...

Miklu meira gaman að sitja aftan á

Að skoða heiminn er það skemmtilegasta sem Kristín Jóhannsdóttir veit. Henni og eiginmanninum, Steinari Benedikt Valssyni, finnst einna skemmtilegast að ferðast um á mótorhjóli.

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

 

Ferðalög eru orðin að ástríðu hjá hjónunum Kristínu Jóhannsdóttur og Steinari Benedikt Valssyni en þau hafa ferðast vítt og breitt um heiminn. Þegar blaðamaður skrollar í gegnum fésbókarsíðu Kristínar er ljóst að áhuginn á ferðalögum eru engar ýkjur

Ferðalög eru orðin að ástríðu hjá hjónunum Kristínu Jóhannsdóttur og Steinari Benedikt Valssyni en þau hafa ferðast vítt og breitt um heiminn. Þegar blaðamaður skrollar í gegnum fésbókarsíðu Kristínar er ljóst að áhuginn á ferðalögum eru engar ýkjur. Þar má sjá myndir frá Ameríku, Kanada, Grænlandi, Ísrael, Perú, Egyptalandi, Dómíníska lýðveldinu, fjölda Evrópulanda og Asíulanda, svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á að þar má sjá fjölda mynda frá hálendi Íslands, en Kristín er mikill göngugarpur.

Einn er sá ferðamáti sem heillar þau hjón umfram aðra; að ferðast um á mótorhjóli með vindinn í fangið. Ameríka er það land sem hentar best til hjólaferða að sögn Kristínar, sem bauð blaðamanni upp á kaffi einn eftirmiðdag fyrir skömmu til að segja frá þessum skemmtilega ferðamáta. Þau hjón eru einmitt nýkomin heim úr tveggja vikna ferð um dýrlega náttúru Colorado og Wyoming og geta ekki beðið eftir að komast aftur á svipaðar slóðir.

Náttúran er guðdómleg víða í vestrinu í Bandaríkjunum og gott …Nátt­úr­an skoðuð á hjóli

Maðurinn minn hefur haft áhuga á mótorhjólum alveg síðan hann var unglingur og langaði alltaf í mótorhjól, en það kostar auðvitað pening og þegar við vorum að kynnast þurftum við að kaupa okkur íbúð. En ég sagði alltaf við hann að þegar hann yrði fertugur fengi hann mótorhjól í afmælisgjöf,“ segir Kristín.

„Svo varð hann fertugur og keypti sér „Halla“,“ segir Kristín og á auðvitað við Harley Davidson-hjól. Steinar hóf þá vegferð sína sem mótorhjólamaður og naut þess mjög, en Kristín var fljótlega farin að sitja aftan á og smátt og smátt fór mótorhjólaferðum að fjölga.

„Ég er frekar ferðamaðurinn; aftan á. Fyrsta stóra ferðin sem við fórum í á mótorhjóli var 2005 en þá fórum við í þrjár vikur um Þýskaland og Frakkland,“ segir Kristín og segir þau vera með allan farangurinn á hjólinu, sem er ferðahjól.

„Þá hjólum við á daginn og finnum okkur svo gistingu á kvöldin,“ segir Kristín og segir þau tilheyra íslenska Harley Davidson-klúbbnum HOG Chapter Iceland.

„Svo byrjuðum við að fara til Ameríku en þar er ótrúleg mótorhjólamenning. Þá leigðum við hjól af umboðinu, en í fyrstu ferðinni flugum við til Las Vegas og hjóluðum Dauðadalinn. Þaðan fórum við til San Francisco og keyrðum eftir vesturströndinni. Það var alveg hrikalega gaman,“ segir Kristín og segir þá bakteríuna hafa kviknað fyrir alvöru.

„Mér fannst þetta geggjað því þarna eru stórkostlegir þjóðgarðar. Fyrir mig sem náttúruunnanda opnaðist nýr heimur hvað varðar þennan ferðamáta. Við munum halda áfram á þessari vegferð að ferðast á mótorhjóli,“ segir Kristín og segir þau hafa öryggið í fyrirrúmi með góðum hlífðarfatnaði en auk þess segir hún ekki hættulegt að hjóla í Ameríku þar sem oft er hjólað á fáförnum sveitavegum.

„Ég myndi aldrei hjóla í Asíu eða Afríku þar sem umferðin er klikkuð!“

Milljón dollara vegur

Hjónin ferðast ýmist tvö eða með vinum, en Kristín segist ekki vilja vera í stórum hópum. Hún segir ferðirnar blöndu af keyrslu og afslöppun.

„Það er fínt að hjóla ekki meira en 300 kílómetra á dag, taka gott hádegisstopp og vera komin snemma á hótel og geta slakað á í sundlauginni og farið út á borða,“ segir Kristín og segist kolfallin fyrir ríkjunum í vestrinu; Kaliforníu, Utah, Colorado, Wyoming, Arizona og Nevada, enda er þar gríðarleg náttúrufegurð en þar má sjá tignarleg fjöll, gróna þjóðgarða og ótrúlega víðáttu.

