Í dag heimsótti okkur í Tíuherbergið Bergmann Þór Kristjánsson og kynnti fyrir okkur stórskemmtilega ferð sem hann og félagar hans fóru til Indlands,
um 20 manns mætti á kynninguna og tókst hún líka svona ljómandi vel og við mikið fróðari um þetta ævintýri.
Kærar þakkir Bergmann og allir sem mættu, og þess er að geta að að auðvitað gekk Bergmann í klúbbinn og bjóðum við hann velkominn..
Dagur 1 Bröttför
Við bræður fórum af stað frá Eskifirði snemma morguns því það voru nokkur smáatriði sem átti eftir að ganga frá í bænum. Ferðin suður gekk vel. Einnig var mæting frekar snemma á völlinn morguninn eftir.
Dagur 1. Bröttför.
Dagur 2. Flugdagurinn mikli
Morgunflug til Helsinki þar sem við hittum Eirík fararstjóra og eiganda Two wheels travel. (twt.is.) Svo var áfram næturflug til Delhi. Lentum snemma morguns í Delhi þar sem hitinn var fyrsta sjokkið. Og rakinn. Okkur var reyndar sagt að það væri ekkert orðið heitt ennþá. Rútan fór svo með okkur upp á hótel.
Delhi skoðuð:
Eftir stutta hvíld á hótelinu var farið í skoðunarferð gömlu borgina og Red Fort skoðað. Þangað til við tókum eftir því að heimafólkinu þóttu við, stóru hvítu karlanir, svaka spennandi. Ég er ekki frá því að það hafi verið teknar af mér vel yfir 1000 myndir þennan dag. Við fenguð þarna menninguna traffíkina og lyktina beint í æð. Geggjaður dagur þrátt fyrir steikjandi hita.
Dagur 3 Flogið til Leh
Við vöknuðum snemma, rúta á völlinn og áfram var haldið. Flugið var stutt og eftir stutta rútuferð á hótelið var reynt að ná andanum. Þarna vorum við komnir í 3500 m hæð í fjallaþorpinu Leh. Eftir stutta aðlögun voru hjólin ræst og stuttur rúntur tekinn um Leh og nágrenni. Skoðuðum m.a. Shanti Stupa og Leh palace.
Um 80 km akstur á hjólum.
Dagur 4 Leh-Ladakh
Eftir morgunmat var stefnan sett á Sham dalinn skoðað Spituk hofið og hið mikla Indus fljót ásamt því að kíkja við á Magnetic Hill. Stuttur og góður dagur og komið til baka til Leh seinnipartinn.
Þarna varð ég fyrir þeirri upplifun að átta mig á að allt í einu var ég einn á ferð sá engan fyrir framan mig og engan fyrir aftan. Þannig ók ég um í um 20 mín án þess að verða var við hópinn. Þvílíkt frelsi!
Geggjaður dagur.
Dagur 5 Nupra-dalur
Ævintýradagur í Khardung La fjallagarðinum. Fjallaskarðið sem við fórum yfir er hæsti fjallvegur í heimi 5620 metra hár og eru allt að 7 km há fjöll í kring sem gerir þetta skarð algjörlega stórfenglegt. Eftir skarðið hjóluðum við í átt að Nupra-dalnum en þar skoðuðum við eyðimörk sem er með kameldýrum allt frá tímum Silkileiðarinnar. Stófenglegt landslag með sandöldum og fjallasýn. Skoðuðum fallegt musteri á leið okkar þangað og enduðum daginn í lúxustjaldbúðum.
Akstur um 200 km
Þessi dagur var algjör sturlun. Við fórum yfir skarðið og á niðurleið fór bæði okkur og hjólunum að líða betur með hverjum andadrætti svo keyrðum við inn á nýtt malbik og þá var sprett vel úr spori, það vel að við gleymdum alveg að slá af eftir að malbikið endaði og við tók slæmur vegavinnukafli. Hjólin brugðust ekki enda ekki af verri endanum Royal Enfield bullet 500. Sturluð hjól og sturlaður dagur.
