...

Spakur maður sagði að drepir þú mann lendirðu í fangelsi, drepirðu 1.000 manns færðu af þér styttu en drepir þú 10.000 færðu af þér styttu á hesti. Hér trónir maður sem komst til valda tvítugur og lagði undir sig heiminn áður en hann lést úr hitasótt 32 ára að aldri, Alexander mikli.

Grikkland og Balkan

Næsta ferð hefst í marslok. Við radíóvirki Ragnarsson erum satt að segja orðnir nokkuð spenntir að halda ferðinni áfram og skoða okkur um í Grikklandi og Balkanlöndunum á leiðinni heim.

Eitthvað teigðist nú úr ferðahléinu út af pöddunni alræmdu, en að lokum var valin til framhaldsferðar dagssetning sem tengist flugi með einstaklega óyndislegum hætti, sem sé 20 ára afmælisdagur voðaverka illvirkjanna sem flugu þotum á tvíburaturnana í NY, 11. september. Við erum þess fullvissir að þetta muni vera einhver öruggasti dagur til flugferða og höldum fullir tilhökkunar suður á bóginn til að upplifa náttúrfegurð, mannlíf og fornar minjar.

11. september 2021

Óþreyjufullir ferðalangar, sem grándaðir voru í hálftannað ár af alræmdu örkvikindi, eru nú loksins teknir á rás. Fyrsti leggur frá Kef var til Stokkhólms. Bið eftir vélinni til Þessalóniku var nógu löng til að við náðum að skjótast inn í borgina og birtast óvænt í fimmtugsafmæli tengdadótturinnar sem þar býr með Teiti, elsta syni mínum. Afmælisfögnuðurinn datt sem sé inn á sama dag og við höfðum planað framhald hjólatúrsins og því gerði ég ekki ráð fyrir að komast í gleði

na, svo þetta voru óvæntir fagnaðarfundir.

Í Þessalóniku náttuðum við á sama gistihúsi og fyrir tveimur árum, Mood Luxury Rooms í hjarta bæjarins. Duttum strax fyrsta kvöldið í gríska matinn, bakað eggaldin með fetaosti, tsasiki, mussaka og moðsteiktur lambaskanki, hreinasta hnossgæti, hvað öðru betra.

12. september 2021

Heitt á daginn og hlýtt á kvöldin

 

Sunnudaginn notuðum við til afslöppunar, í langa göngutúra og til að skoða sýningu sem hér er haldin árlega, eins konar sambland af vörusýningu og landkynningu. Talað mál jafnt sem prentað eingöngu á grísku og fór því allur boðskapur þarna fyrir ofan garð og neðan hjá þessum tveimur tilfallandi gestum.

Spakur maður sagði að drepir þú mann lendirðu í fangelsi, drepirðu 1.000 manns færðu af þér styttu en drepir þú 10.000 færðu af þér styttu á hesti. Hér trónir maður sem komst til valda tvítugur og lagði undir sig heiminn áður en hann lést úr hitasótt 32 ára að aldri, Alexander mikli.

Radíóvirkinn er í öflugu fjarskiptasambandi við hið fjölbreytilegasta fólk og ekki síst aðra glóbetrottera. Hann upplýsti mig um að hugsanlega gæti kunningi hans Andrés Konráðsson vélhjólamaður á mikilli ferð, poppað upp þarna hjá okkur á Mood gistiþjónustunni. Og viti menn, þar sem við sitjum á barnum framan við hótelið, sötrandi ávaxtasmoothie með smá Campariskvettu í, stendur ekki umræddur maður skyndilega fyrir framan okkur.

Heitt á daginn og hlýtt á kvöldin

Er ekki að orðlengja það að með þessum víðförla manni varð kvöldið allt hið skemmtilegasta. Andrés á rætur í Borgarnesi en einnig í minni sveit, Landsveitinni, barnabarn Björns bónda í Efra-Seli. Hann hefur verið í byggingarbransanum kúfinn af ævinni og m.a. unnið að stórum verkefnum í spennandi löndum eins og Íran, Saudi Arabíu og Suður Afríku og var afar forvitnilegt að heyra frásagnir hans af störfum sínum á þessum stöðum, sem og af samskiptum við samstarfsfólkið úr þessum gerólíku menningarheimum. Nú orðið notar þessi skemmtilegi maður stóran hluta tíma síns í mótorhjólaferðalög um heiminn og deildi hann með okkur einhverju af fyrirætlunum sínum á þeim vettvangi.

Grafhýsi Filipusar II Makedóníukonungs

13. september 2021

Vel hefur farið um Bimmana hjá Iliasi í sölu-og þjónustubatteríi bæversku mótorsmiðjanna í Þessalóníku.  Fengum hjólin afhent yfirfarin, uppfærð, strokin og fín. Eftir smá viðbótarsýsl var haldið á fyrsta áfangastað, að skoða fornminjarnar í Vergina sem eitt sinn var höfuðborg Makedóníu og hét þá Aigai. Rústir af konungshöll sem og af leikhúsi voru í  „viðgerð“ og það svæði því lokað, en grafhýsi Filipusar II sem var myrtur árið 336 fyrir Krist var aðgengilegt og voru á svæðinu margs konar minjar aðrar, svo sem styttur, lágmyndir og rústir bygginga.

Í þessari hinstu vistarveru konungsins af Makedóníu var m. a. gullkista sem geymdi bein konungs. Hann mun hafa verið brenndur og óbrunnin bein voru lauguð úr víni og varðveitt í þessu líka forláta boxi úr skíra gulli.

Gullkistan sem varðveitir bein Filipusar II

Filipus þessi tók við eftir lélegt stjórnarfar í Makedóníu en var mikilhæfur leiðtogi og reisti landið til vegs og virðingar. Eftir hans dag tók sonur hans við ríkinu og sá var nú ekki að tvínóna við hlutina. Tvítugur tók hann við stjórnartaumum landsins og 12 árum síðar þegar hann lést úr hitasótt, var hann búinn að leggja undir sig heiminn. Ríki hans náði frá Egyptalandi í vestri til mið-Asíu í austri og stofnaði hann um 70 borgir sem báru nafn hans og bera það margar enn. Þetta var að sjálfsögðu enginn annar en Alexander mikli.

