Á flestum heimilum er bílskúrinn rými sem gengur illa að halda í röð og reglu, og sá staður sem helst er reynt að koma í veg fyrir að gestir fái að
sjá. En þegar vinir og ættingjar kíkja í heimsókn til Guðmundar Árna Pálssonar og Maríu Höbbý setja þeir yfirleitt stefnuna beint á bílskúrinn, enda einstök upplifun að koma þangað inn. Þau hjónin hafa það m.a. fyrir sið að halda mikla veislu í bílskúrnum á milli jóla og nýárs og segir Guðmundur að ef hann dragi það of lengi að bjóða fólki í gleðskapinn fari margir að ókyrrast og
hafi samband að fyrra bragði ef ske kynni að gleymst hefði að bjóða þeim.
Kjallararýmið er brotið upp af burðarveggjum svo ég get ekki nýtt það allt undir bíla, en samt rúmast með góðu móti tveir bílar
niðri og tveir uppi, auk þess að ég er með rými fyrir mótorhjól, pool-borð, píluspjald og stórt sjónvarp. Strákarnir okkar og vinir þeirra eru duglegir að nota pool- og sjónvarpsaðstöðuna.“
Lyftan í bílskúrnum er síðan alveg einstök, sérsmíðuð af félaga Guðmundar sem er stálsmiður. „Ég fékk skipasmíðastofu til að teikna hana upp fyrir mig og síðan var hún sett saman úr laser-skornum pörtum,“ segir Guðmundur og bendir á að hönnunin sé úthugsuð og m.a. hægt að nota lyftuna sem nokkurs konar gryfju ef vinna þurfi í undirvagni bíls. „Til viðbótar við lyftuna er lok sem leggst yfir opið í gólfinu svo að nota megi stæðið hvort sem lyftan er í efstu stöðu eða lægstu stöðu, og glussatjakkar notaðir til að hreyfa bæði lok og lyftu.“ Tekur rétt rúmlega tvær mínútur að flytja ökutæki úr kjallaranum upp í sjálfan bílskúrinn og er búnaðurinn einfaldur í umgengni, að sögn Guðmundar.
Kemur alltaf að bílskúrnum eins og skilið var við hann
Guðmundur og María eru samrýnd hjón og kallaði það ekki á neinar samningaviðræður að fá að hafa bílskúrinn eins og hann er. Bæði eru hjúin með bíla- og mótorhjóladellu og áður en börnin komu til sögunnar mátti oft sjá þau Guðmund og Maríu á spani á mótorhjóli um landið, hann við stýrið og hana aftan á. Í dag eru þau líklegri, þegar veðrið er gott á sumrin, að halda af stað með hjólhýsi í eftirdragi eða einfaldlega taka rúnt um bæinn á einum af köggunum sem þau hafa fjárfest í. Á heimilinu eru tveir forláta Ford Mustang, Chevrolet Camaro og Porsche auk svo margra mótorhjóla að Guðmundur þarf að hugsa sig um á meðan hann telur þau fyrir blaðamann.
Spurður hvernig það fari saman við starf múrarans að verja löngum stundum í bílskúrnum segir Guðmundur að á þeim tímum árs sem rólegra sé í vinnunni sé ágætt að geta komið að bílskúrnum nákvæmlega eins og var skilið við hann og haldið verkefnum þar áfram þar sem frá var horfið, enda engin hætta á að bílskúrinn og vinnusvæðið fyllist af drasli. „Þegar ég lýk vinnu við eitt mótorhjólið byrja ég á öðru, og svo hefur gamli Mustanginn haldið mér við efnið, en hann fékk ég í hendurnar í pörtum fyrir þremur árum.“
Gaman er að segja frá því að áhuginn á bílum og mótorhjólum virðist ætla að smitast til drengjanna þriggja sem Guðmundur og María eiga, þótt hann komi fram með öðrum hætti en hjá foreldrunum. Elsti sonurinn er átján ára en hinir enn á grunnskólaaldri. „Þegar vinir þeirra koma í heimsókn finnst strákunum gaman að sýna þeim bílskúrinn, en samt líta þeir meira á bíla sem samgöngutæki en nokkuð annað. Hafandi alist upp í þessu umhverfi er ekki laust við að þeim þykir flottir bílar sjálfsagður hlutur og kannski ekki eins rosalega spennandi fyrir vikið. Ég fékk aftur á móti áhuga á bílum og mótorhjólum ungur að árum þegar ég ólst upp í Vestmannaeyjum og hefur áhuginn bara aukist með aldrinum.“