Dagur 6 Ekið um Nupra-dalinn að landamærum Pakistan
Þessi dagur var stórfenglegur við ókum í átt að landamærum Pakistan og fórum að þorpi sem heitir Turtuk þar sem við snæddum hádegismat. Fórum yfir nokkrar mjög ótraustvekjandi brýr sem bæði brakaði og hrykkti í og ókum um vegskarð sem hafði verið brotið leið úr berginu og bergið fyrir ofan skarðið var allt sprungið og ógnvekjandi.
Dagurinn algjör upplifun frá A-Ö Geggjað útsýni alla leið og aftur til baka í búðirnar. Þægilegasti dagurinn eknir um 150 km mesta hæð um 3500 m.
Dagur 7 Pangong-vatn
Þennan dag var stefnan sett á Pangong-vatn Sem er við landamæri Indlands og Kína og er í 4500 metra hæð. Við fylgdum Shyok ánni að samnefndu þorpi eftir hádegið var ánni fylgt áfram í gegn um gljúfur þar til við hækkuðum okkur í átt að vatninu. Á leiðinni sáum við Múrmeldýrasvæði rétt áður en við komum að vatninu sjálfu. Stórfenglegt úsýni og himininn mjög fallegur þarna við vatnið. Við sáum yfir til Kína. Eknir um 220 km mesta hæð um 4500 metrar.
Dagur 8 Aftur til Leh
Eftir góðan nætursvefn við Pangong-vatn var haldið aftur til Leh en í þetta sinn var farið yfir Chang La fjallaskarðið þar sem fjallsýnin er engri lík. Mesta hæð 5360metrar.
Við hittum á leið okkar yfir skarðið konu sem hefur líklega verið um 80 ára en hún var að fylgja hjörð af Jakuxum upp skarðið í um 4000 metra hæð.
Það var mikið vegavinna þarna og skarðið erfitt yfirferðar en samt geggjað gaman. Er við vorum komnir niður aftur hinumegin voru góðir vegir og vel sprett úr spori. Alveg óhætt að segja að þegar þarna var komið við sögu vorum við farnir að keyra alveg eins og hemamenn. Eknir um 160 km.
Eftir að menn höfðu skolað af sér rykið og komið sér í hversdagsfatnað skelltu men sér í bæinn og reyndu að finna kjöt sem gekk misvel. Um kvöldið sátum við saman á veröldinni og skiptumst á góðum sögum.
Dagur 9 Flogið aftur til Delhi
Eftir alltof stuttan svefn var farið á fætur og gert klárt í flug aftur niður til Delhi. Fluginu okkar var flýtt svo við fengum alveg heilan aukadag í Delhi fyrir vikið. Sumir fóru í að slaka á eftir hjóladagana aðrir fóru niður í bæ. Við fórum í nudd og kíktum í bæinn góður og rólegur dagur. Um kvöldið var sameginlegur kvöldmatur þar sem Indversku fararstjórarnir færðu okkur þessa fallegu tertu.
Dagur 10 Taj Mahal
Við áttum aukadag í Delhi og var tekin ákvörðun um að renna til Akra og skoða eitt af undrum veraldar hið fræga Taj Mahal.
Ferðin var frekar erfið því rútan var rusl. En þvílík sýn sem þetta musteri er og svæðið í kring. Einnig er alveg ótrúlegt að það skuli vera slum hverfi allt um kring. En musterið var geggjað og svo fóru fararstjórarnir með okkur í lítið hostel þarna rétt fyrir utan sem var viss upplifun líka. En þar hittum við rúmlega sextugan Þjóðverja sem er að ferðast um heiminn á 35 ára gömlu BMW hjóli.
Að lokum
Einnig vil ég taka fram að hópurinn sem fór í þessa ferð er geggjaður og erum við allir staðráðnir í að halda hópinn. Við erum búnir að hittast einu sinni eftir heimkomu og ætlum svo sannarlega að gera það aftur. Við bræður erum enn í skýjunum með þessa ferð og strákana sem voru með okkur.
Eiríkur, Bjarni, Hjörtur, Guðjón, Guðjón, Prins Arnar, Gylfi, Böðvar, Hróbjartur, Veigar, Einar. Það voru forréttindi að fá að ferðast með ykkur Mínar dýpstu þakkir fyrir samveruna.
Sérstakar þakkir fær Bjarni Freyr bróðir minn fyrir að segja já við þessari vitleysu. Ég veit ég hefði ekki þorað þessu einn. Takk.