Hring­far­inn Kristján Gísla­son hef­ur nýtt frelsið eft­ir að hann hætti að vinna og ferðast víða á mótor­hjóli. Hann fór ný­lega í langt ferðalag um Jap­an með eig­in­konu sinni Ásdísi Rósu Bald­urs­dótt­ur.

Í des­em­ber 2022 luk­um við erfiðustu mótor­hjóla­ferð sem ég hef farið, um Patagón­íu í Suður-Am­er­íku. Eft­ir þá ferð lofaði ég Ásdísi að næsta ferð yrði af allt öðrum toga; ör­ugg­ir veg­ir, gott lofts­lag og þróaðir innviðir. Þannig sá ég Jap­an fyr­ir mér og þannig seldi ég Ásdísi hug­mynd­ina,“ seg­ir Kristján um hvernig hug­mynd­in að Jap­ans­ferðinni kviknaði.

Til­biðja látna forfeður og nátt­úr­una

Ásdís við Itsukushima Jinja Otorii eða hið mikla Torii-hlið.

Ásdís við Itsukus­hima Jinja Otorii eða hið mikla Torii-hlið. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Þegar Kristján lít­ur til baka seg­ir hann menn­ingu Jap­ans standa upp úr.

„Nú telj­um við okk­ur skilja bet­ur þjóðarsál­ina og menn­ing­una eft­ir þetta sex vikna ferðalag okk­ar um tvær helstu eyj­ar Jap­ans, Hokkaídó og Hon­sjú, þar sem 80% þjóðar­inn­ar búa. Ég hef heim­sótt yfir 100 lönd og flest þeirra á mótor­hjól­inu mínu. Af öll­um lönd­un­um þá er Jap­an eitt það eft­ir­minni­leg­asta. Mér finnst at­hygl­is­vert að Jap­an er fjór­um sinn­um stærra en Ísland, en vegna skóga þá er byggi­legt svæði aðeins um þriðjung­ur þess (svipað og Ísland). Á því land­rými búa hins veg­ar 125 millj­ón­ir manna.

Vissu­lega gætu Jap­an­ir hoggið niður skóga til að verða sér úti um land, en trú­in þeirra, sj­intó, kem­ur í veg fyr­ir það því allt geng­ur út á að hlífa og virða nátt­úr­una. Þeir ganga meira að segja svo langt að flytja inn timb­ur í ein­hverj­um mæli. Við sem búum í trjálitlu landi eig­um erfitt með að skilja þetta. Tré eru nán­ast heil­ög og þeir finna sterkt fyr­ir hlýj­unni og vernd­inni sem þau veita. Við hitt­um Jap­ana sem sagði okk­ur að berang­urs­legt lands­lag, eins og á Íslandi, virkaði ógn­vekj­andi á hann. Í tvígang var okk­ur sýnd mik­il gest­risni á veit­inga­stöðum, en okk­ur var boðið borð með stór­um glugga þannig að við gát­um virt nátt­úr­una fyr­ir okk­ur. Þar sát­um við hlið við hlið og horfðum á nátt­úr­una – þétt­an skóg­inn tvo metra frá glugg­an­um. Mæli­kv­arði á nátt­úru­feg­urð fer greini­lega eft­ir því menn­ing­ar­svæði sem þú elst upp á.

Japanir eru duglegir að nota þjóðbúninga sína.

Jap­an­ir eru dug­leg­ir að nota þjóðbún­inga sína. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

En menn­ing­armun­ur­inn birt­ist með ýms­um hætti. T.d. er ávallt farið í inni­skó og þá skipt­ir ekki máli hvort þú ert að koma á heim­ili, gisti­heim­ili eða jap­ansk­an veit­ingastað. Meira að segja er skipt um inni­skó þegar farið er inn á sal­ern­in. Þetta er ekki aðeins spurn­ing um hrein­læti því með þessu á sér stað ákveðin hreins­un eða „purificati­on“ þar sem verið er að hreinsa út óæski­lega anda. Ég sá verka­mann, með hvíta hanska, vera að hreinsa högg­bor­vél­ina sína með hvít­um klút í sama til­gangi. Eitt­hvað sem við mynd­um aldrei gera.

