Við kaup á mótorhjóli ætti að huga að notagildinu og gæta þess að ekki sé of erfitt að ráða við
ökutækið. Ólík hjól magna upp ólíkar hvatir.
Rösklega ár er liðið síðan Ítalis opnaði mótorhjólaverslun sína í Hafnarfirði. Síðan þá hefur straumur áhugamanna um mótorhjól legið í Álfhellu þar sem finna má úrval af Ducati- og Apriliamótorhjólum auk hjálma frá framleiðandanum LS2.
Unnar Már Magnússon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og Ítalis aðallega glímt við þann lúxusvanda að kippur hafi orðið í sölu ítalskra mótorhjóla á heimsvísu og afhendingartíminn lengst af þeim sökum: „Við sömdum um það strax í upphafi að geta pantað inn hjól eftir þörfum enda íslenski markaðurinn ekki stór, og gekk það mjög vel framan af. En svo jókst salan um allan heim og um leið varð kórónuveirufaraldurinn til þess að raska aðfangakeðjum svo að framleiðendur hafa sumir átt fullt í fangi með að fá alla þá íhluti sem þá vantar. Er nú svo komið að afhendingartími Ducati-mótorhjóla er um sex mánuðir,“ útskýrir Unnar.
Fá bakteríuna seinna en áður
Áhugavert er að greina samsetningu íslenskra mótorhjólakaupenda en Unnar kveðst greina að yngstu aldurshóparnir hafi ekki sama áhuga á mótorhjólum og kynslóðirnar á undan þeim. „Það er umtalað að unga fólkið í dag vill ekki eiga hluti heldur hafa aðgang að þeim og er t.d. áhugasamara um að geta leigt rafhlaupahjól eina ferð í einu frekar en að eignast sitt eigið mótorhjól til að komast á milli staða. Það er af sem áður var þegar unglingar áttu það til að heimsækja mótorhjólabúðir og láta sig dreyma – í dag er sá hópur allur í tölvuleikjunum og rafskutlunum,“ segir Unnar. Viðhorfið virðist breytast í kringum þrítugt og segir Unnar að bæði karlar og konur á þeim aldri séu reiðubúin að verja á bilinu 2-3 milljónum króna í voldugt ítalskt mótorhjól. „Þau eiga ýmist peninga aflögu fyrir kaupunum eða kjósa að nýta þjónustu lánafyrirtækjanna sem geta hjálpað með 60-80% af kaupverðinu.“
Séu ekki hrædd við að nota hjólið
Gaman er að heyra að landsmenn virðast láta skynsemina ráða ferðinni þegar kemur að kaupum á mótorhjóli og velja sér hjól sem þægilegt er að lifa með. „Áhuginn er mestur á þeim mótorhjólum sem bjóða upp á þægilega sætisstöðu, s.s. Scrambler og Diavel frá Ducati. Á þannig hjóli er ekkert sem bannar að t.d. skjótast á gallabuxunum niður í bæ til að fara á kaffihús eða í bíó á meðan sportlegustu og kraftmestu hjólin kalla á að farið sé í leðursamfestinginn og góður vegur fundinn fyrir utan borgarmörkin þar sem má ná meiri hraða. Þetta eru hjól sem framkalla mjög ólíkar hvatir.“ Þegar hann er beðinn um ráð fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref inn í mótorhjólaheiminn segir Unnar að það sé ágætt að byrja á mótorhjóli sem ekki er erfitt að ná góðri stjórn á. „Það er einmitt ástæðan fyrir því að svo mörg notuð Ducati Panigale-hjól eru til sölu úti í heimi, að þegar á hólminn er komið finnst mörgum of stór biti að aka þessum kraftmiklu mótorhjólum.“
Unnar segir það ágætis reglu að byrja á kraftminna hjóli svo að ökumaður geti bæði látið reyna á eigin getu og á getu ökutækisins án þess að fara langt út fyrir þægindarammann. Sumir ganga svo langt að mæla með því að drauma-mótorhjólið sé ekki keypt strax í fyrstu atlögu heldur byrjað á einhverju ódýrara, sem óhætt er að rispa enda tekst óreyndum oft að detta á mótorhjólinu sínu með tilheyrandi hnjaski. „En á móti kemur að fólk er oft líka að leita að ákveðinni upplifun, útliti og jafnvel stöðutákni, og tekur einfaldlega ekki annað í mál en að vera á mótorhjóli sem eftir er tekið þegar farið er á rúntinn.“
Unnar bætir því við að sumum gerðum mótorhjóla fylgi ákveðinn samfélagslegur þrýstingur sem ágætt er að losna við. „Sá sem ekur um á Scrambler – sem er samt nokkuð kraftmikið hjól – er ekki að fá margar spurningar um hversu hratt mótorhjólið kemst, en þeir sem eru á sportlegustu hjólunum kannast við það að vera beðnir að prjóna og sýna listir sínar sem vitaskuld getur leitt til óábyrgrar hegðunar og óhappa.“
Ætti að lækka gjöldin til að létta á umferðinni?
Í dag er orðið tiltölulega auðsótt að fjármagna kaup á mótorhjóli en fyrir suma geta dýrar tryggingar verið hár þröskuldur að yfirstíga. Unnar segir iðgjöld mótorhjólatrygginga á uppleið, rétt eins og iðgjöld bílatrygginga, og ekki von á góðum kjörum fyrir þá sem ekki eru þegar með nokkuð langa viðskiptasögu og stóran tryggingapakka hjá sínu tryggingafélagi. „Það getur líka verið mikill munur á tilboðum eftir því hver svarar í símann hjá tryggingafélögunum þann daginn og með miklu þrasi má reyna að knýja fram hagstæðari kjör. Þeir sem eru í þeirri stöðu að bjóðast ekkert betra en leiðandi taxti geta stundum farið þá leið að kaupa tryggingarnar í gegnum fjölskyldumeðlim og fá þannig betra verð.“ Unnar segir vert að skoða hvort ekki megi greiða leið mótorhjólafólks m.a. til að létta umferð á vegum og minnka slit á malbiki. Hann segir bifhjól hjálpa til að bæta nýtingu samgönguinnviða á álagstímum enda taka þau minna pláss á götunum og hægt að koma mörgum mótorhjólum í stæði fyrir einn venjulegan fólksbíl. „Við þekkjum þess dæmi að utan að lægri álögur eru á bifhjól af þessum sökum. Þó að koltvísýringslosun meðalstórs mótorhjóls sé ekki endilega minni en losun bifreiðar þá nota þau minna eldsneyti og vegna þess hvað þau eru létt valda þau langtum minna sliti á vegum. Því þyngri sem umferðin verður, því stærra hlutverk leika mótorhjólin við að halda samfélaginu gangandi.“
Ásgeir Ingvarsson
mbl 20.07.2021











