Gömul grein og myndband síðan 2007 um bræðurna sem fóru fyrstir íslendinga umhverfis jörðina á mótorhjólum. Þess má geta að mótorhjólin þeirra eru á Mótorhjólasafninu á Akureyri.
_____________________________________________________________________
Ævintýramennirnir og vélhjólabræðurnir Einar og Sverrir Þorsteinssynir fengu góðar móttökur er þeir sneru heim til Íslands í dag eftir þriggja mánaða útlegð. Hnattferð þeirra bræðra á vélhjólum er nú að baki sem og rúmir 32.000 km, en þeir Einar og Sverrir eru fyrstir Íslendinga til þess að ljúka langferð sem þessari.
Þeir voru þreyttir, skítugir og fúlskeggjaðir þegar vinir og vandamenn tóku á móti þeim við verslun MotorMax þar sem þeir lögðu formlega af stað fyrir þremur mánuðum.
Einar og Sverrir segja það vera ólýsanlega tilfinningu að vera komnir aftur heim til Íslands. Þá sögðust þeir vera hálf orðlausir yfir þeim móttökum sem þeir fengu við heimkomuna.
Þegar þeir bræður voru spurðir út í það hvað stæði upp úr eftir langferð sem þessa sagði Sverrir það vera Mongólíu. „Það stendur upp úr sem virkilegt ævintýri,“ sagði hann. Hvað varðar sambúð þeirra bræðra á þessu tímabili segja þeir hana hafa verið góða. Þegar á hafi reynt hafi þeir staðið saman sem einn maður.
„Við töluðum bara íslensku, ensku, innlensku eða útlensku. Tungumálin voru ekki vandamál. Auðvitað var erfitt á köflum að geta ekki spjallað við fólk, okkur langaði mikið til að spjalla. En við lentum hvergi í þeirri stöðu að tungumálið skapaði mikil vandamál,“ sagði Einar spurður út í það hvort ólík tungumál í löndum 13 sem þeir heimsóttu hafi verið nokkur hindrun.
Skilaboð þeirra Einars og Sverris til þeirra sem eru að láta sig dreyma um ævintýraferð á borð við þeirra eru einföld. „Bara láta verða af þessu. Hvað sem það er.“
MBL 2007