...

– Ítrasti hringur um Ísland

Það eru rúm 30 ár frá því ég fór mína fyrstu mótorhjólareisu, ók hringinn með Ólafur Kárason. Við rúntuðum þetta félagarnir á þremur vikum með allan viðlegubúnað, full hlaðnir af mat og drykk.
Hann á nýlegu Honda XR 500 ný bónuðu og glansandi, en ég á á gömlu XR 500 sem ég hafði komið saman á ný eftir árekstur, sem hefði að öllu jöfnu átt að stytta mér þessa jarðardvöl. Gerði það þó ekki og ég gekk ósár frá þessum óvæntu viðkynnum við pallbílinn í Glerárgötunni. Þýskubókin sem ég hafði innan undir gallajakkanum endurprentaðist á fyrstu 30 síðunum, svo mikið var höggið þegar stýrið gekk í magan á mér. En námið bjargaði 17 ára unglingnum frá því að enda eins og kjöt á teini. Í stað þess hafði ég flogið í tignarlegum boga af hjólinu yfir pallbílinn og yfir heil gatnamót, hvar ég lenti með bravör á bumbunni og rann einhverja metra eftir asfaltinu. Gallafatnaðurinn var ekki mikið brúkaður upp úr þessu.
Þessi túr okkar félaganna var merkilegur um margt, enda fáir sem tóku sér svona lagað fyrir hendur á þessum árum. Raunar svo að við vorum aldrei ávarpaðir á íslensku að fyrra bragði allar þessar 3 vikur á veginum.
Við ókum ansi víða, um annes, fjöll og firnindi. Jafnvel á staði sem við hefðum, eftir á að hyggja, kannski ekki átt að spæna upp. En svona er víst æskan.
Við vorum ungir og ósigrandi eins og títt er um æskumenn, en áttuðum okkur þó á því að það er ekkert grín að vera fastur undir fullhlöðnu mótorhjóli í miðri Jökulsá í Þórsmörk. Sem betur var þá ýtti straumurinn hjólinu
niður árfarveginn og Óli gat smokrað sér undan því að mestu leyti, þegar mig bar loks að frá fjær bakkanum.
Lífið er dýrmætt og ekki alltaf hægt að þurka sig og reyna aftur.
Hondan reyndist mér vel þó fyrsti gírinn hafi sagt upp störfum á Melrakkasléttunni og hjólið beðið um líter af smurolíu í hvert sinn er ég tankaði bensín á fjórgengisfákinn.
Hondan var seld ískiptum fyrir forláta Marantsz geislaspilara, sem voru nýir af nálinni á þessum tíma og tónlistar þroskinn staðnaði við slagara Fleetwood Mac.
Að túrnum loknum tóku við önnur störf, og aðrar skildur hjá okkur vinunum, og mótorhjóla dellan dormaði en tók sig upp á nokkra ára fresti. Hjá mér amk.

Draumurinn um að aka strandveginn allan og sleppa engum slóða var þó alltaf þarna í hugskotinu og tók sig upp í takt við mótorhjóladelluna með reglubundnu millibili.

Það liðu ekki nema 37 ár þangað til að ég ákvað að láta verða af þessu og aka ítrasta strandveg um Ísland. Frá Akureyri til vesturs og taka allar mögulegar beygjur til hægri. Fylgja ströndinni eins og hægt er allan hringinn um Frón.
Sömu hugmynd hafði lostið niður í kollinn á Kristján Ólafsson og hann var til í túrinn með skömmum fyrirvara. Óborganlegt að geta leitað til svona manna sem taka vel í vitlausustu hugmyndir.
Til að afmarka ferðina var ákveðið að heimsækja allar hafnir á Íslandi. Nyrsta tanga landsinns, þann vestasta , syðsta og austasta. Alltaf út fyrir og fram og til baka blindgötuna, ef höfn var í þeim firðinum.

Við hófum leik á föstudags síðdegi.

