Dagur 1: Nha Trang – Lak Lake 180km

Við vorum tilbúnar kl 08:30 og þegar við fórum niður í lobbý beið Bamboo og Vinh eftir okkur með mótorhjólin. Við fórum í hraðbanka og Fanney keypti sér sólarvörn og svo vorum við ready. Þeir vildu að við myndum skipta yfir í bakpoka, taka bara með dót fyrir 5 daga og hann myndi senda ferðatöskurnar okkar með rútu til Hoi An því það væri auðveldara að keyra á mótorhjólunum með bakpoka. Við keyrðum þá að skrifstofunni þeirra og pökkuðum í flýti í bakpokana. Svo keyrðum við á annan stað sem var bara rétt hjá skrifstofunni og þar var strákur sem heitir Andy frá Þýskalandi og hann ætlaði að keyra með okkur á sínu eigin hjóli. Þegar við vorum að gera okkur tilbúin þar spurði Bamboo Andy hvort hann væri með vegabréfið sitt, þá fattaði Björk að hún hafði sett sitt í stóru ferðatöskuna. Vinh var Bjarkar bílstjóri svo að hann skutlaði henni þá að töskunni og hún fann vegabréfið. Björk fattaði líka að hún gleymdi öllum hleðslutækjum svo að hún greip myndavélahleðslutækið í leiðinni og fór aftur á hjólið. Á leiðinni fattaði hún svo að hún lagði frá sér myndavélina í ferðatöskuna og auðvitað gleymdi henni þar haha. Það er eitthvað að. Jæja, Fanney verður þá bara að taka myndir. Loks lögðum við af stað og stoppuðum nokkrum sinnum að skoða útsýnið. Það má til gamans geta að það heilsa um það bil allir okkur, sumir öskra eitthvað, aðrir vinka eða reyna að gefa okkur five. Allir sem sjá okkur stara líka, börn sem fullorðnir.

Við fórum svo nýja leið sem að bílstjórarnir okkar höfðu aldrei farið áður, hún átti að vera styttri. En þetta voru bara hræðilegir moldarvegir sem voru svo þurrir að drullan þyrlaðist öll upp og á okkur. Björk var öftust í röðinni svo hún fékk mestu drulluna á sig var orðin eins og einn drulluhaugur.

Auðvitað sárið á tánni hefði ekki getað verið mikið skítugara, flott þar sem það má alls ekki verða skítugt. Við komumst þó yfir þetta helvíti og sáum fishing village, lærðum hvernig fólk býr til basket-boats, sem er gert úr bambus, sem síðan er límdur saman, og kúamykja notuð til þess að fylla upp í götin svo báturinn leki nú ekki. Þarna var líka fiskimarkaður á bryggjunni og lyktin þarna var nánast óbærileg, þvílíkur viðbjóður. Bátarnir eru allir í sömu litum, blár, rauður og hvítur, en hver litur táknar eitthvað sem við munum ekki lengur, en ef maður sér svona bát þá er hann pottþétt frá Vietnam.

Við sáum svo Lak Lake og gistum í homestay þar, sem var bara eiginlega eins og gistihús. Það var bara eitt rými með nokkrum rúmum og 2 litlum baðherbergjum og svo voru sturtur og klósett í öðru húsi líka. Við komum okkur fyrir og Björk fór strax í sturtu og skrúbbaði sig endalaust en samt varð handklæðið frekar brúnt. Hún skipti svo um á sárinu og fór aðeins í tölvuna á meðan Fanney fór í sturtu. Sturtan hjá henni var víst ísköld svo að hún gat bara rétt skolað sig og handklæðið var viðbjóður. Við fórum svo að borða á veitingarstaðnum þarna á gistihúsinu og Björk fékk sér einn bjór með. Við fórum svo að sofa fljótlega þar sem við vorum orðnar frekar þreyttar eftir þennan dag.

