gerir upp fornbíla, rúntar milli sýninga á Corvettu, ferðaðist í gegnum 15 fylki á mótorhjóli og leikur sér þess á milli á vélsleðum og hraðbátum.
Guttormur Guðmundsson heitir hann, fæddur Húnvetningur en uppalinn í Reykjavík. Mótorsport fór á stúfana og tók viðtal við Gutta (Blue Flame) áður en hann hedlur vestur um haf aftur, því óvíst er hvenær hann kemur aftur til landsins, eins og skiljanlegt er af fyrirsögninni. Gutti er 25 ára, ókvæntur og barnlaus að honum best vitandi, og lærður radiovirki.
Almennt mótorsport er hans helsta áhugamál ásamt flugi, ferðalögum og ýmsu öðru, og sinnir hann áhugamálunum bæði hérlendis sem erlendis. En þá er best að vinda sér í spurningarnar.
– Hvernig stóð á því að þú fórst vestur um haf?
– Það vildi þannig til að ég frétti af frændfólki mínu vestur í Canada, og sumarið ’75 skrapp ég þangað smátíma og leyst það vel á allar aðstæður að ég ákvað að drífa mig aftur og stansa þá lengur. Það var svo ’77 og stóð ég þá við í eitt og hálft ár.
– Hvernig gekk ferðin sjálf?
– Hún gekk vel, ég notaði tækifærið og skoðaði mið vel um í Bandaríkjunum, ferðaðist á milli með ,,Greyhound“ (rútu), kom við í ,,Stóra Eplinu“ (New York) í 42 stiga hita, og fór síðan á áfangastað, se, var búgarðurinn Eddystone á vestustu slóðum Íslendinga í Canada þar sem er um 40 stiga frost á veturna.
-Og fórstu að gera upp fornbíla?
– Já, ég bjó hjá Joseph Johnson (J.J) og átti hann um 30-40 óuppgerða fornbíla, svo næg vinna var framundan. Reyndar safnaði J.J öllu sem heitir antík, bæði bílum, húsgögnum, Hljóðfærum og ýmsu öðru, og var hann jafnvel búinn að kaupa stóra bragga sem var löngu orðinn fullur af antik hlutum.
– Hvers konar bíltegundir voru þetta?
– Þetta voru alls konar tegundir bæði Ford T model 1914, Chevrolegt Convertible 1923, Ford A model 1929 einnig blæjubíll og margar fleiri algengar og sjaldgæfar tegundir.
– Og í hvernig ástandi voru bílarnir?
– Það var mjög misjafnt. Sumir hverjir voru í ,,top running condition“ eins og maður segir, þar sem lítið þurfti annað að gera en að pússa þá upp og mála og svo aðris þar sem þurfti að endurnýja nær hvert einasta stykki.
– Hvernig fór með Varahlutaöflunin fram?
– Þá var farið á stúfana og ferðast vítt og breitt um meginlandið, heimsóttir helstu bílasérfræðingarnir og farið á sýningar og keppnir í leiðinni.
-Þá hefuru væntanlega farið á Corvettunni. Hvernig fékkstu hana og af hvaða gerð er hún?
– Það var einn daginn sem ég frétti af þessari Corvettu ekki ýkja langt í burtu. Ég fór að skoða hana og eftir það var ég alveg veikur í bílinn, gat varla sofið næstu nætur, svo ég keypti hann. Reyndar hafði það alltaf verið draumurinn að eignast Corvettu, og þarna rættist sá draumur. Þetta var Corvetta Stingray Coupe, árg.70,545ci. blá að lit.
-Þú hefur áhuga á öllu mótorsporti, en er eitthvað af þeim efst á vinsældarlistanum?
– Já, það er flugið. Ég hef verið að dunda við að læra það og einnig farið á margar flugvélasýningar. Í því sporti er helsti draumurinn að komast í vinstra sætið á ,,Lear Jet“, en það er ein vinsælasta einkaþota nú til dags.
Vélsleðarnir heilluðu mig einnig því að þar er mjög heppilegar aðstæður fyrir þá, stöðugur snjór yfir veturinn og mikið um keppnir og leiki á vélsleðunum.
-Hvaða vélsleðategundum hefur þú kynnst og hvers konar keppnir eru þetta?
– Ég hef aðalega kynnst Yamaha SRX440 og Ski-doo Blizzard, sem er kraftmesti sleðinn frá þeim, og eftir ca. kvartmílu er hann búinn að ná um 100 km hraða. Báðir voru vatnskældir og er það að ,mér finnst alveg nauðsynlegt. Ein vinsælasta keppnin var svokölluð ,,Poker derby“ og gátu allir verið með á öllum tegundum vélsleða. Sú keppni byggist upp á að lagt var á stað frá einum bæ. Leiðin var frjáls milli nokkura bæja þar sem hver átti að draga eitt spil og geyma það þangað til á áfangastað, þar sem spil hvers voru lögð saman og sá vann sem hafði bestu pókerspilin. Einnig keppti ég í brautarkeppni þar sem hraðinn og hæfnin skiptir öllu máli og náði ég þriðja sæti í mínum flokki.
-Hvað er hraðinn mikill í slíkri keppni ?
– Hraðast fór ég í um 80 mílur en það er td. meira en flugtakshraði Cessnu 150.
