnaðarfundir og leiddi Ebbs okkur um flugskýli sín og sýndi flugvélakost. Við settumst síðan niður með félögum hans úr Grænlandsleiðangrinum,skoðuðum myndir og hlýddum á frásögn þeirra á
flugvallarkránni úti við “rampinn” í sól og hita. Tíminn leið allt of hratt. Við vorum boðnir í kvöldmat hjá Guðrúnu Arnardóttur frjálsíþróttakonu, frænku Guðmundar Bjarnasonar í Athens, um 50 mílur austan við Atlanta. Við ókum greitt austur eftir hraðbraut 85 og lentum í eftirmiðdagsumferðarteppu í talverðri hitasvækju. Það leystist úr þessu og þá tóku við miklar æfingar við að finna staðinn. Þar kom enn í ljós hversu mikilvægt er að hafa góðan fjarskiptabúnað. Við fundum loksins Benedict Court og var tekið vel á móti okkur, með grilluðum kjúkling og meðlæti að hætti Suðuríkjamanna sem eiginmaðurinn hafði matreitt.
Við lágum útslegnir í mjúkum sófunum,ræddum málin, og fengum að kíkja netið. Það kom í ljós að meira en 1800 manns höfðu skoðað heimasíðuna okkar, okkur til mikillar ánægju. Það er greinilegt að margir upplifa þessa ferð með okkur, og er það vel. Það var komið myrkur þegar við ókum gegnum bæinn að Holliday Inn
hótelinu í miðbæ Athens, þar sem við gistum. Skömmu síðar brást á með slagveðursrigningu ásamt þrumum og eldingum sem lýstu upp herbergið eftir að ljósin voru slökkt. Var gott að vera kominn undir sæng, og datt manni helst í hug slæm haustveður á Íslandi þegar rigningin lemur gluggann og Kári ýlfrar við húsvegginn.
Dagur 18. 1. Júní. Athens í Georgiu til Fernandina Beach í Flórída 340 mílur.
Það hellirigndi alla nóttina og það rigndi enn þegar við vöknuðum. Veðurspáin var ekki björt fyrir daginn en það var hlýtt í veðri, um 18ºC til að byrja með en fór upp í 25ºC. þegar leið daginn. Við ákváðum að koma okkur af stað þrátt fyrir dembuna. Við tókum veg 78 í austur og síðan veg 1 suður, en það er gamli þjóðvegurinn milli fylkja. Það var þungbúið veður alla leiðina, fyrst hellirigning í 25 mílur og síðan blautt
næstu 35. Síðan lentum við í öðrum skúr seinnipartinn. Vegurinn liggur gegnum skóga og síðan um marga smábæi. Þetta gaf okkur tíma til að virða fyrir okkur mannlífið sem var margbreytilegt. Í sumum bæjum voru innfæddir nær eingöngu svartir en í öðrum hvítir. Húsakostur var misjafn og sumstaðar ríkmannlegur en
annarstaðar mjög hrörlegur. Það lífgaði upp á daginn að við lentum í frábærum hádegisverð, hlaðborði á Ryans veitingahúsinu í Thompson.
Þar fengum við frábæran Suðuríkjamat, eins og okkur lysti. Þetta lífgaði upp á annars blautan og tilbreytingalausan dag. Það var góð tilfinning að komast yfir fylkismörk Flórída. Enn frekar lyftist á okkur brúnin þegar við ókum inn á veg A1A inn að ströndinni fyrir norðan Jacksonville. Nú var orðið þurrt, og ilmur Karabíska hafsins fannst nú í loftinu. Við renndum inn í bæinn Fernandina Beach og sáum Atlantshafið. Við stóðum af fákunum og fögnuðum þeim áfanga að hafa farið yfir heila heimsálfu á mótorhjóli. Við fundum ágætis gistingu en frekar dýra á Best Western, en það var þó ódýrara en víðast á þessu svæði. Við vorum í fallegum líflegum strandbæ, og það var líflegt mannlíf. Í ljósaskiptunum gengum við niður að ströndinni og
snertum Atlantshafið, líkt og við höfðum gert við Kyrrahafið þegar við kvöddum klettana við Oregon strönd rúmum hálfum mánuði áður. Tilfinningin var einstök, við höfðum náð markmiði ferðarinnar. Að sjálfsögðu var fagnað á tilheyrandi hátt, og snæddum við sjávarétti að hætti heimanna um kvöldið. Sögur og minningar úr
ferðinni voru okkur ofarlega í huga og entust okkur langt fram á nótt í skemmtilegu spjalli. Nú var stutt heim til Orlando og ákveðið að taka síðasta daginn rólega, njóta strandvegarins og mannlífsins á lokasprettinum.
Síðasti dagur. 2. Júní. Fernandina Beach í Flórída til Orlando í Flórída. 220 mílur.
