Reykjavik Dublin

IMG_1352

Takk Bláfugl! :=))

Ég er búinn að ganga með í maganum í nokkurn tíma að hafa hjólið mitt erlendis yfir veturinn og nota það eins og hægt er í stað þess að láta það sitja inni í skúr í 6-7 mánuði yfir veturinn.  Það eru eingin not af þvi það tekur pláss og verður rafmangslaust.  Það eru líka mörg kvöldin og næturnar í skammdeginu sem maður hallar sér aftur og óskar þess að vera í mótorhjólaferðalagi.  Það jafnast fátt á við það.

Vinur minn til margra ára Guðmundur Bjarnason og ferðafélagi var á leið í Evrópuferð í haust.  Hann fór með Norrænu síðustu viku með hjólið sitt og er kominn til Þýskalands.  Ég var alveg friðlaus, og ákvað að skella mér með og geyma Doctorinn úti í Evrópu í vetur.  Þannig er hægt að fara einu sinni eða tvisvar í ferð og skoða heiminn.

IMG_1346

Vinir mínir hjá Air Atlanta og Bláfugli sáu eingin tormerki á þessu.  Ég er kominn til Dublin á Írlandi með Doctorinn og er á leið á morgun fimmtudag, niður til Rosslare á Írlandi til að taka ferju yfir til Frakklands.  Stefnan er tekin á Pyreniafjöllin og síðan ætlar Doctorinn að hafa vetrardvöl í Mílanó hjá Sigga Sigfúsar vini mínu sem þar er með aðsetur.

Spáin er góð – það eru bjartir dagar framundan á fleiri en einn hátt.

 

Fimmtudagur, 4. september 2014

Dublin- Frakkland

Ég var snemma á fótum og var dálítið spenntur að sjá hvernig það myndi ganga að ná Doctornum út úr tolli á flugvellinum.  Michael Clince Bláfuglsmaðurinn í Dublin kom og sótti mig á hótelið kl 8.  Mjög þægilegur maður og við spjölluðum heilmikið saman.  Hann hjálpaði mér að ná hjólinu út úr tollinum, við endasendumst milli margra aðila, en þetta gekk.  Rúmlega kl 9 var hjólinu rúllað út úr vörugeymslunni.  Það sá ekki á Doctornum hann var alveg óskaddaður eftir ferðalagið.  Ég dreif mig í gírinn og var farinn af stað 9.40.  Veðrið var yndislegt 19 gr hiti og sól.  Þegar ég hafði keyrt smá stund var mér farið að hitna á höndunum og sá það að hitinn var á handföngunum eftir síðustu ferð á Íslandi í næðingi.

Ég ók M50 gegnum Dublin og suður til Rosslare um 3ja tíma ferð.  Ég stoppaði á leiðinni, og fékk mér kaffi og pæ í blíðunni.  Ákvað líka að taka sveitaveginn síðast, hann minnti mig á Galloway þar sem ég á mínar rætur að hluta.  Tankaði Doctorinn enda hann orðinn þyrstur.

Þegar ég kom á ferjustaðinn var heilmikil umferð, mótorhjól og húsbílar og önnur faratæki. Hitti náttúrlega strax mótorhjólafólk, íra, frakka og þjóðverja og allir dáðust þeir að Doctornum og uppruna hans á Íslandi og sögum af ferðalögum og náttúru.  Ég held að þeir ætli allir til Íslands næsta sumar.

 

Þarna beið ferjan Oscar Wilde frá Irish Ferries,sem ég held að Norðmenn eigi. Rúllaði um borð, var komin úr gallanum vegna hitans og með derhúfu.  Mikið og stórt skip og ég fékk ágætis kabínu sturta og alles. Skellti mér í sturtu og“sprittgallann” og settist út.  Þetta er eins og skemmtiferðaskip.  Ég sat úti við brottför í blíðunni með einn Írskan ískaldan og naut blíðunnar. Það var farið að vagga eftir kvöldbitann svo ég lagði mig bara og lagðist í sjóvarp lestur og skiftir.

Það er merikleg upplifun að fara með hjólið sitt í flugi og á skipi á nánast sama sólarhring og skipta um umhverfi og verðurfar.

