Vinkonurnar Lilja Hermannsdóttir og Hilde Hundstuen kynntust í gegnum mótorhjólasportið fyrir þónokkru síðan. Hugmyndin að fara yfir hálendi Íslands á Enduro-hjólum kviknaði hjá þeim í hversdagslegu spjalli. Tveimur dögum seinna voru þær komnar með styrktaraðila og lagðar af stað.

Þær Lilja Hermannsdóttir og Hilde Hundstuen hafa nýlokið rúmlega 400 kílómetra langri hjólaferð yfir hálendi Íslands. Þær hófu ferð sína frá Hrauneyjum að kvöldi til og hjóluðu fyrsta legginn í svarta myrkri. „Ég hafði aldrei hjólað svona yfir nótt áður en það var alveg rosalega gaman. Maður sér  ekkert nema veginn, horfir í geislann og hjólar,“ segir Lilja.
Þær hjóluðu yfir í Nýjadal og fengu þar inni yfir nótt. Næsta dag hjóluðu þær Dyngjufjallaleið yfir í Dreka og síðasta daginn að Kárahnjúkum og þaðan fóru þær á Egilsstaði. En hvernig dettur tveimur konum í hug að fara út í svona leiðangur. „Okkur finnst kannski ekki skipta svo miklu máli að við séum stelpur. Miklu frekar að við gerum þetta á gamla og erfiða mátann og nýtum okkur ekki trússbíl og öll hugsanleg þægindi sem oftast eru í svona ferðum. Þetta var í rauninni  persónuleg áskorun að fara bara tvær og redda okkur. Þetta var rosalega erfitt en líka alveg rosalega gaman,“ segir Hilde.

 Vilja fá fleiri stelpur í sportið

Þegar þær eru inntar eftir því hvað hafi heillað þær mest á þessari leið segja þær að hraunbreiðan á milli Nýjadals og Dreka hafi verið áhrifaríkust. „Það er algjörlega ævintýralegt að keyra þar yfir,“ segir Lilja. „Maður er svo nátengdur náttúrunni þegar maður hjólar og kynnist landinu sínu svo vel,“ bætir Hilde við. Þó að þær vilji ekki gera mikið úr því að þær hafi farið tvær  konur saman viðurkenna þær að ferð þeirra og framkvæmd geti verið mikil hvatning fyrir aðrar konur sem deila áhugamáli þeirra. „Við viljum auðvitað alltaf fá fleiri stelpur í þetta sport. Fyrst þegar við sögðum frá því sem við ætluðum að gera  fundum við svolítið fyrir því að fólk fannst við ekki átta okkur á því hvað við værum að fara út í en svo eftir á hefur sama fólk verið að hrósa okkur,“ segir Hilde.

Fjölskylduvæn íþrótt

 Hilde hefur verið á götuhjóli frá átján ára aldri en Lilja uppgötvaði sportið árið 2008. Þær kynntust í gegnum hjólamennskuna en þetta var þeirra fyrsta ferð þar sem þær fóru bara tvær saman. „Ég hafði lengi haft áhuga á að hjóla áður en ég byrjaði, svo ákvað ég loksins að drífa í þessu og fékk mér götuhjól. Ég var búin að vera með prófið í þrjá eða fjóra daga þegar ég fór hringinn í kringum landið. Ég hef farið ótal ferðir um landið síðan og nú er öll fjölskyldan í þessu,“ segir Lilja og Hilde tekur við. „Þetta er mjög fjölskylduvænt sport. Stelpan mín tekur þátt í því með mér að gera við og gera upp hjól.“

Nýir draumar vakna þegar gamlir rætast

Hildi átti sér lengi tvo drauma, annars vegar að eignast hermannahjól með hliðarvagni og hins vegar að smíða sér „streetfight“ hjól. Nú hefur hún látið báða þá drauma rætast en segir þá aðeins nýja drauma taka við. „Næst langar mig að hjóla í Himalaya eða Perú.“ Þessi ferð var bara byrjunin hjá okkur. Þetta var aðeins okkar fyrsta ferð af mörgum,“ bætir Lilja við. Lilja segist ekki hafa nokkurn áhuga á að taka þátt í keppnum. Hún vill miklu fremur vinna persónulegra sigra og ná markmiðum sem hún setur sér sjálf. Þegar þær eru spurðar hvort allir geti hjólað svara þær nánast samhljóða játandi. „Maður þarf bara að hafa mikla trú á sjálfum sér en um leið að taka skynsamlegar ákvarðanir,“ segir Lilja. „Já og maður þarf auðvitað að vera í réttum útbúnaði og fylgjast vel með veðurspá,“ segir Hilde.

Þær Lilja og Hilde vilja koma þökkum áleiðis til styrktaraðilanna Ormsson, Átaks, Rafstillingar og JHM. Einnig vilja þær þakka 4×4, Slóðavinum, Torfærudeildinni hjá Hjólavinum, Valkyrjum og öðrum sem hafa haldið utan um slóða á hálendinu.

„Við eigum svo fallegt land og okkur ber að ganga vel um það. Við erum öll að vinna að sama markmiði, að fara vel með landið okkar og njóta þess,“ segir Hilde.

Signý Gunnarsdóttir
signy@mbl.is
26.8.2013