Dagur 2: Lak Lake – Buon Ma Thuot 150km

 

Daginn eftir fengum við okkur morgunmat, hvítlauksbrauð, sem var alls ekki gott. Við gátum farið á fílsbak ef við vildum, en þurftum að borga fyrir það, við munum fara í svoleiðis í Lake Houseinu í Tælandi síðar svo að við slepptum því. Við sáum samt fullt af fílum sem litu alls ekki vel út, örugglega ekki farið mjög vel með þá.

Við löbbuðum svo um þennan litla bæ og sáum fólkið sem býr þar. Við höldum að fólkið hérna sé ekkert mjög hamingjusamt, þau litu öll út fyrir að vera alls ekki glöð, meira að segja börnin, þó svo að þau séu ofursæt.

Við sáum vörtusvín þarna um allt og hunda og kjúklinga. Við röltum svo til baka og lögðum af stað. Björk fann fyrir smá rassmari þegar hún settist aftur á hjólið en það var allt í lagi svosem. Við byrjuðum á því að stoppa og sjá stærsta stein í Víetnam og sáum svo turn sem var notaður í stríðinu, þegar það er rainseason þá er vatn allstaðar í gringum turninn en núna var allt þurrt, enda dryseason. Við fengum að vita afhverju fólk borðar hundakjöt, sem er bara vegna þess að fólkið var svo fátækt þarna í turninum í rainseason að það þurfti að borða þá því það komst ekki alltaf úr turninum að finna sér mat, svo þau þurftu að borða varðhundana. Þetta er kaþólsk bygging, en frakkar voru þarna fyrstir og vildu að allir væru kaþólskir, byggðu kirkjur og svona, en það eru bara kaþólikkar sem borða hundakjöt, ekki búddistar.

Við keyrðum svo áfram og stoppuðum að fá okkur einn drykk og sáum sporðdreka og fengum að halda á slöngu. Það var svo önnur mun stærri slanga sem við áttum að fá að halda á en hún var veik greyjið.

 

 

Við sáum svo Mangó-, Papaya-, og Bananatré. Einnig kaffi- og kakótré og fengum að smakka kakóávöxtinn.

Þetta eru kaffi plöntur. Þær fá svona grænar baunir einhverjar á sig og inni þeim eru kaffibaunin.

Við áttum bara að borða það hvíta utaná kjarnanum en Björk byrjaði bara að tyggja þetta þangað til Bamboo sagði bara no no no! þá fattaði hún að hún átti ekkert að borða kjarnann og spítti þessu útúr sér. Hún fékk svo að smakka aftur, í þetta skiptið bara það hvíta, henni fannst samt kjarninn bara betri. Þetta bragðaðist samt ekkert eins og kakó. Á leiðinni sannaðist það í 100 skiptið hvað Björk er óheppin og hún var stungin af bíflugu (segir Bamboo). Þetta skordýr var svart á litinn og þegar hún hristi höndina fór hún ekki af svo að hún ýtti henni af og þá skildi hún eftir ca 5 brodda í húðinni á henni sem hún þurfti að toga úr sér.. frekar vont. Þeir áttu svo einhverja olíu og krem sem hún fékk á þetta og þetta hvarf fljótlega. Ótrúlegt, við vitum ekki hverju hún hefur ekki lent í.
Við sáum svo stíflu sem er lokuð í dry season og er svo opnuð í rainseason og þá er víst bara fáránlega mikið vatn í fossinum sem við fengum svo að skoða. Fanney og Andy fóru og böðuðu sig í fossinum en Björk lét það eiga sig útaf tánni á sér. Þau fengu samt bara að fara í smá sprænu þarna þar sem það er bannað að fara nánast allstaðar þarna því það hafa 3 dáið þarna. Sprænan var samt fáránlega sterk og ekki hægt að fara alveg undir því krafturinn var svo mikill.