„Ég á eftir Yellowstone-þjóðgarðinn og Grand Canyon,“ segir Kristín og segir fleiri ferðir fyrirhugaðar, enda nóg eftir að sjá.

„Maðurinn minn hefur þverað Ameríku, frá vesturstönd til austurstrandar, en ég fór ekki með í þá ferð. Hann fer stundum í strákaferðir þar sem þeir hjóla rosalega mikið en ég vil frekar fara í meiri dekurferðir. Mér finnst líka gaman að stoppa og skoða mig um og ganga,“ segir Kristín.

„Í síðustu ferðinni núna í júní hjóluðum við meðal annars „Million dollar highway“, sem kostaði víst milljón dollara að byggja,“ segir Kristín og segir þá leið, sem liggur á milli Silverton og Ouray í Colorado, ótrúlega fallega.

Get ekki gert upp á milli

Hvaða ferð stendur upp úr?

„Síðasta ferð stendur upp úr af því að það var síðasta ferðin,“ segir Kristín og brosir.

„Það var líka geggjað í Kanada, en ég get ekki gert upp á milli ferða. Vesturströndin var líka æðisleg og suðurríkin. Mig langar að sjá meira þótt við séum búin að ferðast mikið um Ameríku,“ segir Kristín og segist einnig fara í gönguferðir bæði innan lands og utan.

„Ég hef farið í skosku hálöndin, í kringum Mt. Blanc, í Pýreneafjöllin og nú var ég að koma með barnabarnið, tíu ára gamalt, úr gönguferð frá Sveinstindi í Skælinga með Útivist. Ég er eiginlega meiri göngumanneskja en Steinar og fer því ein í þær ferðir og hann fer oft einn að hjóla, en svo ferðumst við mikið saman, í hjólaferðir, borgarferðir og alls kyns ferðir á framandi slóðir. Það skemmtilegasta sem ég geri er að ferðast. Eftir að ég fékk heilsuna til baka sá ég að ég vildi ferðast meira,“ segir Kristín en hún fékk í tvígang brjóstakrabba, en sigraðist á vágestinum og er við góða heilsu.

„Við ætlum til Taílands um jólin,“ segir Kristín og segir að sem kennari sé gott að nýta bæði sumar- og jólafrí til ferðalaga.

Skemmti­leg­ur ferðamátiVel er tekið á móti mótorhjólafólki í Bandaríkjunum og gaman …

Kristín og Steinar hafa einnig hjólað um suðurríkin og heimsótt Memphis og New Orleans.

„Þá fórum við og skoðuðum Graceland, sem var ofsalega gaman, og eins frábært að koma til New Orleans. Ég elska Ameríku; ekki sem pólitískt land heldur frekar margbreytileikann í landslaginu. Og svo er fólkið vinalegt,“ segir Kristín.

„Þetta er svo skemmtilegur ferðamáti. Maður er svo mikið úti í náttúrunni, en við sneiðum hjá öllum stórborgum. Við gistum gjarnan á mótelum og í Ameríku er hjólafólki fagnað alls staðar enda svo rík og rótgróin mótorhjólahefð þarna,“ segir Kristín.

„Ég keyri sjálf ekki mótorhjól, enda er miklu meira gaman að sitja aftan á. Hér á Íslandi fer Steinar oft einn út að hjóla og ég fer ekkert alltaf með því hér er oft svo kalt,“ segir Kristín, en nefnir þó að þau hafi oft ferðast hringinn og um Vestfirðina á mótorhjóli.

„Ef hann býður mér í bíltúr þar sem við endum kannski í humri eða ís er ég til,“ segir Kristín og brosir.

Að leggjast í ferðalög

Ekki er hægt að hafa mikinn farangur með sér í mótorhjólaferðir, því ferðamátinn býður ekki upp á það. Kristín segist pakka svipað og þegar hún fer í gönguferð.

„Maður pakkar bara nákvæmlega fyrir dagana og ef eitthvað vantar getur maður keypt það. Mér finnst þægilegt að pakka naumt, en það er samt í eðli mínu að pakka allt of mikið. Mig langar að verða meiri naumhyggjumanneskja og því er gott fyrir mig að fara í ferðir þar sem ég má bara hafa vissan farangur, eins og í gönguferðir og mótorhjólaferðir. Ég er orðin flinkari í dag að taka minna með,“ segir hún og segir þau stundum geta geymt smá farangur á mótorhjólaleigunum ef þau skili hjólinu á sama stað og það var leigt.

Hjónin, sem eru bæði rétt um sextugt, sjá fyrir sér framtíðina á faraldsfæti.

„Við ætlum að fara snemma á eftirlaun og við ætlum að ferðast. Við höfum lagt fyrir lengi þannig að eftir svona tvö ár hættum við að vinna og leggjumst í ferðalög.“

mbl.is

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.