Honda mótorhjól Akureyringsins Stefáns Finnbogasonar eru komin til ára sinna, en eru í fullri notkun.
Hann fæst við vélar frá 5 hestöflum upp í 2000 hestöfl, annarsvegar í mótorhjólum og hins vegar um borð í disel togara sem vinnur á sem vélstjóri. Stefán Finnbogason á Akureyri á forvitnilegt safn mótorhjóla heima í skúr, nokkra gullmola sem hann hefur nostrað við síðustu ár.
Fyrsta hjólið eignaðist Stefán sextán ára gamall, Honda 750 sem hann á ennþá og hefur ekið 60.000 kílómetra, en rúmlega 100.000 km hefur hann ekið um æfina.
Þessi fimm hjól sem ég á eru hálfgerðir forngripir af mótorhjólum að vera, en þau eru öll gangfær. Svo á ég tvö hjól í pörtum, til að raða saman, eftir að konan eignaðist barn. Eftir það hefur verið í nógu að snúast heimafyrir með vinnunni,“ sagði Stefán í samtali við 3T. Gripurinn sem Stefán heldur mest uppá er nú eiginlega í eigu konunnar, Honda 300 árgerð ’67, sem hann reif í sundur stykki fyrir stykki og gerði upp.
Hjólasafnið er ekkert veraldarundur, en hefur kostað mig mikla vinnu og er allt af Hondu gerð, ég þarf ekki eftirlíkingar. Hjól konunnar var tímafrekast að gera upp. Ég pússaði allt á því ínn að járni og var nokkra daga að hreinsa álhluta vélarinnar, sem hafði fallið á. Það var 20 ára skítur á hjólinu sem þurfti að afmá“. sagði Stefán, mikið króm fór á hjólið, en áhugi á slíku er að koma aftur eftir að svarti liturinn hefur ráðið ríkjum hjá hjólaframleiðendum. Þó finnst mér sumir hjólamenn króma alltof marga hluti í hjólunum sínum, það má nú ofgera öllu í þessu sem öðru.“
Eitt hjól sem er mikið krómað er tryggðartröllið, 750 hjólið sem fylgt honum alla hans hjólatíð. Ég er búinn að aka því um allt land og víða í Evrópu. Það er mikill munur á því að aka hér eða erlendis, meiri virðing er borin fyrir hjólamönnum erlendis í umferðinni. Þar sér maður líka oftar eldri menn á hjólum, hérna geta t.d. ungir guttar stokkið á kraftmestu hjólin án nokkurra kvaða, eftir að hafa tekið venjulegt mótorhjólapróf.
Þeir þykjast hafa himinn höndum tekið og ósjaldan endar það með voða. Allt of margir hafa líka ekið glannalega í vor, enda eru flestir á mjög kraftmiklum hjólum, sem eru fljót yfir hámarkshraða. Í raun er óskiljanlegt af hverju við höfum ekki vegakerfi fyrir svona hjól og þau eru of dýr miðað við notagildið. En við viljum víst alltaf það besta og dýrasta.“
Það hefur orðið hröð þróun í gerð mótorhjóla frá því ég keypti mér fyrsta hjólið, flest hefur breyst. Áður fyrr sást vél og grind, en nú er farið að fela allt með plasti til að auka straumlínulag og skapa nýstárlegt útlit. Mér finnst mörg nýju hjólanna allt of lík kappaksturhjólum, menn sitja í keng og pláss fyrir farþega er takmarkað.
Fyrsta hjólið mitt var ofarlega í flokki áður fyrr, var 200 kg og 23 hestöfl, nú eru öflugustu hjólin mun léttari og 130 hestöfl, mitt hjól fer í 130, en þau nýju í 270! Af þessum sökum þyrfti enn frekar að takmarka notkun nýliða á slíkum tækjum, menn þyrftu samkvæmt lögum að hafa nokkura ára reynslu í meðferð mótorhjóla áður en þeir hefðu rétt til að eignast stóru hjólin. Þróun hjólana síðustu árin eru ótrúleg meðan mannsheilinn hefur ekki tekið miklum framförum og á fullt í fangi með að fylgja hröðun kraftmikilla tækja eftir.
Þó Stefán sé gagnrýninn á kraftmikil tæki þá hefur hann gaman að þeim og hefur m.a. sjálfur komist á verðlaunapall í kvartmílu og sandspyrnu, þannig að hraðakstur kemmst alveg að hjá honum eins og öðrum mönnum. Ég tek þessu samt rólega núna, læt mér nægja forngripina mína og fer oft á því minnsta í sendiferðir. Það er óneitanlega sérstök tilfinning að klæða sig í galla, setja upp gamlan hjálm og gleraugu og taka rúntinn á einu þessara gömlu hjóla. Sjómennskan þýðir mikinn tíma að heiman og félagskapurinn um borð er mikilvægur. Þegar úthaldið til sjós er langt. Alveg eins og of hröð mótorhjólatækni deyfir vit manna finnst mér videoglápið sem einkennir sjómennskuna núna ferleg.
Ég held að videoið hafi skemmt samskipti bæði til lands og sjós, vonandi breyta menn því ástandi sem fyrst.
Mér finnst alltaf gott að koma heim., hitta fjölskylduna og brenna svo eitthvert á einu hjólanna.“ Sagði Stebbi.
3T 1991