Karolis Kosys, vagnstjóri hjá Strætó, varð fyrir líkamsárás í Kenía og var yfirheyrður í Ísrael á leið sinni frá Litáen til Suður-Afríku á mótorhjóli nefndu eftir dreka. Hann
sýnir myndir frá Ódysseifs- för sinni í biðstofu Strætó í Mjóddinni.

Karolis Kosys, 35 ára litáískur vagnstjóri hjá Strætó, ólst upp í sjávarþorpinu Nida á gullfallegri strandlengju á milli Eystrasalts og Kúróníu-lónsins, sex kílómetrum frá landamærum Rússlands. Á þessum vinsæla sumardvalarstað má finna hvítar strendur, krúttleg timburhús og hinn dularfulla „dansandi skóg“ þar sem furutré vaxa í hringi og spírala.
Ferðasaga Karolis hefst í þessu sjávarþorpi en þaðan lagði hann af stað í átján mánaða leiðangur um 23
lönd, 37.894 kílómetra leið til Höfðaborgar til að hitta Litvaka, stærsta samfélag Litáa af gyðingaættum
sem fluttust til Suður-Afríku í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Farartæki Karolis var mótorhjól að nafni
Naglis, nefnt eftir dreka í kúrónískum þjóðsögum sem gerði tilraun til að eyðileggja téða strandlengju.

Við erum stödd á biðstofu Strætó í Mjóddinni þar sem má finna ljósmyndir úr Ódysseifsför Karolis. Á einni myndinni á sýningunni má sjá ferðalanginn hvíla sig í litlu herbergi á landamærum Súdans og Eþíópíu en hann lýsir í samtali við blaðamann hvernig landamæraeftirlitið slaknaði eftir því sem hann ferðaðist sunnar um Afríkuálfuna.

Sex klukkutíma yfirheyrsla

Súdan er uppáhaldslandið hans; íbúar landsins sýndu honum mikla gestrisni eftir mikið álag á landamærum Ísraels, Egyptalands og Jórdaníu. Ferðin hafði gengið eins og í sögu frá Litáen til Búlgaríu en þegar komið var til Tyrklands fóru hlutirnir að flækjast enda gat hann ekki ekið í gegnum hið stríðshrjáða Sýrland. Fékk hann þá far með f lutningaskipi sem var að flytja þrettán trukka til Ísraels með varning handa Sýrlendingum. „Skipið var víst ekki á skrá. Þegar Ísraelarnir kíktu á ferðaskjölin mín og sáu að ég væri á leið til Súdan var ég færður inn í yfirheyrsluherbergi.“ Var hann þá yfirheyrður í sex klukkustundir. „Þetta var bara heilaþvottur og ég eiginlega missti vitið inni í þessu yfirheyrsluherbergi. Landamæraeftirlitið vissi ekki alveg hvað það ætti að gera við mig og hermennirnir sem yfirheyrðu mig voru ógnvekjandi.“ Karolis náði loks sambandi við sendiráð sitt, sem hringdi í utanríkisþjónustu Litáens sem kom honum út úr landinu. Þaðan lá leið Karolis til Egyptalands en honum til skelfingar var hann sendur aftur til Ísraels vegna vandamála með pappíra hans. „Ég var ráðalaus og vildi ekki enda aftur í yfirheyrsluherberginu svo ég ákvað að smygla mér inn í Jórdaníu.“

 

Þráði að komast burt

Þar heyrði hann frá öðrum ferðalang að hann gæti tekið ferju frá Aqaba, Jórdaníu, að Nuweiba á Sínaískaga. „Ég þráði ekkert heitar en komast frá þessum löndum.
Þeir voru stöðugt að bæta í einhver ferðaskjöl, saka mig um skjalafölsun og neyða mig til að borga fyrir hvert einasta blað.“
Mesta flækjan var að komast inn í Afríku að sögn Karolis. „Ég ferðaðist í gegnum eyðimerkur, varð fyrir líkamsárás, lenti í bílslysi og ók yfir fjallvegi í úrhellisrigningu,
en að fást við skriffinnskubrjálæðið í Egyptalandi og Ísrael var það erfiðasta við þessa ferð.“
Loks þegar hann komst að landamærum Súdans var hann orðinn örmagna. Þar reyndu landamæraverðir að rukka Karolis fyrir hitt og þetta, að því er virtist af handahófi, og á einum tímapunkti krafðist Karolis þess að fá að sjá nótu fyrir öllu. „Þá ætluðu þeir að reyna að rukka mig fyrir afrit af nótunni,“ segir hann hlæjandi. En aftur kom sendiráðið til bjargar og fékk Karolis að ferðast óáreittur. „Þá opnuðust allar dyr. Ég man að ég skalf af reiði og vanmáttarkennd en ég var tilbúinn að hefja ferðina í gegnum Afríku.“
En brautin fram undan var því miður þyrnum stráð. Á ferð yfir landamæri Súdans og Eþíópíu, í ljósaskiptum dags og nætur, ók Karolis hjólinu ofan í djúpan skurð.
„Ég var orðinn virkilega hræddur þegar myrkrið fór að skella á. Þarna var mikil hætta á ferðinni; ég heyrði í hýenum og varð hræddur um að verða þeim að bráð. Svo var rigning og flóð í spákortunum og mér leist ekkert á ógnarskýin sem færðust yfir himininn. Ég notaði alla mína krafta til að losa hjólið því ég ætlaði ekki að taka  sénsinn á að tjalda eða ferðast að nóttu til. Maður gerir það ekki í Afríku, það getur bókstaflega verið upp á líf og dauða.“
Tæpum klukkutíma síðar náði Karolis að losa Naglis úr skurðinum og komst leiðar sinnar, sem lá um stóru vötnin við Sigdalinn mikla.