-Jæja, það er afskaplega þægilegt að taka viðtal við svona dellukarl því alltaf er nóg um spuurningar, en þú hefur tekið ógrynni af myndum af ferðalaginu, Þú ert kannski með ljósmyndadellu?
-Jú, það er varla hægt að neita því, en þó að mér hafi tekist að taka nokkuð margar myndir, þá finnst mér mikið vanta eins og oft vill verða. Á sumrin fór ég á ,,Rodeo“ (kúrekashow, en á því miður lítið af myndum af því. Einu sinni kom ég að heimilishundinum í hörkuslag við þvottabjörn og einstaka sinnum sáust dádýr og skógarbirnir á ferð. Það voru því mörg tilfelli þar sem skemmtilegt hefði verið að hafa myndavél.
-Og einhver voru kynni þín af bátum?
– Jú, á sumrin voru helgarnar mikið notaðar til að leika sér á hraðbátum á vatni þarna nálægt.
-Þá eru bara mótorhjólin eftir, og eflaust taka þau drjúgann tíma frá hinum áhugamálunum. Hver er nú hjólaeignin?
– Ég veit ekki hvort ég eigi að vera að telja upp í fyrsta lagi er ástand þeirra misjafnt og reyndar er aðeins eitt af þeim gangfært. Það er Norton 750. Ég hef mjög gaman af því að ferðast á mótorhjólum og þar af leiðandi legg ég alla áherslu á að sitja beinn á því heldur en að liggja fram á stýrið. Þannig er Norton hjólið mjög hentugt til ferðalaga. Svo á ég B.S.A. Spitfire 750, árg.’67. B.S.A. 650 Lightnig og Matchless London, 500 árg. ’47 sem ég er að dunda við að gera upp.
– Þegar þú fórst frá Canada haustið ’78 þá ferðaðist þú á Norton hjólinu gegnum 15 fylki og lagðir að baki rúma 3000km. Segðu okkur frá því ferðalagi?
– Já Haustið ’78 var landvistarleyfið mitt að renna út svo ég tygjaði mig af stað og fór með eins lítinn farangur og hægt var. Þarna réð ég ferðinni algjörlega sjálfur og notaði tækifærið til að skoða mig enn betur um í bandaríkjunum. Frá Manitoba lá leiðin í gegnum miðríki Bandaríkjana (Nebraska) og var ég 3-4 daga þangað. Fyrstu nóttina gisti ég í alþjóðlega friðargarðinum á landamærum Canada og Bandaríkjanna og var ekkert að hafa fyrir því að tjalda, enda var veðrið gott. Í Nebraska tjaldaði ég svo á bökkum Missurifljóts og eyddi þar heilum degi í að skoða flugvélasafn. Þar voru td. B-52 og B-17 vélar ásamt ýmsum frægum gripum. Því næst lá leiðin fram hjá Indianapolis 500 kappakstursbrautinni, en síðan fór ég austur í gegnum Maryland þar sem er ákaflega fallegt landslag,sem stingur mjög í stúf við slétturnar. Á svona ferðalagi vill maturinn oft á tíðum verða of einhæfur og td.lifði ég aðalega á ,,Big Mac“ (Hamborgara) og gisti hér og þar eftir hentuleikum. Svo á 4.viku náði ég loks áfangastað,sem var Kennedy flugvöllur, og hjólaði þar eiginlega beintum borð í DC-8, og tók Norton-hjólið með mér hingað.
-Lentir þú ekki í neinum erfiðleikum á leiðinni?
-Nei, ekki svo heitið gæti. Ég hafði sett mér eina reglu áður en ég hélt út á hraðbrautirnar, þ.e. ,,Think a head“ því auðvitað leynast hættur víðs vegar, eins og t.d. flutningabílasviptivindarnir, því það er enginn smá hraði á þeim. Nú einu sinni kom ég að hjólinu þar sem það lá á hliðinni, og ég hélt að því hefði verið hrint , en þá var þetta bara mín sök því ég hafði ekki áttað mig á því að hitinn var svo mikill að hjólið með öllum farangrinum var svo þungt að malbikið bráðnaði undan standaranum. Eftir það lagði ég hjólinu alltaf á steypta staði. Umferðarmenningin þar er líka allt önnur en það sem við eigum að venjast, þar eða hér vantar hina almennu tilitsemi og væri t.d. óskandi að hinn almenni ökumaður bæri jafn mikla virðingu fyrir mótorhjólum og jeppastuðurum.
-Komast einhver önnur áhugamál að?
-Jú,jú, ég fer nokkuð mikiðí bíó og stunda einnig skíði, svo er ég félagi í talstöðvaklúbbnum, og það kemst ýmislegt að meðan ég er enn laus og liðugur.
-Þú ætlar til Canada aftur. Hvað ætlar þú að dvelja þar lengi í þeirri ferð?
– Ég er búinn að fá alla pappíra sem ég þarf og legg væntanlega af stað í vor. Ég reikna með að vera í 10 ár eða kannski að setjast alveg að þar, og held ég þá áfram með flugnámið og öll hin áhugamálin.
-Og um leið og við þökkum Gutta fyrir viðtalið og myndirnar óskum við honum alls góðs í framtíðinni.
J.S.H.
Mótorsport feb 1981
Tían minnir á Happdrætti Tíunnar
Til styrktar mótorhjólasafni Íslands
Dregið verður 20 mars 2022
https://tia.is/happdraetti-2/