Við fengum okkur að borða hádegismat þarna á veitingarstað hjá fossinum og Bamboo var nú bara með uppistand þarna nánast, við vorum að drepast úr hlátri, aðallega útaf hlátrinum hans samt haha. Það var allt rosa fallegt þarna hjá fossinum og á meðan við biðum eftir Andy (sem við köllum lúðvík svo hann fatti ekki að við séum að tala um hann) var að rigna á okkur og við héldum að það væri bara einhver úðari þarna rétt hjá en sáum hann samt ekki, þegar við vorum búin að skoða fossinn heyrðum við í einhverjum dýrum sem við höfðum heyrt í oft áður. Það er alveg rosalega hátt hljóð og við spurðum Bamboo hvað þetta væri og hann fann þá svona dýr og sýndi okkur. Það var skordýr með vængi og var eiginlega viðbjóðslegt, það fer úr ham og skilur eftir sig húðina sem lítur út alveg eins og skordýrið, bara eins og það stökkvi úr líkamanum. Hann sagði okkur svo að þessi rigning er semsagt úr þessum dýrum, viðbjóður!!. Við héldum svo áfram og stoppuðum til að skoða kasjúhnetuávöxt, sem við höfðum aldrei heyrt um áður, og það er líka mjög vont, virkilega þurrt svo að það hósta allir þegar þeir borða þetta. Svo er bara ein stór kasjúhneta framaná ávextinum, áhugavert.

 

Við stoppuðum svo hjá sykurökrum, þar eru svokallað “sugarcanes” sem eru bara einhverjar stangir sem innihalda sykursafa inní. Við fengum að smakka það og þetta var eins og að tyggja tré því þetta var svo hart, ágætt á bragðið samt.

Við stoppuðum svo hjá einhverju búddah dæmi en við skildum ekki alveg hvað hann var að segja um það en allavega skildum við að búddah merkið er eins og hakakrossinn nema öfugur. Við skoðuðum ekki lengi þessa byggingu þar sem hún var ekkert merkileg, heldur héldum við bara áfram. Við stoppuðum svo hjá öðru búddah dóti og Bamboo spurði okkur hvaða dýr við værum, Fanney vissi sitt, það var kjúklingur en Björk vissi ekki sitt.

Við skoðuðum aðeins stytturnar þarna og fórum svo að næsta stað sem var “rubbertree” framleiðsla einhver. Þá eru semsagt trén hökkuð niður eins og sag, það er svo brennt og sett í poka og hengt upp. Það vaxa svo sveppir út úr þessu sem þau klippa af á hverjum degi, mjög furðulegt.


Við fórum svo á hótelið og Björk reyndi að fara í sturtu en hún var svo ísköld að hún náði bara aðeins að skola af sér. Hún horfði svo á sjónvarpið og sofnaði í svolítinn tíma. Fanney hafði svo farið í sturtu á meðan Björk var sofandi og komst að því að Björk var með þetta á kaldasta en ekki heitasta. Flott Björk. Við fórum svo á einhvern veitingarstað og Björk pantaði sér chicken curry og Fanney núðlur. Björk borðaði nánast ekkert af þessum rétti þar sem þetta var nú meiri viðbjóðurinn og Lúðvík gaf henni svo franskarnar sínar og fékk að borða Bjarkar rétt í staðinn. Við röltum svo með Lúðvíki á næturmarkað sem var þarna rétt hjá og Bamboo og Vinh fóru á hótelið. Þetta var rosa lélegur markaður svo að við ætluðum bara að labba til baka. Lúðvík segir þá að við getum farið aðra leið sem við fórum í dag var hann viss um. Við héldum að hann væri bara 100% á því þá og sögðum því bara já og amen. Við vorum búin að labba frekar langt í þessa átt þegar að við spurjum hvort hann sé viss á því að þetta sé rétt leið. Hann segir þá nei og við segjum þá að