Ókum út Eyjafjörðinn og fyrir Tröllaskagann að Sauðárkróki og fyrir Skaga, að Blöndósi. 5 klst. akstur og 320 km mikið á malarvegum.

Frá Blönduósi var ekið kl. 08, eins og alla morgna, um Borgarvirki og Vatnsnes í blinda þoku en hægu veðri. Leiðin lá þaðan um Hrútafjörðinn, Borðeyri, Hólmavík, Drangsnes, Norðurfjörður og til baka uppá Steingrímsfjarðarheiðina. Þar var slegið í kláranna og unninn upp tími í rökkrinu enda við ekki komnir á Ísafjörð fyrr en upp úr 20. Og 750 kílómetrar í hús.

Norðurfjörður á Ströndum

Frá Ísafirði lá leiðin um Hnífsdal til Bolungarvíkur og til baka í tveggja gráðu hita. Öll aðvörunarljós loguðu á 1250 BMW hjólinu hans Kristjáns en gamli Dakar lurkurinn minn sinnt þessu engu og vissi ekki hversu hált var í héluni. Um heit og hugguleg jarðgöng að Suðureyri og síðar Flateyri. Yfir Önundarfjörðinn og um Þingeyri, út Dýrafjörðinn að vestan að Lokinhamraleið.  „Ef þú lesandi góður hefur minnstu ánægju af því að aka ægilega slóða, þá láttu þessa leið ekki fram hjá þér fara,, . Mig langar strax aftur, og næst þegar ég fer þá mun ég aka þarna í einhverja hringi aftur og aftur.
Áfram um Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð að Látrabjargi.
Í skriðunum nærri bjarginu lærðum við þá lexíu að okkur er ekki gefið að vita hvað Breti á hægri stýris Landrover er að hugsa. Framúr akstur er alltaf áhættuhegðun, og tveggja tonna fulltrúi kulnaðs heimsveldis á auðvelt með að ýta okkur af slóðanum. Áfram austur Barðaströndina og ekki laust við örlitla gleði að sjá afslappaða þjóna réttvísinnar í kaffi á Hótel Flókalundi. Barðastrandarvegur hlýtur að vera hannaður af mótorhjólamanni.
Skarðsströnd og Fellsströnd liggja norðan Búðardals og eru einnig algjörar perlur að aka. Hér varð þó óhapp síðla dags eftir að skyggja tók. Ég ögn á undan Kristjáni, kem yfir lága hæð og upp úr lækjarfarvegi skýst ær með lamb á eftir sér. Svo skjótt bar þetta að, ég náði tæpast að kreista bremsurnar áður enn ég skall á lambinu. Það tapaði lífinu, hjólið hélt jafnvæginu og ég jafn sprækur sem fyrr. Inga Erlings, takk fyrir góðu ráðin, ekki víst að ég hefði hangið á hjólinu án þeirra. Að taka akstursnámskeið hjá henni er besta fjárfesting sem ég hef gert. Og hef ég átt þær fjölmargar verri 😉
Komumst í gistingu suður af Búðardal bognir en ekki brotnir eftir 750 km og 13,5 klst. á baki fákunum.

Okkar lengsti dagur, var fram undan 800 km og við vorum 14,14 klukkustundir í hnakknum.

