Hilde Berit er ung kona sem er frá Noregi en er hefur búið hér á Íslandi í yfir tuttugu ár.


Hún er það sem kalla mætti hreinræktuð dellukona en það er eitt af áhugamálunum hennar sem við höfum mestann áhuga á.
Hilde á mótorhjól og það í fleirtölu, enda hefur hún bæði starfað í mótorhjólaverslun/verkstæði og rekið sína eigin verslun með mótorhjólavörur en núna einbeitir hún sér að sportinu.

Ferðalög helst þá á mótorhjólum eru hennar áhugamál en ef ekki er hægt að keyra slóðirnar á hjólum þá er Patrolinn tekinn fram og skroppið í fjallferð á honum. Ekki svo merkilegt segja kannski margir, en við skulum nú sjá, Hilde gerir upp sín hjól sjálf og hannar og sérsmíðar hluti á hjólin og gerir þau einstök. Hjólin eru alls fjögur sem eru í gangi hjá henni í dag. 

Er fyrst að telja Suzuki GSX 750 R, árg 2000, sem er fyrsta fjöldaframleidda superbike hjólið sem fór á göturnar á íslandi og eina eintakið af svona hjóli sem er á götunum hér á landi.
Þá kemur GasGas FSE 450 árgerð 2005 með super moto gjörðum.
Dóttirin á síðan Sumoto Brat barnahjól.
Svo er það vetrarverkefnið sjálft, Dnépr, Rússneskt mótorhjól með hliðarvagni sem meðal annars var notað af rauða hernum.
Rúsínan í pylsuendanum er síðan „The Beast“ og er það hjólið sem við ætlum að fjalla aðallega um hérna.

  

The Beast byrjaði sína daga sem Suzuki GSXR 750cc, en það var ekki lengi original eftir að Hilde hafði læst klónum í það. Það var byrjað á því að rífa það allt í sundur og síðan var grindin öll
skorin sundur breytt og soðin saman aftur. Þá var hún pólýhúðuð (powdercoated) áður en hún fór í hjólið aftur. Þá voru einnig felgur og gafflar pólýhúðaðir. Í grindina var síðan settur tjúnaður 750cc mótor úr GSXR hjóli sem ætti að koma hjólinu vel á hreyfingu Hilde hannaði sjálf og smíðaði alla þá fylgi og skrauthluti sem settir voru á hjólið. Hannaði hún einnig fram og aftur bretti, sá um málmvinnuna og smíðaði ramman utan um kælinn á hjólinu sem þó var skorinn út hjá tækniskurði. Hilde hefur eytt miklum tíma bæði í vinnu og varahlutaöflun í hjólið, og var hún dugleg að sanka að sér varahlutum og fór margar ferðir erlendis í þeim tilgangi og svo að sjálfsögðu hjálpuðu vinir og kunningjar í mörgum löndum til.  Þá var farið að setja saman og gekk það verk bara vel, þó það væri mikið dútl við marga litla hluti eins og oft vill gerast. Vinnan við plastið, það er brettin og hlífarnar, er öll unnin af Hilde og tók sú vinna langan tíma og var aðallega notuð hitabyssa auk efna sem fáanleg eru hér. Eins og sést á myndunum þá kemur þetta hrikalega vel út. Sætið er einnig hennar hönnun og valdi hún laxaroð og roð af gaddaskötu til að búa til  skrautið á sætinu sem að Auðunn Jónsson bólstrari saumaði síðan eftir hönnun Hilde. Þegar að máluninni kom var ákveðið að fá Rafn Harðarson sem sérhæfir sig í skrautmálun (airbrush) til að mála hjólið og alla þá skrautmálningu sem á því er til að vinna verkið og kom það mjög flott út. Það má síðan segja að framljósið sé punkturinn yfir i-ið og geri hjólið að sannkölluðu BEAST, en það fékk Hilde eftir langa leit í Canada. 

Grindin


En við skulum láta myndirnar tala. Snúum okkur þá að Dnépr hjólinu. Þegar Hilde fékk það var það búið að standa lengi og hafði reyndar aldrei farið á skrá hér á landi. Hún reif það að sjálfsögðu í sundur og fór að gera það upp. Það hefur nú verið sandblásið og grunnað en það er ennþá svolítil suðuvinna eftir, en mikið af varahlutunum eru komnir og verður sett saman í vetur svo hægt sé að nota það næsta sumar. Með þessu hjóli ætlar Hilde að sameina tvö áhugamál , það er mótorhjólin og síðan ferðalög, en hún hefur keypt lítinn tjaldvagn sem er gerður fyrir mótorhjól og ætlar síðan að ferðast um landið á Dnépr með tjaldvagn í eftirdragi. Þá skulum við ekki gleyma því að hún á Nissan Patrol Diesel sem hún notar til vetrar og sumarferða og skreppur upp á fjöll hvenær sem færi gefst á sumri sem vetri. Þegar undirritaður talaði við Hilde var hún nýkomin úr mánaðarlangri Evrópureisu á mótorhjóli og fáum við vonandi ferðasöguna í máli og myndum seinna í vetur. Við óskum Hilde góðs gengis með öll verkefnin og komum með fréttir af þeim eftir því sem okkur berast þær.

Motor og sport 1.tb1.árg 2012
Hálfdán Sigurjónsson.

 

 

_____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

 

Í fyrsta tölublaði þá sögðu við frá mikilli dellukonu henni Hilde.


Hún hafði þá ný lokið við að smíða upp frá grunni Suzuki GSXR 750 hjól sem kallað er Beast og ber það sannarlega nafn með rentu. Nú hefur hún lokið við næsta verkefni og er það Dnepr Rússneskt her-mótorhjól með hliðarvagni og aukasæti fyrir aftan ökumann, sem sagt þriggja manna hjól. Þegar við skoðuðum það í Október var það allt sundur rifið og að okkur fannst örugglega árs vinna eftir í því. En hvað gerist nema að Hilde hafði samband og sagði okkur að hjólið vær svo gott sem tilbúið og hún væri búin að prufukeyra það. Við skelltum okkur að sjálfsögðu í heimsókn og skoðuðum gripinn sem hlotið hefur nafnið „Beauty“ Þegar þangað kom þá var Hilde að vinna við tjaldvagn sem hún ætlar að hengja aftan í Dnepr og ferðast um landið.Við höldum áfarm að fylgjast með en á meðan geta lesendur skoðað myndirnar og þetta hjól er sannarleg „Beauty“, og það eru ekki margir sem eiga bæði „Beauty and the Beast“

Motor og sport 4.tb2.árg 2013
Hálfdán Sigurjónsson.