Hringfarinn Kristján Gíslason hefur nýlokið sinni annarri ferð á mótorfáki í kringum hnöttinn. Hann lenti í ótal ævintýrum en hann hjólaði meðal annars hinn svokallaða silkiveg. Alls staðar upplifði Kristján góðvild en sá líka eymd.
Í rúman áratug hefur ævintýramaðurinn Kristján Gíslason ýmist verið að undirbúa mótorhjólaferð, á ferðalagi eða að vinna að bókum og ferðaþáttum sem bera nafnið Hringfarinn og margir þekkja. Líf hans snýst um heimshornaflakk á mótorhjóli en allur ágóði af efni sem hann framleiðir rennur til góðgerðarmála. Nú þegar hefur hann safnað og gefið 37 milljónir en hann segist vilja gefa eitthvað til baka af því sem lífið hefur fært honum. Kristján verður sjötugur á næsta ári en þess má geta að hann keyrði fyrst mótorhjól 56 ára en ástæðan fyrir því var sú að hann þurfti að leggja golfskóna á hilluna sökum bakverkja. Hann segir að það að sitja á mótorfáki, nú eða venjulegum fáki, geri sér hins vegar gott. Og þegar Kristján finnur ástríðuna fyrir einhverju, sem sumir myndu kannski kalla dellu, dugar ekkert hálfkák. Tveimur árum eftir að hann settist fyrst á mótorhjól fór hann akandi á því hringinn í kringum hnöttinn. Eftir alls konar útúrdúra og styttri túra hefur Kristján nú lokið sinni annarri ferð í kringum heiminn og er blaðamaður mættur í heimsókn til að heyra af hans nýjustu ævintýrum í löndum sem meðalmaðurinn hefur varla heyrt á minnst.
Að vera einn og yfirgefinn
„Líf mitt hófst eftir að ég hætti í golfi. Þá fann ég aðra ástríðu, en ég er drifinn áfram af ástríðu,“ segir Kristján og segist una sér vel einn á ferðalagi. Hins vegar hefur Ásdís Rósa eiginkona hans oft farið með honum í styttri ferðir og oft hluta af lengri ferðalögum.
„Þegar ég er einn er ég algjörlega óháður öllum og get hagað ferðinni eftir mínu höfði,“ segir hann, en Kristján eyðir miklum tíma í að tengjast heimafólki og taka bæði ljósmyndir og myndbönd sem hann notar seinna í heimildarmyndum sínum og bókum. Í sinni nýjustu heimsreisu lagði hann áherslu á að taka portrett af fólki sem varð á vegi hans.
„Um leið og maður er einn og yfirgefinn, eitthvað að vandræðast, kemur fólk til manns. Þannig hef ég náð sambandi við fólkið og á í dag vini úti um allan heim,“ segir Kristján og segir frá tildrögum þess að hann fór í nýjustu hringferðina sína.
„Það var aldrei meiningin að fara annan hring í kringum hnöttinn. Mig langaði að fara silkileiðina, hina fornu leið milli Evrópu og Kína, í gegnum -stanlöndin í Mið-Asíu. Þetta er ein frægasta viðskiptaleið sögunnar, ægifögur og hlaðin mystík. Mörg löndin sem hún liggur um voru áður hluti Sovétríkjanna, sem gefur ferðalaginu sérstakan svip og dýpt. Ég hugsaði með mér, hvað ætti ég þá að gera þegar ég kæmi til Kína, ætti ég þá bara að snúa við? Ég
sendi fyrirspurn á kínverska sendiráðið og áður en langt um leið vorum við konan mín komin í tedrykkju hjá sendiherranum sem vildi allt fyrir mig gera,“ segir Kristján sem hafði strax samband við ferðaskrifstofu í Kína sem skipulagði allt í þaula varðandi ferðina þangað, en mikil skriffinnska liggur að baki því að fá að ferðast um landið á mótorhjóli.
„Í september 2024, þegar þetta var allt klárt, lagði ég af stað en ferðin hófst í München í Þýskalandi. Ásdís var með mér fyrsta spottann; í gegnum Austurríki, Slóveníu, Serbíu, Búlgaríu og Tyrkland, en þaðan flaug hún heim en ég hélt áfram. Þaðan fór ég til Georgíu og ætlaði svo að fara norður fyrir Kaspíahafið, inn í Rússland og þaðan inn í Kasakstan. En þar sem veturinn var skollinn á flaug ég heim og fór aftur út í apríl á þessu ári og þá hófst seinni hluti þessarar ferðar,“ segir hann.
