Þá er stóru ferðinni lokið þetta árið, í hópi einstakra dáða drengja, þar sem haldið var austur á Borgarfjörð Eystri.
Dagur 1.
Haldið var af stað um hádegi á miðvikudegi og keyrt í rólegheitum í austur átt.
Stoppað var nokkrum sinnum á leiðinni í kaffi og bensín og kvöldmatur tekinn í Freysnesi, þar sem að menn voru misjafnlega ánægðir með það sem þeir fengu.
Næturstaður var svo á Höfn í Hornafirði þar sem að dagurinn var kláraður með sögustund við varðeld með nokkrum ferðakakóbollum og vindlum.
Dagur 2.
Rétt náðum að pakka fyrir rigningu um morguninn og héldum svo að stað lengra austur á leið. Eftir kaffi og bensín á Djúpavogi héldu sumir áleiðis yfir Öxi til Egilsstaða (til dekkjaskipta) en aðrir tóku firðina með kaffistoppi á Fáskrúðsfirði.
Eftir sameiginlegt bað í lauginni á Egilsstöðum var haldið áleiðis á áfangastað á Borgarfjörð Eystri, beint í kvöldmat í Frystiklefanum.
Síðan var svo tjaldað á sama stað og áður og dagurinn svo kláraður með sögustund við varðeld með nokkrum ferðakakóbollum og vindlum.
Dagur 3.
Eftir morgunkaffi var haldið inn á Egilsstaði og þaðan áfram inn í Mjóafjörð. Stoppuðum góða stund við hina mögnuðu Klifubrekkufossa áður en við héldum áfram út að Dalatanga.
Eftir gott stopp þar fórum við til baka í kaffi og frábærar vöfflur á Sólbrekku í Mjóafirði og nokkrir skelltu sér á Adamsklæðum í sjóinn í hitanum,
Brunuðum svo til bara á Borgarfjörð Eystri á frábæra tónleika með Emilíönu Torrini.
Dagurinn var kláraður á tjaldstæðinu (sem að þarna hafði breyst í unglingatjaldstæði) með sögustund við varðeld með nokkrum ferðakakóbollum og vindlum.
Dagur 4.
Héldum okkur í nágrenni Borgarfjarðar Eystri þennan daginn og rúlluðum inn í Breiðuvík og svo þaðan inn í Loðmundarfjörð á frekar grýttum slóðum/vegum.
Kíktum niður í fjöru í Breiðuvík og fengum nýlagað, rótsterkt kaffi hjá skálaverði í Loðmundarfirði.
Komum svo til baka í Bakkagerði um miðjan dag í grenjandi rigningu sem betur fer stóð ekki lengi yfir.
Fórum svo á frábæra 20 ára afmælistónleika Bræðslunnar um kvöldið þar sem að landslið tónlistarmanna tróð upp, hver öðrum betri.
Dagurinn var kláraður á unglingatjaldstæðinu með sögustund við varðeld með nokkrum ferðakakóbollum og vindlum.
Dagur 5.
Farnir af stað um hádegi, sömu leið og við komum þar sem að spáin var betri sunnan megin á landinu.
Eftir stutt matar/kaffi/bensínstopp á Egilsstöðum héldum við áleiðis suður yfir Öxi.
Þegar komið var yfir holótta Öxi niður í Berufjörð kom í ljós að einn úr hópnum hafði tapað síma á leiðinni og snéri hann við til að leita að honum.
Restin hélt áfram suður og endaði í Skaftafelli þar sem að nokkrir ákváðu að tjalda þar í góða veðrinu en sumir dúndruðu áfram heim (og einn með slitinn kúplingsbarka)
Dagur 6.
Lagt af stað í brakandi blíðu frá Skaftafelli um hádegi, keyrt í sól og vindi á Vík og þaðan í rigningu og vindi alla leið heim.
Í alla staði frábær ferð með einstökum hópi drengja.
Af facebook síðu :











