Það var eitt kvöld í nóvember 2022 að við sátum tveir félagarnir að spjalli um mótorhjólaferðir hingað og þangað um heimin og hvort við gætum ekki púslað inn ferð sem myndi enda á Landsmóti bifhjólamanna.

 Úr varð að tveimur dögum seinna hafði verið pöntuð ferð með Norrænu og einnig var greitt staðfestingargjaldið, þá fyrst tók allsherjar undirbúningur við. Við áttum pantað með Norrænu út 30. maí og heim aftur 27. Júní.  

Hófumst við þá og þegar handa við að skoða hvað okkur vantaði á hjólin. Því jú þó þau væru í góðu lagi hér heima væri kannski ekki alveg allt í góðu lagi til að fara 6-8 þúsund kílómetra erlendis en ekki hvað síst hvaða útbúnað við viljum að væri á hjólum.

Eftir nokkra bjóra kom Alí frændi þarna sterkur inn og voru myndavélar og annar útbúnaður keyptur. Hjólin græjuð ss mitt hjól með töskum og einnig veltigrind frá Givi, það gæti allveg komið upp að maður myndi detta og þá væri gott að hjólið væri varið.

Töskur og myndavélastangir út um allt

Nokkrir undirbúnings fundir( bjórkvöld) voru og var þar farið aðeins yfir leiðarplanið. Hvert við viljum fara, hvað við viljum sjá og hvað við viljum upplifa. Úr þessu varð að planið var að hafa ekkert plan, enda tveir gaurar með bullandi athyglisbrest og ofvirkni geta ekki komið sér saman um eitthvað plan, sem eftir á að hyggja var besta planið.

 Dagarnir liðu og urðu að vikum sem svo varð að mánuðum.

Þetta var alltaf að færast nær og nær, upplifunin mín var alltaf sterkari og sterkari.
Ég væri að fara í svona ferð sem maður hafði bara séð aðra fara í og látið mig dreyma um að ég gæti einn daginn farið í. Friðrik hafði jú farið árið áður evróputúr með 3 félögum og var kannski aðeins rólegri en ég, held samt ekki.

Maímánuður loks rann upp og vorum við orðnir frekar spenntir viku fyrir áætlaðan brottara tíma. Helgin kom og við fórum að skoða spánna.
Við ætluðum okkur að fara aðeins fyrr og gista hjá einum góðum félaga okkar á Reyðarfirði “Einari Game Over.” Þar ætluðum við okkur að gera loka útekt á hjólum.

Spáin fyrir mánudaginn var ekkert sérstök svo við ákváðum bara að skella okkur á laugardegi. Ég held að Friðrik veðurfræðingur hafi lesið spánna vitlaust því veðrið var mjög slæmt á leiðinni, rigning og rok en við komumst klakklaust á áfangastað og í góðu yfirlæti hjá Einari game over kláruðum við allt sem þurfti að gera , þ.e. að skipta um olíu og síu, dekk og annað yfirfarið.
Veðrið var svo bara með besta móti. Við keyrðum austur í versta veðrinu. Við loka yfirferð okkar á dekkjunum kom í ljós að ég hafi slitið afturdekkinu mínu hraðar en ég ætlaði mér og var það greinilegt að ég yrði að kaupa nýtt einhversstaðar úti.

 

 

Yfir á Seyðisfjörð var farið í fylgd með nokkrum góðum vinum og var ferðin farin að raungerast allaverulega í mínum æðum. Þetta væri að gerast! Við komumst yfir á Seyðisfjörð í blíðskaparveðri, glampandi sól og í röðinni í ferjuna kvöddum við fylgdar félagana okkar. Röðin í ferjuna var frekar stutt fyrir mótorhjólinn og nutum við hennar bara í góða verðinu.
Um borð í ferjunni festum við hjólin og fórum svo að finna klefan okkar. Við vorum tveir í fjögurra manna klefa. Nú hófst ferðin fyrst fyrir alvöru og stuttu seinna horfðum við á eftir Seyðisfirði hverfa í hafið eftir því sem ferjan fjarlægðist meir og meir, næst var það barinn og ákváðum að skála fyrir ferðar byrjun.
Stutt stopp í Færeyjum var svo daginn eftir og gátum við farið í land og labbað aðeins um Thorshavn í alveg glampandi sól og góðu veðri. En svo var haldið áfram. Við áttum um 2 daga eftir á siglingu áður en við myndum koma til Hirtshals.
Á leiðinni úr ferjunni var ákveðið að keyra eins langt suður og við mundum ná í dagsbirtu, komast vel inn í Þýskaland, og þar mundum við taka fyrstu nóttina.
Við komum í land rétt fyrir hádegi og vorum komnir um eittleitið á fyrstu bensínstöðina við ferjuhöfnina. Fylltum við á hjólin og héldum sem leið lág á E39 framhjá Ålaborg og þaðan á E45 sem liggur alla leiðina yfir til Þýskalands. Rétt við Rendsburg var fyrsti náttstaður og náðum við þangað rétt fyrir kvöldmat. Við áttum pantaða íbúð í Fockbek hjá mæðginum sem vildu allt fyrir okkur gera. Bentu okkur hvar allt væri þ.e. matsölustaðir og slíkt.

