...

Árið er 2023, Landsmót er á næstunni og ég þarf að plana ferðina þar sem strákarnir rata ekkert.
Eftir margra mánaða skoðun á leiðum var staðfest hvaða leið verður farið, segir sig sjálft að ef Landsmót er á Vestfjörðum er skylda að fara Vestfjarðahringinn.

Dagur 1

26. Júní. var lagt í’ann og við hittumst fyrst í Garðabæ hjá Grím, þar sem Viddi kom tveimur dögum fyrr í bæinn eins og við gerðum árið áður.
Þar bættist nýr hvolpur við í hópinn, Stjáni, sem fékk prófið tveimur vikum fyrir brottför. Þaðan fórum við á N1 í Mosfellsbæ til að hitta Þór og það var sagt við hann að mæta á slaginu 08:03 en klukkan 08:14 mætti Þór, seinn eins og vanalega. Löguðum farangurinn aðeins og skelltum okkur af stað.
Í Kollafirðinum lentum við í rigningu (kenni Þór um það því hann var seinn) og við Grímur stoppuðum til að fara í gömlu góðu pollagallana sem björguðu okkur frá drukknun í hringferðinni árið áður.
Eftir Bröttubrekku var stoppað á Erpsstöðum í ís og skoðuðum lifandi beikon og hamborgara. Fórum úr pollagöllunum og lékum okkur á leikvellinum því við erum sirka 7. ára andlega.

 

Þegar við komum á Patreksfjörð var farið með litlu börnin í ríkið eftir að hafa stoppað miðaldra konu í göngutúr og spurt til vegar.
Þar fylltu þeir á birgðirnar meðan ég fór í búðina að kaupa gos.
Nema hvað að þegar við stoppuðum á planinu kom löggan og vildi aðeins ræða við þessa vitleysinga sem voru sko mældir á 56kmh á götu merkt 35kmh hámarkshraða. Lögregluþjónarnir létu okkur vita af þessum heimska hámarkshraða en gátu ekki sektað okkur þar sem við vorum svolítið pakkaðir saman og vissu þar með ekki hver það var sem mældist á þessum hraða.
Næst var stoppað á tjaldstæðinu á Tálknafirði og sett upp tjaldbúðirnar og farið í sund. Úps… okkur vantar mat. Þá var rölt í búðina, en hún var lokuð. Það besta við þessi litlu bæjarfélög er að í glugganum var miði með símanúmeri og eftir stutt símtal var búið að opna búðina og kaupa matinn. Þá fengum við grill lánað frá fólki í fellihýsi sem var við hliðina á okkur og gátum við þá hitað matinn án þess að leggja það á pústin á hjólunum.

 

Dagur 2.

