Eftir Njál Gunnlaugsson
Mikill mótorhjólaáhugi virðist hafa verið á Ísafirði og nágrenni um og uppúr seinni heimsstyrjöldinni. Talsvert kom af Royal Enfield herhjólum upp úr lokum heimsstyrjaldarinnar, en þau voru seld í kippum eftir stríð því það var svo mikið til af þeim, og fengust þannig mjög ódýrt.
Eflaust hafa einhverjir freistast til að kaupa slík hjól þannig eins og Ingvar Jónasson, Andrés Gunnarsson, Snorri Júlíusson, Sverrir Elíasson, Pétur Þórarinsson, Sverrir Guðmundsson, Hermann Sigurðsson, Gísli Sigurðsson, Elí Ágúst Ingibjartsson og Hafsteinn Hannesson sem allir áttu Royal Enfield. Báru þau númerin Í-86, Í-121-124 og Í-127-131. Til eru fjögur vélarnúmer af slíkum hjólum á skrá, en þau eru frá 19225-19510 sem þýðir að um sérstakar útgáfur fyrir breska flugherinn var að ræða, eins og passar vel við myndir sem til eru af nokkrum þeirra. Royal Enfield herhjólin voru framleidd í tugum þúsunda eintaka en aðeins voru gerð 2.826 eintök fyrir flugherinn sem gerir þau að sjaldgæfum gripum. Þau hafa verið dökkblá að lit til að aðgreina þau.
Helgi Hjartarson átti þrjú mótorhjól uppúr seinna stríði. Fyrst kom Royal Enfield herhjól líkt og hér er talað um, því næst Machless G8L og svo BSA mótorhjól sem enn er til hérlendis. Að sögn sonar hans Hjartar Helgasonar þótti honum vænst um Matchless hjólið, sem hann seldi fyrir útborgun í íbúð þegar hann gifti sig. Hjörtur fékk oft að fara með honum rúntinn á því hjóli, og sat lengst af á bensíntankinum á sérstökum púða sem amma hans útbjó. Til er mynd af honum þar sem hann situr í fangi föður síns á BSA hjólinu.
BSA hjólið hans mun hafa komið seinna en það var keypt bilað. Hann dundaði sér lengi við að gera við það en gekk illa með magnetuna. Rafverkstæði sögðu að hún væri ónýt og ekki hægt að fá varahluti. Hann fór þó með hana heim aftur og reif í sundur stykki fyrir stykki. Síðan horfði hann á hvern hlut til að reyna að sjá ágalla. Það eina sem hann fann var að fíberskinna var með sprungu í, svo hann náði sér í lím og makaði yfir sprunguna. Það þornaði yfir nótt og var svo slípað og sett saman. Hjólið rauk í gang eftir viðgerðina og gekk í mörg ár á eftir. Átti hann BSA hjólið í allavega 10 ár.
Einu sinni ákvað hann að fá sér rúnt til Þingeyrar einn síns liðs á Matchless hjólinu. Þegar hann kom uppí Kinn mætti hann Ágústi Leósyni á mótorhjóli. Hann spyr hvert Helgi sé að fara og þegar hann heyrir það segir Ágúst. „Ég er að koma þaðan en ætla að snúa við og koma með þér.“ Þetta sýnir hvað menn höfðu gaman af mótorhjólunum á þessum árum. Helgi var mikill veiðimaður á bæði stöng og byssu. Hann fór allra sinna ferða á hjólinu og oft í veiðiferðir. Stundum fór vinur hans með til rjúpna en þá setti Helgi bakpokann og byssuna framan á sig, en vinurinn hafði sitt á réttum stað. Þannig keyrðu þeir alla leið í Arnarfjörð og víðar. Einu sinni plataði hann vin sinn til að koma með sér í langferð, alla leið suður yfir Snæfellsnes. Þar var unnusta hans í kaupavinnu það sumar. Þegar þeir voru komnir langt suður yfir gömlu Þingmannaheiðina þá yfirtók feimnin kjarkinn, og þeir snéru við.
Mikið efni hefur komið úr yfirferð minni um mótorhjólaáhuga á Vestfjörðum og því mun ég birta efnið í nokkrum hlutum. Er næsta kafla að vænta á allra næstu vikum.
Fengið vefsíðunni www.fornhjol.is