Ducati Multistrada V4S er fjölhæft mótorhjól hlaðið búnaði og blandar saman ítalskri fegurð og þýskri nákvæmni
Ferðahjólageirinn er sennilega sá sem vex hvað hraðast í mótorhjólaheiminum og á Íslandi virðist það gerast í öfugu hlutfalli við gæði á malbikuðum vegum Vegagerðarinnar ef marka má þann fjölda ferðahjóla sem selst hefur hér á landi, fyrst og fremst frá BMW og KTM. Það er auðvitað ekki undarlegt þar sem erfitt er að finna land sem hentar betur til ævintýramennsku á mótorhjólum en Ísland. Sennilega státa engin lönd í heiminum af hálendi með frábærum malarvegum í klukkutíma færi frá höfuðborginni og eldgosi í hina áttina sem líka er hægt að þræða skemmtilega malarvegi til.
Þekktustu merkin í þessum geira, að öðrum ólöstuðum, hafa verið BMW og KTM með GShjólin annars vegar og Adventure og Super Adventure hins vegar. En Honda Africa Twin, Yamaha Super Ténéré og Triumph Tiger hafa líka ratað til landsins, og loks Ducati Multistrada V4S sem við tökum til kostanna hér. Í áratugi hefur BMW haft forystu í þessum flokki með sinni sérviskulegri nálgun með boxer-vél, drifskaft og óhefðbundinni framfjöðrun og útliti. Hinn svokallaði GS, Gelande/ Strasse, hefur sett ný viðmið með hverri kynslóð og kaupendahópurinn stækkar sífellt. KTM hefur kroppað í hópinn með hjólum sem eru töluvert villtari og aðrir skera sér köku úr sneiðinni líka með eigin nálgunum á það sem er eins konar svissneskur vasahnífur mótorhjólanna – ferðahjólin geta allt og í dag geta þau gert sumt mjög, mjög vel.
Eina ferðahjólið sem er fallegt
Ítölsk hönnun í bæði bíla- og mótorhjólaheiminum hefur alltaf skorið sig úr. Þetta virðist vera órjúfanlegu erfðaeiginleiki ítalskra vörumerkja að þar er eitthvað aðlaðandi sem erfitt er að líkja eftir, einhver eiginleiki sem er álíka tengdur ítalskri þjóðarsál og nákvæmni er tengd Þjóðverjum. Það er því gríðarleg heppni að VWsamsteypan skuli eiga Ducati í gegnum Lamborghini sem á Ducati því þannig verður til farsælt hjónaband útlits og gæða, sem er allt of sjaldséð því Ducati Multistrada V4S er áreiðanlega eina ferðahjólið sem er virkilega fallegt. Í akstri er Ducati Multistrada V4S lipurt tæki í meira lagi. Mælaborðið er 6,5 tommu TFT-skjár sem er bæði mjög skýr og grafískt smart og bæði áseta og notkun fyrirhafnarlaus. En það sem skiptir mestu máli er að hjólið hefur eiginlega allt: beygjuljós, led-lýsingu, hleðslujafnara á fjöðrun, rafstillanlega fjöðrun, cruise control með radar,
blindblettsviðvörun, hraðskiptingu á gírum með sjálfvirkri gjöf (blipper), stöðugleikastýringu, beygjuABS, hita í sætum og stýri og allt virkar þetta þannig að það er ekki bara auðvelt að nota heldur líka skemmtilegt. Ekkert af tækninni tekur frá hjólinu.
Ótrúlega þýð vél sem þarf litla þjónustu
Og þá er það vélin, hjartað í öllum ökutækjum. Hún er, í einu orði sagt, ávanabindandi. Hafandi ekið fyrri kynslóð Ducati Multistrada með tveggja strokka vélinni og 160 hestöflum er ótrúlegt að hestafla munurinn sé aðeins 10 hestöfl en V4-vélin skilar sem sagt 170 hestöflum, sem í notkun virka frekar eins og 200 hestöfl. Fyrir ferðahjól er þetta afskaplega þýð vél, sem er svo þétt og kröftug að hún virkar nánast eins og hún sé einhver skáldskapur. Hröðunin er línuleg, togið er svo mikið við lágan snúning að framhjólið er oft á lofti (og þá er gott að hafa prjónvörnina) og hljóðið er nánast eins og úr tölvuleik. Alla vega þangað til snúið er meira upp á bensíngjöfina þá kemur bæði svo mikill kraftur og hljóð að það verður ávanabindandi. Allt gerist þetta þó án mikils drama, eins og sönnu ferðahjóli sæmir. Sama má segja um þjónustu hjólsins: 60 þúsund km í næstu ventlastillingu.
Meiri áhersla á malbik, en auðvelt að aðlaga betur að möl
Hjólið var prófað við fjölbreyttar aðstæður, á góðum og slæmum malarvegum sem bestu malbiksvegum og skaraði þar alls staðar fram úr. Líkt og með nýjustu kynslóð BMW þá er þessi Ducati örlítið meira fyrir malbikið sem er passlegt fyrir fólk sem ætlar sér að nota hjólið sirka 80% á malbiki og 20% á malarvegum. Í brölti á grófum vegum stóð hjólið sig líka með prýði, en dekkin voru ekki að gera því neina greiða og eflaust væri betra að panta Multistrada V4S með veltigrind, vélarhlíf, teinafelgum og grófari dekkjum til að færa hlutfallið nær 70/30 sem er kjörið fyrir flestar íslenskar aðstæður. Fyrir langferðir er erfitt að gera sér í hugarlund að meiri búnað þurfi. Gott töskusett, öll sú tækni og þægindi sem hægt er að fá í mótorhjól er til staðar. Að teknu tilliti til að smíðagæði Ducati og áreiðanleiki síðustu ár hefur verið í fyrstu deild er ljóst að hér er kominn áskorandi
á BMW GS. Vilji maður mestu tæknina og gríðarlegt afl í bland við fallega hönnun, er Ducati Multistrada með vinninginn.
Ingvar Örn Ingvarsson
ingvar.orn.ingvarsson@mail.com
Morgunblaðið 21.9.2021