Eftir heimsóknina í þetta áhugaverða safn héldum við sem leið liggur til Meteora, algerlega kyngimagnaðan stað.

Uppi á sandsteinsklettunum í Meteora eru bæði munka- og nunnuklaustur,, 6 klaustur í dag en voru 24 upphaflega.

Fundum okkur næturstað á fyrirmyndar gistihúsi og greiddum minna fyrir næturgistinguna ásamt morgunverðarhlaðborði, en ég greiddi fyrir svefnpokapláss fyrir einn í Landmannalaugum fyrir einum fjórum eða fimm árum. Kvöldskatturinn samanstóð af nokkrum einstaklega ljúffengum smáréttum að hætti heimamanna sem við snæddum á nærliggjandi matsölu.

Eknir 246 km.

14. september 2021

Þetta heimili er tæplega fyrir lofthrædda

Í Meteora eru fjöllin eiginlega samansafn af gríðarlega fallegum og sérkennilegum sandsteinshnjúkum. Um miðja 14. öld kom ein munkareglan sér fyrir á svæðinu og fór að byggja klaustur á einum klettadranginum til að komast hjá átroðningi og árásum. Upphaflega var eina leiðin upp á bröttum og löngum stigum sem dregnir voru upp ef hættu bar að, en síðar útbjuggu munkarnir vindur með stórum netpokum til að hala upp og niður bæði vörur og menn. Í lok 14. aldar sóttu Tyrkir hart að íbúum Þessalí héraðs til að komast yfir frjósamar sléttur héraðsins. Þá fjölgaði mjög klaustrum á sandsteinsdröngunum í Meteora og urðu þau liðlega 20 þegar mest var, en í dag standa enn 6 starfandi klaustur, 4 munka- og 2 nunnuklaustur.

Lítið landrými utanhúss

Körfur og netpokar í löngum köðlum voru einu transporttækin upp í klaustrin allt fram á 17. öld og má ætla að menn hafi þurft góðar taugar til að láta hala sig upp meðfram klettaveggnum í t.d. Varlaam klaustrið í 373 m hæð, öldum fyrir daga nælons og stálvíra. Þessi hæð samsvarar rétt um 6 Hallgrímskirkjuturnum, stöfluðum hverjum ofaná annan, svo maður noti samanburð úr kristindóminum.

Gott útsýni

 

 

Síðar fóru menn að höggva tröppur utan í klettana og í dag má komast að klaustrunum eftir vönduðum tröppugöngum.

Þegar gengið er um ganga og rými þarna inni í klaustrunum undrast maður eljuna og þrautseigjuna við að koma upp á klettana öllu byggingarefni og öðru því sem á þurfti að halda fyrir svona samfélög.

Tröppur og brýr liggja upp í klaustrin í dag

Þægilegir stígar og tröppur liggja nú um þessar fornu byggingar

 

 

Eftir að hafa drukkið í okkur náttúrufegurðina og sjarma og sögu þessa makalausa staðar, héldum við áleiðis á næsta áfangastað.

Eknir 259 km

15. september 2021

Gistihúsið í Delphi þar sem við náttuðum er í um það bil 1 km fjarlægð frá fornminjunum þar sem guðinn Appolló var „aðal“ og í hans hofi var hofgyðjan Pýþía sem í mikilvægum málum miðlaði vísdómi frá guðunum, svaraði spurningum og veitti ráðgjöf í véfréttastíl.

Minjar af hofi Appollós

Eftir árbítinn röltum við upp á þennan stórmerka stað. Á vísindavefnum er grein um staðinn og mikilvægi hans hjá forngrikkjum, en þeir munu hafa talið hann miðju alheims, enda merkti Seifur staðinn með steininum „omphalos“ sem merkir „nafli“  og er að lögun eins og hálft egg.

Omphalos, nafli alheimsins

Það var við hæfi að heimsækja þennan stað með radíóvirkjanum sem hefur tekið við straumum og skilaboðum úr kosmosinu frá unga aldri og drakk hann í sig stemninguna úr þessum punkti jarðar, sem helstu mennta- og menningarforkólfar fortíðarinnar töldu öðrum stöðum merkari og betur tengdan handanheimum. Þeir sem þekkja þennan góða samferðmann minn til áratuga, vita að hann á það einmitt til að svara manni í véfréttastíl. Sem dæmi má nefna að áður en við héldum í þetta ferðalag spurði ég hann hvort ég ætti að fá mér blátannar samskiptatæki í hjálminn eins og hann er með. Véfréttaþrungið svarið var: Til hvers? Þá hugleiddi ég eðlilega hvert væri hið raunverulega inntak svarsins: vitandi hve lítil mín tæknilega kunnátta er, telur hann mig kannski ekki ráða við meðhöndlun slíks verkfæris? Myndi þetta einfaldlega leiða til aukinnar umsýslu fyrir hann? Nennti hann kannski bara ekki að eiga á hættu að ég færi að masa? Eða var þetta kannski bara algerlega óþarfi? Eitt var á hreinu, véfréttin hafði talað og magnþrungið svarið var endanlegt, stórisannleikur í þessu máli.