við séum alveg vissar um að þetta sé ekki rétt leið. Við snerum þá við en hann hélt samt ennþá að þetta væri rétt leið. Við Fanney vildum bara fara sömu leið til baka til að vera vissar en hann sagði að þetta væri örugglega leiðin á hótelið líka svo að við fórum þá leið. Við vorum búin að labba frekar langt þegar við ákváðum að snúa við, héldum að þetta væri ekki rétt því þetta var svo langt. Björk var orðin vel slæm í fætinum og var orðin vel pirruð út í þennan helvítis mann. Við fórum til baka og sögðum að við ætluðum að fara sömu leið til baka. Við vorum svo ekki alveg vissar hvaða leið það væri því við vorum búin að labba í hringi. Fanney og Lúðvík hlupu þá að hringtorgi sem átti að vísa okkur á rétta leið, Björk fór ekki með því hún var að drepast. Þau komu svo og við fórum leiðina sem þau héldu að væri rétt. Það reyndist vera hárrétt og við komumst loksins heim á hótelið. Við fórum þá í búð þarna á móti og fengum okkur snakk og fórum frekar pirraðar upp á herbergi. Við horfðum svo á Americas Next Top Model og fórum að sofa.

 

Dagur 3: Buon Ma Thuot – Kon Tum 250km

Næsta dag fórum við í morgunmat og fengum okkur þessar líka fínu ommulettur og brauð og brunuðum svo af stað. Fyrsta stopp var svo hjá kaþólskri kirkju sem við skoðuðum ekki mikið, héldum bara áfram.

Á leiðinni sáum við mjög marga rafvirkja hangandi upp í rafmagnsstaurunum bara með mittisbelti sem fer utan um staurinn og manninn og svo klifra þeir bara upp! (eins og Mulan).

Næst stoppuðum við svo á markaði og fengum maís en Björk afþakkaði það og keypti sér epli. Við röltum aðeins þarna um og það fannst öllum við voða merkilegar.

Næst stoppuðum við á mjög kósí stað þar sem við fengum drykki, okkur var líka boðinn “sugarcane juice” sem er þá sett í eins konar safapressu nema mun kraftmeiri og þá kemur þessi dýrindis safi út. Við lögðum samt ekki í það.


Við tjilluðum aðeins í þessum líka fínu hengirúmum, hvernig er hægt að vera svona miklar klessur?

Næst sáum við rubbertree skóg, þar sagði Bamboo okkur aðeins um það. Við sáum svo á leiðinni að skýin voru aðeins farin að þykkna og litu út eins og rigning væri í vændum.

Lúðvík sagði að þetta væri bara reykur því að það er sviðurækt hérna um allt. Við héldum nú ekki og spurðum Bamboo, hann sagði að þetta væri bara mengun, það væri dryseason svo að það myndi ekki rigna. Okkur leyst samt ekkert á þetta og vorum vissar um að þetta væri rigning. Eftir örskamma stund byrjar að rigna, við þekkjum vonda veðrið þegar við sjáum það! Við stoppuðum þá á litlum stað og fengum okkur einn drykk og biðum eftir að það myndi stytta upp því að Lúðvík var ekki með regngalla. Þetta reyndist vera klippistofa líka svo að Lúðvík skellti sér í smá klippingu á meðan. Það stytti svo upp og við héldum áfram. Það var þvílíka umferðateppan á vegi sem var verið að gera við og það var allt í mold þar. Það hefur örugglega einhver fest sig í drullunni giskum við á. En við vorum á mótorhjólum svo að við fórum bara framhjá öllum bílunum og komumst svo að enda vegarins og svo var bara frekar hátt niður að næsta vegi. Bamboo missti hjólið nánast á hliðina þarna og Fanney þurfti að hoppa af. Björk fór þá líka af sínu hjóli og þeir fóru niður, það var ekkert mál fyrir þá en Lúðvík náði að brjóta eitthvað hjólið svo að það heyrðist mun hærra í því núna.

Við löbbuðum svo framhjá öllum þessum bílum og auðvitað allir að stara á okkur og heilsa okkur, þetta var verra þegar við vorum gangandi heldur en á hjólunum. Við héldum svo áfram og fljótlega skall aftur á rigning og vindur með því. Þetta versnaði alltaf og versnaði og það endaði með því að við stoppuðum hjá einhverjum skúr þar sem fólk býr, ótrúlegt en satt. Þetta var eiginlega bara bárujárnsdrasl, sem var búið að henda saman svo það var einhver kofi. Þar fékk Lúðvík regngalla og við klæddum okkur og biðum svo aðeins því að veðrið var alveg virkilega vont og þeir vildu ekki keyra í þessum vindi. Þetta hefði verið nokkuð slæmt veður meira að segja á Íslandi.

