Ævintýrakonan Sigríður Ýr hyggur á heimsmet
Sigríður Ýr Unnarsdóttir ætlar að hefja meistaranám í Háskóla Íslands í byrjun september, en fyrst ætlar hún að setja heimsmet í ekinni vegalengd á svokölluðu pocket-mótorhjóli. „Ég veit ekkert um mótorhjól, en hugmyndin var bara svo fyndin og skemmtileg að ég og bandarískur vinur minn ákváðum að sækja um til heimsmetabókar Guinness að fá að setja þetta met,“ segir hún við DV.
Sigríður er gefin fyrir ævintýri, en vinur hennar og mótorhjólafélagi, Mike Reid, er að hennar sögn enn meiri ævintýramaður. „Nýlega fórum við þvert yfir Bandaríkin á mótorhjóli og svo aftur til baka, og söfnuðum dágóðri fjárhæð fyrir góðgerðarsamtök, og í lok ferðarinnar datt okkur heimsmetið í hug.“ Í ljós kom að heimsmetið á pocket-hjóli væri sennilega mögulegt að slá.
Sigríður Ýr hefur þó aldrei svo mikið sem sest á svona smámótorhjól. „Þetta er pínulítið hjól, passar kannski fyrir 8 ára barn, svo að maður þarf að sitja á því með hnén upp að öxlum. Það kemur sér vel að hafa stundað jóga um árabil, því að við munum sitja á hjólunum í allt að 10 tíma á dag.“ Með í för verður þriðji aðilinn sem hefur góða þekkingu á hjólunum.
Víðast hvar er harðbannað að aka á svona smáhjólum á venjulegum umferðargötum. „Við ákváðum að hjóla í gegnum nokkur miðríki Bandaríkjanna, nánar tiltekið frá Ohio og niður til Nýju-Mexíkó. Lögin reyndust nægilega sveigjanleg þar.“ Ferðin hefst þann 5. september með fallhlífarstökki í Ohio og svo munu þremenningarnir hoppa upp á hjólin og leggja í 2.500 kílómetra ferðalag sem endar á mótorhjólasýningu í Nýju-Mexíkó þar sem tekið verður á móti þeim með pomp og prakt.
Lokaundirbúningur stendur nú yfir, en Sigríður flýgur utan á laugardaginn.
DV 27.8 2016
__________________________________________________________________________________________________________
„Hafði aldrei séð svona hjól“
Hinn 5. september mun Sigríður Ýr Unnarsdóttir hefja 2.500 kílómetra langt ferðalag á svokölluðu Pocket Bike-mótorhjóli, sem er mótorhjól í barnastærð. Markmiðið er að komast í heimsmetabók Guinness fyrir að ferðast lengstu vegalengdina á Pocket Bike-hjóli.
„Hugmyndin vaknaði í byrjun sumars, við Michael fórum fyrst í hringferð um Bandaríkin á mótorhjóli og við erum að reyna að finna leiðir til þess að hittast og gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni. Þessi ferð gekk svo ótrúlega vel að við fórum strax að skoða hvað við gætum gert næst,“ segir Sigríður, sem mun ferðast með Michael Reid, kærasta sínum, og Chris Fabre, sem er mótorhjólasérfræðingur hópsins.
„Chris vinnur hjá Triumph-umboðinu í Philadelphia. Við leituðum til þess með styrktarbeiðni og það endaði á því að senda starfsmann til að ferðast með okkur. Hann er í rauninni hjólameistarinn.“
Áður en Sigríður fór hringferðina um Bandaríkin með Michael í byrjun sumars hafði hún aldrei sest á mótorhjól. „Ég hafði aldrei á ævinni séð svona Pocket Bike-hjól sem ég ætla að setja heimsmet á,“ segir Sigríður.
Byrja í fallhlífarstökki
Ferðalagið mun hefjast með fallhlífarstökki á frægasta stökksvæði Bandaríkjanna, Start Skydiving, í Ohio. Þaðan verður haldið gegnum miðhluta Bandaríkjanna og er endastöðin á Golden Aspen-mótorhjólasýningunni í Nýju Mexíkó. Ferðin mun taka 12 daga og áætlar Sigríður að koma í mark ásamt förunautum sínum 15. september.