Síðasti dagur ferðarinnar var runninn upp og það var hugur í mönnum að komast á áfangastað. Við ókum veg A1A niður með ströndinni og kræktum fyrir Jacksonville flóan yfir mikla brú. Það var sól og til að byrja með um 25ºC hiti en fór upp í um 30ºC þegar á daginn leið. Það voru þung ský í fjarska. Við áðum í St.Augustine, sem er bær sem á rætur sínar að rekja til tíma Spánverja, sem voru fyrstir Evrópubúa til að
setjast að á þessum slóðum. Þar er mikið gamalt virki sem var gaman að skoða. Síðan lág leiðin niður til Daytona Beach og á leiðinni mættum við fjölda mótorhjólamanna og kvenna, aðalega á HD, á laugardagsrúntinum. Áætlunin gerði ráð fyrir að við yrðum kl 1600 í Orlando og biðu vinir og ættingjar óþreyjufullir eftir okkur þar.
Við náðum að skjótast í myndatöku á ströndinni og brunuðum síðan suður. Það hafði hellirignt skömmu áður og allt á floti, og á um 300 m. kafla á leiðinni yfir brú fengum við á okkur volga skúra en blotnuðum ekkert að ráði. Það var mikil umferð niður A1A og við fórum inn á veg 1 suður af Daytona. Tíminn var að hlaupa frá okkur og við tókum því smá sprett á harðbraut 95 í suður og komust loks inn á veg 50 inn í Orlando. Það voru langar 35 mílur í mikilli umferð og hita þegar við komum inn í borgina. Við sveigðum inn í Ventura Country Club þar sem við gistum og tóku litlu strákarnir á móti okkur. Þeir fengu stoltir að sitja á fákunum síðasta spottann og finnast þeir hafa farið hálfa leið um Ameríku með okkur. Það var fjöldi manns sem beið okkar á Santa Monica Drive, og fagnaði ferðalöngunum. Við vorum komnir í mark heilir á húfi, og klukkan var um 16.30 á staðartíma. Upphófust mikil veisluhöld skálaræður og gleði sem stóð langt fram á nótt.
Uppgjör.
Æskudraumurinn hefur verið uppfylltur ! Tilfinningin ?, Ja hún er engu lík, stórkostlegt er ekki rétta lýsingarorðið, það nær ekki réttri breidd og dýpt. Þá erum við loksins komnir á áfangastað heilu á höldnu og höfum ferðast 4689 mílur eða 7545 kílómetra yfir þver Bandaríki N Ameríku. Við höfum farið í gegnum 12
fylki á 19 dögum. Hjólin eru kominn inn í bílskúr og hvíla næstu ferðar. Við gerðum það sem marga dreymir um að fara þvert yfir Ameríku, heila heimsálfu á mótorhjóli og höfum farið yfir þrjú timabelti. Okkur tókst það sem við héldum að við myndum aldrei ná og hvað þá að leggja út í .Það er þrekvirki andlega og líkamlega að takast á við heila heimsálfu, ekki það að við séum að miklast af því, það er einfaldlega
staðreynd. Það er ekki hægt að lýsa því hvernig er að ferðast um á mótorhjóli þvert yfir Bandaríki Norður Ameríku, upplifa breytingar á veðri, landslagi, gróðri, lykt, hitastigi, rakastigi, fólki, litarhætti, trúarbrögðum, menningu, arkitektúr, efnahag, viðmóti, og svo mætti lengi telja. Þetta er ólýsanlegt og menn verða bara að upplifa það sjálfir. Þetta er þolraun, sem tekur á líkama og sál. Við erum fegnir því að allt gekk vel og erum þakklátir þeim sem næst okkur standa fyrir að veita okkur tækifæri og sýna skilning á að því að við urðum að takast á við þennan æskudraum. Við erum líka þakklátir okkur sjálfum fyrir að leyfa okkur að láta hann rætast. Það er heilsusamalegt að láta drauma sína rætast. Við fyllumst nú einhverri innri ró sem erfitt er að lýsa, líklega hafa landkönnuðir allra tíma sótt í sama brunn og við.
Hjólin reyndust frábærlega vel, smávægileg óhöpp en engar bilanir. Það er töluverður munur á þeim Honda Gold Wing er flatur 6 sýl. 1500 cc, Kawasaki Voyager er með 4 sýl þverstæðri línuvél 1200 cc. Honda Pacific Coast er 2 sýl V-2 800 cc. Öll eru hjólin vatnskæld 5 gíra og með drifskafti. Stærri hjólin eru betri á löngu ferðalagi, en minna hjólið er snarara í snúningum og léttara í þröngum aðstæðum. Það er svipuð vinnsla í þeim, þó mest í Gold Wing hjólinu en það eyðir um þriðjungi meira en Pacific Coast hjólið. Þannig fórum við sjaldan lengra en 150 mílur í einu án þess að taka eldsneyti. Skermar eru nauðsynlegir á svo löngu ferðalagi.