 

 

 

 

Barinn með kúbeini

Þegar Karolis var kominn hálfa leið í gegnum Afríkuálfu þurfti hann að binda enda á ferðina, að minnsta kosti í nokkra mánuði, eftir að hann
var rændur í Mombasa.
„Kærastan mín kom að heimsækja mig í Kenía. Ég beið á hjólinu fyrir utan íbúðina hennar þegar nokkrir menn lögðu bílnum sínum fyrir aftan mig. Ég klæddi mig úr jakkanum og ætlaði að taka af mér hjálminn en einhver lítil rödd aftast í höfðinu á mér sagði mér að halda hjálminum og guði sé lof fyrir það.“
Þá læddist einn mannanna úr bílnum upp að honum og sló hann með kúbeini í höfuðið og öxlina. „Öxlin á mér var alveg ónýt og það tók mig sex mánuði að jafna mig eftir þessa árás.“  Mennirnir rændu veskinu hans og jakka ásamt öllum ferðaskjölum hans og vegabréfi. Eftir  árásina ákvað hann að fara heim til Litáens að jafna sig og mánuði síðar sneri hann aftur til Kenía til að halda för sinni áfram til Suður-Afríku.

 

Hársbreidd frá dauða á fjallvegi

Við færum okkur að myndum við hliðina á sjálfsalanum í biðstöð Strætó sem sýna fjögur mismunandi veðurskilyrði. Blaðamaður spyr hvort þetta séu myndir af árstíðunum í Afríku og Karolis svarar að þetta sé allt frá einum degi á fjallvegi í Búrúndí í Mið-Afríku. „Þetta var versti veðurdagurinn í ferðinni. Ég var að aka í gegnum mikið fjalllendi í aftakaveðri; haglél, úrhellisrigning, flóð og þrumur og eldingar. Í lok dagsins fann ég gististað og sofnaði strax og þegar ég vaknaði daginn eftir helltist eitthvert flóð af tilfinningum yfir mig. Á þessum fjallvegi var ég hársbreidd frá dauðanum og hafði ekki áttað mig á hættunni fyrr en allt datt í dúnalogn.“ Ferðin tók átján mánuði en í raun varði Karolis fimm árum af lífi sínu í að undirbúa hana. Fjölskyldan spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann ákvað að leggja af stað í þessa hættuför og Karolis hefur í raun ekki svar við því. „En eitt veit ég með vissu að þegar ég lagði af stað var ég ótengdur sjálfum mér og þekkti ekki mörkin mín. Á leiðinni fann ég mikla tengingu við  mótorhjólið, þennan ferðafélaga sem hélt mér á lífi. Fólk áttar sig kannski ekki á því hvað maður er berskjaldaður á svona hjóli. Ef það bilaði þá þurfti ég að laga það, hvort sem ég var staddur í eyðimörk eða drullupolli og ég gat ekkert hoppað upp í rútu til að stytta mér leið. Á sama tíma þurfti ég að glíma einn og óstuddur við náttúruöflin. Þetta reyndist vera erfiðasta þolpróf lífs míns.“ Þegar Karolis komst loks á leiðarenda fann hann fyrir gríðarlegum létti.  „Þetta voru endalok á einhverju óskiljanlegu.

Ég er enn að vinna úr þessari upplifun og þessi ljósmyndasýning er leið til að skilja betur hvað það var sem ég gekk í gegnum. Mjóddin er svolítið hrár staður sem mér fannst passa vel fyrir mig og ég hvet fólk til að staldra við og skoða myndirnar eða jafnvel halda sínar eigin sýningar. Hér er margt hægt að gera, eins og að kíkja í Afríkureisu meðan maður bíður eftir Strætó.“

 

Fréttablaðið 29.05.2021