Snæfellsnesið sjarmerandi sem fyrr , en gríðarlega misvindasamt við Grundarfjörð, í raun svo mjög að um tíma hélt ég að við þyrftum að bíða þetta af okkur. En erfitt að stoppa þegar Kristján vill alltaf kanna hvort þetta sé ekki betra eftir næstu hæð.
Mýrarnar rósa rauðar í haustlitunum og hálf skammarlegt að hafa aldrei áður ekið niður að Hvalvogi. Mikil náttúrufegurð þar eins og víðar. Gömlu malarvegirnir mega eiga það að þeir takamarka hraðann það mikið að ökumaðurinn getur notið útsýnis og náttúru að einhverju marki, en allt verður einhverra hluta vegna hálf blurrað og móðukennt á asfaltinu.
Borganes, Melasveit, Akranes og göngin til Reykjavíkur. Þar tók á móti okkur hefðbundin umferð og við brunuðum í gegn hálf pirraðir á öngþveitinu eftir að hafa haft vegina meira og minna fyrir okkur sjálfa.
Reykjanesið býr að perlum eins og Vatnsleysustrandarvegi og öll leiðin út nesið að Grindavík er unaðurin einn. Áfram austur ströndina um Þorlákshöfn, Eyrabakka og Stokkseyri. Út Villingarholtsveg að Þjórsá og upp að Urriðafossum. Þar tókum við á okkur smá krók til að komast í góða gistingu í Baldursey.

Áfram skal haldið.

Ræs kl. 07 og hjólin ræst ekki síðar en kl. 08. Fram undan eru 800 km og áseta í 11 klukkustundir. Þessi dagur var mikið á malbiki, en þó voru góðir malarkaflar í Vestur Landeyjum og við Eldhraun og víðar. Hér rignir víst svo mikið að Vegagerðin blandar engri mold í malarvegina og þeir því ansi mikil áskorun fyrir mótorhjól sem eiga það til að vera laus í rásinni á lausu yfirborði.
Áður enn við komumst í gistingu á Stöðvarfirði þá nutum við þess að liggja í sundlauginni á Höfn í heilann klukkutíma. Það var eina pásan sem við tókum í þessum ákafa leiðangri um landið, utan matartíma.
Stöðvarfjörður skartar afhelgaðri kirkju hvar hægt er að gista meðal leikinna og liðna. Góður nætursvefn fyrir þreytta karla með hausinn undir predikunarstólnum. Þetta gat ekki klikkað.
Stysta dagleiðin framundan. Settum stefnuna á Þórshöfn en heimsóttum alla firði á leiðinni. Fáskrúðsfjörður fyrir Vattarnes, Reyðarfjörður, Eskifjörður, Neskaupsstaður og til baka, uppá heiði, niður í Mjóafjörð út á Dalatanga, til baka og út í Borgarfjörð eystri. Þaðan lá leiðin uppá Hellisheiði eystri sem var grimmúðleg að sjá með úfinn hatt. Rokið lamdi okkur upp heiðina að sunnan og snjór tók við okkur á toppnum. Við stoppuðum í snjónum, en það var stutt.

Um Vopnafjörð og Bakkafjörð í rökkrinu í góða gistingu á Þórshöfn.

Lokadagurinn

Við fórum snemma úr húsi á lokadeginum og ókum Langanesið út á Font fyrir morgunmat. Ekki laust við að við værum eins og heimafúsir hestar á leið um Raufarhöfn, fyrir Melrakkasléttu um Kópasker og Ásbyrgi að Húsavík. Í Kinninni var okkur boðið uppá garðkaffi á Landamóti og kom það sér vel til að halda árverkni síðustu kílómetrana.

Grenivík gefur sig út fyrir að vera þar sem vegurinn endar og þar var höfðinglega tekið á móti okkur af Grenvíkingi númer eitt, Árna Birni Árnasyni sem veitti okkur viðhafnarfylgd til Akureyrar um síðustu höfn ferðarinnar. Svalbarðseyri.
4.300 kílómetrar að baki á 6 sólahringum sléttum.
Allur búnaður og hjólin í ferðinni stóðst álagið. Gamli 650 Dakarinn minn stóð undir væntingum og Kristján ók 1250 sófasettinu ótrúlega liðlega á vegum og vegleysum.
Karlarnir í fínu standi við heimkomu, og sauðagæran sem ég hafði á sætinu sá til þess að ég get setið hér enn, við skriftir.

Bestur þakkir KÓ

(Átt þú góða ferðasögu…..      sendu okkur og við birtum hana    tian@tia.is)

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.