Á morgun Frakkland, og ég ætla að hitta nafna Bjarnason vin minn í litlum bæ þar sem hann er að skoða eitthvað í sínu fagi, ég held að það sé einhver “rotþróarsugu” framleiðandi fyrir vörubíla.  Við förum svo áfram suður – spáin er mjög góð.

Föstudagur, 5. september 2014

Í Frönsku sveitinni.

Ég var búinn að gleyma því hvernig er að ferðast einn.  Ekki að það sé slæmt, það er bara þannig að alla ævi hefur maður verið með öðrum, fyrst mömmu og pabba, svo kærustunni sem varð konan mín og svo með börnunum.  Það er orðið dáldið langt síðan ég var aleinn á ferð. Það er als ekki slæmt.  Það er vissulega betra á mótorhjólaferð að vera með öðrum, það getur ýmisleg komið upp á, tæknileg vandamál, samskiptavandamál, tungumálavandamál, að rata ekki vandamál.  Þetta er þó betra en áður, þar sem hjólin eru öruggari og gangvissari og allur búnaður betri.  Þar ber ekki síst að nefna Geirþrúði eins og hún er kölluð á mínu heimili.  Þetta er náttúrlega Garmin GPS staðsetningarbúnaðurinn.  Þetta er hreint út sagt ótrúleg græja.  Maður setur inn punkt og þangað leiðir hún mig.  Ég hef vanist að það þýðir ekki að mótmæla henni, þó maður haldi annað, hún hefur alltaf rétt fyrir sér eins og mamma.  Þannig hefur hún leitt mig á áfangastað á ótrúlegum krókum en alltaf kemst maður á stysta tímanum og fallegustu leiðina.  Það væri gaman ef svona tæki væri til, einskonar lífs-gps sem sendi mann á réttu leiðina alla ævi.

Ég vaknaði í morgun á ferjunni eldsnemma, tímamunur orðinn 2 klst.  Fór út og andaði að mér fersku sjávar loftinu og fékk mér góðan morgunmat.  Svo var bara að pakka, fara niður á dekk, koma dótinu á hjólið og vera tilbúinn þegar ferjan kom á land og dyrnar, mér væri nær að segja húshliðin opnaðist.

Ég hitti hjón frá Írlandi sem eru á sama aldri, besta aldri, börnin farin og vinnan ekki að drepa fólk.  Þau voru á GS hjóli eins og ég og voru á leið til Spánar, fara á hverju ári, þau ætla til Íslands á næsta ári, þ.e. eftir að ég var búinn að sýna þeim myndirnar mínar á símanum.

Það er eins og að skipta um gír að koma til Frakklands, það er hægri umferð, allt er illa merkt og einginn skilur neitt.  Það var bara að spyrja Geirþrúði, ég ætla að hitta nafna í þorpinu Lazigne, sem var tæplega 400 km leið.  Ég stoppaði á rúmlega klst fresti í littlum þorpum yfirleitt á torginu.  Þetta er dáldið líkt allt, gömul steinhús, kirkja, torg, litlir veitingastaðir – alveg frábært.  Ekki spillti veðrið, 20-26 gráður í dag, hálfskýjað og logn.  110 (km/klst) vegirnir eru merktir N, og síðan koma minni vegir sem eru merkti D.  Umferðin var hæfileg.  Það var dáldill spenningur að hitta nafna, og kl 16.40 var ég kominn á torgið í Lazigne og stöðvaði, þar, fáir á ferli, kirkja, veitingastaður, en ekkert hótel, sem var punkturinn.  Þá kom nafni á spretti bak við kirkjuna á stuttbuxum, hann hafði heyrt í bimmanum ( BMW –hjól).  Það urðu fagnaðarfundir.  Þetta er 500 ára gamalt stórt stein hús á 3-4 hæðum sem ung hjón keyptu og eru að gera upp. Þau búa niðri með tveimur litlum skoffínum sem minna mig á barnabörnin mín. Yndislegt fólk.

Við settumst út í garð, þar sem við settum hjólin bak við hlið undir tré með útsýni yfir sveitina.  Smá hvítvín úr heimabyggð – það gerist ekki betra.  Fórum í kvöld á eina veitingastaðinn í þorpinu og fengum Crepes, aðal og eftirrétt.  Ég bað um minn venjulega eftirrétt, vanilluís, súkkulaðisósu og þeyttan rjóma og fékk það á pönnuköku, reyndar með saltri karamellusósu úr héraði, hef ekki smakkað það betra.  Þau töluð ekki orð í ensku hjónin á þeim stað en það skipti engu máli.  Lúxus máltíð f. tvo með víni, og góð þjónusta 40 Evrur- já sæll.