Það komu svo eldingar með þessu en það lægði aðeins svo að við lögðum af stað. Okkur var orðið drullu kalt en við lifðum þetta af. Björk sá 14 eldingar með berum augum og mun fleiri útundan sér bara á þessum 20km. Það var svo svona skemmtilega rafmagnslaust þegar við komum á hótelið okkar að við fengum eitt kerti og klæddum okkur úr blautu fötunum. Við sátum svo í myrkrinu að spila og okkur var frekar kalt bara. Þetta var samt alveg kósý og skemmtileg upplifun. Rafmagnið kom svo á og Björk fór í sturtu. Við áttum svo að hitta bílstjórana og Lúðvík kl 8 til að fara að borða saman. Fanney hafði svo ekki tíma til að fara í sturtu þar sem það myndi taka klukkutíma bara í það að greiða hárið á henni. Við fórum þá út að borða og það var búið að stytta upp alveg en frekar kalt úti samt. Við fórum á einhvern stað og fengum núðlur með svínakjöti og einhverja súpu með svínakjöti í einhverjum rúllum. Björk fannst þetta frekar vont en píndi eitthvað af þessu ofan í sig. Fanney smakkaði svo kjötið í súpunni og fannst það hrikalega vont en reyndi að láta engan sjá það en Björk var í einhverjum svefngalsa þarna og sprakk úr hlátri og gat ekki hætt að hlægja. Þeir voru farnir að spyrja að hverju hún væri eiginlega að hlæja og hún náði að ljúga sér einhvernvegin út úr því. Við fórum svo og reyndum að finna Supermarket sem Bamboo hafði sagt að væri þarna rétt hjá. Hann var svo lokaður, við ætluðum semsagt að kaupa eitthvað handa munaðalausu börnunum sem við myndum heimsækja á morgun. Við ákváðum þá að fara bara á morgun í búðina. Við fórum svo heim á hjólunum og Björk fór fljótlega að sofa en Fanney fór í sturtu og ætlaði að bíða eftir að tala við Daða á skype. Um 2 leytið vaknar Björk og þá er Fanney komin upp í til hennar og er ennþá vakandi. Björk spyr þá hvað sé málið og þá hafði hún séð rottu þarna fyrir ofan okkur. Hún var skíthrædd og var að tala við eitthvað fólk á facebook til að reyna að róa sig en hún var hörð á því að hún myndi ekkert sofna í nótt. Það voru alskyns hljóð líka þegar rottuhelvítið var að krafsa í trédótið og skjótast eitthvað til og frá. Björk segir henni þá að hún verði að sofa eitthvað, annars meikar hún ekki daginn á mótorhjólinu.

Dagur 4: Kon Tum – Kham Duc 170km

 

Hún náði svo að sofna í einhverja 3 tíma og Björk fór svo um morguninn til læknis með Bamboo að láta taka saumana úr tánni. Það var alls ekkert eins vont og hún hélt, ekkert mál bara. Við komum svo til baka og Bamboo fór að vekja Lúðvík, hann sagði að hann hefði verið vaknaður og sagðist vera að tannbursta sig. Við höfðum okkur svo alveg tilbúnar og fórum að fá okkur morgunmat. Við biðum eftir Lúðvík í svona klukkutíma og loksins kemur hann út. Bamboo spyr þá hvað hann hefði eiginlega verið að gera, að við séum búin að bíða eftir honum í klukkutíma. Hann sagði þá ha? neii, ég vaknaði bara fyrir 2 mínútum. Hvernig er þetta hægt ? við erum btw alltaf búnar að þurfa að bíða eftir manninum í öllu. Jæja, hann borðaði svo morgunmatinn sinn og klukkan var að ganga 10. Við borguðum svo og lögðum af stað. Við fórum fyrst í búðina og við Fanney keyptum 2 spil handa krökkunum og Lúðvík nokkrar derhúfur, eitthvað dót og karamellur. Okkur var sagt að við ættum ekki að kaupa handa þeim nammi því að það fer svo illa með tennurnar í þeim því að þau hafa enga foreldra til að segja þeim að bursta tennurnar. Lúðvík var líka búinn að segja okkur hvað hann ætti svakalega mikinn pening og ætlaði sko að kaupa fyrir 10 þús kall, en keypti bara fyrir 3 þús. Hann sá sig samt knúinn til þess að taka upp kvittunina og sýna Fanney fyrir hvað mikið hann keypti og spyrja hvað við keyptum fyrir mikið. Við elskum týpuna hans. Jæja við fórum svo í hraðbanka og borguðum Bamboo fyrir auka dag sem við höfðum ákveðið að taka með þeim. Það átti að vera þann 23. Mars um Hoi An. Við lögðum svo að stað og stoppuðum hjá trékirkju sem er 100 ára gömul eða eitthvað svoleiðis

