Steve Dummitt fór víða um í Íslandsferð sinni. Hér sést hann renna í hlað á Breiðuvík við Látrabjarg og í baksýn er kirkjan góða sem setur sterkan svip á staðinn.

Steve Dummitt fór víða um í Íslandsferð sinni. Hér sést hann renna í hlað á Breiðuvík við Látrabjarg og í baksýn er kirkjan góða sem setur sterkan svip á staðinn.

 

Í síðustu viku kom stór hópur mótorhjólafólks aftur til Reykjavíkur eftir 12 daga úthald og yfir 3400 km akstur. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að flestir ferðalangarnir voru vel yfir sextugt. Einn var 64, annar 66, tveir voru  68 ára, þrír 69 ára, aðrir þrír 71 árs, en aldursforseti ferðarinnar var Steve Dummitt frá Bandaríkjunum sem ferðaðist með 16 ára dótturson sinn aftan á hjólinu allan hringinn. Með honum í för var önnur dóttir hans á öðru hjóli með dóttur sína aftan á.

 

Snortinn af gestrisni

Í miðri ferðinni, þegar hópurinn var staddur á Akureyri, varð Steve áttræður, en hann gengur alltaf undir nafninu Junior meðal hjólafélaga sinna. Í tilefni dagsins var haldið veglega upp á afmæli hans og hafði verið pöntuð terta hjá Ragnarsbakaríi sem sannarlega sló í gegn meðal ferðafélaganna.

Í stuttu viðtali eftir ferðina sagði Steve að það væri varla til orð sem hafandi væri eftir yfir fegurð íslenskrar náttúru, en einna eftirminnilegast var að koma á Látrabjarg og geta næstum klappað lundanum. Einnig var hann snortinn af gestrisni og liðlegheitum Íslendinga í garð ferðamanna en minntist þó eins atviks sem undantekningar á því. „Ég var einu sinni svolítið tæpur á að missa ekki hjólið á hliðina. Fyrsta daginn vorum við að fara yfir Hellisheiði og kom þá skyndilega bíll öfugum megin fram úr hjólunum í þokunni. Bílstjórinn setti öll hjólin sem hann tók svona fram úr í mikla hættu, en með því að fara vindmegin við hjólin bjó hann til skjól í smástund og þegar hann kom fram fyrir hvert hjól var vindurinn næstum tvöfaldur svo að hjólin fóru næstum á hliðina. Það var alveg nóg að vera með 20-22 metra hliðarvind á sekúndu í svarta þoku þó að ekki bættist við svona tillitsleysi í garð hjólafólks,“ sagði Juniorinn.

 

Hvað ungur nemur..
Eins og áður sagði sat 16 ára dóttursonur hans aftan á alla leiðina en hann hafði það hlutverk meðal annars að halda við hjólið á bensínstöðvum og hjálpa gamla manninum út úr stæðum þar sem hann var orðinn svolítið stirður. „Hann er ungur og á eftir að læra margt,“ sagði Junior og brosir. „

Í ferðinni lærði hann til dæmis að mótorhjól stendur ekki eitt og sér án standara. Við vorum að taka bensín í eitt skiptið af mörgum og hann átti að halda við hjólið en gleymdi sér, sleppti hjólinu og það datt á hliðina. Ég var búinn að opna bensínlokið og hanskarnir lágu á hnakknum. Þegar hjólið datt duttu hanskarnir fyrst á jörðina og síðan hjólið og bensínið sem lak út fór beint á hanskana. Ég reyndi að þvo bensínið úr þeim á hótelinu um kvöldið og setti svo hanskana út í glugga til að þurrka þá. Eftir smástund var lyktin inni í herberginu eins og upp úr bensíntanki svo ég  henti hönskunum út um gluggann.Morguninn eftir voru þeir horfnir, það er því væntanlega einhver sem er með góða, vel lyktandi hanska, en þetta kom ekki að sök því ég var með varahanska,“ sagði Junior að lokum. Að sögn hans og allra sem tóku þátt í ferðinni var hún þeim ógleymanleg, hvort sem þetta var fyrsta hjólaferð þeirra eða ein af fjölmörgum.

Morgunblaðið 2.7.2013
njall@mbl.is