Velflestir Reykvíkingar, sem hafa eytt unglings- og manndómsárum sínum á mölinni í Reykjavík, kannast við rúntinn -Ef ekki af eigin raun þá af afspurn.
Árum saman kvöld eftir kvöld og hring eftir hring ekur unga fólkið um miðbæinn til að sýna sig og sjá aðra.
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsti rúntinum í raun og veru betur en nokkur blaðagrein getur gert í texta sínum við lag eftir Evert Taube:
Keyra rúntinn piltar, sem eru í stelpuleit…
Rúnturinn í dag er nokkuð breyttur frá því sem áður var. Þá var Austurstrætið – með Hallærisplaninu sem endastöð — aðalgatan. Einnig var ekið um Aðalstræti, Kirkjustræti, Lækjargötu og síðan aftur út í Austurstræti, hring eftir hring…
Eftir að helmingur Austurstrætis var gerður að göngugötu breyttist rúnturinn nokkuð. Nú er ekið Lækjargötu, Kirkjustræti og Póst hússtræti, Austurstræti með Hallærisplanið sem miðpunkt og síðan út í Aðalstræti. Þaðan er um að velja að fara Hafnarstrætið á enda og út í Lækjargötu á ný eða að fara upp Vesturgötu, inn í Garðastræti, niður Túngötu og inn í Vonarstrætið og svo sama rúntinn aftur.
Þeir, sem eru lítið fyrir að fara alltaf sama hringinn, geta tekið alls konar tilbrigði eftir eigin geðþótta því að nóg er af öngstrætunum í miðbænum.
En hvað í ósköpunum er ég eiginlega að mala. Rúntinum þarf varla að lýsa fyrir nokkrum íslendingi sem á annað borð hefur gist höfuðborgina. Látum myndir Ragnars Th. tala sínu máli.
Þær voru teknar fyrir nokkrum vikum á rúntinum og lýsa honum að svolitlu leyti. Þetta er þó engin allsherjar úttekt á þessu reykvíska og um leið alþjóðlega menningarfyrirbæri því að í
miðbænum er alltaf eitthvað að gerast og nægði vart heilt Dagblað til að lýsa öllum tilbrigðum lifsins þar.
-ÁT.
Dagblaðið 5 maí 1976