Þar fyrir aftan er svo munaðarleysingjahælið og við byrjuðum á því að skoða rúmin þeirra, þau sofa öll í einu rými með helling af rúmum. Við sáum svo eldhúsið, þar voru 10 munaðarlausar stelpur að elda fyrir yngri krakkana, þau skiptast alltaf á, þær sem elda fyrir hádegismatinn fara í skóla seinna um daginn en þær sem elda fyrir kvöldmatinn fara í skóla á morgnanna. Við hittum svo minnstu krakkana og jesús hvað þau eru sæt! okkur langaði bara að taka þau öll með heim. Við vorum þarna að leika við þau heillengi og skildum það sem við keyptum eftir hjá konunni sem er yfir þarna. Nema Lúðvík tók upp karamellurnar og gaf þeim, það var allt út í karamelluklístri eftir þetta haha.

Þessi börn voru æðisleg. Við vildum ekki fara frá þeim en við vorum eftirá í skipulaginu okkar því að Lúðvík svaf endalaust í morgun. Við héldum svo áfram og stoppuðum hjá enn öðru búddah dæmi og skoðuðum það lítið. Næst stoppuðum við hjá skriðdrekum og styttu sem er til minningar um fólkið sem dó í stríðinu. Við tókum nokkrar myndir af okkur á skriðdrekunum og brunuðum svo áfram.

Næst vorum við komnar á Ho Chi Minh road og fengum okkur að borða á veitingarstað þar rétt hjá. Það var mjög fínn matur og við fengum svo að fara á klósettið þarna. Það var semsagt local klósett og það var úti og þetta var nú meiri viðbjóðurinn, við pissuðum þó. Næsta stopp var hjá trébrú sem við varla þorðum að stíga á því að hún var svo ótraustvekjandi. Bamboo sagði okkur þá að fólk myndi keyra þarna yfir á vespum. Við löbbuðum þarna yfir og vorum að skíta á okkur úr hræðslu. Þegar við komum yfir kemur einmitt vespa og fer þarna yfir eins og ekkert sé, og svo önnur. Við fórum svo til baka á mun meiri hraða en síðast og það fóru svo 2 aðrar vespur þarna yfir.

Vinh spurði svo Björk hvort hún vildi að hann myndi fara með sig yfir á hjólinu, hún hélt nú ekki! Næsta stopp var hjá kanil “verksmiðju”. Kanill er semsagt bara af tréi, þetta er eins og einhver börkur og við fengum að smakka og þetta var þvílíkt sterkt. Við máttum taka einn með okkur heim en við nenntum nú ekki að hafa þetta í töskunni í 4 mánuði í viðbót. Lúðvík, Vinh og Bamboo tóku samt með sér einn hver.

Leiðin sem við fórum í dag var alveg virkilega flott! Það var mikið um útsýni af fjöllum og það er svo mikill gróður hérna að það er fáránlega flott! minnti okkur á King Kong myndina.

