Sævar Einarsson er formaður Harley-Davidson-kiúbbsins á íslandi.
Hann segir meðlimi ekki tilheyra þeim hópi sem stundar ofsaakstur og harmar umfjöllun fjölmiðla þar sem allir mótorhjólaeigendur eru settir undir sama hatt.
_____________________________________________________
Sævar Einarsson er tveggja barna faðir og með það þriðja á leiðinni. Hann er einn af forsprökkum Harley-Davidson-klúbbsins á íslandi, klúbburinn var stofnaður árið 2005 og var Sævar kosinn formaður. Hann hefur haft áhuga á mótorhjólum frá 12 ára aldri og eignaðist sitt fyrsta hjól 13 ára. „Þegar ég var 13 ára áskotnaðist mér gömul skellinaðra, ég tjaslaði henni saman og hjólaði á henni út um alla Mosfellssveit. Ástæðan fyrir því að ég fékk áhuga á mótorsporti er líklega sú að ég var ekkert sá sterkasti í boltanum forðum daga,“ segir Sævar.
Hugmyndin frá Noregi
Aðspurður af hverju hann stofnaði Harleyklúbbinn segir hann hugmyndina komna frá Noregi. „Þetta kom til að því að félagi minn var í sams konar klúbbi í Noregi og því ákvað ég að stofna Harley-Davidson-klúbb hérlendis ásamt tveimur vinum mínum. Þetta er fyrst og fremst félagsleg starfsemi, við hittumst og ræðum um Harley-hjól, við hjólum saman og gefum út veglegt felagsblað tvisvar á ári ásamt mörgu öðru,“ segir Sævar.
Skiptist í tvo hópa
Að sögn Sævars tilheyra meðlimir Harleyklúbbsins ekki þeim hópi sem stundar ofsaakstur. „Það er bara allt önnur forgangsröðun í Harleyklúbbnum, fyrir okkur er þetta lífsstíllinn, útlitið og fílingurinn sem skipta máli, ekki hversu hratt við komumst. Þetta skiptist í rauninni í tvo hópa, svokölluð kappaksturshjól og svo krúsera. Kappaksturshjólin eru hönnuð fyrir ofsaakstur og komast á 300 km hraða, á meðan krúserarnir eru smíðaðir
með allt annað í huga, að hjóla með vindinn í andlitið og taka því rólega. Sá hluti bifhjólafólks sem á þessi kappaksturshjól þarf að fá aðstöðu og brautir til þess að geta keyrt hratt,“ segir Sævar.
Neikvæð umræða
Mikil umræða hefur verið um ofsaakstur mótorhjólamanna undanfarið og segir Sævar að meðlimir Harleyklúbbsins harmi ofsaakstur og neikvæða umræðu um mótorhjólamenn í fjölmiðlum. „Sú umræða sem skapaðist í fjölmiðlum var neikvæð og leiðinleg, en ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar, núna er bara að beita sér fyrir jákvæðari umræðu. Það eru í kringum 25 mótorhjólaklúbbar á Islandi og eru þeir misjafnir eins og þeir eru margir. Sumir eru að beita sér fyrir hagsmunum mótorhjóla fólks á meðan aðrir hittast bara til að hjóla og njóta lífsins,“ segir Sævar.
Lífstíll
Að sögn Sævars er Harley-Davidson meira en mótorhjól. „Þetta er það mikill lífsstíll að fólk er tilbúið að eyða nokkrum milljónum í hjól. Þessi hjól kosta frá 700 þúsundum og upp í 6 milljónir. Það hefur orðið mikil aukning í Harley-hjólum hérlendis og er klárlega vegna þeirrar velmegunarsem hefur átt sérstað á Íslandi undanfarinn áratug,“ segir Sævar.
Ekki margar konur
Aðspurður hvort það séu margar konur í klúbbnum segir Sævar að svo sé ekki. „Það eru mjög fáar konur í klúbbnum en þeim fer fjölgandi. Ástæðan fyrir því hversu fáar eru á Harley er sennilega vegna þess að Harley-hjólin eru ekki þau ákjósanlegustu fyrir þær sem eru að byrja. Eg spái því að eftir nokkur ár þá fari allar þær konur sem eru á byrjunarárunum sínum núna að fá sér Harley í auknum mæli, þá eru þær búnar að vera að hjóla í einhver ár og vilja stærri og dýrari hjól.“
Eftir Lovísu Hilmarsdóttur
Blaðið 24.7.2007