Ólafur Th. Ólafsson, framhaldsskólakennari á Selfossi, hefur kynnt sér sögu JAWAmótorhjólanna tékknesku og á sjálfur tvo slíka gripi. Ólafur fjallar hér um sögu JAWA.
ÁRIÐ 1929 hóf Tékkinn Frantisek Janecek að smíða mótorhjól. Fyrstu hjólin voru með eins cylindra, 500 cm³ fjórgengis mótor með toppventlum. Janecek hafði samvinnu við þýsku mótorhjólaverksmiðjurnar Wanderer og kom fyrrnefndur mótor frá þeirri verksmiðju. Þar var líka komið nafnið á framleiðsluna; JA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Janeceks og WA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Wanderer verksmiðjunnar – JAWA!
Næstu árin var þetta hjól framleitt og einnig hjól með 750 cm³ mótor, ætlað fyrir hliðarvagna. Fljótlega upp úr 1930 hóf Janecek að gera tilraunir með hjól með eins cylindra tvígengismótor. Hann hóf samstarf við Bretann G.W. Patchett, frægan mótorhjólahönnuð og mótorcrosskappa, sem kom til Tékkóslóvakíu með 175 cm³ tvígengismótor. Frantisek Janecek hóf að framleiða hjól með þessum mótor og urðu þau fljótlega langvinsælustu hjólin í Tékkóslóvakíu. Um þetta leyti hætti líka JAWA-verksmiðjan að framleiða stóru hjólin; 500 og 750 cm³. Framleiddi þó í nokkur ár á eftir hjól með 350 cm³ tvígengisvél og síðan fjórgengisvél.
Einnig framleiddi verksmiðjan létt hjól, JAWA Robot, með 98 cm³ eins cylinders tvígengismótor. Á þessu hjóli voru mótorblokkin og gírkassinn sambyggð, en það var algjör nýlunda á þessum tíma, en er alþekkt núna. Hámarkshraði þessa hjóls var 65 km/klst og það vó ekki nema 49 kíló.
JAWA Pérák
Öll mótorhjól frá JAWA-verksmiðjunni voru á þessum tíma með sama litnum; kirsuberjarauð og var liturinn oft bara kallaður Jawarautt. Framleiðsla JAWA stöðvaðist í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.
Þjóðverjar höfðu nýverið ráðist inn í Tékkóslóvakíu og verksmiðjan var látin framleiða flugvélamótora og ýmis farartæki fyrir þýska herinn. Nýjustu JAWA-frumgerðunum hafði verið komið undan rétt áður en nasistarnir komu og allt til ársins 1944 voru gerðar í skúmaskotum, (m.a. í hlöðum út til sveita), tilraunir með ný hjól og aðallega það hjól sem strax eftir stríðið varð einhver þekktasta framleiðsla verksmiðjunnar: JAWA Pérák, hjól með eins cylinders 250 cm³ tvígengismótor, stimpilþvermál 65 mm, slaglengd 75 mm. Mótorinn og gírkassinn, fjögurra gíra voru í einni blokk. Nýlunda þótti sjálfvirk kúpling. Handkúplingin var aðeins notuð þegar ekið var af stað; ekki þurfti að kúpla þegar skipt var milli gíra. Útbúnaður þessi hefur verið á JAWA-mótorhjólunum allt til þessa dags.
Árið 1948 hófst líka framleiðsla á hjólum sem voru með sömu grind og Pérák-hjólin, en með tveggja cylindra vél. Sá mótor hefur sífellt verið endurbættur og á undirritaður einmitt hjól með nýjustu gerð hans. Nauðsynlegt var á þessum stríðstímum að geta prufukeyrt mótorana. Hjólin voru máluð í stríðslitum og límd á þau þýsk DKW- eða BMWmerki. Ótrúlegt var hvað Tékkunum tókst að halda þessum tilraunum leyndum. Þó náðu nasistarnir einum aðalmanni JAWA og skutu hann að loknum árangurslausum yfirheyrslum. Að stríðinu loknu var fátt
um ný mótorhjól í Evrópu og strax árið 1946 komu fyrstu JAWA 250 Pérák-hjólin á markaðinn og urðu strax mjög vinsæl.