Samferðungurinn taldi víst að þarna í hofminjum Delfí hefðu Danir fengið hugmyndina að Lego

Eknir 186 km

16. september 2021

Í gærkvöldi lentum við í óttalegum leiðindum út af örlitlum mistökum. Hótelið okkar hér í Aþenu er hvorki með bílastæði né bílageymslu. Eru hins vegar með samning við bílageymslu á bak við hótelið. Í ofurumferðinni hérna í miðbænum tókst okkur að aka framhjá innkeyrslunni að bílageymslunni þegar við ætluðum að parkera hjólunum og við það vorum við í vondum málum. Í eina 2 tíma eða lengur mjökuðumst við stóran hring í gegnum eina allsherjar samfellda umferðarteppu og þegar við áttum skammt ófarið að hótelinu og bílageymslunni, voru allar götur lokaðar með stórum lögreglurútum sem lagt hafði verið þvert á göturnar. Lögreglukona sem ég ók upp að og tók tali sagði mér að það væru fjöldamótmæli við þinghúsið og allar götur þarna á svæðinu lokaðar. Við skildum leggja hjólunum bara einhvers staðar þar sem við fyndum stæði og koma síðar um kvöldið þegar mótmælin væru afstaðin og sækja þau. Framlínumaður ferðarinnar hafði augun hjá sér og sá strax pláss á gangstétt þar sem hjóli hafði verið lagt, en „stæðið“ var handan breiðstrætis með þungri umferð og þar sem við vorum staddir, var augljóslega ekki rétti staðurinn til að stinga sér yfir allar akreinarnar. En viti menn, eitt andartak var nógu langt hlé á skriðþungri umferðinni til að við náðum að skjótast yfir. Vorum vel þreyttir, sveittir, illa þyrstir og hálf lerkaðir þegar við drögnuðumst inn um hóteldyrnar. Eftir góða sturtu og sykraða drykki vorum við sem nýir, sóttum hjólin síðar um kvöldið og röltum svo um Plaka hverfið þar sem við fengum okkur síðbúinn kvöldskatt.

Nú var sem sé safnadagur hjá okkur. Eðlilega er Akrópólisarhæð fyrst á dagsskrá og fór fyrri partur dagsins í að dást að þeim merku byggingum sem prýða hólinn.

Íbygginn ferðmaður í minjunum miðjum

Þarna hafa menn fundið og skráð gríðarlegan fjölda steina sem verið er að púsla saman aftur og reyna að koma þeim hofum sem þarna standa í sem upprunalegast horf. Því eru myndir af þessum fornminjum svolítið mengaðar af stórvirkum nútíma vinnuvélum og vinnupöllum.

Við meyjarhofið

Í fremur losaralegri ferðaáætlun sem ég hafði tekið saman fyrir brottför, minntist ég á fornbílasafn og hafði á tilfinningunni að samferðungurinn hefði ekki síðri og jafnvel enn meiri áhuga á því safni en því sem við höfðum skoðað á hæðinni frægu. Svo nú var haldið í Hellas Motor Museum og þar gat sá mikli áhugamaður um bíla, raunar jafnt nýja sem gamla, upplýst mig um allskonar, eftir því sem við gengum framhjá þessum gullmolum fortíðar.

Fulltrúi fjarlægrar fortíðar á bílasafninu

NASH 1926

Í stórum hringstiga niður nokkrar hæðir úr bílasafninu voru samfellt gluggar með dekkjum hinna fjölbreyttustu fornbíla, sem eldri urðu eftir því sem neðar dró. Neðst var að lokum hjól sem mér fannst ég kannast við úr Flintstone fjölskyldunni.

Þóttumst skrambi góðir að hafa náð tveimur merkum söfnum á einum degi.

17. september 2021

Í gærkvöldi náði radíóvirkinn að bóka okkur á ferju til Krítar í vistlegri káetu með wc og sturtu. Við vorum sem sé búnir að fabúlera um að gaman væri heimsækja þessa liðlega 8.000 km2 eyju og aka um fjöll og strandlengjur og reyndar taka jafnvel smá aksturshlé og þykjast vera hefðbundnir strandsæknir og sólþyrstir hópferðatúristar.

Ferjan fór ekki fyrr en kl 21:00 svo við nýttum daginn í óskipulagt rand um Aþenu. Gegnt hótelinu okkar er stærsti trjá- og blómagarður borgarinnar, um 15 hektara gróðurvin í miðri borginni. Þarna var notalegt að eigra um stíga í smá fjarlægð frá umferðarkliðnum. Þegar okkur þótti við hafa vappað nægilega um trjágöng og blómabeð héldum við út í borgarkliðinn þar á móts við, sem vel lögregluvarið þinghúsið liggur upp að gróðurdjásninni.

Friðsæld í míðborginni

Fyrirliðinn hafði farið með vélhjólagallann sinn í hreinsun og átti að fá hann sem nýjan kl 4. Ljóst var að þegar hann væri búinn að smeygja sér í glansandi silfurgráar flíkurnar, væri engan veginn við hæfi að vera í óburstuðum skóm. Stefnulaust ráp okkar hafði nú tilgang, að finna skóbúð. En þá gerist það náttúrulega sem endranær, að vanti þig eitthvað eitt og ferð að svipast um eftir því, þá er það sama með öllu horfið úr þínu umhverfi. Hvorki fylltumst við þó efa né vantrú, en héldum yfirvegaðir áfram að rölta um stræti verslana og matsölustaða þar til við eygjum það sem að var leitað. Björninn var þó ekki unninn enn, því skóbúðin seldi ekki skóáburð. Hins vegar fengum við nafnspjald og leiðarlýsingu að skóvinnustofu öllu ofar í hlíðinni, þar sem varan fengist. Þangað komnir var gengið frá kaupum á bæði stórri dós af áburði og nettum skóbursta úr fínustu hrosshárum.

Lagt í hann til Krítar

Á tilsettum tíma var fatnaðurinn sóttur í hreinsunina sem skammt var frá hótelinu og kominn í tandurhreinan gallann var okkar maður eins og klipptur út úr katalógnum. Hjólin voru sótt í bílageymsluna, öllu komið á sinn stað og síðan haldið niður á höfn í Píreus, þar sem ferjan lá. Hægt var að aka um borð einum þremur tímum fyrir brottför og koma sér fyrir í rólegheitum á skipinu. Eftir kvöldmat á ágætis veitingastað skipsins skriðum við undir teppið og sváfum þar til ferjan var komin rétt að höfninni á Krít um 6 leytið um morguninn.