Á morgun niður frakkland og niður í Pyreniafjöll á Spáni – bara gaman –spáin er góð :=))

 

Laugardagur, 6. september 2014

Þar sem hjarta Frakklands slær.

Frakkar eru sérstök þjóð.  Ég er búinn að ferðast víða, en aldrei kynnst fólki sem er almennt með það sem kallað er á ensku “attitude problem”.  Þeir þykjast ekki kunna ensku en gera það samt margir.  Menn hafa leitað skýringu á þessu fyrirbæri og telja að hennar sé að leita í margra alda erjum Englendinga og Frakka.  Þetta voru tvö heimsveldi sem stjórnuðu heimilinu um tíma og víða eru nýlendur sem þar sem þeir komu á fót sinni menningu bæði í austur og vesturheimi.  Þegar maður kynnist þeim nánar og reynir að tala frönsku, sem er nú ekki mitt sterkasta mál, kemur allt annað upp á teningnum.  Þeir eru elskulegir, hjálpsamir og yndislegir.  Þeir eru hinsvegar yndislega óskipulagðir og ástríðufullir.

 

Við gistum hjá yndislegri ungri fjölskyldu í stóru 500 ára gömlu húsi bak við kirkjuna í litla þorpinu Lazigne sem mér dettur í hug að líkja við Búðareyri í Hrútafirði. Þau eiga tvö yndisleg lítil börn sem minna mig á barnabörnin mín.

Það var morgunmatur í eldhúsinu hjá þeim að frönskum hætti, mikið brauð álegg og kaffi.  Bóndinn stökk út í bakarí hinum megin við götuna og náði í svona dæmigerð löng frönsk brauð, glóðvolg.  Með okkur var eldri maður, fæddur í Írak en hafði búið alla ævi í Englandi og var kominn á eftirlaun.  Þarna upplifir maður þetta langa, slaka umhverfi, enginn að flýta sér, langar samræður, allir sögðu frá sér og sínum högum.  Heil klukkustund í morgunmat ? – þetta gengur ekki í mótorhjólaferð hjá okkur víkingunum, svo nú var bara að drífa sig af stað.

VIð komum við í „blómabæ“

Við áttum frábæran dag í gengum sveitir Frakklands.  Við ákváðum að stefna á Bordeux héraðið, og hér erum við í littlu þorp í hjarta vínræktarhéraðsins. Geirþrúður leiddi okkur gegnum Frakkland á fallegum leiðum. Við reyndar sögðum henni aðeins til í byrjun og stungum upp á aukaleiðum og hún samþykkti, enda fórum við blíðlega að henni í morgunsárið.

VIð komum við í „blómabæ“ sem Hveragerði gæti tekið sér til fyrirmyndar. Það var búið að þræða blóm á línur yfir öllum miðbænum. Það var 20 gr hiti og ekki ský á lofti þegar við lögðum að stað í morgun og sló í 29.5 þegar við vorum komnir á áfangastað Hotel Le grand de Sel í bænum í litla bænum St Foy la Grande í hjarta Bordeux héraðs.

Það smá hitnaði á leiðinni og ég varð að rífa allt innan úr gallanum það sem er hugsað fyrir norðurslóðir og var á bol og nærbuxum undir.

Fallegar leiðir gegnum sveitir Frakklands og góður hádegisverður við Chataue al la Mairie, lítill bær með stórum kastala og góðum veitingastað.

Seinnihlutinn var alveg frábær, nafni hafði valið sveitavegi síðasta spölin og það var sannarleg mótórhjólaveisla.

Þau tóku vel á móti okkur hjónin á Hotel Le grand de Sel hann er Hollendingur en hún er frönsk og þau voru búin að vera hér lengi.

Hann lýsti efnahagsástandinu sem hræðilegu. Þeir ríku ættu allt, millstéttin stritaði fyrir háum sköttum og svo væri mikil ásókn fátækra frá gömlu nýlendunum sem leituðu að framfærslu í “kerfinu” og það væri mikið atvinnuleysi og mikil svört atvinnustafsemi.