Núverandi heimsmet var sett 8. ágúst 2009 þegar Ryan Galbraith og Chris Stinson óku 718 kílómetra. Því var upphaflegt markmið Sigríðar og Michaels að fara 800 kílómetra, en í ljósi þess að tilraun var gerð að heimsmetinu árið 2014 þar sem eknir voru 2.264 kílómetrar ákváðu þau að hjóla 2.500 kílómetra, ef svo skyldi vera að Guinness staðfesti heimsmetstilraunina árið 2014, en það hefur ekki enn verið gert. „Það var bara ekki búið að staðfesta öll gögnin úr þeim tilraunum og ég veit ekki hvort það á einfaldlega eftir að staðfesta þau eða hvort eitthvert skilyrði var ekki uppfyllt,“ segir Sigríður.
Þurfa alls konar búnað
Það er ekki hlaupið að því að setja heimsmet. Sigríður Ýr og ferðafélagar hennar þurfa að uppfylla ýmis skilyrði sem Guinness setur til þess að heimsmetstilraunin teljist gild.Taka þarf upp í að minnsta kosti fimm mínútur af hverjum klukkutíma sem þau keyra. Til þess þarf útivistarmyndavél á öll hjólin. Einnig þarf fylgdarbíl með upptökutæki. Sigríður, Michael og Chris þurfa þar að auki að vera með GPS- staðsetningartæki á sér.
Þessi útbúnaður er ekki ódýr og því hafa ferðalangarnir sett upp styrktarsíðu á gofundme.com, þar sem fólki er boðið að heita á þríeykið áður en þau halda í þessa 12 daga ferð í gegnum níu ríki í hjarta Bandaríkjanna, frá Ohio til New Mexico.
MBL. 17.8.2016
__________________________________________________________________________________________________________
Sigríður Ýr heimsmethafi:
Ég hefði aldrei trúað því
Heimsmótabók Guinness hefur staðfest heimsmetið
„Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti orðið heimsmeistari,“ segir Sigríður Ýr Unnarsdóttir á Facebook. Þar greinir hún frá því að Heimsmetabók Guinness hafi staðfest heimsmet sem hún setti á svokölluðu „pocketbike“ mótorhjóli. Hún ferðaðist 2.500 kílómetra á hjólinu, lengra en nokkur annar hefur gert.
DV ræddi við Sigríði fyrst í ágúst, þegar skipulagning stóð yfir og svo fyrr í vikunni þegar hún var búin að hjóla 2300 kílómetra ásamt tveimur vinum sínum. Mike Reid og Chris Fabre. Pocketbike-hjól eru afar smá mótorhjól en á þeim ferðuðust þremenningarnir í 12 daga. „Við keyrðum að meðaltali í átta klukkustundir á dag og meðalhraðinn var 55 kílómetrar á klukkustund. Það kom sér vel að ég hef bakgrunn úr jóga enda líkamsstaðan frekar óþægileg á hjólunum. Hnén voru nánast upp að öxlum,“ sagði Sigríður Ýr við DV.
Nú hefur heimsmetið verið staðfest. „Segja má að allur tilfinningaskalinn hafi komið fram, hlátur, grátur, vonleysi, gleði og allt þar á milli.“ Hún segist varla trúa því enn að þetta hafi tekist. „Þetta sannar að hver sem er getur orðið hvað sem er, á meðan maður er tilbúinn að vinna fyrir því.“
Hún hvetur fólk til að láta drauma sína rætast, sama hvernig fólk bregst við hugmyndunum. „Ég fékk alls konar mis gáfulegar athugasemdir í upphafi en ég lærði að láta það ekki á mig fá og gefa mig alla í þetta. Þetta var ótrúlega erfitt en í leiðinni gífurlega lærdómsríkt og ég mun búa að þessari lífsreynslu alla ævi.“ DV
FRÉTTIR 5.10.2016 DV