18. september 2021

Ferjan skilaði okkur í land í höfuðborg Krítar, Heraklíon. Eyjan er mjó og liggur endilöng frá austri til vesturs. Ákveðið var að aka fyrst eftir norðurhluta hennar út á austasta hlutann og stefnan sett á á bæinn Sitia. Þetta eru ekki nema liðlega 130 km og liggur leiðin að stórum hluta um fjalllendi, landbúnaðarhéruð og litla bæi.

Fyrir utan túrismann er landbúnaðar helsti útflutningur héðan og út frá því sem blasti við okkur á þessari leið, virðist ólívurækt vera afgerandi hluti landbúnaðarins. Fundum fínasta hótel við ströndina og notuðum restina af deginum til að rölta um stræti og torg.

Menn kunna svo sem alveg að slaka á ef svo ber undir

19. september 2021

Hugmynd okkar var að fara hringferð um þessa liðlega 8.000 km2 eyju. Því var haldið til suðurs yfir fjöllin og svo vestur eftir ströndinni á misfljótförnum vegum. Sunnan til eru ekki sömu þægilegu vegirnir eins og eftir norðurströndinni og einhvern veginn fannst okkur allt þarna heldur frumstæðara en þar sem við fórum um daginn áður. Ekki veit ég hvort það var tilviljun en okkur fannst líka umtalsvert rakara þar.  Þegar við vorum komnir til Ierapetra áttuðum við okkur á að við myndum trauðla ná að komast til Chania austantil á eyjunni fyrir kvöldið, á þeim hraða sem ég treysti mér til að aka bugðótta fjallvegina. Því var stefnan tekin beint til norðurs og haldið sem leið liggur í þann einstaklega fallega bæ Chania í tæplega 300 km fjarlægð.

Fallegar strandlengjur hvert sem litið er

Austantil á eyjunni er heilt yfir gróðursælla. Fólk sem dvalið hefur á eyjunni, jafnt vinir heima sem starfsfólk á hóteli Amalia í Aþenu, ráðlagði okkur eindregið að láta þennan bæ ekki framhjá okkur fara. Ekið var inn í hjarta bæjarins og inn á göngugötu þar sem við rýndum í tækin okkar til að finna hótel. Kemur þá til okkar ungur maður og gaf sig á tal við okkur þar sem við erum á íslenskum númerum. Þetta er vélhjólamaður og Íslandsvinur, á íslenskan vin og hefur komið nokkrum sinnum til Íslands. Samferðungurinn notaði tækifærið og spurði manninn hvort hann gæti mælt með einhverju hóteli hér og sagðist hann vera sjálfur á ljómandi hóteli við höfnina, sem okkur leist bara vel á. Var ekki að orðlengja það að vinurinn hringdi óumbeðinn í gistihúsið, tékkaði á hvort þeir ættu laust kamesi og gekk frá bókun fyrir okkur þarna á staðnum. Þetta reyndist hinn vistlegasti gististaður. Svo klæddum við okkur bara í bol og stuttbuxur, settum á okkur sólgleraugu og létum okkur falla inn í fjöldann á randi um hafnarsvæðið og þrönga stíga bæjarins.

Framan við hótelið ágæta Porto Veniziano í Chania

20. september 2021

Chania er staður sem alveg væri hægt að verja nokkrum sumarleyfisdögum. Tókum morguninn rólega nutun staðarins og lögðum ekki af stað fyrr en upp úr hádegi til Heraklíon í ferjuna. Tíðindalítill og slakur dagur. Varðandi vírusinn alræmda þá virðast fólk umgangast hann með svipuðu sniði og heima. Utandyra er fæstir með grímu en grímuskylda er í mjög mörgum verslunum og hótel mælast flest til að fólk sé með grímu í anddyri, lyftum og sérstaklega við morgunverðarhlaðborð. Í ferjunni var grímuskylda sem truflaði okkur ekkert sérstaklega mikið því við fórum í sturtu um leið og við fengum káetuna og hölluðum okkur fram undir kvöldmat. Í betri veitingastað skipsins var setið við ein fjögur eða fimm borð á útleið en aðeins þrjú á heimleið. Eftir kvöldmatinn var lítið um vera svo við stungum okkur í bólin og sváfum eins og rotaðir selir til morguns þegar ferjan lagði upp að.

21. september 2021

Stefnan sett frá Píreus í norður í átt að Norður Makedóníu. Radíóvirkinn er sem endranær jafnan með minnst tvö leiðsögutæki við stýrið. Garmin GPS tækið í hjólinu var uppfært rétt fyrir brottför að heiman og reyndar mitt tæki í leiðinni, þannig að þessir ratarar eiga að vera með alla nýjustu vegina á hreinu og því var traust okkar lagt á alvit BMW útgáfu þessara bestu leiðsegjenda. En stundum fara hlutirnir fram úr sér eins og nú, því nýr og flottur vegurinn sem tækið sendi okkur eftir endaði skyndilega þar sem síst skyldi og skildi okkur eftir hálf veglausa. Sama hvað reynt var að koma vitinu fyrir tækið, það þráskallaðist við að senda okkur inn á veg sem ekki var til ennþá. Tæknimaðurinn náði að lokum ágætu sambandi við traustan og góðan vegvísi í símanum sínum og kom hann okkur þá leið sem fara þurfti um torfarna fjallvegi til að komast aftur inn á nýja veginn fína handan hæðanna tugum kílómetra norðar.

