Þrjú tæplega aldargömul Harley Davidson mótorhjól ganga nú í endurnýjun lífdaga í Hafnarfirði og verða á endanum skínandi og fín, þrátt fyrir að fátt bendi til þess núna.

Það vantar ekki mótorhjólin í skúrinn hjá Njáli Gunnlaugssyni, ökukennara, bílablaðamanni og mótorhjólamanni. Öll eiga þau sér sögu, en þrjú þeirra lengri sögu en önnur og öll af gerðinni Harley Davidson. Það minnir kannski ekki margt á glæsta fortíð þeirra, en það stendur til bóta.

Það elsta er árgerð 1927, og var í eigu Júlíusar Þórðarsonar skátahöfðingja á Akranesi, sem ferðaðist töluvert á því. Annað er aðeins yngra eða árgerð 1930 og var í eigu Sverris Bernhöft og allt hið glæsilegasta, en Sverrir og Júlíus hjóluðu oft saman og þessi hjól því oft staðið hlið við hlið þá eins og nú. Og Sigfús Jónsson trésmiður átti þriðja hjólið, 1929 árgerð af Harley Davidson sem var hið glæsilegasta. Hjólin hafa verið geymd við misgóðar aðstæður. Þetta hjól hafði þó verið geymt í skúr í um 40 ár þar sem unnið var með það.



„En það hafði kannski ekki fengið góða geymslu áður en það var gert upp því það var grafið upp úr ruslahaug þar sem það hafði legið í einhver fjögur eða fimm ár, þannig að meðferðin hefur verið ansi misjöfn,“ segir Njáll.

Eins og gefur að skilja er ekkert hægt að hlaupa út í búð og kaupa varahluti í svona tæki og því mikil vinna að finna réttu hlutina.

„Jú, það getur verið það, þú þarft að liggja dálítið yfir internetinu að leita að gripum og vita hvað passar því að það er ekkert sama hvað passar. Stundum munar á milli árgerða, kannski 1929 og 1930 er bara talsvert mikill munur á íhlutum eða mótorum eða hvað það nú var.“

Hlutirnir fást aðallega að utan og þegar Njáll fór að rannsaka vegna bókar sem hann skrifaði um Harley Davidson á Íslandi höfðu ýmsir samband. Njáll er sannfærður um að þessir glæisfákar eigi eftir að renna eftir götunum, kannski fyrst hjólið frá 1927.

„Það mun vonandi verða sprautað í vetur og raðað saman að miklu leyti, hvort að við náum að klára það fyrir næsta sumar verður bara að koma í ljós, en það er mest allt komið í þetta hjól.“

Hann og tengdapabbi hans vinna að því að gera hjólin upp og ómæld vinna og kostnaður fylgir, en erfitt að segja hversu gróðvænlegt svona er.

„Þessi hjól eru náttúrlega talsvert hátt metin í verði þegar þau eru komin saman. Það sem skiptir oft mestu máli þar er að þau séu sem upprunalegust, tala ekki um ef sagan fylgir með því líka, ef vitað er hverjir áttu hjólið og svo framvegis.“

Haukur Holm
8. nóvember 2022
Ruv