Mótorhjól. Fjórhjól. Bátar. Bílar og bodaboda. Þrír félagar frá Íslandi nýttu ýmsa fararskjóta á ferðalagi um hið ægifagra Úganda. Þeir gengu með nashyrningum og simpönsum, sáu hlébarða uppi í tré og lentu í árekstri við flóðhest. Blaðamaður Kjarnans hitti þá í höfuðborginni Kampala og fékk að heyra ævintýralega ferðasöguna.
Okkur vantaði nýja heimsálfu í safnið,“ segir Páll Geir Bjarnason. Blaðamaður Kjarnans er að forvitnast um af hverju hann og tveir vinir hans, Björn Sæbjörnsson og Auðun Pálsson, ákváðu að fara í ferðalag á mótorhjólum um Úganda. Miðbaugslandið gróna og bjarta í Austur-Afríku. Þeir hafa nefnilega farið víða um á mótorhjólum. Síðast voru þeir í Víetnam og Laos og þar áður ferðuðust þeir um Taíland og Kambódíu. Þetta eru ævintýramenn. Vilja stöðugt sjá eitthvað nýtt og drekka í sig öðruvísi menningu. Og þess á milli að hafa eitthvað spennandi að hlakka til. „Því það er hluti af ferðalaginu. Að undirbúa það og hlakka til næsta ævintýris,“ segir Auðun.
Þeir sitja á móti blaðamanni á huggulegum veitingastað í Kisementi-hverfinu í Kampala, höfuðborg Úganda. Það er komið kvöld eftir mikið þrumuveður. Loftið er hreint eftir rigningarnar og það er hugur þremenninganna einnig. Þeir láta sér nefnilega nægja að drekka í sig það sem fyrir augu og eyru ber. Eru löngu hættir að neyta áfengis og tilheyra nú allir félagsskapnum – bræðralaginu eins og þeir kalla það – Sober Riders MC. Félagarnir eru hressir og kátir, uppveðraðir eftir stórkostlegt ferðalag segja þeir með áherslu.
Allt gekk vel, ef frá er talið rifbeinsbrot Auðuns eftir fall af hjólinu á malarvegi. Hann bandar frá sér hendinni er hann er spurður hvort það hafi sett eitthvað strik í reikninginn. Beinbrotið spillti ekki upplifuninni, segir hann. Þó sleppti hann því að „skrölta um“ í bíl eða „bodaboda“ (skellinöðru) í þjóðgörðum landsins líkt og Páll og Björn gerðu þá daga sem þeir voru ekki á keyrslu. Þess í stað hafi hann heimsótt barnaskóla og komið þangað færandi hendi með skólabækur og skriffæri fyrir um 300 börn.
Síðasta ferðalagi þeirra saman lauk í byrjun febrúar árið 2020. Þeir flugu frá Víetnam til Íslands, þegar allt var í hers höndum á Ítalíu vegna heimsfaraldursins og ekki lengur sjálfsagt að komast heimshorna á milli. „En við vorum heppnir. Það lokaðist bara allt á eftir okkur,“ segir Páll.
Í þeirri ferð voru fleiri meðlimir Sober Riders MC með og þegar heim var komið var fljótlega farið að velta fyrir sér hvert skyldi haldið næst.
En hvernig tekur hópur manns sameiginlega ákvörðun um næsta áfangastað?
„Við bara köstum þessu á milli okkar,“ segir Björn. Páll samsinnir því. „En við erum allir með blússandi ADHD og ofvirkni og þetta allt saman. Svo það er nú bara mjög kómískt hvernig svona ákvarðanir eru teknar hjá okkur,“ segir hann og Björn og Auðun kinka kolli og hristast úr hlátri. „Stundum er allt í einu komin ákvörðun en enginn man eða veit hvernig það gerðist!“
Þannig að segja má að allt í einu hafi legið fyrir ákvörðun um að fara til Úganda. Um eitt og hálft ár er síðan skipulagning ferðalagsins hófst. Ekki vilja þeir þó meina að undirbúningsvinnan hafi verið tímafrek. „Ég fór nú bara daginn fyrir ferðina út í bílskúr að leita að jakkanum mínum og hjálminum,“ segir Páll og kímir. Ali, eigandi fyrirtækisins Motorcycle Adventures Uganda, sá um skipulagið á tólf daga ferð um allt Úganda.