„En í apríl var enn snjór í Kákasusfjöllunum þannig að ég fór niður til Armeníu og inn í Íran, Túrkmenistan, Úsbekistan, Kirgistan og þaðan inn í Kína. Ég hafði komið áður til Írans en þekkti ekki hin löndin, en hafði komið til Kína fyrir 20 árum síðan,“ segir hann.
„Það fór mikill tími í að skipuleggja því að í þessum löndum er engin þjónusta fyrir BMW-mótorhjól og ég sá fyrir mér að dekkin myndu étast upp og ef eitthvað kæmi upp á þyrfti ég þjónustu. Hvar átti ég til dæmis að fá dekk? Hvar gæti ég geymt hjólið yfir veturinn? Ég var í sambandi við marga ræðismenn Íslands til að fá hjálp varðandi mál tengd hjólinu.“
Yndislegasta fólk á plánetunni
Ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig.
„Þegar ég fór frá Georgíu til Armeníu byrjaði allt að bila. Myndavélarnar, síminn, leiðsögukerfið á hjólinu, „back-up“-diskurinn; allt sem gat bilað, bilaði. Ég hef bara ekki lent í öðru eins,“ segir Kristján.
„Þegar ég var að fara frá Armeníu til Írans þurfti ég svo að farga drónanum því að ég ætlaði ekki inn í Íran með dróna. Nokkrum vikum áður voru bresk hjón fangelsuð þar því að þau voru með dróna. Ég hef áður farið í gegnum Íran, og var það það land sem ég hræddist mest á sínum tíma, en um leið og ég kom inn í landið og kynntist góðsemi fólksins breyttist allt. Síðan þá hef ég elskað Íran,“ segir hann.
„Ég var þar í fjórtán daga í fyrri ferðinni og í tíu skipti var mér annaðhvort boðið heim í mat eða borgað fyrir mig. Og þarna hlakkaði ég til að fara til Írans til að sjá hvort þetta yrði eins. Á sama tíma voru allir að vara mig við því að fara þar inn. Ísrael var þá nýbúið að sprengja þar mörg þúsund símboða Hesbollah-liða og Bandaríkjamenn voru að undirbúa árás ásamt Ísraelsmönnum. Ég dreg allar fréttir nú í efa því að niðurstaða mín eftir fyrstu hringferðina er sú að heimurinn er miklu fallegri en við gerum okkur í hugarlund. Ég fór svo inn í Íran og upplifði það sama; sömu elskulegheitin og áður,“ segir Kristján en hann komst að því að lífið í Íran fyrir ungar konur er ekki gott. Á veitingastað einum tók hann þjónustufólkið tali; þar á meðal unga konu.
„Ég spurði hana hvernig lífið í Íran væri hjá stúlkum. Hún svaraði að það væri yndislegt og ég spurði hana hvort hún væri til í að segja þetta í mynd því að ég væri að gera heimildarmynd. Hún var fús til þess og endurtók þetta allt. Svo korteri seinna kom hún til mín og bað mig um að eyða þessu öllu saman. Ég spurði af hverju og þá viðurkenndi hún að hún hefði verið að skrökva. Hún sagðist ekki hafa þorað að segja sannleikann því að fólk veit ekki hver mun kjafta frá,“ segir hún.
„Þetta var eins og að fá löðrung. Hún lá svo í mér og grátbað mig um að hjálpa sér úr landi. Ég spurði hana hvort hún væri virkilega til í að gefa allt frá sér og yfirgefa fjölskyldu og vini. Hún sagði að þau myndu öll skilja það. Lífið er ekkert gott þarna, sérstaklega ekki fyrir konur. Ég er ekki að mæra klerkastjórnina heldur fólkið þarna sem er yndislegt. Íranar eru yndislegasta fólk á plánetunni.“
Marmarahallir en eitthvað vantaði
Næst lá leiðin inn í Túrkmenistan og fór Kristján í gegnum landið með leiðsögumanni því að annað er ekki leyfilegt.
„Þetta er einræðisríki og ég þurfti að vera með bílstjóra á bíl og leiðsögumann sem fylgdu mér hvert fótmál. Allir ferðamenn eru í fylgd með leiðsögumönnum. Ég kom svo inn í Asgabad, sem er fallegasta höfuðborg sem ég hef séð. Algjörlega stórkostleg. Þar eru hvítar marmarahallir í röðum og meira að segja götuljósin eru listaverk. Svo bætast við allir minnisvarðarnir sem standa þarna við breiðstrætin. Þarna er tíu þúsund manna marmaramoska,“ segir hann en þess má geta að Asgabad er í Heimsmetabók Guinness fyrir að vera sú borg sem geymir mesta magn af hvítum marmara í heiminum.