Bad Grund

Stelvio pass og Grossglockner
Ákvörðun var tekin að við mundum taka stefnuna á fjallaskorðin Stelvio pass og Grossglockner.
Daginn eftir var haldið af stað snemma og vorum við komnir af stað fyrir 08:00. Keyrðum við á autoban og vá hvað þetta var klikkuð lífsreynsla að keyra þarna bara eins og hjólið dró, En töskusettin drógu vel úr hámarkshraðanum hjá okkur. Þetta var alveg ofboðslega geggjuð upplifun. Náðum við að keyra rétt um 400 km þennan daginn og var ákveðið að finna gistingu í einhverju litlu þorpi.
Bad Grund er staður sem engin hefur heyrt um og við ekki heldur EN núna höfum við komið þangað og ekki nóg með það við höfum einnig sofið þar.

Breytt plan!
Eftir að hafa legið aðeins yfir veðurspánni fyrir fjallaskörðin sem leit ekki vel út, spáin sagði -10°C til -14°C og ausandi rigning á láglendinu. Var tekin sú ákvörðun hjá okkur að snúa ferðinni aðeins, byrja bara á endinum, nú skyldi stefnan sett á Pólland. Með því vonuðumst við til að sumarið væri komið þegar við kæmum hinumegin að fjalla skörðunum eftir u.þ.b. 3 vikur.  90° vinstri beygja og stefnan sett beint á Pólland, við komnir í smá kapp við veðrið þar sem það átti að rigna duglega á okkur ef við hefðum ekki hraðan á. Vorum við því á autobananum alla leiðina fram hjá Berlín og stefndum við á Frankfurt an der Oder, og þar að landamærunum, hitinn var farin vel yfir 30° fljótlega eftir að við lögðum á stað og við bókstaflega á floti í leðurgöllunum þegar við þurftum að stoppa og  hanga í röð á hraðbrautinni (smá árekstur) í meira en klukkutíma í yfir 30° gráðum , mæli ekki með.

Á einni bensínstöðinni bókuðum við gistingu í Torzym sem við héldum að væri bara venjulegur bær, En
nei þetta var sko eiginlega bara bensínstöð með öllu. Þarna voru 20 dælur og trukkar eins langt og augað eygði, verslun og hótel. Þreyttir ferðalangar á trukkastoppinu fundum við allt sem okkur vantaði þarna. Pólverjinn hafði sem sagt masterað það að ef það var ekki til þarna þá vantaði þig það ekki.

Fyrir utan húsnæðið hjá Ironhead.

Hótelið var bara mjög flott.  Allt nýtt eða nýlegt og flott. Vel úthvíldir daginn eftir ákváðum við að heimsækja klúbbfélaga vina okkar í Ironhead Cold side. Héldum við sem leið lá í átt að Poznan og þaðan að klúbbhúsi þeirra við Grabianowo. Á leiðinni ákváðum við að við myndum finna okkur bara gistingu í nágrenninu og bókuðum við gistingu í bæ sem heitir Srem. Nú var hitinn farinn yfir 30°. Um kvöldið var haldinn grillveisla fyrir okkur í klúbbhúsi Ironhead MC Nomads Lost Side.

Grillaðar voru Pólskar pylsur og meðlæti, var þetta alveg meiriháttar. Þarna vorum við í góðu yfirlæti í boði góðra félaga. Daginn eftir var ákveðið að fara til Poznan og finna verslun með mótorhjólagalla því leðrið var bara ekki að gera sig í þessum hita. Það var farið að jaðra við pyntingum að hjóla eitthvert.

Forseti Ironhead MC Nomads Lost Side á verslun Moto-Way sem við fórum í og var þar verslað jakki, kevlar buxur og nýja skó á mig. Nú var maður loks hæfur í 30°+. Nú var eina áhyggjuefnið að afturdekkið hjá mér var eiginlega alveg búið og hófst því leit að verkstæði sem gæti átt dekk. Við vorum um helgi og því ekki margir möguleikar í stöðunni með opið verkstæði. Við ákváðum að vera bara á sveitavegunum en ekki autobananum, sem reyndar var alltaf stefnan. Héldum við sem leið lá í átt að Tékklandi í gegnum pólskar sveitir með tilheyrandi lykt,, já maður minn það er svolítið sérstakt að keyra kannski í gegnum heilu sveitirnar í 30 stiga hita og allir að rækta svín og hænsni, höfum við sjaldan verið eins nálægt því að æla inní hjálmana.

Til Tékklands náðum við og í Liberec duttum við í lukkupottin því þar fórum við að bakaríi til að forvitnast um verkstæði sem Google frændi benti okkur á ætti að vera þarna en var löngu lokað. En starfsmenn bakarísins þekktu sko allt og alla og áður en við vitum af var ég kominn með tíma á mótorhjólaverkstæði sem átti dekk. Fengum við fínar leiðbeiningar hvert átti að halda og fundum við verkstæðið.
Eigandin beið eftir okkur og vildi hann vita hvað ég var tilbúinn að borga eða já ég skildi ekki orð hjá honum og þar sem hann talaði enga ensku, svo með já handapati og tilheyrandi látbragði þá komumst við að niðurstöðu. Ég þurfti bara að borga, En einhvernvegin hafðist þetta og skildi ég hjólið eftir með þeim orðum að við getum sótt það morgunninn  eftir, svo var hringt á Taxa fyrir mig.

Innandyra á hjólaverkstæðinu voru nokkur sögufræg hjól og var þar greinilegt að þetta væri staður þar sem menn vissu alveg hvað þeir voru að gera. Mér leið strax betur við að vita það að hjólið mitt væri í góðum höndum

Framhald……. síðar…

 Ferðalangar
Friðrik Ottósson 2008 Suzuki GSXR 1300 Hayjabusa
Valur Smári Þórðarsson 2007 Honda CBF 1000