Atli Bergmann þurfti ekki annað en að skella sér í gamla leðurgallann til þess að komast í karakter fyrir Ófærð 3 þar sem hann fer mikinn á Harley Davidson hjólinu sínu í fylkingarbrjósti skuggalegs mótorhjólagengis sem gerir usla í smábæ norður í landi undir stjórn danska stór- leikarans Thomas Bo Larsen
Atli Bergmann er meðal fjölda aukaleikara sem fylla ógnvekjandi danskt mótorhjólagengi í þriðju seríu Ófærðar þar sem slíkur völlur er á honum að hann fer vart fram hjá neinum enda á ferðinni alvöru „biker“ á sérlega glæsilegum Harley Davidson.
„Þetta var ævintýri og var svo auðvelt fyrir mig enda þurfti ég í rauninni bara að vera ég sjálfur. Eða svona gamalt alter egó eða eitthvað,“ segir Atli sem svaraði umsvifalaust kallinu þegar auglýst var eftir mótorhjólastatistum fyrir þættina. „Ég var bara til enda nýbúinn að fjárfesta í þessum eðalfák mínum. Þetta er rosa fallegt hjól,“ segir Atli um Harley Davidson hjólið sem er af gerðinni Softail Springer. „Og Springer er mikilvægt atriði vegna þess að Harley Davidson varð 100 ára 2003 og þá gerðu þeir svona „special edition“ afmælisútgáfu með svona gormaframgaffli eins og var notaður 1948. Þannig að lúkkið og bara allt er geggjað. Þetta er stolt mitt og yndi og bara geggjað hjól.“
Hjólaði með Vítisenglum
Atli smellpassar í hlutverkið enda er fortíð hans þannig að þeir verða varla jafn þvottekta mótorhjólatöffararnir. „Ég er Snigill númer 60 og náttúrlega búinn að vera Snigill frá upphafi. Ég er mikill „biker“ og hef hjólað um allan heiminn. Og forsaga mín er náttúrlega mótorhjól, rokk og ról, Hells Angels og allt það stríð. Kristjanía og allur pakkinn sko,“ segir Atli sem hjólaði á árum
áður í slagtogi með hinum alræmdu Vítisenglum.
Hann mætti því fullskapaður í Ófærðina og ekki þurfti leikmunadeildin að hafa mikið fyrir honum. „Ég á ennþá gamla mótorhjólagallann, leðurbuxurnar og jakkann frá því í gamla daga og get stoltur sagt frá því að ég kemst ennþá í þetta og nota. Þetta er alvöru. Þykk nautshúð og allt það,“ segir Atli og bætir við að það hafi verið svolítill brandari þegar hann mætti í leikaravalið.
„Þegar við mættum, strákarnir, á hjólunum tók ég eftir því að það var talað um að sá sem var á undan mér ætti að fá feik tattú á hálsinn og eitthvað þannig. Svo kom ég og það var bara horft og gefinn þumall upp: Næsti!“
Atla var síðan, eðli málsins samkvæmt, skipað í fremstu víglínu gengisins þegar að tökum kom og hann látinn fá einhverjar setningar. Þannig bauð hann til dæmis dömum úr genginu bjór á dönsku í síðasta þætti. „Ég hef gaman af þessu og hef í gegnum tíðina stundum verið í einhverjum myndum og bara small inn í þetta þannig að þeir bara notuðu mig í alls konar. Ég held meira að segja að ég sjáist eitthvað meira og segi fleiri og setningar í næstu þáttum. Þannig að þetta var bara ógeðslega gaman og skemmtilegt að vera á hjólum á þessum fallegu stöðum, Siglufirði og Seyðisfirði.
Leika sér og fá góðan pening.
Af því að ég fékk setningu þá fær maður betri pening,“ segir Atli og hlær. Danski stórleikarinn Thomas Bo Larsen, sem hefur gert garðinn
frægan í myndum á borð við Jagten og Druk leikur Danish Hopper, leiðtoga dönsku djöflanna, og Atli segir það ekki hafa spillt ánægjunni
hversu vel þeir tveir náðu strax saman.
Í stuði með Larsen
„Þegar ég kem á settið hitti ég Thomas Bo Larsen. Þennan danska stórleikara og ég fer að æfa mig á gömlu dönskunni minni og það gengur bara svona ljómandi vel,“ segir Atli. „Við erum bara að spjalla yfir kaffibolla eins og menn gera á vinnustað og þá kemur í ljós að hann er líka edrú og við þekktum báðir sömu gömlu Köben, nöfn og staði. Okkur fannst það geggjað og
við smullum saman og erum bara góðir vinir og ennþá í sambandi.“
Þá eiga þeir einnig mótorhjóladelluna sameiginlega. „Hann er alvöru „biker“ og safnar Indianmótorhjólum sem er annað gamalt amerískt merki,“ segir Atli en Indian var stofnað 1901 og Harley Davidson 1903. „Hann var stundum að stríða mér og djóka með af hverju ég væri á svona nýmóðins,“ segir Atli og hlær. „Ég er á leiðinni út, bara við fyrsta Covid-tækifæri, í heimsókn til hans og hann ætlar að lána mér hjól og við ætlum að taka túr saman á Indian. Þannig að hann var líka svolítið svona ekta og þurfti líka bara að fara í gamlan karakter og hafði
mjög gaman af þessu.“
Gamli fiðringurinn
Þar sem Atli hefur reynslu af því að hjóla í vafasömum félagsskap er óhjákvæmilegt að spyrja hvort um hann hafi farið gamall Vítisenglafiðringur við tökurnar á Ófærð.
„Þetta er sérstök tilfinning og hún kom alveg fullkomlega þarna við þessar tökur. Þarna vorum við margir að hjóla þétt saman og vorum í karakter. Allir merktir genginu og margir okkar hafa verið og eru í alls konar klúbbum þannig að þetta var bara ofboðslega gaman, gefandi og skemmtilegt.“
Fréttablaðið 30 okt 2021