Til­beiðsla Jap­ana fer ekki fram hjá nein­um sem ferðast um landið, en yfir 150 þúsund hof og helg­ir staðir eru í land­inu. Ríkj­andi trú er sk. sj­int­ó­trú þar sem menn til­biðja einkum látna forfeður sína og nátt­úr­una. Jap­an er fyr­ir­mynd­ar­land á svo mörg­um sviðum og þess vegna er það nán­ast óskilj­an­legt hvers vegna sjálfs­víg ungs fólks eru með mesta móti í Jap­an. Var okk­ur sagt að ein­stak­ling­ur­inn geri svo óheyri­leg­ar kröf­ur til sjálfs sín að hann brotn­ar.

Eitt af því sem kom okk­ur á óvart var að sjá bíla­flota lands­manna. Við höfðum aldrei séð megnið af þess­um bíl­um þótt þeir væru fram­leidd­ir af Toyota, Honda o.fl. Bíl­arn­ir voru afar litl­ir og kubbs­leg­ir en mjög praktísk­ir. Járn­braut­ar­lest­ir í Jap­an eru hins veg­ar af stærri gerðinni. Við tók­um hraðlest­ina (Shink­an­sen) frá Kýótó til Hírósíma þar sem ferðast er á 320 km hraða. Það var upp­lif­un. Ferðamenn sem vilja ferðast sem víðast í Jap­an nýta sér yf­ir­leitt þess­ar hraðlest­ir en ekki mótor­hjól.“

Sér­stak­lega öguð þjóð

Þú hef­ur lent í alls kon­ar áskor­un­um og krefj­andi aðstæðum á mótor­hjól­inu, komu upp ein­hverj­ar erfiðar aðstæður í Jap­an?

Kvöldverður á ryokan sem eru gistihús. Kristján er hrifinn af …

Kvöld­verður á ryok­an sem eru gisti­hús. Kristján er hrif­inn af jap­anskri mat­ar­gerð. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

„Jap­an­ir eru senni­lega agaðasta þjóð sem ég hef kynnst. Það eru til regl­ur, skrifaðar og óskrifaðar, yfir flest og all­ir fylgja þeim. Af þeim sök­um virk­ar allt eins og smurð vél – svo framar­lega sem þú þekk­ir regl­urn­ar. Á ferðalög­um mín­um og okk­ar Ásdís­ar, þegar hún er með mér, þá bók­um við sjaldn­ast hót­el fyrr en seinnipart­inn. Við kom­umst fljót­lega að því að það gekk ekki þarna, því þá gát­um við ekki verið viss um að fá kvöld­mat og morg­un­mat dag­inn eft­ir. Þú varðst að panta kvöld­mat­inn og morg­un­mat­inn um leið og þú gerðir hót­el­bók­un­ina, sem þú ger­ir með minnst sól­ar­hrings­fyr­ir­vara. Þeir kaupa ekki mat nema fjöld­inn sé þekkt­ur. Mat­ar­sóun er því með minnsta móti og má segja að Jap­an­ir séu á und­an sinni samtíð hvað það varðar.

Tungu­málið er ann­ar kafli. Fáir tala ensku, sér­stak­lega í sveit­un­um, og allt var á japönsku tákn­máli. Þarna reyndi á tækn­ina því flest sam­skipti og upp­lýs­inga­öfl­un átti sér stað með aðstoð þýðing­ar­for­rita í sím­un­um okk­ar. Fyr­ir vikið kom­umst við ekki í mikla snert­ingu við Jap­ani eins og við hefðum gjarn­an viljað og erum vön á ferðalög­um okk­ar.“

Dæmigerður japanskur morgunmatur.

Dæmi­gerður jap­ansk­ur morg­un­mat­ur. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Allt var hreint

Hjón­in fóru víða og upp­lifðu tölu­verðan mun á stór­borg­um og sveit­um þar sem allt var ein­fald­ara. Þau upp­lifðu þó ekki beint fá­tækra­hverfi eins og víða ann­ars staðar.

Lestin fór á gífurlegum hraða.

