Íslenskir kvikmyndagerðarmenn komnir heim úr 15 þúsund kílómetra mótorhjólaferð
„ÉG VANN sjálfur sem mótorhjólasendill í London á mínum fyrstu árum sem blankur leikari. Þessi saga kom upp í hugann þegar ég fylgdist með þessum sendlum öllum, sem margir voru frá AusturEvrópu og áttu sér ýmsar sögur,“ segir Páll Sigþór Pálsson leikari, sem er nýkominn heim úr 15 þúsund kílómetra löngu mótorhjólaferðalagi um Vestur-Afríku þar sem unnið var að gerð myndarinnar Curier. Hún fjallar um leiðangur
Kosovo-Albana nokkurs sem fer frá London til Gabon á mótorhjóli í leit að bróður sínum.
Þeir voru ekki nema fjórir í kvikmyndagerðarliðinu sem lagði í reisuna miklu um Afríku. Um var að ræða tvo leikara á mótorhjólum, Páli sjálfum, sem fer með aðalhlutverkið, og Caroline Dalton eiginkonu hans, sem fer líka með stórt hlutverk í myndinni. Tveir tæknimenn fylgdu á eftir í jeppa, þeir Haukur Valdimar, tökumaður og bróðir Páls, og franski hljóðmaðurinn Pierre-Alain Giraud. Ferðalagið varði í þrjá mánuði og lá leiðin um Frakkland og Spán, yfir Gíbraltarsund og svo um átta Afríkulönd: Marokkó, Mauritaníu, Malí, Burkina Faso, Níger, Nígeríu, Kamerún og Gabon. Páll segir það bæði hafa kosti og galla að vinna að bíómynd í svona litlum hópi. „Það var auðveldara fyrir hópinn að ná saman, en það hefði oft verið betra að vera með lýsingu, smink og þess háttar. Þetta takmarkar mann að vissu leyti. Samkomulagið var gott alla leiðina að mestu leyti, enda er þetta allt blíðlyndisfólk.“
Nýlenduherrann rukkaður
Hópurinn hafði ekki tryggt sér vegabréfsáritun fyrir fram heldur hugðist gera það jafnóðum. Í Nígeríu gekk það nokkuð greiðlega fyrir sig, en hin breska Caroline var krafin um aukagreiðslu fyrir áritunina fyrir það að vera fyrrverandi nýlenduherra í landinu. Samskiptin við heimamenn gengu annars yfirleitt vel fyrir sig á leiðinni. „Fólk var yfirleitt mjög vingjarnlegt, en það kom fyrir, sérstaklega í borgum, að það hópaðist að okkur múgur og margmenni. Á einum stað var ávöxtum hent í okkur til þess að segja okkur að hypja okkur á brott. En þetta voru undartekningartilfelli, oftast var viðmótið mjög gott. Maður er varaður við áður en maður fer í svona ferð að maður verði rændur og drepinn og þá á maður kannski von á hinu versta. Þannig að það er allt þetta besta í fari fólks sem kemur manni á óvart,“ segir Páll.
Í bænum Rumsiki í Kamerún heimsóttu þau töframann sem spáði fyrir þeim með því að spýta á krabba og hlusta á hvað hann segði. „Hann spáði fyrir hverjum og einum persónulega, en ég hafði aðallega áhuga á því hvort ferðalagið fengi farsælan endi. Hann spáði því og töframaðurinn og krabbinn reyndust hafa rétt fyrir sér þar.“
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur
mbl.is 2008