Kristján fær sér smá hvíld í Túrpan-lægðinni í Kína, þeim stað sem liggur hvað lægst í heimi og fólk býr á. — Ljósmyndir/Kristján Gíslason
„Allir bílar eru þarna hvítir eða ljósgráir og fólk er sektað ef það er á óhreinum bíl. Allar blokkir eru líka hvítar með mósaíklistaverkum á göflunum,“ segir Kristján sem dáðist að fegurð borgarinnar þar til hann áttaði sig á því að eitthvað vantaði.
„Það var ekkert fólk þarna! Enginn að labba neins staðar eða fólk að hengja föt á snúrur. Ég mátti ekki taka myndir af glæsilegu ráðuneytisbyggingunum og virti það því að annars átti ég von á því að öllu myndefni yrði eytt á landamærunum, þegar ég yfirgæfi landið. Þetta var eins og að fara á leikrit þar sem leikmyndin væri falleg en aldrei kæmi neinn leikari á svið. Þarna var búin til ímynd sem er samt svo löskuð því að fólk sér í gegnum þetta,“ segir hann.
Næst lá leiðin yfir eyðimörkina til Úsbekistan sem var 600 kílómetra leið og hitastigið var yfir 40 gráður. Vegurinn var sá versti sem Kristján hefur upplifað og greinilegt var að peningar fóru ekki í vegaframkvæmdir.
„Um leið og ég kom til Úsbekistan sá ég fólk á ferli og krakka að leik. Landið tók vel á móti mér en þar átti reyndar sér stað eitt krítískasta augnablik ferðarinnar. Eftir stutt matarstopp startaði hjólið ekki. Í þessum löndum er engin þjónusta fyrir BMW-hjól, eins og áður sagði. Til að gera langa sögu stutta þá þurfti að flytja hjólið á milli borga á fjórum flutningabílum því að alltaf var einhver sem sagðist þekkja einhvern sem gæti gert við hjólið,“ segir Kristján og að á endanum hafi einhver komist að því að orsökin væri að rafbúnaður í lykli væri bilaður og næði því ekki sambandi við hjólið. Hann endaði á að láta hjólið og lyklana í hendurnar á ókunnugum mönnum og vonaði hið besta.
„Þeir tóku hjólið en mættu eldsnemma næsta morgun og höfðu þá fundið inni í einni af aðaltölvum mótorhjólsins fjöður sem var ryðguð og gerðu við. Þeir neituðu svo að taka við borgun þrátt fyrir að fimm manns hefðu unnið að þessu alla nóttina. Svona er góðvildin sem ég mæti alls staðar þegar ég er einn og umkomulaus.“
Kapítalistinn orðinn kommúnisti
Frá Úsbekistan lá leiðin inn í Kirgistan í gegnum fjöllin þar sem Kristján safnaði orku fyrir Kínaferðina. Í Kína hitti hann leiðsögumanninn sinn sem beið hans á landamærunum; mann sem átti að fylgja honum alla Kínaferðina en slíkt var skilyrði fyrir að fá að keyra í gegnum Kína á mótorhjóli.
„Þetta reyndist hreint afbragð því að við hittumst í hádeginu og síðan í lok dags,“ segir hann.
„Þarna var ég kominn á það sem ég kalla hinn nýja silkiveg en það var silkimjúkt að keyra á þessum vegum og þetta var svona alla leið til Sjanghaí við austurströnd Kína,“ segir hann og ber leiðsögumanninum vel söguna og segir í raun hafa verið lúxus að hafa þennan mann með sér.
„Eftirlitið var mikið; ég hef aldrei séð annað eins. Það er rekki af myndavélum við hver gatnamót og víða hlið þar sem sýna þarf skírteini. Og alltaf þarf að framvísa vegabréfi í hverri borg í vesturhluta landsins. En það var annað sem átti sér stað við allt þetta eftirlit, öryggið jókst og hvergi hef ég fundið fyrir jafn miklu öryggi,“ segir Kristján.
„Ég kynntist nánast engum Kínverjum nema leiðsögumanninum. Ég sá enga eymd þó að auðvitað væru þarna vanþróuð svæði en það var mun hreinna en ég upplifði fyrir 20 árum þegar ég var þarna. Mengunarskýin voru horfin,“ segir hann.
Meðal borga sem hann heimsótti var Xi’An sem þekkt er fyrir leirhermennina.
„Það var bóndi sem var að bora eftir vatni árið 1974 sem kom niður á hvelfingu og þar reyndust vera átta þúsund leirhermenn í fullri stærð. Þetta er stórfenglegt! Þangað koma nú 20 milljón ferðamenn á ári,“ segir hann.