Við lögðum af stað um kl 09:26 og skottuðumst yfir í Bíldudal. Planið var að fara inn að Uppsölum í Selárdal en vegurinn var frekar grófur.
Þegar við vorum sirka hálfnaðir þá sá ég að túristi á BMW R1250GS, sem við tókum frammúr á Bíldudal, var kominn á milli mín og Gríms. Þá var gírað niður og látið greyið hjólið hafa það næstu kílómetrana.
Eftir nokkrar tæpar beygjur og ég orðinn hræddur um að beygla felgu í hamaganginum guggnaði ég og hleypti BMW beljunni á kubbadekkjunum frammúr.
Með stoltið smá skemmt hinkraði ég eftir hvolpunum og þegar við vorum búnir að taka smá pásu héldum við áfram.
Það var þá sem við komum að brekku þar sem þrír túristar voru stopp með bilað hjól í miðri brekkunni. Ég lét vaða en hikaði aðeins í brekkunni og þar með sat ég fastur í lausu efni sem var ný búið að bera í veginn. BMW ökumaðurinn kom og ýtti mér til baka og hrósaði mér fyrir „gott race“ þarna fyrr á veginum.
Þarna var svo snúið við þar og fórum í átt að Dynjanda.
Við fossinn Foss, við bæinn Foss, við Fossá í Fossfirði, hittum við túrista sem voru að taka myndir af fossinum Foss, við Foss, við Fossá í Fossfirði. Þeir lögðu af stað á undan okkur og ég tók það ekki í mál að þeir væru á undan.
Ég kláraði að pissa, stökk af stað og notaði þetta geggjaða grip sem var á veginum, það var bókstaflega hægt að prjóna á götudekkjum. Það tók ekki langan tíma að ná þeim og þá var mökkað frammúr þeim og sýnt að Adv hjól eru ekki nauðsynleg til að ferðast á möl.
Stuttu seinna vorum við komnir yfir heiðina. Við röltum upp að Dynjanda og skoðuðum túrista og vatn detta niður kletta, ég skil ekki hvað túristar elska við að sjá vatn detta niður kletta.
Næsta stopp var Þingeyri og ákveðið var að splitta hópnum, þar sem Stjáni var orðinn þreyttur eftir daginn. Ég, Grímur og Viddi fórum Hrafnseyrarheiðina en Stjáni og Þór fóru í gegnum göngin. Heiðin var algjör viðbjóður og sérstaklega á leiðinni niður, eins gott að Þór og Stjáni fóru göngin, því Stjáni hefði líklega hent hjólinu niður fjallið.
Við hittum strákana á bensínstöðinni, pantaðir voru hamborgarar og franskar og við tókum okkur smá pásu.
Eftir að hafa nært okkur héldum við áfram í átt að Suðureyri. Botnsheiðargöngin eru andstæðan við Vaðlaheiðargöng, þetta var eins og að keyra inni í frystihúsi í G-streng. Við tókum beygjuna á gatnamótunum í göngunum, sem var eina ástæðan fyrir því að fara á Suðureyri, rúlluðum svo út úr göngunum og inn í bæinn.
Okkur hefur aldrei liðið jafn óvelkomna á meðan við keyrðum í gegnum bæinn. Fólk starði á okkur með óhugnar svip, mæður smöluðu krökkunum inn í hús og gamlar konur skelltu húsunum í lás, eða svo leið okkur miðað við augnaráðið hjá öllum 7 manneskjunum sem búa þarna í þessari einu götu.

Ísafjörður tók vel á móti okkur.
Fínt veður, gott andrúmsloft frá skemmtiferðaskipinu og það besta var að við vorum með gistingu.
Sigríður Ragna hafði reddað okkur gistingu í tómri íbúð sem mágkona hennar á (minnir mig). Við byrjuðum í ríkinu eins og alltaf og svo var farið í búðina.
Viddi kallar á mig að hjólið hans er e-ð bilað, þá hafði því ekki líkað hristinginn og losað sig við annan boltann úr standara festinguni.
Klukkan var 17:33 og ekkert verkstæði gat mögulega verið opið.
Ég spurði bókstaflega næsta mann sem labbaði framhjá mér hvort það væri verkstæði eða maður með góðan bílskúr sem gæti hjálpað okkur.
Hann gaf mér símanúmer og 10 mín seinna, eftir búðarferðina, vorum við mættir fyrir utan Bílaverkstæði Ísafjarðar og olíuborinn maður byrjaði að þukla á boltanum hans Vidda. Þremur tilraunum seinna var Viddi kominn með tvo bolta og standarinn bein stífur eftir manninn. Honum var borgað í bjór, enda er það auðvitað besti gjaldmiðillinn úti á vegi.
Við skelltum okkur í sund og fengum okkur að borða og tókum svo smá rölt um bæinn áður en við fórum að lúlla.

Dagur 3

Við Grímur vöknuðum um kl 10:46, vel sofnir en alls ekki ferskir, og fórum að fá okkur að borða á kínverskum veitingastað í miðbænum.
Það var ekki fyrr en kl 13:04 þegar við loksins fórum að leggja í’ann.
Við fórum til Bolungarvíkur, en það var of mikil þoka til að það tæki því að fara á Bolafjall svo við snérum við. Þá byrjaði vesenið á Yammanum mínum.
Helvítis mælaborðið virðist hata kulda og rigningu og hætti að virka. Eftir um 20 mínútna rifrildi við hjólið og að hamast á tenginu þá gafst ég upp og við lögðum af stað. Ég í pirringskasti gerði það eina sem hjálpar alltaf í þannig aðstæðum og botngaf hjólinu út Ísafjarðardjúpið. Mér brá smá þegar hjólið virtist fíla það, vegna þess að mælaborðið hrökk til lífsins og hékk inni á stóru ferðinni, svo henni var haldið.