Fékk COVID skömmu fyrir brottför
En líkt og í heimferðinni frá Víetnam fyrir tveimur árum var COVID-19 enn óvissuþáttur áður en lagt var af stað frá Íslandi til Afríku. Páll fékk COVID-19 tveimur vikum fyrir brottför og sömuleiðis öll fjölskylda Björns. „Ég var alveg fram á síðustu stundu að hugsa: Kemst ég eða ekki?“ rifjar Páll upp. Björn segist hafa verið logandi hræddur um að smitast en það hafi þó sloppið til enda fór hann í „einangrun“ til dóttur sinnar síðustu dagana fyrir brottför. Það var grundvallaratriði að greinast ekki því enn þarf að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna til Úganda.
Auðun var hins vegar þegar í Kenía, nágrannaríki Úganda, og flaug þaðan til að hitta félaga sína. Hjálma og hlífðarbúnað tóku þeir með sér að heiman en Ali leigði þeim hins vegar mótorhjól.
„Jahá,“ segir Páll hafa verið fyrstu viðbrögð þegar hann sá hjólin. Stefnuljósin að aftan voru brotin af, svo dæmi sé tekið, og hjólin titruðu og skulfu þegar þau voru sett í gang. „Öll ljósin í mælaborðinu kviknuðu,“ segir Björn. En Ali bað þá að hafa ekki nokkrar áhyggjur, ef eitthvað myndi bila væri hann með alla mögulega varahluti í bílnum sem fylgdi þeim allan tímann.
Það gekk eftir. Það litla sem bilaði var lagað á staðnum. „Um leið og við fórum af stað þá sá maður að bremsurnar virkuðu fínt og þá var þetta í góðu lagi,“ segir Auðun. „Þannig að þetta var bara góð byrjun á skemmtilegu ævintýri.“ Hjólin voru því engin skrapatól eftir allt saman, heldur hinir ágætustu fararskjótar.
Og svo hófst ferðalagið. Í umferð út úr Kampala sem er þekkt um víða veröld fyrir að vera þung og hæg og virðast algjörlega kaótísk. Raðir fólksbíla, flutningabíla og lítilla rúta fléttast saman við ógrynni af skellinöðrum, svokölluðum bodaboda, sem þræða sig á milli bílanna í umferðateppunum. „Umferðin er svolítið klikkuð,“ viðurkennir Auðun. „Það þarf að vera með alla athyglina í botni allan tímann. En einhvern veginn þá gengur þetta yfirleitt upp. Það merkilega er að það er eitthvað skipulag í þessu öllu, einhver regla í óreglunni.“
Fyrst lá leiðin til Jinja, lítillar borgar austar við Viktoríuvatn, þar sem finna má upptök Nílarfljóts. Þar fóru þeir m.a. í fjórhjólaferð og römbuðu svo inn í mikinn mannfögnuð. Gengu eiginlega á glaðleg hljóðin. Viðstaddur reyndist biskupinn í Jinja og tók hann þeim félögunum fagnandi. „Honum þótti svo tilkomumikið þegar að þyngsti maðurinn í hópnum fór að dansa við heimafólkið,“ segir Auðun hlæjandi og bendir á sjálfan sig. Hann lét sér ekki nægja að dansa heldur skaut sér inn í hljómsveitina og tók til við að hrista hristur. Auðun og biskupinn eru nú orðnir mestu mátar. „Hann hefur mikinn áhuga á Íslandi og vill gjarnan heimsækja það.“
Frá Jinja var förinni heitið norður. Keyrt var í nokkra tíma einn daginn og hvílt og skoðað sig um þann næsta. Þeir heimsóttu hvern þjóðgarðinn á fætur öðrum, þjóðgarða á heimsmælikvarða sem eru helsta aðdráttarafl Úganda – perlu Afríku.
Þeir gengu á meðal nashyrninga og simpansa, komu auga á hlébarða upp í tré og lentu svo í árekstri við flóðhest. Engan sakaði þó, hvorki menn né önnur dýr. Þá voru þeir á siglingu á milli tveggja vatna skammt frá landamærunum að Austur-Kongó. „Flóðhesturinn stakk sér upp úr vatninu beint undir bátnum sem við vorum í,“ segir Björn. „Allt í einu lyftist báturinn upp og hentist til!“ Upphófst mikill buslugangur en leiðsögumaðurinn sagði öllu óhætt og synti flóðhesturinn svo sína leið.
