„ Geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki“

Þýskur ferðamaður eyddi drjúgum hluta af sumarfríi sínu á síðasta ári að ferðast um Ísland á eigin mótorhjóli sem hann flutti til landsins. Hann varð þó fyrir því óláni undir lok ferðarinnar að hjólinu var stolið úr bílakjallara hótels sem hann dvaldi á og voru þó góð ráð dýr.

Þjófnaðurinn barst þá til eyrna Hjólhestahvíslarans, Bjartmars Leóssonar, sem hefur vakið þjóðarathygli fyrir baráttu sína við að endurheimta stolinn hjól. Bjartmar auglýsti stuldinn þegar í stað á Facebook og setti af stað átak til þess að finna hjól þýska ferðamannsins.

Viðtökurnar voru miklar. Alls var auglýsingu Bjartmars eftir hjólinu deilt 1.700 sinnum á nokkrum dögum og hvíslaranum fóru að berast ábendingar um stuldinn. Að lokum fannst hjólið, degi áður en hans átti bókað far af landi brott, og urðu fagnaðarfundir þegar Bjartmar og Þjóðverjinn hittust loks á lögreglustöðinni.

 

Flaug sá þýski síðan af landi brott daginn áður en þá hafði Bjartmar boðist til þess að skila hjólinu til Samskipa sama dag þar sem Þjóðverjinn hafði bókað flutning á hjólinu til heimalandsins.

Allur þessi rússíbani átti sér stað í ágúst síðastliðnum. Greinilegt er að hjálpsemi Bjartmars og Íslendinga er Þjóðverjanum enn hugleikinn. Hann birti færslu á þýsku á Facebook, undir notendanafninu Haus Nummernschild, á-síðunni „Hjóladót Tapað, fundið eða stolið“ þar sem hann þakkaði Bjartmari sérstaklega fyrir hjálpina og birti mynd af þeim félögum með hjólið forláta. Þá þakkaði hann einnig öllum þeim sem að lögðu það á sig að deila færslunni um hjólið og stuðla þannig að fundi þess.

„Það var geggjað að sjá hversu margir hjálpa einhverjum sem þeir þekkja ekki einu sinni,“ skrifaði Þjóðverinn hrærður. Hjólhestahvíslarinn tók undir kveðjuna og sagðist ennfá gæsahúð við að hugsa til þessara daga.

 

12.01.2021