Í Skötufirði fórum við á lítið kaffihús sem heitir Litlibær og fengum okkur vöfflur og eplakökur. Saddir og glaðir héldum við áfram á bensínstöðina í Reykjafirði.
Þar skiptu Grímur og Þór um hjól. Þór fékk hjól með fína aksturseiginleika og góðar bremsur en Grímur fékk hjól með innbyggðan titrara og aksturseiginleika á við ristavél.
Á Hólmavík var fengið sér kvöldmat og rætt það hvort við ættum að halda áfram eða ekki. Ég vildi halda áfram þar sem okkur öllum var boðin gisting í Ingólfsfirði hjá ömmu minni og afa.
Þór, Viddi og Stjáni voru orðnir smá þreyttir, en Grím var svo sem sama hvort væri gert. Það endaði með því að Viddi, Þór og Stjáni voru eftir á Hólmavík og við Grímur héldum áfram.
Síðasti spölurinn var bara fínn, mölin slétt og veðrið ekki slæmt, fyrir utan síðustu kílómetrana þegar það byrjaði að dropa á okkur. Móttökurnar á Eyri í Ingólfsfirði voru æðislegar og okkur var boðinn sími, til að nota til að hringja í strákana þar sem ekkert símasamband er í firðinum.
Við fengum kennslu á símann og hvernig maður verður að standa, svo hringdum við í strákana og létum þá vita að við værum lifandi og hvernig þeir ættu að rata daginn eftir. Því miður þurfti að segja það þrisvar þar sem þeir höfðu verið í drykkjuleik á meðan við hjóluðum áfram.
Við fengum þessi æðislegu rúm og vorum frekar fljótir að sofna.

Dagur 4

Við vöknuðum við það að morgunmaturinn var að verða tilbúinn kl 10:48, Hótel Amma og Afi er algjör snilld. Ferðin var frekar stutt þennan daginn hjá okkur Grím, það var bara farið í Norðurfjörð og tekið bensín og keypt smá nasl meðan við biðum eftir strákunum.
Þór leiddi hópinn og miðaði í alla drullu pollana en Stjáni fékk bara að miða á stærstu grjótin og holurnar. Viddi elti og var heppinn að hafa þessa gaura fyrir framan sig og hjólaði bara þar sem þeir hjóluðu ekki og slapp við allar hossur.
Á slaginu 13:56 renndu strákarnir í hlað.
Addi mætti, ný búinn að drulla uppá bak… en samt ekki allt bakið.

Hér byrjar landsmót og maður á ekki að tala um það sem gerist á landsmóti á netinu…

Heimferðin

Eftir kalt landsmót ákvað ég að fara heim í samfloti með Unnari.
Við fórum á laugardagskvöldinu, dúlluðum okkur mölina til baka í litlu skyggni en aftur ljósið mitt gerði lítið vegna drullu, svo Unnar týndi mér í þokunni af og til.
Á meðan við tókum bensín og þrifum af aftur ljósunum, til að sjást, tók Unnar eftir því að það vantaði tvo eða þrjá bolta í aftari mótorfestinguna hjá honum.
Lítið mál var að redda því, enda er hann vanur hjólamaður og var með auka bolta og rær til að redda saman hjólinu á ferðinni og við héldum aftur af stað.
Við Baulu skildust leiðir og ég hélt í bæinn meðan Unnar fór heim í Reykholtið.

 

Ferðafélagar;  / Hvolpasveitin

Ólafur Hjartarson Nielsen. Yamaha FZ1
Grímur Eyjólfsson. Yamaha FZ6
Kristján Mikaelsson. Honda Shadow 750
Viðar Vilhjálmsson. Honda Shadow 750
Þór Egilsson. Harley Davidson Night Train

 

https://www.tia.is/ferdasogur

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.