Við hjá WIMA Iceland fengum forseta samtakanna í heimsókn í síðustu viku.

Við vorum flottar á því og fengum hjólakonur til að vera með hjólafylgd með bílnum sem við sóttum hana á. Sem var geggjað flott og hún brosti hringinn alla leiðina í bæinn, við stoppuðum auðvitað á Bessastöðum, kunnum ekki við að ath hvort Halla væri heima, en tókum nokkrar myndir.

Daginn eftir sýndum við henni nýja hraunið við Grindavík, Suðurstrandaveginn, Strandakirkju og fórum í sund á Selfossi og auðvitað Pulsuvagninn.
Ætluðum svo á Þingvelli en sökum þess að skýin náðu alveg niður á jörð með tilheyrandi votviðri, skelltum við okkur á Fly over Iceland, elduðum svo handa henni lamb.

Við vorum búnar að boða konur á fund við okkur, langaði að kynna WIMA samtökin og WRWR26 fyrir konum hér. Á fundinn komu um 20 manns sem tóks með ágætum.
B.A.C.A krakkarnir lánuðu okkur húsnæðið sitt og ekki nóg með það heldur fengum við kaffi og glæsilega súkkulaðitertu.  Ég hafði þegar hitt Skutlurnar, áður þar sem þær voru á leið erlendis þessa helgi að halda upp á 20 ára afmælið sitt, sem við óskum þeim innilega til hamingju með.

Konur hér eru að sjá fegurðina í WIMA eftir þessar kynningar, allavega eru nokkrar búnar að skrá sig. Ég vona svo sannarlega að þær komi á mót og kynnist þessum samtökum, því þau eru svo eflandi fyrir konur á mótorhjólum og svo gaman að kynnast mótorhjólakonum allsstaðar að úr heiminum.

Þakka ykkur sem gerðuð heimsókn Zöru, forseta WIMA World eftirminnilega og hjálpina við okkur í WIMA Iceland, sem erum að stíga okkar fyrstu skref hér á landi.

Dagrún, WIMA Iceland