mbl.is/Þorgeir Baldursson
Hópur rúmlega 30 vélhjólamanna lagði af stað frá Akureyri í morgun í hringferð um landið. Þarna er á ferð CBX klúbburinn svokallaði og ferðin er farin af því tilefni að 30 ára eru síðan Honda setti CBX hjólið fyrst á markað. Vélin voru framleidd til ársins 1982.
CBX hjólið er sérstakt fyrir þær sakir að vera knúið áfram af 6 strokka línuvél. Þessi hjól eru orðin með þeim vinsælustu í heimi meðal safnara japanskra fornhjóla, að sögn Baldvins Ringsted, eins þeirra sem lagði upp í hringferðina í morgun. Nú eru 44 hjól af þessari gerð til á Íslandi. Það er að sjálfsögðu heimsmet miðað við höfðatölu, eins og Baldvin orðar það.
Hópurinn kom saman í morgunmat í Bakaríinu við brúna í morgun og hélt þaðan af stað klukkan 11. Haldið var austur á bóginn.