Um 1948 voru JAWA-verksmiðjurnar – eins og nærri má geta þjóðnýttar – og JAWA-mótorhjól urðu ein af mikilvægustu útflutningsvörum Tékkóslóvakíu. Þáverandi ráðamenn þjóðarinnar höfðu vit á að hrófla ekki við verksmiðjunum. Einnig voru gerðar tilraunir með fjórgengismótora og framleitt 500 cm³ hjól frá 1952 til 1958. Svo voru líka á markaðinum 125 og 175 cm³ hjól. Til að fara fljótt yfir sögu er rétt að benda á heimasíðuna www.jawamania.cz , en þar má sjá mjög gott yfirlit yfir framleiðslu JAWA mótorhjólanna allt til þessa dags. Árum saman framleiddu JAWA-verksmiðjurnar líka hjól með nafninu CZ. Á meðal þeirra voru víðfræg Endurohjól og krossarar og margir sigrar unnir á þeim tækjum. Við þær breytingar sem urðu þegar austurblokkin hrundi skapaðist talsverð óvissa varðandi JAWAverksmiðjurnar – JAWA Moto. Samkvæmt einum ágætum JAWA-manni breskum, var ekki vitað á tímabili, hver ætti verksmiðjurnar! Þær eru – eins og lengst af hefur verið – í borginni Tynec nad Sásavou, 35 km fyrir sunnan Prag. Verksmiðjan framleiðir í dag margar gerðir mótorhjóla, léttra hjóla og skellinaðra. Má þar nefna fimm gerðir af hjólum með 350 cm³ vél, tvær 50 cm³, önnur þeirra fjórgengis, eina 100 cm³ fjórgengis og tvær gerðir með 125 cm³ einnig fjórgengis. Nýjasta framleiðslan er hjól með 650 cm³ fjórgengis Rotax Bombardier-mótor. Verksmiðjan, JAWA Moto í Tynec nad Sásavou er um þessar mundir að fullkomna heimasíðu sína og bíður JAWA
áhugafólk spennt eftir henni.
JAWA-umboð á Íslandi
Samkeppnin við japönsku hjólin hefur verið hörð, en forráðamenn JAWA Moto eru bjartsýnir og tékkneskur iðnaður var alla tíð víðfrægur – þegar hann fékk að blómsra í eðlilegu umhverfi. Má í því sambandi minna á uppgang Skoda-bílanna, sem ekki er síður að þakka tékkneskum tæknimönnum en Volkswagen. Sagt er að starfsmaður hjá Skoda hafi sagt, þegar Volkswagen tok við rekstrinum: „Loksins fengum við almennilegt efni til að vinna úr.“ Eru ekki einmitt tékkneskar Skoda-túrbínur í einhverjum raforkuverum hér á landi? Þess má geta að í Tékklandi
er líka önnur JAWA verksmiðja – JAWA Divisov. Sú framleiðir eingöngu speed-hjól. Í öllum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og mörgum S-Ameríkulöndum (undirritaður fékk netpóst frá einum
JAWA-manni í Brasilíu um daginn!) eru JAWA-klúbbar. Ef til vill er full ástæða til að stofna klúbb hér á landi. Fræðast má um allt þetta nánar með því einfaldlega að slá inn á leitarvef orðin JAWAmotorcycles. Síðast þegar ég prófaði þetta, komu upp 4.980 staðir til að skoða. Nýlega varð til umboð fyrir JAWA á Íslandi. Umboðsmaður er Jens R Kane, Grenibyggð 23, 270 Mosfellsbæ. Þjónustuverkstæði er SPINDILL á Ártúnshöfða. Umboðsmaður fékk nýlega til landsins tvö kynningarhjól; Endurohjól 350 cm³ og skellinöðru 50 cm³. Glæsilegir gripir! Þau eru til sýnis hjá Bílamiðstöðinni á Ártúnshöfða. Ég undirritaður á tvö JAWA-hjól. Annars vegar er það JAWA 250 Pérák, 1948 módel, (JAWA-rautt !), og hins vegar JAWA 350 Chopper, 2001 módel. Tékkar framleiða víðfræga hliðarvagna fyrir mótorhjól; VELOREX. Freistandi er að fá sér einn slíkan við Chopperinn! Ég setti í gamla hjólið elektróníska kveikju, en hana fékk ég frá fyrirtæki í Berlín, MZ-BVertriebs GmbH – www.mz-b.de , en það sérhæfir sig í varahlutum í mótorhjól, sérstaklega í rafkerfið. Þar fást ótrúlegustu hlutir! Undirritaður er félagi í JAWA &
CZ Owners Club of Great Britain and Eire og hefur oft sótt þangað góð ráð.
Klúbbur sá heldur í júní á næsta ári upp á 50 ára afmælið. Læt ég nú þessari lauslegu samantekt lokið að
sinni, en þeim, sem áhuga hafa á að kynna sér málið betur, er velkomið að hafa samband við undirritaðan á netfangið oligyda@simnet.is.
Grein Morgunblaðið 2003