Draumabílskúr Björns Inga Hilmarssonar leikara
Vinir og vandamenn Björns Inga Hilmarssonar komu honum á óvart á fimmtugsafmælinu og gáfu honum forláta endúró-mótorhjól. Mótorhjólabakterían var þá farin að láta á sér kræla hjá leikaranum og leikstjóranum ástsæla sem hafði ekki átt mótorhjól síðan hann var táningur á Dalvík.
„Áhuginn á mótorhjólum kviknaði fyrst þegar ég var 17 ára og eignaðist Harley Davidson SX 175 sem ég held að hafi verið árgerð 1976. Þetta voru endúró-hjól þessa tíma, framleidd á Ítalíu og tilraun Harley Davidson til að ná betur inn á Evrópumarkað,“ segir Björn Ingi en hjólið keypti hann af öðrum unglingi á Dalvík.
Því fylgdi mikið frelsi að vera á mótorhjóli og geta auðveldlega skotist til næstu bæja en Björn Ingi hafði þó ekki síst ánægju af að nota mótorhjólið til að ferðast um fjöll og firnindi og skoða fegurð landsins.
Svo seldi Björn Ingi hjólið frá sér en draumurinn um að komast aftur á mótorhjóli út í náttúruna blundaði áfram í honum. „Svo kom að því að ég fór í ferð með hópi vina þar sem við héldum af stað á tveimur jeppum
og með átta endúró-mótorhjól. Skiptumst við á að aka jeppanum og mótorhjólunum og þar kviknaði bakterían aftur.“
Adrenalín og áreynsla
Þykir Birni Inga fátt skemmtilegra en að þeysa um landið á endúró-mótorhjólinu sínu enda sameinar þetta sport það að vera í náttúrunni og að upplifa þá spennu sem fylgir því að ferðast hratt yfir landslagið. „Þá fylgir þessu töluverð líkamleg áreynsla sem á vel við mig enda hef ég verið virkur í íþróttum frá fyrstu tíð. Er frábært að geta einfaldlega lagt af stað héðan frá Freyjugötunni þegar löngunin hellist yfir mig og taka stefnuna á Þingvelli eða Laugarvatn, finna góðan slóða og halda út af þjóðveginum inn í óspillta náttúruna, og vera kominn aftur heim hálfum degi síðar.“
En fylgir ekki einhver slysahætta
Því að þeysa um holótta slóða fjarri mannabyggðum? Björn Ingi segir mikilvægt að klæðast réttum hlífðarbúnaði enda megi reikna með því að detta af mótorhjólinu endrum og sinnum. „Þá er góð regla þegar hjólað er í óbyggðum að vera ekki einn á ferð. Ég held þó að hættan á slysum sé minni úti í nátúrunni en í þungri umferð í þéttbýli innan um önnur ökutæki.“
Nóg er af slóðum sem liggja um holt og hæðir en vitaskuld má ekki
aka endúró-mótorhjólum utan vega eða t.d. á kindaslóðum. „Víða má finna vegaslóða sem liggja langt upp á hálendi og fjöll. Reglan er sú að fara ekki út fyrir slóðana og vera heldur ekki á mótorhjóli á leiðum sem eru merktar hestafólki,“ segir Björn Ingi og bætir við að í lengri ferðum geti verið ágætt að ferja mótorhjólið á kerru eða pallbíl þægindanna vegna. „Er þá t.d. hægt að aka upp að hálendismiðstöð og þar taka hjólið niður.“
Í vinaferðinni afdrifaríku skaffaði Björn Ingi einn af jeppunum og minnist þess með hlýhug að hafa ferðast mikið um landið með konu sinni og börnum þegar 35 tommu Nissan-pallbíll var á heimilinu. Í dag notar Björn Ingi aftur á móti Mini Cooper Countryman enda upphækkaðir pallbílar ekki heppilegir fyrir mann sem býr og starfar í miðbænum. „Hann er eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni: virkar lítill að utan en er risastór að innan,“ grínast Björn Ingi og er hæstánægður með hvað bíllinn er bæði fallegur og skemmtilegur í akstri. „Þetta er tengiltvinnbíll og hægt að keyra hann innanbæjar á rafmagninu einu saman en líka gott að geta stólað á bensínið ef ég þarf t.d. að bregða mér norður í gamla heimabæinn Dalvík.“
MBL 16.02.2022
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is