Þau framreiddu frábæran mat, önd úr héraði, úrvals Bordeux vín ( úr héraði ) og ís og kaffi á eftir.

Á morgun Pyrenníafjöllin við ætlum að biðja Geirþrúði varlega í fyrramálið vinsamlegast að leiðbeina okkur á svæði vestan við Andorra og vera þar í nokkra daga og hjóla um fjöllin.

Spáin er góð, það verður bara gaman.

 

Sunnudagur, 7. september 2014

Í fjöllunum

Það er dáldið erfitt að lýsa tilfinningunni í mótorhjólaakstri.  Það er einhver ólýsanýleg frelsistilfinning.  Þú skynjar náttúruna og umhverfið á annan hátt, það er lykt, ljós hitastig og útsýni.  Þannig er hægt að horfa 260 gráður á svipstundu og 180 gr. upp og 45 gr. niður.  Tækið verður einhverskonar framlenging á manns fínustu taugum líkamans.  Þetta er örugglega bráðhollt segir endurhæfingarlæknirinn.

Ég er búinn að hjóla á mótorknúnum vélfák síðan ég var 13 ára og er búinn að taka í sundur og setja saman mörg mótorhjól.  Þetta er eins og úrverk, og verkfærin eftir því.  Bílaviðgerðir eru bara hreinn groddi í samanburði við það.  Það eru mörg vetrarkvöldin sem ég hef setið í skúrnum og gert við, bætt og endurbætt fyrir sumarið.

Þess vegna eru svona ferðir svo dýrmætar.  Ég er reyndar á nýju hjóli, það er það sem hægt er að kalla “state of the art”.

Svo er það ævintýrið að ferðast á svona tæki, maður tekur bara með sér það sem er nauðsynlegt, annað skiptir ekki máli.  Maður reynir á sjálfan sig, sinn karakter, gefast ekki upp, lesa fólk og njóta augnabliksins.  Ég hef það alltaf að leiðarljósi að koma heill heim, vonandi betri maður fyrir mig og mína.

Við nafni lögðum af stað í morgun frá Bordoux héraði eftir að hafa spurt Geirþrúði ráða.  Hún ráðlagði okkur ákveðna leið sem við breyttum til að vera ekki í mikilli umferð en í sveit, sem hún samþykkti.

Morguninn var svalur, en það hlýnaði fljótt, gripu kaffi og crossant á útistað og svo var stefn suður.  Falleg leið, meira en það, stórkostlega falleg, vínakrar og skógur og vegurinn sveiflaðist upp og niður og vestur og austur. Við áðum nokkrum sinnum og nutum mannlífsins í litlum bæjum Frakklands, sátum á bekk og fylgdumst með.  Það var brúðkaup í gær á leiðinni og í dag var það mót lúðrasveita.

Þegar við áttum um 150 km eftir á áfangastað í Spænsku fjöllunum birtust þau.  Eins og voldugur veggur, eða brotsjór á leið á skip. Smám saman færðust þau nær og urðu risavakin og við fórum að fara inn í djúpan dal með háum fjöllum.  Það er búið að vera heitt í dag, allt að 30 gr. en nú kólnaði aðeins.  Við vorum komnir upp í 700 m. hæð í fjallasalnum þegar við komum að spænsku landamærunum.  Það var eins og við mannin mælt þá byrjuðu vandræðin.

Um það bil sem ég var að fara yfir landamærin, en þau eru auðkennd með svona eins og biðskýli strætó í litlum steinhúsabæ í fjallasalnum, þá skeði það.

Það var vespa inni í hjálminum !!!!!  – Ég veit ekki hvernig hún kommst inn en hún var þarna.  Ég negldi niður og lyfti upp “kjálkanum” á hjálminum, reif hann af mér og blés hana burt.  Bullandi hjartsláttur og uppnám – en þetta slapp.  Ég lagði af stað, og hvað skeður þá ?