Í einu stoppinu var okkur orðið frekar kalt svo að við fengum regngallana og okkur sýndist líka vera að koma rigning, Bamboo hélt nú ekki! Björk spurði hann svo hvort hann ætlaði ekki að láta bakpokann sinn í plast og þá sagði hann að hann myndi gera það ef það myndi koma rigning, no rain, I know sagði hann. Vinh bílstjórinn hennar Bjarkar lét samt pokann í plast og ekki leið á löngu þar til það var farið að rigna haha. Hvernig er ekki hægt að sjá þetta ?

Við stoppuðum svo á einum stað og fengum okkur ananas. Þar voru menn að spila eitthvað Víetnamskt spil upp á peninga og það var allt að sjóða upp úr þegar við komum. Þar fengum við samt að vita að hérna er mikið um ananastré og þau sem rækta þau borða ananas á hverjum einasta degi og selja hann líka. Við komum svo að hótelinu og fórum aðeins upp á herbergi að chilla. Við fórum svo að borða með þeim og Fanney tók eftir rottu þarna í horninu á veitningarstaðnum. Þjónarnir kipptu sér ekkert upp við þetta og sögðu að það væri mjög mikið um rottur hérna, frábært. Við fórum svo að sofa frekar snemma en Bamboo, Vinh og Lúðvík urðu eftir og drukku eitthvað hrísgrjónaáfengi.

Dagur 5: Kham Duc – Hoi An 140km

Næsta dag lá leiðin til Hoi An og það áttu að vera 100 km með fallegu fjallaútsýni og 40km inn í bæjum. Á leiðinni sáum við svo vatnsmelónu- og hnetugarða þar sem það fer allt á flot þar þegar það er rainseason. Við stoppuðum svo í Hoi An og

fengum okkur að borða. Við fórum svo á hótelið og fengum ferðatöskurnar okkar og fórum í sturtu. Þetta var kaldasta sturta sem Björk hefur farið í og svo þegar Fanney fór svo í sturtu komst hún að því að Björk hafði gert það nákvæmlega sama, var með á kaldasta. Það er eitthvað að henni! Jæja, við fórum svo með þeim til klæðskera sem þeir mældu með. Við skoðuðum bæklinga og misstum okkur aðeins og þegar verðið kom var það um 60 þús. Við fórum þá í það að fækka aðeins þessum flíkum og enduðum í 30 þús kr hvor. Það voru 2 buxur og 3 bolir hjá Björk, en Fanney fór í 2 kápur og 2 buxur. Við áttum svo að koma um 3 leytið á morgun í fitting. Við fórum svo í skóbúðina þeirra og létum sauma á okkur eitt par hvor, hefðum örugglega gert fleiri ef við hefðum ekki verið búnar að eyða svona miklum pening í fötin áður haha! Við fórum svo bara heim og chilluðum aðeins á hótelinu, horfðum á biggest loser og svona. Bílstjórarnir okkar voru svo í fríi frá okkur þetta kvöld og við röltum og fundum okkur einhvern stað til að borða á og það var alveg sæmilegur matur. Við röltum um markaðina þarna í smá stund og fórum svo heim að lúlla.

Dagur 6: Hoi An

Þetta var síðasti dagurinn á mótorhjólinu og blendnar tilfinningar í gangi. Það er snilldin ein að ferðast á þessu því maður sér allt svo miklu betur svona en á sama tíma vorum við orðnar virkilega þreyttar í bakinu

og rassinum á því að sitja á hjólunum. Við vorum búnar að pakka og ætluðum að skipta um hótel þar sem þetta hótel var frekar slæmt. Við fórum þá á hjólunum að hótelinu sem við skoðuðum í gærkvöldi og við ætluðum að bóka það en þá var það fullt, þá var okkur sagt að það væri laust á hóteli nr 2 í þessari keðju. Við fórum þá þangað og bókuðum það og Bamboo og Vinh fóru svo að ná í ferðatöskurnar okkar. Við byrjuðum svo á því að fara á sama stað og við fórum í gær í hádegismat og fengum okkur morgunmat. Fengum egg og beikon, vorum frekar sáttar með það þar sem það er orðið frekar langt síðan við fengum svoleiðis. Við lögðum svo af stað og stoppuðum fyrst hjá marmarafjalli. Þar byrjuðum við á því að fara inn í eina búðina þar sem þau seldu allskyns marmaradót. Fanney keypti sér armband og við fórum svo upp í fjallið og skoðuðum aðeins, þetta var svona búddah dæmi og Björk ákvað að vera með og biðja með fólkinu. Fanney sleppti því nú.

