Tilkomumikill afturendinn, vígalegt fjórskipt pústkerfi og sérsmíðað
sætið setja mikinn svip á kaffireiserinn hans Michaels B. Erichsen.

Ökuþórinn Michael Blikdal Erichsen smíðaði Kaffireiser




Michael Blikdal Erichsen er danskur arkitekt sem býr og vinnur á Íslandi á arkitekta- og teiknistofunni T.ark. Í honum blundaði mikill mótorhjólaáhugi og lét hann drauminn um að smíða sér kaffireiser-mótorhjól rætast í vetur. Smíði og breytingar slíkra  hjóla hafa verið að ryðja sér til rúms hér á landi sem annars staðar á undaförnum misserum. Hann náði sér í gamalt Honda CB-mótorhjól sem Geir Gunnarsson í Honda hafði flutt inn fyrir nokkrum árum og einfaldlega byrjaði. „Ég vili einfaldlega fá   einhverja hugmynd um hvað væri í gangi undir rassinum á mér þegar ég væri að hjóla,“ sagði Michael sposkur

Henti sér í djúpu laugina

Michael hefur búið á Íslandi ásamt íslenskri konu sinni og þremur börnum meira og minna síðan 2006, með smáhléum þó. „Ég er frá Kaupmannahöfn og hef nokkrum sinnum heimsótt gæjana í Wrenchmonkies sem breytt hafa mjög mörgum svona hjólum. Áhuginn kviknaði hins vegar á Íslandi þegar ég sá svona mótorhjól í búðarglugga á Vesturgötunni, í lítilli búð sem heitir Kickstart. Þar hitti ég eigandann, Jón Ásgeir, og talaði lengi við hann en hann sagði mér einfaldlega að henda mér út í djúpu laugina, sem ég gerði,“ sagði Michael um það hvernig hann byrjaði á verkefninu. „Ég hafði tekið mótorhjólaprófið í Danmörku árið 2000 og þar sem ég hef alltaf haft áhuga á gömlum hlutum keypti ég mér gamla Lambretta-vespu. Reyndar  eignaðist ég líka Kawasaki ZZR600 sem ég lenti í smáóhappi á og tók þá hlé frá mótorhjólamennsku í bili.“ Michael ákvað strax í byrjun að verkefnið mætti ekki kosta mikið og það hefur líka orðið reyndin. „Í heild hefur þetta kostað mig um 600.000 kr. hingað til en tveir þriðju af því eru líka kaupverðið á hjólinu. Rúmlega 200 þúsund hafa farið í kaup og smíði á aukahlutum

Hefst með aðstoð góðramanna

„Það er reyndar búið að vera dálítið lýsandi fyrir ferlið hvað margir hafa verið hjálplegir við mig og finnst mér það einmitt lýsa Íslendingum svo vel. Jón Ásgeir var óþreytandi að svara spurningum mínum og benda mér í réttar áttir og menn eins og  Auðunn Jónsson sem gerði sætið fyrir mig og Davíð Ólafsson sem sá um suðuvinnu á grind og allt það mix og fix sem fylgir frágangi á rafkerfi og þess háttar.“

Svipur og yfirbragð kaffireiser-hjóla er allt frekar lágt og því má ætla að staðsetning baksýnisspegilsins sé engin tilviljun.

Svona hjól eru þó aldrei fullkomnlega tilbúin og Michael er ennþá að vinna í sínu hjóli og  ætlar sér lengra. „Næst á dagskrá er að setja í það CR29-blöndunga frá Dynoman ásamt K&N-loftsíum sem ég er búinn að panta frá Ameríku. Í vetur ætla ég að taka hjólið í sundur og pólýhúða grind og dempara, jafnvel felgurnar líka.“ Michael er í  góðra vina hópi í þessu áhugamáli í klúbbi sem kallast Eðalhjól. „Ég mæli með þessu ferli fyrir hvern sem er til að læra aðeins meira um mótorhjólið sitt. Það er erfiðast að byrja en þegar maður er einu sinni byrjaður er þetta bara svo skemmtilegt og áhugavert að maður vill helst ekki að það sé búið. Ég hef samt ekki þorað að kíkja niður í Honda-umboð ennþá og sjá hvað honum Geir finnst um gamla hjólið sitt. Kannski hringir hann í mig núna,“ sagði Michael og hlær.

njall@mbl.is
Bílar Morgunblaðið 1.7.2014