Áfram hélt Kristján í gegnum kínverskar borgir og upplifði meðal annars að keyra um í sjálfkeyrandi leigubílum og fá melónu senda upp á hótelbergi með vélmenni.
Í Sjanghaí skilaði Kristján af sér hjólinu sem átti nú að ferja til vesturstrandar Bandaríkjanna. Sjálfur tók hann háhraðalest til Peking þar sem hann hvíldi sig og melti allt sem hann hafði upplifað.
„Allt í einu var hægrisinnaði Kristján orðinn kommúnisti,“ segir hann og hlær.
„Ég er kannski að færa aðeins í stílinn en þarna var ég dottinn inn í þjóðskipulag sem ég hafði aldrei haft trú á en ég sá að þeir eru alla vega að gera eitthvað rétt því að þeir eru að fara fram úr okkur á flestum sviðum,“ segir Kristján og segist hafa orðið undrandi yfir þessu.
„Ég á erfitt með að koma í orð hvers konar áhrifum ég varð fyrir.“
Vonbrigðin voru Bandaríkin
Mánuði seinna birtist mótorhjólið í Los Angeles en í millitíðinni skoðaði Kristján sig um í Kína og fór til Hawaii.
„Það var sjokk að koma til L.A. og sjá eiturlyfjaneytendur og allt heimilislausa fólkið á götum úti. Ég bjó í Bandaríkjunum fyrir hálfri öld en það er augljóst að nú er eitthvað mikið að þarna,“ segir hann.
Frá Los Angeles lá leiðin þvert yfir Bandaríkin en Ásdís hitti Kristján í Montana og fylgdi honum síðasta spölinn.
„Við ferðuðumst um þessi svokölluðu kúrekaríki sem við höfðum aldrei áður kynnst. Landslagið var einstaklega fallegt og menningin allt öðruvísi en við áttum að venjast. Þar er sterk hefð og mikil menning tengd kúrekalífinu og það var áhugavert að fá innsýn í þann heim,“ segir hann.
„Á sama tíma varð maður einnig var við ýmsar félagslegar áskoranir, því að víða blasti fátækt við og margir bjuggu í hjólhýsum. Þó er mikilvægt að vera ekki of fljótur að draga ályktanir, þar sem hjólhýsi eru að hluta til eðlilegur og rótgróinn hluti af menningunni á þessum slóðum. Það sem kom mér helst á óvart í ferðinni voru Bandaríkin. Að sjá þetta með eigin augum hafði mikil áhrif á mig,“ segir Kristján.
„Á leiðinni í gegnum þessi norðvesturfylki eru margar náttúruperlur, Yellowstone-þjóðgarðurinn meðal annars. Við fórum svo til Montreal í Kanada, þar sem við hittum Baldur son okkar, en hann kom frá Íslandi gagngert til að hjóla með okkur síðasta spölinn. Þaðan hjóluðum við til Portland í Maine þar sem hjólið var sett í skip til Evrópu,“ segir Kristján og bætir við að hann hafi orðið var við andúð gagnvart Bandaríkjunum meðal Kanadamanna, í kjölfar ummæla forsetans um að Kanada gæti orðið 51. fylki Bandaríkjanna.
„Þessar gömlu vinaþjóðir eru ekki lengur vinir. Verður einhvern tíma hægt að bæta þetta?“ spyr Kristján og fátt er um svör hjá blaðamanni.
„Ég ætlaði svo að taka á móti hjólinu í Rotterdam en það tók mánuð að komast þangað vegna skriffinnsku í Bandaríkjunum,“ segir hann.
„Ég ætlaði að ljúka ferðinni þar sem hún hófst í München en það var orðið ískalt í veðri þegar hjólið loksins komst á leiðarenda. Ég straujaði þúsund kílómetra á tveimur dögum af því það telst ekki heimsreisa nema ég loki hringnum þar sem ég byrjaði,“ segir Kristján en um 350 manns eru á lista yfir þá sem lokið hafa heimsreisu á mótorhjóli.
„Þetta er minn annar hringur en það eru ekki margir sem hafa farið tvo hringi. Því varð ég að klára. Alls staðar fann ég gott fólk og heimurinn er yndislegur staður, sama niðurstaða og þegar ég fór hringinn fyrir tíu árum. Það er góð fullvissa,“ segir Kristján.
„Ég lauk hringnum í nóvember og er að melta þetta allt saman. Ég get með sanni sagt að þetta hafi verið ferð af stærri gerðinni, bæði í kílómetrum og upplifun. Nú hyggst ég taka það rólega um sinn, en eins og svo oft áður er hugurinn þegar farinn að reika og ímyndunaraflið tekið að leiða mig á nýja og spennandi staði.“










