Sigríður Ýr Unnarsdóttir er sannarlega mikil ævintýramanneskja en í júní fór hún ásamt kærasta sínum, Mike Reid, í rúmlega 12 þúsund kílómetra mótorhjólaferð um Bandaríkin.
Ferðin var farin í fjáröflunarskyni fyrir sumarbúðir Seeds of Peace í Maine í Bandaríkjunum. Söfnunin gekk vel og einnig ferðin sjálf eins og sönnu ævintýri sæmir, upp og niður og alla vega og ótrúlegar uppákomur áttu sér stað. Ferðalagið sjálft tók rétt innan við mánuð þar sem þau þurftu að keyra að meðaltali um 650 kílómetra á dag til að ná markmiðum sínum. Þau hafa meðal annars áform um atlögu að nýju heimsmeti í september en þau hafa nú þegar fengið samþykki frá heimsmetabók Guinness fyrir framkvæmdinni sem Sigríður Ýr vill síður upplýsa á þessu stigi málsins hver er.
Kærastinn kom sem ferðamaður til Íslands í byrjun þessa árs
Sigríður Ýr kynntist Mike Reid í janúar á þessu ári þegar hann kom sem ferðamaður til Íslands. „Ég hef verið að hýsa ferðamenn í sófagistingu og fengið til mín í gistingu um 50 ferðamenn og Mike var sá síðasti,“ segir Sigríður Ýr sem útskrifaðist úr Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands í vor.
„Tilgangur ferðarinnar var að styrkja góðgerðasamtök sem heita Seeds of Peace. Þetta eru samtök í Bandaríkjunum sem fá til sín ung menni frá stríðsþjáðum svæðum í Írak, Afganistan og af Gasa-svæðinu. Þau þurfa styrki fyrir ferðalögum og til dvalar í búðunum. Okkar liður í fjáröfluninni um Bandaríkin var að styrkja einn þátttakanda,“ segir Sigríður Ýr í spjalli við DV.
Einstaklingar og fyrirtæki leggja samtökunum lið
Sigríður Ýr segir að söfnunin hefði meðal annars farið fram með þeim hætti að þau stofnuðu heimasíðu. Þau auglýstu á síðunni og komu þannig ferðinni á framfæri og þá var hægt að heita á þau. Hún segir að upphaflega hafi hún alltaf ætlað sér að fara til Bandaríkjanna og hitta kærasta sinn en síðan hefði ferðin undið upp á sig.
Keyptu mótorhjól áður en lagt var í hann
„Við fórum að finna út hvernig við kæmust frá Fíladelfíu til Kaliforníu og við ætluðum ekki að fara hefðbundna leið þannig að við enduðum með því að kaupa okkur mótorhjól. Því næst var að skipuleggja ferðina til Kaliforníu og svo aftur til baka til að geta selt hjólið aftur eftir ferðalagið. Þetta, sem átti að verða smátt í upphafi, var orðið að heilmikilli ævintýraferð,“ segir Sigríður Ýr.
„Þegar upp var staðið varð ferðalagið um 12 þúsund kílómetrar og við gerðum mjög grófa áætlun
í upphafi. Við rissuðum hring á landakorti, sem við ætluðum að fara um og höfðum til þess 25 daga.
Við vorum með nokkra áhugaverði staði í huga sem við ætluðum að kíkja á. Fórum þjóðveg 66, fórum í Miklagljúfur, Hollywood, Yellowstone-þjóðgarðinn, hittum amishfólk, indíána og lentum í alls konar ævintýrum,“ segir Sigríður Ýr.
Tilgangurinn var að safna. Eru þið ánægð og sátt þegar upp er staðið?
„Já, við erum það og þetta gekk ótrúlega vel. Þetta er í fyrsta skiptið sem við förum af stað með söfnun, en höfum bæði tvö farið áður í alls konar ferðir. Hann er meira í ævintýraferðum, ég hef verið meira á bakpokaflakki. Það sem stendur upp úr er að við lærðum heilmikið á þessu og við erum með margar ferðir planaðar. Að finna góð málefni og styrkja eins og kostur er. Við erum búin að vera í samstarfi við Guinness um samþykki til að gera tilraun til að setja nýtt heimsmet, núna í september í Bandaríkjunum, sem tengist mótorhjólum. Á meðan málin eru ekki alveg komin á hreint viljum ekki gefa upp meira.“
Hvað finnst þér standa upp úr í þessari ferð ykkar til Bandaríkjanna?
„Þetta var ótrúlega lítið mál. Einfalt að fá einhverja hugmynd þó að hún hafi verið frekar klikkuð og koma henni svo í framkvæmd. Við mættum ótrúlega mikilli góðvild hjá fólki sem varð á vegi okkar og allir voru til í að hjálpa með einum eða öðrum hætti. Þeir sem voru ekki aflögufærir varðandi pening í söfnunina hjálpuðu okkur á annan hátt. Ferðin var erfið, við hlógum, grétum og allt þar á milli því þetta var mikið álag á köflum. Við þurftum að sitja á hjólinu í níu klukkutíma á dag í 20 daga,“ segir Sigríður.