 

Þrumur og eldingar og steypiregn í fjöllunum.  Suðvestan áttin á Álftnesi í 20 m/s er eins og Vínardrengjakór miðað við þetta.  Við nafni skelltum okkur útaf undir stórt eikartré og söfnuðum hugrekki að halda áfram. “skúrin” sem var eins og fellibylur, en gekk yfir.   Við skelltum okkur í regngallann og áfram.  Meira regn. 1400 m og þá 5 km löng göng.  Hinu megin í 1600 m. var sól og allt þurrt.  Það fór úr 29 gr. niður í dalnum niður í 13 gr. í göngunum og svo hlýnaði hinum megin.  Smá dropar og svo allt þurrt og allt í einu var orðið sjóðandi heitt í gallanum.  Við ókum síðan krókóttan smáveg með nýju malbiki, minnir á Lyngdalsheiðina gömlu plús skógur ansi greitt.

 

 

Hellidemba

Nú erum við komnir í Castejón de Sos á Spáni í hjarta Pyrenníafjalla.

Fjöllin bíða morgundagsins okkar- við sjáum þau út um gluggann.  Spáin er góð framan af degi en síða úrhelli.  Borðuðum úti og hittum nokkra mótorhjólamenn, bræður okkar, Írar sem tóku okkur eins og týndu sonunum, skál og allt það úti við í blíðunni.  Við förum því snemma í bælið.  Spáin er þokkaleg, þurrt í fyrramálið en þungar skúrir í fjöllum síðdegis – við verðum komnir snemma heim hingað á okkar gistingu.

 

Frjálst er í fjallasal.

Í dag fórum við í ferð um fjöllin hér í nágrenni Castejon de Sos í Pyrenníafjöllum.  Við völdum útsýnisleiðir og fjallaskörð í google maps í gærkvöldi og hlóðum leiðinni inn í Geirþrúði, sem mótmælti ekki, eigin mánudagsfýla í henni.

Hún leiddi okkur svo í dag um fagran fjallasal, og ég upplifði frelsistilfinningu.  Það er ekki hægt að lýsa öllu sem bar fyrir augu, en látum myndirnar tala.

     

Á morgun – Andorra.

 

Miðvikudagur, 10. september 2014

Andorra

DSC02102Ég hef alltaf upplifað einhverja dulúð í kringum smáríki í Evrópu.  Andorra  er eitt þeirra og liggur á landamærum Spánar og Frakklands í Pyrenníafjöllum.  Ástæður þessi að þessi ör-ríki hafa haldið velli er bæði pólitískar og efnahagslegar.  Þannig hafa þau verið skattaparadísir, og oft tengiliður stríðandi þjóða í ófriði.  Ríkið er lítið, kannski eins og Reykjanesskaginn og þar búa tæplega 100 þús manns, en það koma fleiri miljónir ferðamanna árlega.

 

Lengi hefur mér langað að koma þangað og nú hefur draumurinn ræst.  Við lögðum af stað snemma í fallegu veðri.  Þetta er rúmlega 3ja tíma akstur eftir mjög hlykkjóttum vegi.  Andorra er í djúpum dal, með háum egghvössum fjöllum sem gnæfa yfir.DSC02134

 

Það er öflug landamæragæsla og tolleftirlit í þessu fríríki.  Við biðum í röð á landamærunum í hitanum, og við vorum orðnir ansi sveittir.   Það eru þröngar götur, sem minna á Monaco, og greinilega mikið i.  Dýrir bílar og allar fínustu merkjaverslanir heimsins.  Við ókum aðeins um og stoppuðum á nokkrum stöðum en fórum síðan í stórmarkað og fengum okkur bita.  Það er „siesta“ eða hvíld milli 14 og 17 og allar búðir lokaðar, en þetta er svipað fyrirkomulag og á Spáni.

Við ókum svo heimleiðis aðra leið, gegnum þjóðgarð og nú litu vegirnir í fjallshlíðunum út eins og spagettí í potti, endalausir hlykkir.  Við vorum 10 tíma á ferðinni og orðnir ansi lúnir þegar við komum á bækistöð okkar í Castjon do sos.

 

Fimmtudagur, 11. september 2014

Í gegnum Katalóníu.

Pyrenniafjöll eru í norðanverðri Katalóníu.  Katalónía er hérað á Spáni sem lengi hefur verið með sjálstæðistilburði.  Þannig flagga þeir eign flaggi og það hanga víða borðar á húsum “sjálfstæð Katalónía”  Þetta er mjög fallegt landsvæði, há fjöll að norðan og fallegar ávalar hæðir með klettum þegar sunnar og austar dregur í átt að Miðjaraðarhafi.  Íbúarnir eru ákaflega vingjarnlegir og reyna allt sem þeir geta til að skilja mann og greiða götu.

