Elsta mótorhjól sem til er í heiminum í dag er 1894 árgerð af vel varðveittu Hildebrand & Wolfmuller mótorhjóli. Það var á dögunum selt á uppboði hjá Bonhams í Bretlandi og fór þar fyrir 30 milljónir króna.
Hildebrand & Wolfmuller mótorhjólið er fyrsta farartækiðsem kallað var mótorhjól og er athyglisvert að mörgu leyti. Það er með 1.488 rsm V2- vél sem er vatnskæld og er afturbrettið í raun og veru tankur fyrir vatnið. Stimplar vélarinnar voru beintengdir við afturhjólið, sem er með heilli felgu sem virkaði eins og svinghjól. Gúmmíteygjur sáu um að hjálpa stimplunum að koma til baka. Hjólið kemur á loftfylltum dekkjum, þeim fyrstu frá Dunlop sem voru fyrir mótorhjól.
Hjólið gat náð um 50 km hraða og til að stöðva það voru nokkrar skeiðar sem lögðust upp að dekkinu þegar tekið er í bremsuhandfangið.
Hjólið hefur verið í eigu sama aðila frá 1990 en það var spænskur safnari að nafni Carlos Garriga. Ekki fylgir fréttinni hver það var sem keypti hjólið.
Njáll Gunnlaugson fyrir Fréttablaðið
8.feb. 2023
Smellið hér fyrir enn ítarlegri grein um þetta hjól á Fornhjol.is