Nokkru áður en við glímdum við þennan flækjufót hafði annað lítið atriði náð að hækka í mér blóðþrýstinginn um brot úr millibari. Þó fyrirliðinn sé með snöggtum stærri tank á sínu hjóli, fyllum við ævinlega bæði hjólin samtímis. Á leiðinni í fjöllin ökum við framhjá bensínstöð en þá á ég enn eldsneyti í ca 130 km akstur. Afráðum að bíða með fyllingu fram að næstu stöð. Fá má upplýsingar úr rataranum um komandi eldsneytisstöðvar og voru nokkrar framundan. Síðan bara kemur í ljós að þær eru allar ýmist aflagðar eða utan við hraðbrautina þar sem hvergi var hægt að nálgast þær. Það smá minnkar í tanknum hjá mér og ég var farinn að sjá fyrir mér samferðunginn skilja mig eftir bensínlausan og halda í leiðangur eftir áfyllingu, sem einhvers staðar hlyti að vera framundan. Áður en til þess koma segja tækin okkur að bensín sé að fá í þorpi sem afleggjari lá út að og við stefndum eðlilega glaðir þangað. Þegar við höfðum lagt hjólunum við dæluna segir afgreiðslumaðurinn okkur að tankurinn á þessari stöð sé tómur. Þegar hann sér á okkur svipinn er hann fljótur að bæta við að olíubíllinn sem stóð þarna rétt hjá væri að fylla tankinn og hann gæti afgreitt okkur eftir hálftíma. Fengum okkur kaffi og lítinn poka af smákökum og fyrr en varði var eldsneytið afgreitt og við komnir á skrið norður eftir.

Leiðin er falleg, há gróðursæl fjöll á aðra hönd og iðulega stöðuvötn á hina. Enduðum í þorpinu Giannouli á Olympus Terra Boutique Hotel, minna má það ekki vera. Áður en við vorum samþykktir inn í þetta fína hús, vorum við hitamældir í fyrsta sinn í ferðinni. Reyndumst bæði stálslegnir og hitalausir þrátt fyrir hitann sem hefur hreinlega brætt okkur á hjólunum. Náðum mest 39 gráðum í einhverja stund á akstri um Krít en algengur hiti í ferðinni til þessa hefur verið um 30-34 stig. Erum á leið í þægilegri hitatölur.

22. september 2021

Á Boutique hótelinu góða er í anddyrinu stillt upp tveimur reiðhjólum úr timbri. Þessi hjól minntu mig á svipað tæki sem Stína sáum í hönnunarverslun í Soho í NY og fengum að prófa á götunum í því skemmtilega hverfi. Þetta eru hinir sniðugustu gripir og þegar ég fletti upp í gömlu albúmi í símanum kom í ljós að hjólið forðum var að öllu leyti sams konar og það sem þarna stóð.

Timburhjólið góða

Fékk svo að vita hjá dömunni í gestamóttökunni að hótelið fína var í eigu fyrirtækisins sem framleiðir m.a. þessi hjól. Rifjaðist þá upp fyrir mér að vinalegi náunginn sem lánaði okkur hjólið í NY sagði okkur að þau væru grísk og minnir mig að hann hafi jafnvel sjálfur verið ættaður frá Hellas.

Stefnan er nú sett á Norður Makedóníu og þar ætlum við að nátta í Ohrid, bæ við stöðuvatn sem Albanía á líka land að, en bærinn sem við stefnum á mun vera einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Náðum að snæða miðdegisverðinn í Grikklandi, síðasta máltíðin í því landi að sinni.

Á leiðinni til Ohrid ókum við yfir fjallvegi sem fóru yfir þúsund metra hæð og hitinn skyndilega kominn niður í einar 15 gráður. Nú vorum við komnir í svalara loftslag en fram að þessu í ferðinni og gott að vera ekki lengur bullsveittur allan daginn. Fundum okkur hótel niður við vatnið og þegar konan í gestamóttökunni sá að við vorum Íslendingar upplýsti hún okkur um að fyrr í sumar hefði dvalið á hótelinu íslensk fjölskylda, höfðu bókað 4 nætur en framlengdu svo um eina tíu daga í viðbót, því þau hrifust svo af bænum og svæðinu í kring.

Þarna er einstaklega fallegt, fjöllin, vatnið og ekki síst bærinn með sínum þröngu götum og fallegu húsum og rústum kastala, sem trónir efst á hæð yfir bænum og mun upphaflega hafa verið byggður á annarri öld fyrir Krist..

Ohrid er sjarmerandi bær með fallegum götum og þröngum stígum

23. september 2021

Í morgunmatnum uppi á fjórðu hæð virtumst við vera einu gestirnir. Þarna var borð hlaðið kræsingum sem ég hélt að væri hlaðborð fyrir gesti hótelsins, en átta mig svo á því að á borðinu eru tveir diskar og tveir bollar og við einu gestirnir í sjónmáli. Og mikið rétt, allur þessi matur var okkur ætlaður og málglöð afgreiðslustúlkan þarna upplýsti okkur um að Makedónar legðu mikið upp úr miklum og góðum mat. Við hesthúsuðum því sem við réðum við af þessu einkahlaðborði og vonumst til að daman hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum með tiltölulega lélega frammistöðu okkur. En gott var það hjá henni.

Árdegisverður fyrir tvo

Formiðdagurinn fór í gönguferð meðfram kristaltæru vatninu, um bæinn og upp á hæðina til að skoða kastalarústirnar.

Kastali var fyrst reistur þarna á annarri öld fyrir Krist

Fallegt guðshús í fögru landslagi

 

 

 

 

 

Þegar við höfðum skoðað nægju okkar og kyrralífsóþol farið að gera vart við sig, voru fákarnir söðlaðir og enn á ný haldið yfir fjöllin, nú í átt að Albaníu þar sem hitatölurnar áttu að vera nálægt kjörhita í svona ferð. Við landamærin var, eins og þegar við komum til Norður Makedóníu, beðið um passa, græna tryggingarkortið og bólusetningarvottorð. Að þessu framvísuðu var allt frítt fram, velkomnir í landið. Brattar, skógivaxnar hlíðar hárra fjalla beggja vegna vegarins skörtuðu einstaklega fallega glitrandi laufi í síðsumarbirtunni.

Áfangastaðurinn var Nord Park Resort, sama hótel og við höfðum gist á fyrir 7 árum á leiðinni heim frá Istanbul, eftir að hafa fylgt hringfaranum víðförla inn í Tyrkland. Þar sem við fórum að allstórum hluta sömu leið og þá, sáum við að á þessum tíma hefur verið mikil þróun í landinu, alla vega í farartækjum og húsnæði. Asni með kerru var ekki óalgeng sjón þá, en nú sáum við aðeins tvisvar eldri mann með þetta farartæki.