Ég hélt að Geirþrúður hefði farið eitthvað öfugt fram úr í morgun (miðvikudag).  Ég spurði hana um bestu leiðina austur í átt að Frakklandi og Ítalíu.  Hún stakk þá upp á Costa Brava f. norðan Barcelóna.  Hún hefur eitthvað misskilið tilgang þessarar ferðar og heldur að þetta sé sólarlandaferð.  Viti menn, þegar að var gáð hafði hún rétt fyrir sér, þetta er besta leiðin til að fara ekki aftur sömu leið gegnum fjöllin til Frakklands.

Það var komið að kveðjustund okkar nafnanna.  Það var nú ekki þannig að við féllumst í faðma og táruðumst heldur stilltum við hjólunum um við veginn á bækistöð okkar til 3ja daga í Castjon de sos.  Við kvöddumst – kinkuðum kolli og lyftum hendi – hann fór í vestur og ég í austur- ég sá hann hverfa í baksýnisspeglinum.  Nú var ég aftur orðinn einn á ferð.

Það er gott að ferðast einn en skemmtilegra að ferðast með öðrum, það er þessi sameiginlega upplifun sem er svo ánægjuleg og verður ótæmandi umræðuefni að kveldi.

Ég ók krókóttan veg til Temp og síðan Brent meðfram rótum fjallanna – mjög falleg leið.  Síðan Vic – Girona og síðan ákvað Geirþrúður að fara til Roses sem er niður við ströndina en þar fann hun hótel.  Mjög fallegur bær, svona ekta sólarlandastemning og þar var gist á Hótel Casa del Mar – þýðir það ekki húsið við hafið?  Ég dró fram stuttbuxurnar í fyrsta skipti í ferðinni og íhugaði að kaupa mér sandala.

Ég er líka með annan ferðafélaga – Asimo- af kínverskum uppruna sem er lítill þráðlaus hátalari við síma eða tölvu og fyllir herbergi af tónlist. Björn sonur minn keypti hann í Hong Kong og gaf mér – alveg snilldartæki og góður ferðafélagi. Ég hugleiddi að setja á íslensk tregafull ættjarðaarlög en vissi að ég yrði púaður niður af svölunum hér.

Það var ansi heitt, byrjaði í 16 gráðum og fór í 31, hér gildir að drekka nóg vökva á svona ferðalagi.

Á morgun austur ströndina gegnum Frakkland – Ítalía kallar.  Ég er vissu um að Geirþrúður vill koma við í Monaco.

Föstudagur, 12. september 2014

Á hraðferð

Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af að keyra mótorhjól á hraðbrautum.  Það er ekki af því tækið ráði ekki við það- það gæti farið fram úr flestum bílum ef því er að skipta.  Ástæðan eru aðstæðurnar sem skapast á mikilli ferð.  Athyglin þarf að vera 100% og það má ekkert út af bera.  Hraðinn og hávaðinn og sviptivindar frá öðrum ökutækjum í kring valda streitu og þreytu. Því ek ég alltaf með eyrnatappa við svona aðstæður.  Hraðbrautir eru reyndar misjafnar, í Sviss eru þær t.d. til fyrirmyndar og einnig í Bandaríkjunum.

Ég er haldinn fordómum um hraðbrautir Frakklands.  Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta byrjaði, en líklega þegar við vinirnir fórum fjórir saman 18 ára gamlir í Evrópuferð á gömlu Fólkswagen “rúgbrauði”, með ferjunni Smyrli sem þá hét og sigldi frá Seyðisfirði til norður Skotlands.  Við enduðum í Frakklandi þó metnaður okkar hefði verið að komast til Ítalíu.  Það er ekki síst vegna þess að að rúgbrauðið var drykkfellt, komst ekki nema á rúmlega 100 og við lentum í tómu tjóni á Frönsku hraðbrautunum. Þannig vorum við stopp lengi í steikjandi hita af því að greiðsluvél við hlið virkaði ekki.  Þetta eru tæp 40 ár síðan.

