Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramt

Greinarbrot úr nýjustu Sniglafréttum

Þar sem okkar frábæra Sigga Dagný var í Sniglafréttum sem komu út í byrjun mánaðarins í grein sem heitir „Konur í Formennsku“
Þá fékk ég leyfi til að endurbirta hennar hluta úr greininni.

Sigríður Dagný Þrastardóttir
Formaður Tíunnar Bifhjólaklúbbs Norðuramts, en hún hefur gengt því starfi síðustu 6 árin.

Sigríður tók prófið um leið og bílprófið, á flugbrautinni á Ísafirði. Fyrsta hjólið hennar var Honda Rebel 450, algjör gullmoli segir hún.
Sigríður bauð sig fram sem formaður 2015, en hana langaði að leggja sitt að mörkum til að norðanfólk væri með virk samtök, væru að vinna skemmtilegt starf auk þess sem henni fannst þetta gefandi starf.  Hún segir að starfið sé 99% skemmtilegt.

Formannstarfið fellst meðal annars í því að halda utan um félagsstarfið, koma á viðburðum, halda utan um stjórn, leita leiða til að fjölga félagsmönnum og fylgja eftir hlutverki klúbbsins.  Hlutverk Tíunnar er að efla samstarf bifhjólaáhugafólks á norðurlandi, vera fyrirmynd annara hjólara og vera í forsvari fyrir bifhjólafólk á Norðurlandi, að stuðla að tilurð og framgangi Mótorhjólasafnsins í minningu Heiðars Þ Jóhannssonar, sem var Snigill nr 10. Auk þess að sjá til þess að bifhjólafólk skemmti sér annað slagið.(„Getum við ekki látið eins og hálfvitar“)
Að lokum segir Sigríður „Ætli ég noti ekki tækifærið til að þakka það traust sem mér hefur verið sýnt með því að kjósa mig til formanns öll þessi ár. Það er heilmikið starf að vera formaður. Það hafa skipst á bæði skin og skúrir stundum, en ég verð að segja að það eru blendnar tilfinningar sem bærast í mér og ég veit að ég mun sakna starfsins. Þegar ég fór að velta fyrir mér að hætta sá ég að það var annaðhvort að gera það núna eða halda áfram að bjóða mig fram til formanns í það minnsta fimm ár í viðbót. því verkefnin framundan eru svo skemmtileg og áhugaverð. En klúbburinn hefur stækkað og blómstrað og hætti ég því með gleði í hjarta því ég er þakklát fyrir alla þá vini sem ég hef eignast þessi ár mín hjá Tíunni. Stjórnin hefur staðið þétt saman öll þessi ár og er það mikils virði að vinna með slíku fólki.