Ohrid er einstaklega vistlegur bær

 

En talandi um farartæki, þá stoppar radíóvirkinn úti í kanti skömmu áður en við erum komnir á hótelið. Þegar ég stoppa við hliðina á honum segir hann bara, komdu aðeins með mér tilbaka. Og við ökum tilbaka drykklanga stund og sé ég að hann skimar eins og hann sé að leita að einhverju. Loks snúum við aftur við og enn skimar okkar maður þar til allt í einu er ekið inn á plan sem þarna er við veginn og stansað. Ég fæ ordrur um að hinkra við hjólin á meðan hann hleypur yfir götuna. Ljómandi eins og sólin kemur hann tilbaka. Þarna var sem sé bílapartasala þar sem hann sá m.a. gamla VW rúgbrauð bíla. Og viti menn, fékk hann ekki vinstra framstefnuljósið á VW rúgbrauð T25, 80 módel, en þessi vara er með öllu ófáanleg í þeim kanölum sem radíóvirkinn þekkir og hefur hann þó víðari sýn og sambönd í þessum efnum en flestir. Bílapartasalinn hefur séð hve áfjáður samferðungurinn var í að eignast þennan sjaldgæfa hlut, svo verðið var heldur skrúfaðu upp en hitt og þurfti að greiða heilar tíu Evrur fyrir herlegheitin. Við svo búið gátum við haldið kátir á gistihúsið og þessum kjarakaupum var fagnað með Camparí í nýpressuðum appelsínusafa.

24. september 2021

Þegar við ókum heim eftir að hafa fylgt hringfaranum til Istanbul fyrir 7 árum, ókum við m.a. í gegnum Svartfjallaland eða Montenegro. Þetta er ekki stórt land og einhvern veginn upplifðum við það svo, að við vorum varla komnir inn í landið þegar við vorum komnir út úr því aftur. Þar sem landið er annálað fyrir náttúrufegurð datt okkur í hug að njóta hennar að þessu sinni og var stefnan sett á strandbæinn Kotor.

Fyrir áhugasama fjárfesta

Hann er á minjaskrá UNESCO, meira að segja tvívegis. Annars vegar eru það náttúru-og menningarverðmæti bæjarins sem slíks og hins vegar vegna þess að hann var hluti af varnarkerfi Feneyinga sem hér stjórnuðu á 16. og 17. öld.

Radíóvirkinn og kirkjan

Í bænum, innan virkismúra sem teygja sig upp eftir fjallshlíðunum, er einstaklega fallegt miðaldaþorp með þröngum götum og stígum, kirkjum og kastala, ríkmannlegum húsum og öðrum alþýðulegri og í öllum þessum húsum er starfsemi, íbúðir, gistihús, verslanir alls konar og aragrúi veitingastaða.

 

Radíóvirkinn nýtur sín í fornminjunum

Þarna eru fornminjarnar sannarlega tengdar iðandi mannlífi. Bærinn sjálfur liggur við svolítið merkilegan fjörð, sem upphaflega mun hafa verið gljúfurbotn en síðan sameinast hafinu fyrir örófi alda. Horfi maður á landakortið af firðinum, kemur hann eins og Y, fremur mjó renna til hafs en teygist svo til tveggja átta inn í landið.

Íbúar miðaldaþorpsins hérna þurrka þvottinn sinn á sama hátt víða sést í heitum löndum

Svona perlur eins og Ohrid í Norður Makedóníu og Kotor hér í Montenegro leynast víða, heillandi staðir sem maður hefur aldrei heyrt nefnda. Vörðum drjúgum tíma í fornminjunum og tókum að sjálfsögðu dinnerinn þar.

Þess má geta að þvottur fatnaðar getur verið svolítið með höppum og glöppum í svona ferð, en hér gistum við í smáíbúð með þvottavél og var því tækifærið notað og þrifið af sér.

Þvottadagur

 

Hafnarsvæðið í Kotor

 

 

 

25. september 2021

Okkar leið áfram frá Kotor lá meðfram firðinum sem bærinn liggur við á örmjóum vegi þar sem vegaxlarlaus malbiksbrúnin vatnsmegin var í um metershæð ofan við vatnið, sem var beint niður af malbikskantinum. Svo grannur var þessi vegur að þegar farartæki mættust þurfti annað iðulega að stoppa til að hleypa hinu hjá, en leiðin óborganlega falleg. Ferja við fjarðarmynnið kemur vegfarendum yfir að gagnstæðri strönd þar sem vegurinn heldur áfram.

Á ferjunni yfir fjörðinn

Ókum um skemmtilega fjallvegi ekki ósvipaða mörgum þeim sem hjólin hafa rúllað eftir síðustu daga. Báru þessir vegir okkur að lokum upp á hraðbraut og á henni síðan að landamærunum yfir til Króatíu. Gerðist það nú í fyrsta sinn við slíka stöð að eitthvert fát var á landamæraverðinum sem afgreiddi okkur. Eftir að hafa hamrað heilmikið á lyklaborð landamæratölvunnar, greinilega ósáttur við það sem þar var að finna eða ekki að finna, fór hann að næsta skýli og báru menn þar saman bækur sínar. Kom síðan eldri og vörpulegri starfsmaður landamæraeftirlitsins með honum til baka í hans starfsskýli og funduðu þeir þar stundarkorn um okkar mál sem lyktaði farsællega okkur í vil og vorum við að lokum boðnir meira en velkomnir inn í hina alkunnu króatísku náttúrufegurð.

Komnir yfir landamærin

Fylgdum við nú hraðbrautinni í átt að strandbænum Split þar sem við hugðum okkur náttstað. Í útjaðri borgarinnar fundum við ágætis hótel við ströndina þar sem við komum okkur fyrir, en því miður var matsalan ekki opin, því á hótelinu var ráðstefna og hafði sú stefna lagt undir sig veitingastaðinn í heilu lagi. Okkur var ráðlagt að rölta eftir ströndinni, en þar voru eingöngu barir sem engan seldu matinn. Fengum leiðbeiningar um hvar mat væri að finna og var liðlega tveggja km ganga að fyrsta veitingastaðnum, sem reyndist bara hinn ágætasti. Sælir og saddir nenntum við ekki að fara á postulahestunum til baka, létum bara hringja á bíl fyrir okkur.