Ég spurði Geirþrúði þegar ég vaknaði fimmtudagsmorgun hvað væri langt til Mílanó.  Hún svaraði um hæl – 850 km, og þú verður að taka hraðbrautir ef þú ætlar ekki að vera meir ein hálfan sólarhring á leiðinni.  Þá var bara að drífa sig af stað, á slaginu 9.  Ég ók um 180 km á fyrsta leggnum út úr Spáni og inn í Frakkland.  Þá byrjaði ballið, mikil umferð hiti og endurteknar biðraðir á vegtollastöðvum, og viti menn, greiðsluvélin tók á 3 stöðum af 10 á leiðinni ekki kortin mín og á einum stað ekki peninga.  Þetta er ekki skemmtilegt í 30 stiga hita með hjálm og í galla og engin til að aðstoða og enginn kunni ensku.  Ég gat smyglað mér með öðrum mótorhjólamönnum sem kölluðu á mig og sýndu mér hvernig fjögur mótorhjól geta leikið einn bíl ef þau ækju saman í takt og einn borgaði.  Hafðu engar áhyggjur sögðu félagar frá Spáni, allar myndvélarnar eru bilaðar.  Það hefur semsagt ekkert breyst á tæpum 40 árum.

Lesendur bloggsins gætu haldið að ég væri fordómafullur gagnvart frökkum, en það er ekki svo, þetta bara er svona.

Það bjargaði ferðinni sú fallega leið sem ég ók frá Nice til Genóva  Þetta er einn fallegasti vegur sem ég hef ekið, en hættulegur.  Hann er þröngur, hraður allt að 130 km/klst og það skiptast á brýr og göng í sífellu á langri leið.  Blátt miðjarðarhafið sést til hliðar og byggð niður með strönd og upp allar hlíðar.  Ég náði nokkrum myndum sem vonandi gefa lesendum smá hugmynd.

Geirþrúður sagði að við hefðum ekki tíma til að fara til Monaco þó stutt væri ef við ætluðum að vera komin til Milanó f. myrkur.  Ég hef komið þar áður, en langaði til að leyfa Doctornum að taka einn hring á Formúlu 1 brautinni í miðbænum og ná svo sem eins og einni mynd af okkur til að geta montað okkur á blogginu.

Leiðin upp frá Genóva í átt að Milano hefst á hraðbraut, sem klifrar upp fjöllin og fer yfir brýr og inn í göng, um 20 km leið – verkfræðilegt meistaraverk. Það voru ský í fjöllum og súld en 25 stiga hiti.  Upp á hásléttunni var hægt að aka greitt á góðum vegi.  Sólin var að setjast þegar ég renndi út af hraðbrautinni í átt að Milanó 3 þar sem Siggi vinur minn hefur aðsetur.  Ég hafið tekið einn miða við landamærin og afhenti hann nú við útganginn.  27 evrur, en þetta virkar.

Það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir þegar við Siggi hittumst, og ég kom hjólinu inn í bílskúr.  Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn ansi lúinn eftir 11 tíma ferð en stoltur af mér að klára þetta verkefni og finna hvað maður kemst ennþá langt með sjálfan sig ef á reynir.

Á morgun kem ég hjólinu í vetrargeymslu hjá honum Paulo sem rekur mótorhjólaverkstæði og svo ætlum við bara að njóta helgarinnar saman gömlu félagarnir.

Í ferðalok.

IMG_1419Þetta er búið að vera frábært en erfitt.  BMW 1200 GSAW hjólið stóð sig ákaflega vel.  Þetta er án efa besta ferðahjólið sem til er.  Það er sama hvort það er yfir Kjöl á 90, í krókóttum beygjum fjalla Evrópu eða á hraðbrautum á 130.  Það er ekki gallalaust og sennilega ekki best í neinu en örugglega gott í öllu. Ég er nú búinn að aka meir en 10 þús km. síðan í mars þegar ég fékk hjólið nýtt.  Það verður að líta á þetta sem góða fjárfestingu í áhugamáli og ánægju.  Nú hvílir gripurinn á verkstæði í Milanó og fær yfirhalningu, tilbúið fyrir næstu ferð í vetur eða vor, og svo heim á klakann í vor.

Takk BMW Motorrad, Reykjavik Motor Center /Eyþór Örlygsson, Takk Bláfugl.

Það hafa margir spurt um bloggslóðina v. ferðar árið 2001 á mótorhjólum, hér er hún:

 http://coast-to-coast-2001.blog.is/blog/coast-to-coast-2001/ 

Guðmundur Björnsson
2013