Einna eftirminnilegast er dvöl úti á lítilli eyju í Bunyonyi-vatni. „Þetta er svakalega fallegt svæði, það fallegasta sem ég sá í Úganda,“ segir Björn. Keyrt er upp á fjall og svo „dettur maður niður í dal þar sem vatnið er. Alveg ævintýralega flott með mörgum eyjum“.
Þeir skella upp úr er þeir rifja dvölina í eyjunni upp enda ýmislegt sem kom skemmtilega á óvart. Í fyrsta lagi var bratt upp á hana. Þangað þurftu þeir að príla einhverja 200 metra. Áfangastaðurinn var lítið gistiheimili, trékofi í skógarrjóðri. „Konan sem tók á móti okkur var svo ægilega glöð að sjá okkur,“ segir Björn enda voru þeir félagar með fyrstu ferðamönnum til að koma þangað eftir tveggja ára útgöngubann í landinu. Og hún hafði, eðlilega, ekki verið að birgja sig upp af mat og drykk. „Á barnum var til ein flaska af appelsínugosi og ein af kóki,“ segir Páll. En því var þó fljótlega kippt í liðinn.
„Sturtan og klósettið var úti og af því að það var rafmagnslaust þá var skuggalegt að fara þangað á nóttunni,“ segir Auðun. Það hafi þó verið upplifun „að tefla við páfann“ undir stjörnubjörtum himni. Hann heldur áfram: „Úti gekk maður í gegnum flugnafargan, leðurblökur flugu yfir höfðinu á manni og svo þegar maður kom aftur inn í herbergi og reif upp sængina þá voru þar fyrir fullt af maurum, flugum og örugglega fleiri skordýrum. Síðan heyrðist líka í eðlunum hlaupa um veggina. En það þýddi ekkert að fást um það. Ég henti mér bara í rúmið og sofnaði!“
Í Úganda er daglegt brauð að sjá vopnaða verði við verslanir, bensínstöðvar og fleiri þjónustustaði. Sömu sögu er að segja um flesta þjóðgarðsverði og leiðsögumenn innan þjóðgarðanna. Þegar félagarnir voru í safaríi á bodaboda í Murchinson Falls stóð þeim ekki alveg á sama þegar leiðsögumaðurinn ók á undan þeim með hríðskotabyssu um öxlina. Á holóttum veginum og á höstu hjólinu sveiflaðist svo byssan til og frá, skall reglulega í hjólið og hlaupið sneri aftur beint í flasið á félögunum. „Þetta leit kannski ekki sérstaklega vel út fyrir fólk sem óvant því að sjá byssur,“ segir Páll.
Á einum stað á ferðalaginu stoppuðu þeir í litlu þorpi. Álengdar heyrðu þeir að það var messa í gangi. Þeir færðu sig forvitnir nær og leiðsögumaðurinn fór og spurði hvort að það væri í lagi að þeir fengju að vera viðstaddir. Það var auðsótt mál. „Þannig að við skunduðum þangað í öllum mótorhjólagallanum, inn í messu þar sem var verið að syngja af lífi og sál,“ segir Auðun. „Við settumst aftast en það voru allir viðstaddir að fylgjast með okkur.“
Þetta endaði með því að presturinn kom og talaði við þá og „við vorum drifnir upp að altarinu og látnir kynna okkur fyrir söfnuðinum,“ segir Björn. Þegar í ljós kom að þeir voru kristnir og færu í kirkju „þá ætlaði allt um koll að keyra,“ segir Páll. „Þetta var mjög eftirminnilegt.“
Það skemmtilegasta við ferðalög er þetta óvænta, heldur hann áfram „Og hið óvænta gerist yfirleitt ekki nema að maður fari út úr sínum túristaramma.“ Auðun er hjartanlega sammála. „Maður verður að vera óhræddur við að taka þátt í gleðinni, sleppa fram af sér beislinu. Spjalla við fólk. Þá gerast töfrarnir.“
Það er ekki hægt að sleppa þeim félögum við spurninguna um vegina í Úganda. Þeir hafa löngum verið þekktir fyrir að vera eins og sannkallað þvottabretti enda oft malar- og moldarslóðar sem svo voru malbikaðir og í mynduðust miklar holur. Úr þessu hefur verið bætt umtalsvert síðustu ár. „Vegirnir hérna eru miklu betri en ég átti von á,“ segir Björn. „Einhverra hluta vegna voru þeir svo mjög fínir í nálægð við fæðingarsvæði forsetans,“ bætir Páll við. Auðun heldur áfram: „Já, þar var allt malbikað og vel við haldið, flott og fínt!“
En hversu langt var ferðalagið í kílómetrum talið?