Lest­in fór á gíf­ur­leg­um hraða. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

„Tókýó er byggð hátt í loft upp og í eitt skiptið var mót­taka hót­els­ins á 45. hæð og hót­el­her­berg­in þar fyr­ir ofan. Nyrsta eyj­an og sú næst­stærsta, Hokkaídó, er strjál­býlust. Þar er að finna bestu og fræg­ustu skíðasvæði Jap­ans en Vetr­arólymp­íu­leik­arn­ir voru ein­mitt haldn­ir þar árið 1972 og eru kennd­ir við Sapporó, stærstu borg­ina á Hokkaídó. Þar ferðuðumst við í viku og heim­sótt­um m.a. fal­lega þjóðgarða og hvera­svæði sem minnti okk­ur á Ísland. Sterk baðmenn­ing er í Jap­an. Á flest­um hót­el­um er boðið upp á „on­sen“ sem eru eins og heit­ir pott­ar sem eru kynja­skipt­ir og fólk baðar sig án sund­fatnaðar. Til þess að geta nefnt böðin „on­sen“ þurfa þau að vera með hita­veitu­vatni. Þarna var sterk skír­skot­un í potta­menn­ing­una okk­ar.

Það var farið að hausta.

Það var farið að hausta. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Svo­kölluð ryok­an var víða að finna í Jap­an. Þetta eru lít­il og heim­il­is­leg gisti­hús sem byggð eru í japönsk­um stíl, þar sem gest­ir sofa á dýn­um á gólf­inu. All­ir fá yukata, sem er jap­ansk­ur fatnaður í lík­ingu við jap­ansk­an júdó­bún­ing nema miklu þynnri. Þessu klæðast gest­irn­ir og koma þannig í kvöld- og morg­un­verðinn. „On­sen“-böðin spila stóra rullu í þess­um ryok­an-gisti­hús­um. Mat­ur­inn á þess­um stöðum get­ur ekki verið jap­ansk­ari og það var ein­mitt þar sem ég komst upp á lagið að borða mí­sosúpu og steikt­an mak­ríl í morg­un­verð. Hreinn unaður. Þrátt fyr­ir mögu­leik­ana hafa Jap­an­ir ekki viljað nýta sér jarðvarmann eins og við ger­um, ein­fald­lega vegna þess að þeir telja það myndu raska lífi trjánna.

Okk­ur fund­ust lífs­skil­yrðin góð í Jap­an og við sáum aldrei fá­tækra­hverfi, óreglu­fólk eða heim­il­is­lausa, eins og sjá má víða – líka á Vest­ur­lönd­um. Jap­an er hrein­leg­asta land sem ég hef heim­sótt. Þú sást ekki bréfsnifsi, tyggigúmmí eða síga­rett­ustubb. Allt var hreint alls staðar. Það var líka eft­ir­tekt­ar­vert að það voru hvergi rusla­föt­ur. Þú berð sjálf­ur ábyrgðina á því að farga þínu rusli. Þannig er búið að inn­ræta regl­ur inn í sál­ar­vit­und­ina frá blautu barns­beini, líkt og það geng­ur eng­inn yfir á rauðu ljósi í Jap­an – eng­inn!“

Eina húsið sem stóð af sér kjarn­orku­spreng­ing­una í Hírósíma. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Þjóðfé­lagið er ofar ein­stak­lingn­um

Jap­an á það sam­eig­in­legt með Íslandi að vera virkt eld­fjalla­land en Kristján seg­ir fjallið Fújí vera það fræg­asta í land­inu. „Það gaus fyr­ir langa­löngu en Jap­an­ir vakta það stöðugt. Vegna um­brota í jarðvegs­flek­um, sem mæt­ast við Jap­an, þá eru eld­gos og jarðskjálft­ar tíðir. Jarðskjálft­ar sem eiga upp­runa sinn á hafi úti hafa valdið mikl­um búsifj­um í Jap­an í gegn­um ald­irn­ar,“ seg­ir Kristján.

„Árið 2011 reið yfir stærsti jarðskjálfti sem sög­ur fara af í Jap­an síðan 1900, en hann olli mik­illi flóðbylgju þar sem yfir 18.000 manns létu lífið. Um­merki þess­ara at­b­urða eru sýni­leg að því leyti að búið er að reisa risa­sjóvarn­argarða við strend­urn­ar. Þó að Jap­an­ir þekki ýmsa nátt­úru­vá, eld­gos, jarðskjálfta og flóðbylgj­ur, þá hafa þeir líka glímt við ann­ars kon­ar vá. Þeir þurftu að glíma við af­leiðing­ar kjarn­orku­sprengju þar sem borg­in Hírósíma hvarf af yf­ir­borði jarðar á nokkr­um klukku­stund­um ásamt 80.000 íbú­um henn­ar. En 19 árum síðar, 1964, héldu Jap­an­ir Ólymp­íu­leik­ana og sýndu um­heim­in­um hvers megn­ug­ir þeir eru. Ögun Jap­ana er ótrú­leg og í Jap­an lærðum við að þjóðfé­lagið er ofar ein­stak­lingn­um – ein­stak­ling­ur­inn fórn­ar sér fyr­ir heild­ina. Þannig hef­ur þess­ari mögnuðu þjóð tek­ist að kom­ast í gegn­um skelfi­lega at­b­urði.“

Háhitasvæði á Hokkaido.