26. september 2021

Einn af starfsmönnum radíóvirkjans í Nesradíói er Radovan, ættaður frá Króatíu. Hann kom með foreldrum sínum til Íslands á flótta undan stríðinu sem geisaði í Balkan löndunum. Þessi ágæti piltur er nú staddur í fríi hér á æskuslóðunum með móður sinni og þótti okkur tilvalið að líta við hjá fólkinu í svo sem einn kaffisopa. Fólkið tók á móti okkur eins og fólk í íslenskum sveitum þegar ég var að alast upp, ekki var við annað komandi en að við þæðum matarboð, enda frúin búin að standa í mikilli matreiðslu í ljósi þess að gestir væru á leiðinni. Þarna snæddum við alveg feikilega góðan miðdegisverð, eldaðan eftir gamalli aðferð þar sem kjöt og grænmeti er sett í lokað fat sem síðan er þakið af glóandi viðarkubbum og látið verkast þannig í langan tíma.

Maturinn sóttur úr glæðunum, Radovan og móðir hans

Radovan sýndi okkur landareignina þar sem uxu ýmis konar aldintré, þrúgur til víngerðar og venjuleg vínber til neyslu, möndlutré sem skiluðu ótal sekkjum fullum af möndlum og grænmeti margskonar. Inn í þessa friðsælu sveit hafði ófriðurinn náð, sem hrakti fjölskylduna á flótta þegar á þau var ráðist og öllu rænt og stolið, vélum og tækjum, öllu innanstokks í húsinu jafnt og því sem laust var utandyra. Þau máttu þakka fyrir að halda lífi, nágranninn í næsta húsi fékk sprengju inn til sín sem varð honum að aldurtila og sonur hans ungur fékk sprengjubrot í sig, sem reif af honum aðra höndina. Radovan segir okkur að þessar minningar vilji fólk í dag leggja bak við sig og halda lífinu áfram.

Eftir þessa stórskemmtilegu heimsókn héldum við förinni áfram í norðurátt og fundum okkur náttstað í litlum bæ á hóteli sem heitir því ekkert sérstaklega lágstemmda nafni Park Exclusive. Ágætis hótel samt.

27. september 2021

Enn ókum við drjúgan spöl í Króatíu áður en við komum að landamærum Slóveníu.

Sjöundu landamærin og nokkur eftir enn

Almennt landamæratékk án allra tafa. Eitthvað ókum við á sveitavegum en að mestu þó á hraðbraut um gríðarlega fallegt landslag, há fjöll og Alpastemningu. Áðum á „Maria´s diner“ sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema fyrir ansi frumlegar pissuskálar sem ég hef ekki séð neinar þeim líkar fyrr.

Þeir eru smekklegir á María´s diner

Eftir nokkurn akstur til viðbótar vorum við komnir að landamærum Austurríkis og höfðum lagt Slóveníu að baki. Þá tók við akstur um vegi í hátt á annað þúsund metra hæð og hitinn féll niður í einhverjar 15 gráður og jafnvel neðar. En náttúrufegurðin jókst enn, snarbrattar fjallshlíðar skógi vaxnar upp í efstu eggjar sem gnæfðu við himinn, skörtuðu víða haustlitum og umhverfið allt gladdi augun og hreinlega alla skynjun. Við runnum eftir hraðbraut um þessi fjöll og dali og inn á milli hurfum við svo inn í fjöllin, lengstu göngin sem við fórum í gegnum eru allt að 14 km löng. Þegar okkur þótti nóg ekið þennan daginn svipuðumst við um eftir náttstað og starfsmaður á bensínstöð þar sem við fylltum hjólin, benti okkur á bæinn Bischofshofen til að leita gistingar. Duttum þar inn á hótel Schützenhof, sérdeilis fallegt skíðahótel með klassísku Alpa svipmóti.

Ekki í kot vísað þarna

Í landi fjallasala

Í kvöldmat var sjálfgert að panta sér schnitzel og gengum síðan saddir og sælir til náða.

28. september 2021

Vegurinn sem bar okkur gegnum Austurríki hélt núna áfram yfir landamærin til Þýskalands og renndum við yfir þau án þess að lenda í eftirliti frekar en nokkur annar sem um þessi landamæri fóru. Eftirlit var þó sýnilegt en aðgerðalítið. Fengum okkur kaffi á bensínstöð við vatnið Chiemsee þar sem Lúðvík II Bæjarakonungur á nítjándu öld, byggði einn af sínum frægu kastölum á eyjunni Herreninsel. Þessi kastalasjúki stjórnandi Bæjara er þó þekktastur fyrir hinn ævintýralega fallega Neuschwanstein kastala sem talin er fyrirmynd að teiknimyndakastala Disney´s.

Næst á dagsskrá var að taka hús á Hauki Páli Haraldssyni óperusöngvara við óperuna í München. Hann er mikill BMW GS vélhjólamaður og afar virkur í félagsstarfi GS manna á svæðinu og samtökum þeirra. Hann stóð m.a. fyrir því að hópi vélhjólamanna frá Íslandi bauðst að fylgja klúbbnum hans með í ógleymanlega einstaklega vel skipulagða vélhjólaferð um Atlasfjöllin í Marokkó. Söngvarinn tók vel á móti okkur með nýbökuðum pönnukökum og fyrirliðinn fékk hjá honum BMW dót sem beið komu okkar þar á heimilinu.

Með óperusöngvaranum og vélhjólamanninum Hauki Páli Haraldssyni

Aldrei ekur maður með radíóvirkjanum í námunda við München öðru vísi en að stóra BMW mótorhjólabúðin í borginni sé heimsótt. Að vanda vanhagaði okkar mann um eitt og annað smáræði úr þessu leikfangalandi og var þeim þörfum fullnægt.

