Að ferðast á mótorhjóli með farþega.
Að ferðast um á mótorhjóli er ólýsanlegt nema fyrir þá sem hafa prufað. Fá vindinn í fangið og ekkert sem yfirgnæfir vega- og vélarhljóðið (nema tónlist í heyrnatólunum). Lyktin af umhverfinu og allt þar á milli. Hugurinn tæmist af óþarfa hugsunum og amstur dagsins rennur út úr líkamanum. Skynjun skerpist og ekkert kemst að nema ökuferðin og umhverfið.
Fátt sem getur toppað þetta nema ef þú getur deilt þessari upplifun með þeim sem þér þykir vænt um.
Veðráttan á landinu eins og hefur verið undanfarið býður upp á hina mestu og bestu skemmtun og því er ekkert að vanbúnaði að skella niður farþegar fótstigunum, skella sér í gallann og verða hið fínasta hnakkaskraut.
Farþegi nýtur ferðarinn alveg jafnt og ökumaðurinn og þarf að fylgjast með því sem er í gangi hverju sinni því jú það sem kemur fyrir ökumanninn á líklega eftir að henda farþegann líka í megindráttum. Því þurfa ökumaður og farþegi að vinna sem ein heild, hvor fyrir sig er tannhjól í vél og vinna því saman þó að annar haldi um stýrið.
Ef farþegi finnur ekki til öryggis í ferðinni getur þessi skemmtun orðið hin mesta martröð fyrir hann og jafnvel komið í veg fyrir fleiri ferðir seinna meir. Því þarf ökumaður að vanda sig og passa sig á að vera ekki að hrekkja farþegann, allavega ekki viljandi.
Við að vera með farþega breytist allt í ökuferli hjólsins s,s stöðvunarvegalengd, gera þarf ráð fyrir víðari beygjum og hjólið mun ekki ná sér jafn hratt upp á ferð eins þegar einn aðili er á því ásamt því, hjólið eyðir meiru bensíni, athuga hvort hægt sé að stýfa dempara og að loftþrýstingur í hjólbörðum sé nægur.
En í þessu eins og svo mörgu öður gildir að æfa sig og æfa sig. Því meiri æfingar sem bæði ökumaður og farþegi fá af allskonar aðstæðum s.s stoppa í brekku og taka af stað aftur, stoppa á ljósum og bremsa skart ásamt öllu öðru sem þarf að vera viðbúinn, því auðveldara verður það að skreppa lengri ferðir og jafnvel bara taka hringinn í kringum landið á þetta.
En hvað sem öðru líður er bara um að gera að njóta ferðarinnar hvort sem hún sé lengri eða styttri. Það er alltaf gaman að ferðast um á mótorhjóli.