Há­hita­svæði á Hokkaido. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Eru alltaf viðbúin

Hjón­in munu seint gleyma ferðinni til Jap­ans og það er margt sem þau taka með sér.

„Fyr­ir mig sem áhuga­mann um jap­anska mat­ar­gerð þá var þetta veisla, en því miður er Ásdís ekki á sömu línu og ég með það. Við nut­um þess að ferðast um landið og njóta nátt­úr­unn­ar sem er í senn fal­leg og ógn­væn­leg. Jarðskjálft­ar og flóðbylgj­ur eru svo raun­veru­leg ógn og núna þegar við upp­lif­um eld­gos á Reykja­nes­inu, þá magn­ast upp sú til­finn­ing sem við fund­um fyr­ir í Jap­an. Heil blokk lagðist á hliðina í ein­um jarðskjálfta sem reið yfir Is­hikawa-héraðið, sem við höfðum farið um, nokkr­um vik­um eft­ir heim­komu. Víða eru hjálm­ar, niðursuðuvör­ur og sjúkra­kass­ar staðal­búnaður í bygg­ing­um og all­ir drykkja­sjálfsal­ar opn­ast sjálf­virkt ef jarðskjálft­ar fara yfir ákveðin mörk.

En fyrst og fremst er það virðing­in sem við ber­um fyr­ir japönsku þjóðinni. Aldrei höfðum við gert okk­ur grein fyr­ir því hversu sam­stillt­ir ein­stak­ling­arn­ir eru sem byggja þetta land. Jap­an­ir stæra sig aldrei, þeir þekkja senni­lega ekki það orð. Þeir ganga fum­laust til verka og gera það óaðfinn­an­lega. Þegar kjarn­orku­slysið í Fukus­hima átti sér stað árið 2011 þá buðu sig fram 50 verk­fræðing­ar, sem komn­ir voru á eft­ir­laun, til að fara inn í bygg­ing­una til þess að af­tengja kjarna­ofn­ana, þótt þeir vissu að þeir væru nán­ast að ganga að dauðanum vís­um. Þannig sýna Jap­an­ir tryggð sína gagn­vart sam­fé­lag­inu og land­inu sínu. Sjálf­ir setja þeir sig í annað sætið.

Ásdís fann fyrir frelsinu þegar úr skóginum var komið.

Ásdís fann fyr­ir frels­inu þegar úr skóg­in­um var komið. Ljós­mynd/​Kristján Gísla­son

Virðing­in sem okk­ur var sýnd var allt að því óþægi­leg fannst okk­ur stund­um. Síðan áttuðum við okk­ur á því að Jap­an­ir sýna sam­lönd­um sín­um sömu virðingu. Það er eng­inn sem tran­ar sér fram held­ur sýn­ir hann samlanda sín­um til­lits­semi af hæstu gráðu. Þetta sá maður alls staðar, í lyft­um, á veg­um og veit­inga­hús­um. Þetta er eitt­hvað sem við á Vest­ur­lönd­um gæt­um sann­ar­lega lært af Japön­um.“

Eruð þið byrjuð að skipu­leggja næstu ferð?

„Ég er alltaf byrjaður að huga að næstu ferð þegar við erum á heim­leið úr ferð sem þess­ari. Það er margt sem kem­ur til greina, Kúba og Nýja-Sjá­land sem dæmi, en núna er ég að ein­beita mér að lokafrá­gangi tveggja heim­ild­ar­myndaþátta sem verða sýnd­ir í Rík­is­sjón­varp­inu þann 11. og 18. fe­brú­ar nk. Þegar því er lokið þá fer ég að skipu­leggja næstu ferð, sem er alltaf skemmti­leg­ur tími.“

 

MBL. 21.01.2024