...

Mótorhjólaferðir hafa breyst mikið á 40 árum.

Fyrstu ferðalögin sem ég fór á mótorhjóli var sumarið 1984. Síðan þá hafa ferðalögin breyst mikið, en í upphafi var oftast gist hjá vinum og öðru mótorhjólafólki. Fyrsta 17. júní ferð Snigla var á Tálknafjörð 1985 og flestir sem í þeirri ferð voru gistu í húsi sem ég átti á Tálknafirði, en ég hafði sem mótorhjólamaður mjög gaman af því að hitta og tala við annað fólk sem hafði áhuga á mótorhjólum. Þetta var ekki í eina skiptið sem mótorhjólafólk gisti í húsinu mínu á Tálknafirði.

Seinna þetta sama sumar var farin hringferð í kring um landið, lagt var af stað á laugardegi vikuna fyrir Verslunarmannahelgi og var fyrsta gisting í tjaldi á Blönduósi. Gistingar voru 9 og a.m.k. tvisvar var gist í heimahúsum og einu sinni í gömlu eyðibýli, en á miðpunkti ferðarinnar var að eyða Verslunarmannahelginni á Atlavíkurhátíðinni frá föstudegi fram á mánudag.

Árið 1986 var farin 17. júní ferð á Ólafsfjörð og á Akureyri, góður hópur mótorhjólafólks (á bilinu 20-25), á Ólafsfirði var gist í heimahúsi hjá mótorhjólamanni, svolítið þröngt, en allir sváfu vel þrátt fyrir hressilegan hrotukór, en á Akureyri var gist í stóru tjaldi sem Sniglarnir áttu.

Oft fór ég á hjólinu á árunum 1984 til 1988 í eins til tveggja nátta ferðalag og nánast stefnulaust var þá gist hjá vinum sem tengdust mótorhjólasportinu (Bifblía Snigla oftast höfð með til að finna einhvern félaga í Sniglunum sem gist var hjá, en þá var hvorki net né farsími og treysti maður bara á að heimilisfang væri rétt í félagatalinu).

Fáar gistingar í boði á Íslandi sem tíðkast víða erlendis..

Seinustu ár hef ég valið að ferðast innanlands að ég gisti ýmist á hótelum eða að ég fer á húsbílnum með hjólið inni í bílnum sem ég gisti í. Keyri út frá bílnum á hjólinu þar sem stoppað er, skemmtilegur ferðamáti sem hentar mér og minni spússu vel.

Á síðasta ári fór sonur minn ásamt nokkrum vinum hringinn í kring um landið á mótorhjólunum sínum, ferð sem vinahópurinn var búin að skipuleggja í marga mánuði. Það sem skyggði á ferðina var veðrið, rigning dauðans megnið af ferðinni og ekki beint kjöraðstæður fyrir að gista í tjaldi (búið að skipuleggja og ekki í boði að breyta ferðaplani þó að mun skinsamlegra hefði verið að fara öfugan hring og keyra á Landsmót á jafn mörgum dögum með því að taka Vestfirði). Á Austfjörðum hýsti mótorhjólamaður sem býr einn í stóru húsi blautan, kaldan og þreyttan hópinn og á Akureyri sömu leiðis. Í framhaldi var mér hugsað til þess að nánast ekkert er um að mótorhjólafólk sé að bjóða öðru gistingu lengur, en víða erlendis er þetta algengt sérstaklega inn á A.D.V.R. síðunni ( Adventure Rider – Ride the World. (advrider.com) ) þar sem að verið er að bjóða fólki persónulega gistingu sem er á ferðinni um heiminn og bloggar um ferðalagið sitt inn á þessari síðu gistingu eða að benda á gott tjaldsvæði, en inn á þessari síðu má líka finna kost um sérstaklega merkt tjaldsvæði fyrir mótorhjólafólk.

Svo ef maður skoðar aðra síðu sem nefnist Bunk a Biker, ( www.bunkabiker.org ) en þar má finna Ísland, ein doppa á Vestfjörðum og önnur í Vestmannaeyjum og svo dopa frá Tíunni um Landsmót í Húnaveri. ( Bunk-a-Biker World map (zeemaps.com) ).

Ferðast heima eða erlendis.

Þegar maður ferðast einn til þrír er minna mál að finna gistingu sama hvort það er hér heima eða erlendis á hótelum eða hjá mótorhjólaklúbbum, en mjög víða eru mótorhjólaklúbbar erlendis með klúbbhús og eru að bjóða gistingu í þeim eða að bjóða upp á að geyma hjólin inni í lokuðu húsi (samaber úr ferðasögu Sniglabandsins þegar þeir voru í Sovetríkjunum á tónleikaferðalagi voru hjólin oft geymd á vöktuðu svæði hjá mótorhjólaklúbbum). Hótel og gististaðir eru víða erlendis að bjóða sérstaklega mótorhjólafólki að gista og eru með lokaða geymslu fyrir hjólin. Hér á landi eru ekki mörg hótel sem eru að auglýsa sig með neina sérstöðu fyrir mótorhjólafólk, en þó eru til hótel sem sækjast sérstaklega eftir mótorhjólafólki samaber Langaholt á Snæfellsnesi, Rjúpnavellir fyrir ofan Galtalæk og fl.

Hjörtur Líklegur #56

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.