„Ef kílómetramælirinn hefði virkað á hjólinu þá gæti ég sagt þér það,“ segir Páll hlæjandi. „Minn mælir virtist mæla fet eða eitthvað álíka!“ Á hjóli Björns var mílumælir sem virtist „nokkuð réttur“ en það „stemmdi þó aldrei við það sem leiðsögumaðurinn var að segja“. Þeir giska þó á að þeir hafi farið á þriðja þúsund kílómetra á þessum tólf dögum. „Þetta hefur verið æðislegt,“ segir Björn af innlifun um ferðalagið.
Enginn þeirra hafði áður komið til Úganda. Er blaðamaður Kjarnans hitti þá í Kampala var farið að styttast í heimferð. Og þegar viðtalið birtist nú eru þeir komnir til Íslands. Í marglitar veðurviðvaranir. Þar tekur hversdagslífið við, í bili að minnsta kosti. Páll er dagskrárstjóri hjá SÁÁ á sjúkrahúsinu Vogi. Björn sölustjóri í Brynju á Laugavegi og Auðun starfar hjá Íslenska gámafélaginu. Vikulega hittast þeir og fleiri meðlimir Sober Riders MC, bræðralagsins sem stofnað var í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar og hefur verið með starfsemi á Íslandi frá árinu 2004.
„Þetta eru frjáls bifhjólasamtök,“ útskýrir Páll sem er forseti þeirra á Íslandi. „Þetta er ekki deild innan AA-samtakanna en það er gerð krafa á að meðlimir séu edrú. Við eigum það í grunninn sameiginlegt að vera edrú og eiga mótorhjól. Svo styðjum við hvern annan í lífinu og hjálpumst að.“
Þeir láta einnig gott af sér leiða með ýmsum hætti, safna t.d. fjármunum fyrir ákveðin málefni, s.s. Einstök börn og Hugarafl. Það var einmitt í gegnum bræðralagið sem þeir þrír kynntust. „Í klúbbnum eru menn sem eiga sér sumir langa sögu um að hafa átt í erfiðleikum með að ná undir sig fótunum eftir neyslu,“ segir Björn. „En hafa svo komið inn í klúbbinn, inn í þetta bræðralag, og eignast vini. Þetta hefur hjálpað þeim að ná því að vera edrú í mörg ár.“
Talið berst aftur að Úganda. Þar sem gróðursældin er gífurleg, ávextir vaxa víða villtir, dýrin hlaupa frjáls um skóga og sléttur og um 45 milljónir manna búa.
„Fólkið hér er mjög vinalegt og hefur tekið okkur opnum örmum,“ segir Auðun. „Það er víða mikil fátækt og hún eykst eftir því sem norðar og vestar dregur. Þar býr fólk enn í strákofum. Mér finnst áberandi hvað konur og börn eru stöðugt að vinna og að bera vatn langar leiðir. Og mér fannst átakanlegt að sjá lítil börn bera fimm lítra brúsa og svo konurnar að bera tuttugu lítra og jafnvel meira.“
Björn tekur undir þetta. Oft hafi mátt sjá hópa af körlum sitja undir trjám eða á gangi – „á meðan konurnar eru stöðugt puðandi. En alls staðar er fólkið virkilega elskulegt og stöðugt að spyrja hvernig maður hafi það með breiðu brosi.“
En hvert ætla Sober Riders MC að fara næst í ferðalag?
„Kannski til Kólumbíu,“ segir Páll hugsi. „Við viljum auðvitað bæta enn einni heimsálfunni við.“ Þeir gleyma sér áfram við að tala um allt fólkið sem þeir kynntust á leiðinni. „Það er það sem stendur upp úr,“ segir Auðun.
„Sumum fannst alveg truflað að við værum að fara að ferðast hingað,“ rifjar Björn upp. „Sögðu okkur að passa okkur á ljónunum og þar fram eftir götunum. Héldu að við yrðum í stöðugri lífshættu. En við vorum aldrei í hættu. Þetta var bara rosalegt ævintýri frá upphafi til enda.“
Auðun tekur í sama streng og segir svo: „Fyrir mig þá skilur þetta umtalsvert meira eftir heldur en Tenerife-ferð.“