Guðmundur Jónsson er meðlimur í mótorhjólaklúbbnum Grindjánum

Ég varð 38 ára gamall þegar Grindjáni var stofnaður 28. ágúst árið 2006 en þá var ég reyndar ekki í klúbbnum því ég átti ekki mótorhjól þá. Klúbburinn fagnar því nítján ára afmæli hér í dag og ég sjálfur 57 ára afmæli,“ segir mótorhjólatöffarinn Guðmundur Jónsson frá Grindavík. Gummi hafði alltaf mikinn áhuga á mótorsporti þegar hann var yngri, hann hefur verið með mótorhjólapróf síðan hann var pjakkur en það var ekki fyrr en fyrir þremur árum sem hann lét drauminn rætast á ný, fjárfesti í mótorhjóli og gekk í mótorhjólaklúbbinn Grindjána og kom ekkert annað hjól til greina en Harley Davidson.

 

Þótt klúbburinn heiti Grindjánar er ekki skilyrði að vera Grindvíkingur en þó eru flestir meðlima þaðan.

„Það er gaman að klúbburinn skyldi vera stofnaður á mínum afmælisdegi en ég kom þar hvergi nærri enda átti ég ekki mótorhjól þá. Starfsemin var nokkuð virk en hefur eðlilega legið nokkuð niðri eftir hamfarirnar í Grindavík en við erum að reyna að keyra okkur í gang og var ákveðið að efna til fagnaðar í húsakynnum okkar í Grindavík á afmælisdeginum. Ég missti töluna yfir fjölda mótorhjóla sem gerðu sér ferð í blíðunni í dag og var boðið upp á grillaðar pylsur og runnu þær ljúflega ofan í mótorhjólafólk. Í dag erum við 21 skráðir meðlimir og ekki allt Grindvíkingar, að sjálfsögðu er opið fyrir aðra en Grindvíkinga og verður gaman að koma starfseminni aftur á skrið. Það hafa verið fastir viðburðir á hverju ári hjá okkur, höfum leyft börnunum að sitja á hjá okkur á sjómannahelginni sem var alltaf sú stærsta í Grindavík á Sjóaranum síkáta og verður vonandi aftur þegar Grindavík byggist upp á ný. Við erum í samskiptum við aðra klúbba og förum í hjólatúra með þeim út um hvippinn og hvappinn og við gerum okkur dagamun á litlu jólunum, á októberfesti o.s.frv. Við vorum alltaf með fasta fundi á fimmtudögum í okkar húsakynnum, erum að starta þeim aftur og þarna hittist fólk og skrafar um allt milli himins og jarðar, ekkert endilega bara eitthvað tengt mótorhjólum.“

 

DÓTTURINNI AÐ ÞAKKA EÐA KENNA

Gummi var áhugasamur um mótorhjól á sínum yngri árum, átti skellinöðrur og hefur verið með mótorhjólapróf nánast síðan hann man eftir sér en hvað varð til að hann lét slag standa á ný fyrir þremur árum?

„Diljá dóttir mín tilkynnti mér fyrir þremur árum að hún væri að fara taka mótorhjólaprófið og kom ekki til greina í mínum huga að dóttir mín myndi eignast mótorhjól á undan mér og ákvað að skella mér aftur á bak og var búinn að kaupa mér hjól viku síðar. Það kom ekkert annað til greina en eignast Harley Davidson hjól, það er rollsinn í þessum bransa að mínu mati og ég er ekki frá því að ég stækki um einhverja sentimetra þegar ég sest á bak hjólinu.Diljá fékk sér Hondu og ég er ekki frá því að hún líti hjól pabba gamla hýru auga en hún getur reyndar montað sig af því að komast hraðar á sínu hjóli en mér er slétt sama, Harley er rollsinn að mínu mati og kemur ekki til greina að fara yfir á aðra týpu. Hvað framtíð klúbbsins ber með sér verður spennandi að sjá, það hefur verið mjög lítil starfsemi að undanförnu en það er mikill hugur í okkur. Við viljum skipuleggja langan túr um Ísland næsta sumar og ég myndi vilja að við gefum okkur góðan tíma í það en sumir hafa farið hringinn á tveimur dögum en ég get ekki ímyndað mér að þá hafi verið hægt að sjá fallega landið okkar
almennilega en fólk gerir þetta auðvitað eins og það vill. Ef þú spyrð mig út í hvað sé skemmtilegast við að keyra mótorhjól, þá er það í mínum huga frelsið, að geta sett hjálminn á sig og keyrt hvert sem er, virt náttúruna fyrir sér og geysast um nánast eins og fuglinn fljúgandi, mér þykir þetta ofboðslega skemmtilegt og hvet alla áhugasama um að hafa samband við okkur í Grindjána,“ sagði mótorhjólatöffarinn Gummi Jóns.

Víkurfréttir 5.nóv 2025  slóð á blaðið