Við röltum aðeins þarna um en fannst þetta ekkert mjög spennandi svo að við fórum bara niður. Þá spyr Bamboo hvar Ladyboy sé, það er semsagt orðið gælunafnið hans Lúðvíks því að við þurfum ALLTAF að bíða eftir honum og því er hann konukarl. Við biðum heillengi eftir honum og ákváðum svo að rölta aðeins þarna um og reyna að finna strepsils því að Björk var komin með smá hálsbólgu eftir þennan kulda haha. Við fundum það þó ekki en fórum inn í eina búð sem krúttleg kona átti og skoðuðum. Þegar við komum til baka var Ladyboy farinn á hjólinu sínu að leita af okkur! Við lögðum svo af stað og fengum að sjá framleiðslu kústa hérna. Það var bara ein kona sem sat á gólfinu og var að binda saman strá í kústinn. Það var frídagur í dag en hún var að vinna á frídeginum sínum. Venjulega eru nokkrir saman að gera þetta. Þau selja þetta svo á mörkuðum á 25.000dong sem eru 135 kr.

Við héldum svo áfram og sáum helling af fólki í vegköntunum með vatnsmelónur til sölu. Við keyptum 2 svoleiðis og fórum að My Son Sanctuary.

Þar fengum við okkur vatnsmelónu og Lúðvík fékk sér að borða þar sem að hann étur endalaust. Við löbbuðum svo þarna um og týndum svo konukarlinum og fórum að leita af honum því við ætluðum að fara til baka. Við fundum hann svo loksins á leiðinni 😉

Þegar við komum til baka settumst við aðeins þarna hjá Bamboo og Vinh. Björk var svo eitthvað að teigja á hálsinum á sér því hann var orðinn svo stífur af þessu mótorhjólaferðalagi, allt í einu spyr Bamboo hvort Vinh meigi nudda hálsinn á henni.

Vinh talar nefnilega ekki ensku. Hún þáði það að sjálfsögðu og hann var með einhverja piparmyntu-undraolíu og nuddaði hana með því. Björk er ekki frá því að hún hafi verið skárri eftir þetta.

Leiðin lá svo til baka til Hoi An að fá okkur að borða. Við stoppuðum hjá fólki sem býr til kanilreykelsi sem er útum allt hér. Það hefur eitthvað með búddisma að gera, en þau hafa þetta mjög oft fyrir

framan húsin sín eða bara um allt. Við héldum svo áfram og þurftum að fara yfir semi á á leiðinni, bara gaman!

Við komum svo á matsölustaðinn góða í 3ja sinn. Þarna var svo kveðjustund þar sem Bamboo og Vinh voru að yfirgefa staðinn. Þetta var erfitt, við vorum farnar að kalla Bamboo pabba, þar sem hann kallaði okkur alltaf dætur sínar. Við tókum mynd af okkur saman og í myndatökunni missti Bamboo símann sinn í jörðina og hann brotnaði. Hann var frekar pirraður þegar hann yfirgaf okkur 😦

Við borguðum svo og röltum með Lúðvík á hótelið. Við áttum svo að mæta í fitting kl 3 en klukkan var að ganga 5 svo að við sögðum honum að við ætluðum þangað og hann ætlaði svo að koma um kvöldið til okkar og fá myndir frá Fanney. Við fórum svo til klæðskerans og það voru ýmsir hlutir sem við vildum lagaða svo að við áttum að koma aftur á morgun kl 11. Við fórum þá og fengum skóna okkar og fórum upp á hótelherbergi í chill þar til Lúðvík kom. Þegar hann svo fór fengum við okkur instant núðlur og nammi og horfðum á Voice. Við vorum ekki lengi að sofna þetta kvöld.

 

Mótorhjólaferðin frá Nha Trang – Hoi An 18. – 24. Mars