FÉLAGARNIR í útskurðarfélaginu Einstakir láta ekki deigan síga því nú eru þeir að leggja lokahönd á samsetningu á mótorhjóli sem þeir hafa skorið út í tré og ætla að sýna á List- og handverkshátíðinni
2007 við Hrafnagilsskóla í Eyjafirði um næstu helgi og á Ljósanótt í Reykjanesbæ í byrjun næsta mánaðar. Hjólið sem er skorið út í 17 mismunandi harðviðartegundir er eftirlíking af þýska hermannamótorhjólinu Ural sem Þjóðverjar notuðu í seinni heimsstyrjöldinni.

Nálægt þrjú þúsund vinnustundir hafa farið í verkið Þeir félagar Gunnar Örn Sigurðsson, Þórarinn Sigvaldason, Jón Adolf Steinólfsson, Stefán Ívar Ívarsson og Örvar Franz Ægisson ásamt Steinþóri Stefánssyni,
sem vantar á myndina, hafa eytt ófáum stundum við gerð hjólsins en hver og einn fékk með sér smáhluti í heimavinnu og síðan var komið saman á vinnustofu hópsins þar sem samsetningin fór fram. Byrjað var á
verkinu fyrir tæpu ári en unnið með hléum í frístundum og lætur nærri að 3 þúsund tímar séu þegar farnir í verkið sem ekki er mælt í peningum heldur ánægju. Þeir urðu þekktir af svipuðu uppátæki á síðasta ári en þá sýndu þeir risagítar af Fendergerð fyrir norðan sem Jón Ólafsson tónlistarmaður keypti af þeim og gaf til Rokksafnsins í Reykjanesbæ á Ljósanótt síðastliðið haust. Gítarar eru þeim ofarlega í huga því hægra megin má sjá alvörugítara sem Gunnar og Jón Adolf hafa smíðað.

Mótorhjólið verður til sölu á sýningunni fyrir norðan auk þess sem efnt verður til verðlaunagetraunar þar sem spurt verður um heiti viðartegundanna í hjólinu.

Morgunblaðið 9. ÁGÚST 2007
Eftir Kristin Benediktsson

Skáru út mótorhjól úr tré

„Við vildum gera eitthvað sem sýndi að við værum mestir og bestir. Og svo erum við náttúrulega allir léttruglaðir,“ segir Jón Adolf Steinólfsson, einn af sexmenningunum sem mynda tréskurðarhópinn Einstakir. Í tilefni af hátíðinni Uppskera og handverk sem hefst í Eyjafirði í dag hefur hópurinn skorið út mótorhjól í fullri stærð og segjast þeir félagar þar með hafa náð að toppa sýningargrip sinn frá því á hátíðinni í fyrra. Þá smíðuðu þeir fjögurra metra háa eftirlíkingu af Telecaster rafmagnsgítar, sem nú er til sýnis á Poppminjasafninu í Reykjanesbæ.

„Okkur var ljóst að við yrðum að gera eitthvað ennþá flottara í ár til að geta staðið undir nafni. Ég á gamalt Ural-hjól með hliðarvagni líkt og Þjóðverjar notuðu í síðari heimsstyrjöldinni og fékk þá hugmynd að gera skera út eftirlíkingu af því. Við hófumst handa í október á síðasta ári og þetta hefur því verið gríðarlega vinna,“ segir Jón Adolf, en alls áætlar hann að yfir þrjú þúsund vinnustundir hafi farið í útskurðinn. „Við sáum fljótlega að hliðarvagninn yrði allt of mikið mál svo að við slepptum honum. Þetta var mjög tæpt á tímabili en síðasta mánuð höfum við verið að vinna í hjólinu á hverjum degi, frá kl. 7 á morgnana til kl. 22 á kvöldin. Og það hafðist,“ segir Jón Adolf, en hjólið var fullsmíðað á þriðjudag og verður sent til Eyjafjarðar í dag. Og þeir félagar eru þegar farnir að huga að því hvernig þeir geti toppað útskorna hjólið á næsta ári. „Það hefur verið rætt um að skera út bíl í fullri stærð en svo er einnig komin sú hugmynd að gera risastóran hamborgara og franskar. Það kemur allt í ljós síðar en það verður allavega eitthvað nógu stórt og magnað,“ sagði Jón Adolf og glotti.

Handverkshátíðin verður sett á morgun í 15. sinn og í tilkynningu segir að bryddað verði upp á ýmsum nýjungum í ár. Fjölmargir fyrirlestrar verða í boði fyrir gesti og gangandi, auk tónleika, tískusýninga og ýmissa listsýninga.

 visir.is 10. ágúst 2007

(p.s ) Hjólið er staðsett í dag á Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri.(2024)