Við vorum með tiltölulega lítið af farangri, og gátum þvegið af okkur á leiðinni.
Ómetanlegt hefur verið að vera í Internetsambandi með fartölvu. Það hafa verið erfiðleikar við að tengjast á sumum stöðum, og sumstaðar eru símkerfi einfaldlega ekki útbúin fyrir slíkt. Það er greinilegt að Bandríkjamenn standa okkur litlu eyþjóðinni í norðri miklu aftar hvað þetta varðar. Skildi engan undra, sumir sem við hittum höfðu aldrei komið út fyrir fylkið sitt og héldu jafnvel að það væri hægt að aka á bíl til Íslands. Jú, Ísland var þar sem Keiko á heima, og það var einhverstaðar út af New Jersey.
Það reyndist auðvelt að fá gistingu, og kom sjaldan fyrir að allt væri fullt, en við leituðum að hagstæðum kjörum alstaðar. Meðalverð á gistingu fyrir þrjá í herbergi var bilinu 50-70 dollara. Það kom fyrir að við pöntuðum daginn áður, en það var ekki nauðsynlegt. Það var gnægð af veitingastöðum allstaðar, góður fjölbreytur matur á hagstæðu verði. Ferðamannatíminn var ekki hafinn þegar við vorum á austurströndinni, en var að komast í gang nú í ferðalok. Við reyndum að fara af stað ekki seinna en 9 á morgnanna, taka góðan sprett fram yfir hádegi og tókum þá hlé, og reyndum að koma okkur í gistingu ekki mikið seinna en um 5 leytið á eftirmiðdögum. Eftir rúmlega 200 mílur er það fínasta farið úr knöpunum sérstaklega af því að við völdum frekar krókótta hliðarvegi, sem voru krefjandi. Akstur á hraðbrautum er ekki spennandi og jafnframt hættulegt viðfangsefni. Mælum við eindregið með því að sem minnst sé gert af því.
GSM farsímasamband sem við erum áskrifendur að og Landsíminn hefur samið um í Bandaríkjunum hefur verið ákaflega takmarkað. Ekki hefur verið hægt að reiða sig á það á ferðalaginu eins og vænst var til , sérstaklega ekki fyrir þá sem þurfa að sinna viðskiptum heima á Íslandi, þar sem tímamunur þrengir viðskiptadaginn niður í örfáa klukkutíma. Sífelld hlaup í símasjálfsala með símakortum og skiptimynt eru
þreytandi til lengdar, en ódýrara og við létum okkur hafa það.
Heilræði.
Nú er kominn tími fyrir heilræði fyrir alla riddara götunnar. Þau verða aldrei of oft sögð.
Aktu alltaf miðað við aðstæður, bleyta er stórhættuleg og olíublettir geta leynst víða. Það verður að vera hægt að stöðva hjólið á því svæði sem frjálst er framundan. Vertu í varnarstöðu – aktu alltaf eins og verið sé að reyna að aka þig niður. Þú verður að horfa í augun á öllum sem bíða á gatnamótum og hliðarvegum og vera viss um að þeir sjái þig. Treystu ekki á rétt þinn í umferðinni. Það er betra að gefa eftir en að
þverskallst og liggja í götunni á eftir. Aktu með ljós, helst háa geisla, vertu áberandi klædd(ur )og sparaðu
ekki flautuna til að láta vita af þér. Þegar sól er lágt á lofti getur þú auðveldlega blindast, og það geta aðrir í umferðinni líka gert. Hjálmur og hlífðarfatnaður er skilyrði. Góð hvíld er nauðsynleg. Þreytan er mikill óvinur, deyfir athygli og seinkar viðbrögðum. Hollt fæði er mikilvægt, skyndibitafæði eingöngu mjög óæskilegt.
Áfengi, þar með talinn bjór er bannvara þar til fákum hefur verið lagt og lyklar komnir í vasa. Lítið magn slævir einbeitingu og viðbragðstíma.
Árangur næst með góðum undirbúningi, aga og skiplagi. Við lágum heilan vetur yfir kortum og ferðabókum.
Við völdum útbúnað af kostgæfni. Þá lásum við reynslusögur annarra ferðalanga af svipuðum slóðum á netinu. Það þarf að “drífa sig” af stað á morgnanna og halda skipulagi. Margt er hægt að staldra við og skoða en það verður að velja. Án góðs liðsanda og samheldni er svona ferðalag óhugsandi.
Sú setning sem kannski lýsir þessu ferðalagi best er
“ ….að engin dagur er öðrum líkum “ , og kannski önnur sem einn Bandaríkjamaður í Orlando, sem við rákumst á sagði “ … you have seen the real world boys – welcome to the makebelieve world”