Þar sem veðrið hefur verið að breytast á þeim slóðum sem við förum um, með kaldara lofti og jafnvel rigningu, slóum við undir nára og reyndum að leggja leið okkar þannig að við slippum við vætuna. Fengum samt á okkur regngusu, en sem betur fer varði hún stutt. Renndum að lokum niður í smábæ sem ég man ekki hvað heitir, en völdum að gista á hótelinu „Svarta erninum“, svona út af nafninu.

29. september 2021

Nú var hann orðinn það svalur að við bættum á okkur peysum og ég setti fóðrið í bæði bæði buxur og jakka og svo var bara ekið viðstöðulítið til Luxemburg þar sem tekið var hús á Binna frænda. Á leiðinni losnuðum við þó ekki alveg við úrkomu, í vindstrekkingnum þarna koma allt í einu nokkrir dropar sem breyttust í feiknarlegt úrhelli á einu augnabliki og lamdi úrhellið á okkur þannig að buldi í hjálmunum rétt eins og gert hefði haglél. Vel blautir leituðum við skjóls á bensínstöð og þegar rofað hafði til héldum við áfram síðasta spölinn til Binna, þar sem við gátum dreift úr fatnaðinum í bílskúrnum hans, til þerris yfir nóttina.

Hjá Binna frænda í Luxembourg

Binni er sem sé ekki frændi minn heldur radíóvirkjans, en ég hef aldrei heyrt hann nefndan öðru vísi en með þessu vinalega tignarheiti „Binni frændi“. Í opinberum gögnum heitir hann Brynjar Þórðarson og hefur búið í Lux svo gott sem allan sinn starfsaldur þar sem hann starfaði hjá Cargolux, fyrst sem flugvirki, síðan flugvélstjóri og að lokum sem flugmaður. Hann er jafnframt mikill mótorhjólamaður og hefur þessi öðlingur skotið skjólshúsi yfir ófá véljól vina og vandamanna í sinni rúmgóðu hjólageymslu. Sjálfur hef ég notið góðvildar hans, átti hjá honum hjól um skeið í kjölfarið á því að við fluttum heim eftir nokkurra ára búsetu í Brussel. Þegar mér þótti ég vera farinn að ofnýta mér velvild hans, ákvað ég að selja hjólið og bauðst hann þá til að taka það verkefni að sér, hvað hann og gerði. Það er alltaf ánægjulegt að líta við hjá þessum greiðvikna og bóngóða „frænda“.

30. september 2021

Þegar við vöknuðum á fimmtudagsmorgni hafði hitinn fallið niður í 3 gráður þarna árla morguns, eftir hrímaða nótt. Samferðungurinn varð að láta segja sér þetta ítrekað og trúði því varla fyrr en hann hafði brugðið sér út fyrir dyr og sannreynt morgunsvalann á eigin kroppi. Þegar við vorum klárir til brottfarar nokkru seinna hafði hitinn skriðið upp í ein 6 stig, en það sem okkur fannst meira um vert var, að hann var ekkert yfirmáta rigningarlegur, alltént þar sem við vorum staddir í Junglinster í Lux. Enn var drjúgur spölur til Rotterdam, þar sem við áttum pantað far með Jónum fyrir hjólin heim. Planið var að aka hraðbrautina svo lengi sem ekki rigndi og skyldum við lenda aftur í hellidembu eins og í gær, myndum við koma okkur í var á bensínstöð í von um að geta beðið skúrina af okkur. Heppnin var með okkur, ókum meira og minna viðstöðulaust þessa liðlega 370 km til Rotterdam án þess að fá meiri úrkomu á okkur en ósköp máttlausan ýring sem engan truflaði.

Þar sem við áttum eftir að finna vöruskálann við höfnina og ganga þar frá formsatriðum varðandi flutning hjólanna, var ljóst að við næðum ekki fyrir lokun, svo við fundum okkur bara gistihús og vörðum því sem eftir lifði dags í bæjarrölt.

1. október 2021

Frá Holiday Inn hótelinu í miðbænum var stuttur spölur á hafnarsvæðið þar sem fararbroddurinn fann Mainport-skálann vandræðalítið með hjálp ratarans. Eftir minniháttar skjalastúss gátum við skilið hjólin eftir hjá hinum almennilegustu afgreiðslumönnum skálans sem koma þeim í fraktara heim. Með Uber appinu er handhægt að panta bíl sem rúllaði okkur alla leið á gistihúsið sem við stefndum á í Amsturdammi, en það er í námunda við heimili Snorra sonar míns og Hröbbu kærustu hans sem bæði eru í tónlistarnámi þar í borginni.

Með tónlistarmanninum unga í hjólreiðaborginni við síkin

Eftir að hafa komið okkur fyrir og rölt heim til Snorra var afráðið að nota heldur votviðrasaman daginn í síkjasiglingu í lokuðum báti. Skemmtileg sigling og fræðandi um sögu mismundandi hverfa sem um var farið, sem og upplýsingar um byggingarstíla og örágrip af sögu einstakra húsa.

Í síkjasiglingu um borgina var m.a. farið framhjá NEMO vísindasafninu í þessari framúrstefnulegu byggingu

Um kvöldið áttum við einstaklega ánægjulegt kvöld á notalegri matsölu með tónlistarparinu og frænku Hrafnhildar, Höddu sem búsett er í Barcelona.

Daginn eftir var flogið heim frá Amsterdam.

Þarna var þessi yfirmáta skemmtilega og allnokkuð óvenjulega vélhjólaferð á enda, bæði hvað varðar lönd sem um var farið sem og það strik sem heimspaddan óyndislega tafði okkur um í hálft annað ár.  Frá því að við lögðum upp í túrinn þann 27.08.19 fram að deginum í dag ókum við, með 18 mánaða kóvidpásu, um 21 land, samtals 18.686 km.

Örn Svavarson

Grikkland og Balkan

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.